Sunday, June 30, 2013

Klingið glösum fyrir manntalinu 1703! Upphefðin er komin að utan!

Mynd af Wikipediu:
manntalið á Skógarströnd
Nú í vikunni voru miklar gleðifréttir gerðar heyrinkunnar: íslenska manntalið 1703 hefur verið tekið á varðveisluskrá UNESCO!

Ég lít á þetta sem persónulegan sigur, enda er manntalið 1703 uppáhaldsmanntalið mitt. Ég kynntist því fyrst síðasta sumar og það hefur staðið hjarta mínu nærri síðan, auk þess áhuga sem það vakti með mér á manntölum almennt. Ég er jafnvel alvarlega að velta fyrir mér að óska mér manntalsins 1703 í útskriftargjöf þegar ég útskrifast úr MA-náminu á næsta ári, en manntalið kom út í heftum á árunum 1924-1947 og kostar fúlgur fjár innbundið í dag svo það verður að vera ærið tilefni til að fjárfesta í því. (Reyndar er ekki mikil eftirspurn eftir því á Þjóðarbókhlöðunni og með reglulegum endurnýjunum gæti ég sennilega haft það í láni í meira en tuttugu ár áður en ég væri komin upp í núverandi kaupverð, miðað við gildandi verðskrá bókasafnsins.)

Vinir mínir – jákvætt og þolinmótt fólk – hafa þurft að sitja undir ansi mörgum ástríðufullum einræðum um manntöl síðan ég kynntist manntalinu 1703. Það er ýmislegt við manntöl sem gerir þau spennandi í mínum augum. Í fyrsta lagi höfða þau einfaldlega sterkt til skráningarperrans í mér; það er bara eitthvað við mörghundruð blaðsíður af nöfnum, vandlega skráð og flokkuð eftir bæjum, hreppum og sýslum.

Friday, June 28, 2013

Frammi fyrir dómstól í London árið 1320

Fyrir um það bil mánuði var ég, sem endranær, að leita að efni í mastersritgerðina mína. Við slík tækifæri vilja leitarorðin sem ég slæ inn í Gegni leiða mig á hinar áhugaverðustu brautir, þó það sé afar sjaldgæft að efnið komi mér að einhverjum praktískum notum. En, Smjörfjallið er fyrir allt annað en hið nytsamlega og skynsamlega og því ætla ég að taka til umfjöllunar kafla úr bókinni Of Good and Ill repute. Gender and Social Control in Medieval England eftir Barböru A. Hanawalt. Þetta er orðið sérlega aðkallandi í ljósi þess að bókin er nú þegar farin að safna sektum á mínu góða nafni og orðstír.

Ætli leitarorðin sem leiddu mig að þessari bók hafi ekki verið medieval og gender, eða kannski medieval og reputation. Titill bókarinn er þó að mínu mati villandi, því meginumfjöllunarefni bókarinnar er í raun réttarsaga, þó feminísku sjónarhorni sé beitt í sumum köflum. Réttast væri að kalla bókina greinasafn, því þó allir kaflarnir fjalli um England á síðmiðöldum þá eru þeir býsna ólíkir innbyrðis, og standa nær algjörlega sjálfstætt. Þó ég hafi sem stendur engin augljós not af þekkingu á réttarsögu Englands þá samt las ég nokkra kafla í bókinni, því hún er bæði vel skrifuð og áhugaverð. Hins vegar þá dytti mér aldrei í hug að fjalla um hana annars staðar en á þessum óformlega vettvangi, því án grundvallarþekkingar á orðaforða og stofnunum enska réttarkerfisins á 14. öld er efnið oft torskilið. Lesendur verða því að taka umfjöllun minni með nokkrum fyrirvara.

Thursday, June 27, 2013

Spilverk þjóðanna

Fyrstu færslur mínar á þessu nýja bloggi bera margar keim af sumarlegum lífsstíl mínum, tíðum ferðalögum, myndatökum og safnaheimsóknum síðustu vikur. Nýlega dvaldi ég nokkra daga í hollensku borginni Utrecht, og skoðaði þar eitt af þessum gríðarlega sérhæfðu söfnum sem fá mann til að öðlast alveg nýja sýn á fyrirbæri sem maður hefur aldrei pælt í áður. Ég vona að þarna úti séu einhverjir sem hafa burðast með það allt sitt líf að hafa meiri áhuga á sögu og virkni spilverks en eðlilegt getur talist, og að þeir muni á einhverjum ánægjulegum tímapunkti uppgötva hið umfangsmikla og ítarlega Museum Speelklok í Utrecht, sem helgað er hvers kyns sjálfspilandi tækni.

