Monday, July 29, 2013

Go easy on Schnaps

Ég rakst á frábæra litla bók um helgina, Instructions for British Servicemen in Germany 1944. Um er að ræða útgáfu The Bodleian Library á leiðbeiningum sem breska utanríkisráðuneytið gaf út árið 1944 fyrir breska hermenn á leið til Þýskalands. Í bókinni – sem hefur væntanlega verið einhvers konar bæklingur upphaflega – eru bresku hermennirnir fræddir um þýska landafræði og sögu, grundvallarorðaforða í þýsku og síðast en ekki síst hugarfar og eðli óvinaþjóðarinnar.

Samkvæmt því gamalkunnuga viðhorfi til þýskrar sögu sem birtist í bókinni er árásargirnin Þjóðverjum í blóð borin, sem arfur frá Prússum. Eftir fyrri heimsstyrjöldina sýndu Bretar og bandamenn þeirra hinum sigruðu Þjóðverjum of mikla linkind, en sú mistök megi ekki gera aftur; ef Þjóðverjar fái tækifæri til séu þeir vísir til að stofna til þriðju heimsstyrjaldarinnar. Því er í leiðbeiningunum lögð mikil áhersla á að bresku hermennirnir verði að vera á verði gagnvart Þjóðverjum: „There will be no brutality about a British occupation, but neither will there be softness or sentimentality.“ (6) Stefna Breta á þessum tíma var að banna samgang - eða fraternization - breskra hermanna við Þjóðverja.

Berlín í júlí 1945

Thursday, July 25, 2013

Blekking sjálfsævisögunnar

Síðastliðna viku hef ég, starfs míns vegna, lesið svo mikið sem þrjár sjálfsævisögur. Ég er svo heppin í sumar að hafa fengið styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að vinna að vefsíðu sem á að halda nafni ýmissa kvenna í sögunni á lofti, og er hugsuð með með lesandahópinn 13 ára til níræðs í huga. (Fyrir forvitna, þá mun síðan líta nokkurn veginn svona út þegar hún fer í loftið). Framtíðarplan síðunnar er að fólk víðsvegar að geti sent inn greinar um konur sem það þekkir til, en þar sem síðan er í startholunum þarf ég að glíma við þá áskorun að skrifa um konur frá sem flestum heimsálfum, og helst með ólíkan bakgrunn. Þetta veldur mér töluverðu heimildastappi, því ég verð að finna nógu margar og góðar heimildir til að geta tjáð mig um efnið með sjálfstæðum hætti, annars gæti ég í flestum tilfellum allt eins sett inn link á viðkomandi konu á Wikipediu. Hins vegar mega heimildirnar ekki vera of viðamiklar, því umfjöllunin um hverja konu á helst ekki að vera neitt meira en 900 orð í mesta lagi. Heimildavinnan má heldur ekki taka heila eilífð. En, þetta starf hefur sumsé rekið mig að heimild sem mér hafði með árangursríkum hætti tekist að forðast þau fimm ár sem ég sinnt sagnfræði, hina ógurlegu sjálfsævisögu.

Saturday, July 20, 2013

Nautabanar og bólerósöngvarar í kirkjugarði í Sevilla

Sumir kirkjugarðar eru ekki einungis eftirsóknarverðir vegna almennra huggulegheita sinna heldur verða eins konar pílagrímsstaðir, hafi nógu merkum mönnum verið holað þar niður. Gott dæmi er gröf Jim Morrison í Père Lachaise-kirkjugarðinum í París, þar sem verður reyndar ekki þverfótað fyrir gröfum fræga fólksins. Á síðasta ári héldum við Smjörfjallspennar, ég, Þorsteinn og Ragnhildur, ásamt Guðrúnu Elsu vinkonu okkar í aðeins meira obskúr pílagrímsferð í San Fernando-kirkjugarðinn í Sevilla.

San Fernando-kirkjugarðurinn var stofnaður árið 1852 til að anna greftrunum í hinni ört stækkandi borg. Hann er dálítinn spöl frá miðbænum og það var satt að segja bölvað vesen að komast þangað. Það var þar að auki steikjandi hiti þegar við vorum þar á ferð í júní, sem jók á suðrænan blæ kirkjugarðsins. Hann prýða meðal annars fjölmörg pálmatré, sem samkvæmt hinni alvitru og dramatísku Wikipediu „tákna sigur lífsins, og eilífðina“.

