Saturday, January 10, 2015

Gefið lýðnum flugelda og skaup

Mynd fengin frá hinni netvæddu Reykjavíkurborg nútímans
Sem ég sat fyrir rúmri viku með partíhattinn og horfði út í sprengjuregnið rifjaðist upp fyrir mér áhugaverður kafli um gömlu-daga-gamlárskvöld sem ég las þegar ég var að skrifa BA-ritgerðina mína um árið. Ritgerðin sú ber hinn þjála titil „Tengsl lögreglu og ríkisvalds á Íslandi 1921-1935 og stofnun íslenskrar ríkislögreglu“ og fjallar að stórum hluta um deilur um varalögreglu á Íslandi á 3. og 4. áratug 20. aldar.

Löggæsla á Íslandi var að stærstum hluta á könnu sveitarfélaganna fram yfir 1970 en hugmyndir um varalögreglu fóru að láta á sér kræla í vaxandi stéttaóróa í íslenskum þéttbýlisstöðum á 3. áratugnum; fast aukalið vopnaðra lögreglumanna á vegum ríkisins sem gæti lagt bæjarlögreglunni lið þegar með þyrfti. Varalögregla var stofnuð með nýju lögreglufrumvarpi árið 1933, í kjölfar Gúttóslagsins, en var stuttlifað fyrirbæri í lagalegum skilningi; hún var lögð niður þegar stjórn hinna vinnandi stétta tók við stjórnartaumunum 1934.