 Sjálfspilandi trompet

Fornleifauppgröftur á Gufuskálum

Nú stendur yfir forvitnilegur fornleifauppgröftur á Gufuskálum á Snæfellsnesi, en þar er verið að grafa upp gamla verbúð og leita minja sem tengdar eru sjósókn á staðnum. Þessir hressu fornleifafræðingar halda úti Facebooksíðu þar sem hægt er að fylgjast með uppgreftrinum: Gufuskálar Archaeology. Samkvæmt fréttum Skessuhorns er áhugasömum ferðamönnum á Snæfellsnesi líka velkomið að skoða uppgröftinn meðan fornleifafræðingarnir eru að störfum, milli átta og fimm. Fullkomið roadtrip frá Reykjavík!

Meðfylgjandi mynd er tekin af Zach Zorich og fylgir þessari grein um uppgröftinn á heimasíðu Fornleifafræðistofnunar Bandaríkjanna.

Wednesday, June 26, 2013

Afsteypur æskublómans í Aþenu

Eitt það skemmtilegasta sem maður rekur sig á í sögunni eru mismunandi álit samfélaga á hvað telst venjulegt og hvað ekki. Það geta verið himinn og haf (ég hugsaði "humar og haf" af einhverri ástæðu) á milli manns eigin samfélags og annars, sem sýnir manni skemmtilega fram á hversu lítilvægar mannasetningarnar geta nú verið.

Eins og frægt er þá var deitsenan í Aþenuborg 5. aldar heitust milli frjálsborinna, eldri karlmanna og frjálsborinna, yngri manna eða drengja. Konur voru giftar við 13 ára aldurinn og þareftir geymdar innandyra; aþenski karlmaðurinn þurfti því að opinbera ástsjúka sálu sína í samskiptum við íðilfagra drengi. Drengirnir eru reyndar ekki eins og þeir voru, samkvæmt Vitringnum í Skýjunum eftir Aristófanes. Eitt sinn giltu reglur um hvernig maður átti að sitja í glímusandinum:

Í denn urðu drengirnir að sitja með krosslögð læri í leikfimi,
svo þeir myndu ekki flassa neinu óviðeigandi að þeim sem utan stóðu.
Þegar drengur stóð svo aftur upp þá sópaði hann sandinum yfir, og hafði vit á því
að skilja ekki eftir afsteypu af æskublóma sínum handa vonbiðlunum.

Og drengir smurðu sig aldrei með olíu fyrir neðan nafla í þá daga,
svo að döggin og dúnninn fengu að blómstra á kynfærunum!
(Aristófanes, Skýin 972-6)

Tuesday, June 25, 2013

Í harðbýlu landi

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur skrifaði grein í Fréttablaðið um helgina þar sem hann leiðrétti nokkrar rangfærslur um söguleg atriði í ávarpi forsætisráðherra 17. júní. Sögulegar rangfærslur stjórnmálamanna eru ekki nýjar af nálinni og þær fullyrðingar Sigmundar Davíðs sem Guðni gagnrýnir eru alveg dæmigerðar; snúast um einingu og samheldni íslensku þjóðarinnar gagnvart utanaðkomandi erfiðleikum. Eins og bent var á í umræðum á Gammabrekku, póstlista sagnfræðinga, er athyglisvert að aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs, Jóhannes Þór Skúlason, er menntaður sagnfræðingur og hefur lengi starfað sem sögukennari, svo varla er hægt að kenna um algjörri vanþekkingu í nánasta umhverfi Sigmundar.

Árið 2008 skrifaði ég grein í Sagnir, tímarit sagnfræðinema, sem bar yfirskriftina Íslandi allt! og fjallaði um söguskoðunina sem birtist í hinni alræmdu skýrslu Ímynd Íslands. Greinin var byggð á styttri grein sem birtist á Vefritinu á svipuðum tíma. Skýrslan Ímynd Íslands stendur enn fyrir sínu sem stórkostlega brjáluð lesning og sagan er bara einn hluti hennar, en Sagnfræðingafélag Íslands tók sig til á sínum tíma og mótmælti þeirri söguskoðun sem birtist í skýrslunni í línum á borð við þessa: „Íslendingar eru dugleg og stolt þjóð, mótuð af lífsbaráttu í harðbýlu landi.“ Myndirnar hafa líka verið rifjaðar upp reglulega:

Monday, June 24, 2013

Smjörbrú

Lengsta brúin í Delft í Hollandi heitir að sjálfsögðu Boterbrug; Smjörbrú. Í svalanum undir henni geymdu bændurnir smjörið sitt í gamla daga þegar þeir komu í bæinn að selja afurðir sínar.