Eins og hæfir andalúsískum kirkjugarði er San Fernando-garðurinn fullur af nautabönum og flamencolistamönnum. Nautabanarnir, þær miklu þjóðhetjur, hafa fengið sérstaklega glæsileg minnismerki. Það var bannað að taka myndir í garðinum og minnismerki nautabananna voru svo nálægt aðalhliðinu að ég þorði ekki að óhlýðnast banninu þar, en fann myndir af þeim á netinu:

Í þessu dramatíska grafhýsi hvílir nautabaninn Joselito (1895-1920),
sem lést eftir að hafa særst í hringnum

Tuesday, July 16, 2013

Andóf gegn manntölum I: Súffragettur á hjólaskautum

Hér ku Davíð vera að skipa fyrir um hið stórhættulega
manntal, sem kom aldeilis í bakið á honum
Fyrstu tillögur um allsherjarmanntal í Bretlandi voru lagðar fram um miðja 18. öld og vöktu miklar deilur á breska þinginu. Þingmaðurinn William Thornton var einn heitasti andstæðingur allsherjarmanntalsins, en hann taldi slíka manntalsskráningu ríkisins ganga gegn hefðbundnum frelsishugsjónum Breta og vera til marks um einræðistilburði stjórnvalda; raunverulegt markmið þeirra væri að „molest and perplex every single family in the Kingdom merely to set a beggar to work, or determine any questions in political arithmetic“. Hann kvaðst sjálfur myndu neita skráningarmönnum um upplýsingar um sig og fjölskyldu sína, eða flytja úr landi, ef manntalið fengi fram að ganga. Thornton sagðist þess fullviss að manntalsskráning af þessu tagi byði heim hættunni á félagslegum óróleika og jafnvel uppreisn, og vísaði þar til meints ótta almennings við guðlega refsingu, en í Biblíunni segir frá því hvernig Satan æsti Davíð til að telja Ísarelsmenn og Guð refsaði honum með því að senda plágu yfir Ísrael.

Thornton og fylgjendur hans höfðu betur í manntalsdeilunni það sinnið. Áhugamenn um lýðfræði urðu að láta sér nægja að gera sjálfstæðar tilraunir með manntalsskráningu í smáum stíl á síðari hluta 18. aldar, meðal annars í tengslum við deilur um mannfjöldaþróun í landinu. Stjörnufræðingurinn og stærðfræðingurinn William Wales virkjaði til dæmis vini sína og kunningja víða um land til að safna fyrir sig upplýsingum með til þess gerða spurningalista að vopni, en hann var sannfærður um að nákvæmar upplýsingar fengjust ekki nema aðilar sem hefðu engin tengsl við skattkerfið sæju um öflun þeirra. Það gekk þó ekki alltaf farsællega að sannfæra almenning um að skattþörf ríkisins væri ekki á bak við allt saman og Wales og vinir hans mættu barsmíðum og hótunum, enda gafst hann upp á endanum og notaðist við upplýsingar úr kirkjubókum í staðinn.

Saturday, July 13, 2013

Tveir kirkjugarðar í Lissabon

Fáir staðir veita manni jafn rómantíska tilfinningu fyrir hverfulleikanum og kirkjugarðar, enda fullir af dánu fólki. Ég er mikil kirkjugarðamanneskja og finnst afar notalegt að ganga þar um, skoða minnismerki og lesa á legsteina, og mér þykir liggja beint við að innlima umfjöllun um kirkjugarða, þá miklu minningastaði, í þessa bloggsíðu um fortíðina. (Við það tækifæri vil ég vekja sérstaka athygli á tenglinum hér til hægri inn á heimasíðu Bautasteins, tímarits Kirkjugarðasambands Íslands. Tímaritið er helgað kirkjugörðum, kemur út einu sinni á ári og er aðgengilegt á netinu.) Undanfarin ár hef ég markvisst heimsótt kirkjugarða á ferðum mínum erlendis (ég er mikil heimsmanneskja) og hef jafnvel sigrast á blygðunarkenndinni og byrjað að taka þar ljósmyndir.

Á síðasta ári heimsótti ég fáeina kirkjugarða á Íberíuskaganum, þar af tvo í Lissabon: Prazeres-kirkjugarðinn og Alto de São João-kirkjugarðinn. Sennilega leggja fleiri ferðamenn leið sína í Prazeres-garðinn enda er hann mjög aðgengilegur frá miðbænum (hinn mikli túristasporvagn númer 28 á endastöð sína hjá garðinum) og fullkomlega verðugur áfangastaður eigi maður leið um borgina.

Prazeres-kirkjugarðurinn var stofnaður í kjölfar kólerufaralds á fyrri hluta 19. aldar og er stærsti kirkjugarður í Lissabon. Hann er vandlega skipulagður, með steyptum gangstígum og breiðgötum, og grafhýsi af öllum stærðum og gerðum setja mark sitt á hann. Samkvæmt heimasíðu borgarstjórnarinnar í Lissabon voru „glæsilegustu íbúðarhúsin í Lissabon flest staðsett í þessum hluta borgarinnar og því eru margir af merkustu mönnum samtímasögu okkar grafnir í þessum kirkjugarði“.

Fallegt útsýni og snyrtilegar götur í Prazeres-garðinum

Thursday, July 11, 2013

Sagnir 2013



Nú í júní síðastliðnum tókst að lokum, með miklu grettistaki, að gefa út tímarit sagnfræðinema, Sagnir. Tímaritið kom síðast út árið 2009 og því má segja að eftirvæntingin eftir nýjasta árgangnum hafi verið blandin hálfgerðri örvæntingu. Það er ekkert annað en frábært að blaðið skuli loks vera komið út. Ég held að sagnfræðin sé eina námsgreinin sem býr svo vel að hafa hefð fyrir því að gefa út rannsóknir nemenda. Ég hefði því orðið ósegjanlega skúffuð ef ég og nemendur mér samferða hefðu misst af þessu tækifæri til að gera rannsóknir okkar aðgengilegri. Því stundum er maður einfaldlega mjög ánægður með einhverja námsritgerðina og þá er það frekar leiðinleg tilhugsun að enginn lesi hana nema kennarinn. Í raun og veru er svona útgáfa grundvallarmál, ef við lítum svo á að það starf sem fer fram innan háskólans hafi einhverja víðari skírskotun.

Tuesday, July 9, 2013

Hvernig vinna skal skýþverskt hryssusmjör

Ég þakka Eiríki Gauta stjörnukommentara Smjörfjallsins fyrir þá ábendingu að eftirfarandi kafli úr Rannsóknum forn-gríska sagnfræðingsins Heródótosar ætti sannarlega heima á síðunni - hann hefur allt: Blindun þræla, uppblásin kynfæri og síðast en ekki síst - smjör! Hér er fróðleiksmoli um hina fjarlægu Skýþaþjóð, sem bjuggu þar sem nú er Úkraína og S-Rússland:

Þetta er léttáfengur hryssumjólkurdrykkur að nafni
Kúmys sem er drukkinn á steppum Mið-Asíu.
4.2. En Skýþar blinda alla þræla sína vegna mjólkurinnar sem þeir drekka [væntanlega til að koma í veg fyrir að þrælarnir steli mjólkinni], og þeir fá hana á þennan hátt. Þeir taka hol bein sem líkjast mest flautum, setja þau inn í kynfæri hryssanna og blása í þær með munninum, á meðan aðrir mjólka. Þeir segjast gera þetta af þessari ástæðu: Æðar hryssurnar blási upp og fyllist og júgrin sígi þá niður. Þegar þeir hafa mjólkað, þá hella þeir mjólkinni í hol viðargímöld, raða blindum þrælunum upp í kring um þau og [láta þá] hrista mjólkina. Þeim þykir það sem situr efst vera verðmætast [þ.e. smjörið], en það sem liggur undir [þ.e. áfirnar] öllu síðra hinu. Vegna þessa blinda Skýþar alla sem þeir grípa höndum. Því þeir eru ekki bændur heldur hirðingjar.

Saturday, July 6, 2013

Hark! A vagrant!