Sunday, June 23, 2013

Stríðsminjar á Valahjalla

Ég heimsótti Austfirði nú í byrjun júní og hugaði að sjálfsögðu að austfirskri sögu í ferðinni. Meðal þess sem við gerðum var að ganga út á Valahjalla við Reyðarfjörð og skoða stríðsminjar; brak úr þýskri Heinkel H111 herflugvél sem fórst þar í klettunum í þokuveðri árið 1941. Þó nokkur heilleg stykki úr vélinni er enn að finna á Valahjalla og áhrifamikið að ganga innan um þau.

Á leiðinni út Eskifjörð heilsaði ég upp á heimaslóðir gamallar vinkonu, Gyðu Thorlacius, hvers endurminningar frá Íslandi ég bloggaði um á síðu Druslubóka og doðranta í vetur. Gyða bjó þar sem nú heita Helgustaðir (sem Helgustaðanáma er kennd við) en þá hét Gyðuborg.

Við lögðum upp í gönguna út á Valahjalla frá eyðibýlinu Karlsskála:


Þaðan er gengið í átt að Krossanesi. Það má fara fyrir nesið og alla leið út í Vöðlavík, en við gengum bara á hjallann og til baka. Gangan tók okkur rúmlega fimm tíma, en það er dálítil hækkun upp á Valahjallann og svo þarf maður að ganga nokkurn spöl inn eftir honum til að komast að brakinu.

Friday, June 21, 2013

Yfirnáttúrulegir atburðir og sjúkdómar á 12. öld

Í gær las ég í fyrsta skipti dýrlingaævi, þó það sé í raun furðulegt að ég hafi ekki gert það fyrr. Það kom mér á óvart hvað frásögnin var fjölbreytileg og vel upp sett. Dýrlingaævinni er skipt í þrjár bækur, sem hver um sig er útbúin efnisyfirliti, „so that the reader may know more quickly what he ought to find there“. Báðir höfundar (sá fyrri dó frá hálfkláruðu verki) lífga reglulega upp á frásögnina með innskotum úr bréfum og því sem lítur út eins og æviminningar dýrlingsins. Höfundarnir eru þó mjög áberandi í textanum og eru duglegir við að gefa frásögnum dýrlingsins af hinum yfirnáttúrulegu sýnum einkunnir á borð við: „Þetta gæti engum leiðst að lesa!“ (Þó ég hafi reyndar stundum þurft að vera ósammála í þeim efnum).

Dýrlingurinn sem um ræðir er Hildegard af Bingen, en hún var reyndar aldrei tekin formlega í tölu dýrlinga af kaþólsku kirkjunni. Það virðist þó ekki hafa haft mikil áhrif á átrúnað almennings í Bingen og nágrenni, og í kirkjunni í Eibingerstrasse er víst hægt að sjá hjarta hennar og tungu í gullnu helgiboxi.

Smjör óvinarins

Viðtökurnar við Smjörfjalli sögunnar síðan við hleyptum því af stokkunum í gær hafa verið afskaplega góðar og ég veit að við fengum öll fiðring í magann við fyrsta kommentið. Arngrímur Vídalín gerði sér lítið fyrir og bloggaði um smjörneyslu og ófreskjur.

Thursday, June 20, 2013

Freudískur misskilningur

 

Í hvert skipti sem ég tek neðanjarðarlestina í Vín kemst ég ekki hjá því að álykta að Freud (ásamt, barnafólki, fötluðum og þunguðum konum) eigi frátekið sæti í lestinni.

Smjörfjall sögunnar

Þegar Þorsteinn stakk upp á því að bloggið sem nú hefur göngu sína hefði yfirskriftina Smjörfjall sögunnar fögnuðum við Ragnhildur þeirri hugmynd mjög. Við þóttumst báðar muna eftir því að í einu grunnnámskeiðanna í sagnfræðinni hefði verið fjallað um smjörfjall í Skálholti á öldum áður, tekið upp úr frásögn ferðalangs sem við mundum reyndar ekki hver var. Það var okkur þó sérlega minnisstætt að smjörfjallið, sem hafði uppbyggst af smjörskatti alþýðunnar, átti að hafa verið grænt að utan af myglu og þurft að skafa utan af því til að komast í ætt smjör.

Við sáum strax fyrir okkur að smjörvísunin gæfi tilefni til hressilegrar upphafsfærslu, þar sem við lýstum hinu mjög svo myndræna græna smjörfjalli og klykktum út með eins og einni hnyttinni tilvitnun í ferðalanginn ónefnda, sem brygði ljósi á nafngift bloggsíðunnar: Eins og smjörfjall er sagan, græn að utan en súr hið innra.