Eitt af því sem mér finnst skemmtilegast að skoða á netinu eru síður með teiknimyndasögum. Sögurnar eru yfirleitt býsna stuttar og það tekur svo lítinn tíma að skoða þær að maður hefur alltaf afsökun fyrir að smella á random takkann og skoða eina í viðbót. Með þessum hætti næ ég að fresta nauðsynlegum hlutum heilu og hálfu dagana með ágætum árangri. Ein af þessum síðum er Hark! A vagrant, sem höfðar sérstaklega til mín af þeirri ástæðu að hún fjallar að mestu um sagnfræði. Höfundur síðunnar, Kate Beaton, er kanadísk og kláraði gráðu í sagnfræði og mannfræði frá Mount Allison University. Það er að vísu ekki mikið um mannfræðilegar skopmyndir á síðunni, en hún teiknar hins vegar býsna mikið af efni sem tengist sígildum bókmenntum eins og Vesalingunum eða The Great Gatsby.

Ég myndi ekki kalla teiknimyndirnar fræðandi, því yfirleitt verður maður að þekkja hinn sögulega bakgrunn til að fatta brandarann. Ef þú hefur t.d. ekki lesið Önnu í Grænuhlíð þá er ólíklegt að þér þyki þessi teiknimyndasaga um Hinrik 8. skemmtileg. Sagnfræðimenntun okkar tveggja skarast í raun og veru merkilega lítið, til að mynda botna ég ekkert í bröndurum hennar um sögu kanadískra stjórnmála, og mér þykja þeir fáu miðaldabrandarar sem á síðunni eru ekki skrifaðir af miklu innsæi. En jafnvel þótt ég þekki ekki bakgrunn einhverrar sögunnar eða finnist brandarinn ekkert fyndinn, þá hef ég alltaf einhverja lúmska ánægju af því að skoða síðuna. Kate Beaton virðist bara vera svo vingjarnleg og viðkunnaleg manneskja, auk þess sem það er alltaf einhver góðlegur kjánaskapur í teikningunum hennar og textanum. Hver gæti svo sem staðist frasann: dude watchin' with the Brontës?

Ég hvet því eindregið þá sem ekki þekkja til síðunnar til að kíkja á hana, hún hefur verið uppi frá árinu 2006, svo það er hægt að ýta býsna lengi á random takkann.

Friday, July 5, 2013

Upplýsingaskilti, göngustígar, tómur kirkjugarður

Fyrr í vetur las ég og bloggaði um Söguna af klaustrinu á Skriðu eftir Steinunni Kristjánsdóttur fornleifafræðing, mér til töluverðrar ánægju. Þegar ég átti leið um Austfirði í sumarbyrjun vildi ég endilega fara á Skriðuklaustur, en uppgreftrinum þar er nú lokið og búið að ganga frá uppgraftarsvæðinu fyrir áhugasama gesti, setja upp upplýsingaskilti og leggja göngustíga. Það var mjög gaman að heimsækja Skriðuklaustur eftir að hafa lesið bókina, upplifa umhverfi klaustursins beint og horfa út Fljótsdalinn í sporum munkanna.


Thursday, July 4, 2013

2500 ár af grískri hreintungustefnu

Ég er tungumálanörd og hef verið undanfarið að grúska í nútímagrísku. Saga þessa tungumáls er stórmerkileg og stórskrýtin og segir margt um ótrúlegan sögulegan mátt menningarlegs auðmagns og pólitíkur á tungumálið.

Forngríska eins og hún var skrifuð í Aþenu á 5. öld f. Kr. öðlaðist sitt mikla menningarlega vægi strax skömmu eftir sjálfa 5. öldina - kanón hinna "klassísku" grísku höfunda var þegar fullmyndað um Krists burð. Æskhýlos, Sófókles og Evrípídes voru þá strax þekktir sem merkilegustu leikritahöfundarnir, Hómer merkasta sagnaskáldið, Platon merkasti heimspekingurinn - og enn eru nákvæmlega þessir höfundar kenndir í heimsbókmenntakúrsum háskólanna og því haldið fram að lestur þeirra bæti mannsandann.

Sú merkilega galdratrú að lestur ákveðinna texta, sem 2000 ára gömul elíta ákvað að væru bestir í heimi, bæti sálina, er stúdía út af fyrir sig. En áhrif þess að frysta hið "fullkomna" tungumál við eina ákveðna öld á einum ákveðnum stað hafði mikil áhrif á hinn gríska menningarheim þar eftir. Allt skrifað tungumál miðaðist afturábak: Þeim mun fjærri hinu talaða máli sem hið skrifaða var, þeim mun fínna var það og meira til marks um háa samfélagsstöðu höfundar.