Wednesday, November 19, 2014

Lifandi menningararfur: kátar nornir og risavaxnir víkingar

Draugaganga í Edinborg. Myndin er héðan
Í hinum mikla uppgangi ferðamannaiðnaðarins á Íslandi er „markaðssetning menningararfsins“ nærtækt umhugsunarefni. Menningararfurinn er nógu flókinn þegar hann er notaður til heimabrúks og ekki einfaldast málið þegar túrisminn kemur inn í myndina. Ég man hvenær ég upplifði fyrst markvissa notkun menningararfs í markaðssetningu staðar; það var þegar ég heimsótti Edinborg í fyrsta skipti árið 2008. Sú mynd af borginni sem haldið var að mér sem túrista virtist nokkuð heildstæð og einkenndist af hálfgotneskri stemmningu, í sögu borgarinnar var lögð áhersla á ýmis konar dularfull og jafnvel óhugnanleg fyrirbæri. Við heimsóttum kirkjugarða og neðanjarðarhvelfingar og fórum á skurðlækningasafnið þar sem við lásum æsilegar frásagnir af morðum og líkránum og sáum gömul krufningartæki og seðlaveski úr mannshúð. Ég lét mér þetta vel líka, enda er ég svo gotnesk týpa.

Myndin af Edinborg sem dularfullri borg með draugalega sögu rímar ágætlega við ýmislegt í yfirbragði og menningu borgarinnar; þröngar og krókóttar göturnar í miðbænum, dökkar hliðar húsanna, hefð skoskra ráðgátu- og lögreglusagna allt frá Robert Louis Stevenson og Arthur Conan Doyle til Ian Rankin, og líkræningjasögurnar eru svosem engin lygi. Væntanlega eru slíkar áherslur í markaðssetningu staða yfirleitt í einhverjum tengslum við raunveruleikann – ég ætla að standast mátið að fara út í skýrsluna alræmdu um Ímynd Íslands, sem kom út sama ár og ég fór til Edinborgar – en ég hef þó komist að því síðan að sá raunveruleiki sem markaðssetningin stendur í tengslum við þarf ekki að vera raunverulegur eða sannur í neinum hefðbundnum skilningi.

Sunday, November 9, 2014

Að finna upp heiðnina

Ég stunda þessa dagana mastersnám í klassískum viðtökufræðum (Classical Reception Studies) við háskólann í Bristol. Þar tókst mér að velja ágætt úrval kúrsa sem hafa opnað augu mín fyrir ýmsu sem ég hafði ekki áttað mig á áður - mér hefur tekist að fá nokkrum sinnum þessa skemmtilegu akademísku tilfinningu um að nú hafi eitthvað upplukist sem maður hafði áður verið algjörlega blindur á. Ég ætla að reyna að segja hér frá einni slíkri uppgötvun.

Aðalbygging háskólans í Bristol ber þarna við himininn.
Einn tíminn hérna og minn uppáhalds sem stendur kallast Pagans and Christians in Late Antiquity. Umfjöllunarefnið segir sig sjálft - hvernig þessir trúarhópar, hin rótgróna rómversk/gríska fjölgyðistrú og svo hin glænýja og skyndilega ofurmáttuga kristna trú deildu samfélagi síðfornaldar. En ég komst fljótt að því að það að orða þetta svona er raunar að kaupa sig inn í skilgreiningarheim kristninnar. Heiðingjarnir, "the pagans", lýstu sér alls ekki sem heiðingjum eða "pagans" - ekki einu sinni með forna orðinu paganus sem enska orðið kemur af. Það voru kristnir höfundar sem fundu upp á því að skilgreina þá sem ekki trúðu því sama og þeir með þessu orði (og öðrum).

Í heimi fjölgyðistrúarbragða er nefnilega engin þörf á svona skilgreiningum; þeir sem aðhylltust grísk/rómverskan sið höfðu ekkert orð yfir sig sjálfa til að aðgreina sig útfrá trúarbrögðum. Þeir skilgreindu sig útfrá stétt, útfrá tungumáli, útfrá fæðingarstað, en það var ekki fyrr en hin útilokandi eingyðistrú kristni sótti svona í sig veðrið sem þessi ákveðna við-og-þeir-skipting varð til.

Það er til dæmis lýsandi að þegar forni sagnfræðingurinn Heródótos talar um Egypta og Skýþa á fimmtu öld f. Kr. þá orðar hann það sem svo að þeir dýrki Seif og Aþenu og Díónýsos - þeir kalli þessa guði bara öðrum nöfnum. Aldrei myndu kristnir höfundar sætta sig við þá lýsingu að Grikkir tignuðu Guð þegar þeir tignuðu Seif - það væri bara annað nafn á sama hlut (eins og ýmsir "heiðingjar" héldu síðar fram í varnarritum fyrir hinn hefðbundna sið).

Sömuleiðis þróaðist á síðfornöld hugmyndin um skiptingu heimsins í hið veraldlega og hið trúarlega (the sacred and the secular). Í heimi fjölgyðistrúarbragða er þessi skipting ekki til, það er ekki einu sinni hægt að ímynda sér hana. Guðirnir eru allstaðar og allt athæfi mannsins er guðunum viðkomandi. Það er fyrst þegar Kristur finnur upp á þeirri stórkostlegu pólitísku lausn að gjalda Keisaranum það sem Keisarans er og Guði það sem Guðs er (Lúkas 20:25) sem þessi hugmynd fer að mótast - Guð býr í sálu mannsins og í kirkjunni en veraldlegt vald er aðskilinn heimur.

Fyrirfram hafði ég einhvernveginn ímyndað mér að hugtakið heiðni væri eldra en hugtakið kristni og að hugtakið trúarlegt væri eldra en hugtakið veraldlegt. En það er eins með þessi hugtök og samkynhneigð og gagnkynhneigð - gagnkynhneigð er nefnilega yngra hugtak, búið til sérstaklega til þess að lýsa öllum sem ekki eru samkynhneigðir. Hugmyndin um samkynhneigð kallaði á nýtt hugtak til að lýsa því normi sem fyrirfram taldist óþarfi að hafa orð á. Þvert á það sem maður myndi kannski halda (sé maður jafn vitlaus og ég!)

Þetta verður vonandi bara fyrsti pistill af mörgum um uppgötvanir við Bristol-háskóla. Einn daginn munu þeir vonandi koma út sem leðurbundin bók undir nafninu The Bristol Epiphanies.

Sunday, November 2, 2014

Ida Pfeiffer á Íslandi


Ida Pfeiffer í búningi virðulegrar dömu.
 Þann 16. maí 1845 steig austurríska hörkutólið Ida Pfeiffer á land í Hafnarfirði. Pfeiffer var einn af mörgum evrópskum ferðalöngum sem heimsóttu Ísland á 19. öld í vísindalegum tilgangi, og birtu í kjölfarið bók með ferðasögu sinni sem seldist í hestvagnaförmum. Ritun evrópskra ferðabóka af þessu tagi á sér langa sögu, eða allt frá lokum miðalda, en Pfeiffer var ein af fáum konum sem hösluðu sér völl sem landkönnuður. Lýsingar erlendra ferðalanga á Íslandi njóta töluverða vinsælda um þessar mundir (t.d. á hinu ágæta vefriti Lemúrnum), auk þess sem ég taldi mig hafa fengið ágæta yfirsýn yfir þetta menningarfyrirbæri í sagnfræðináminu. Engu að síður hafði ég ekki hugmynd um að neinn af þessum ferðalöngum hefði verið kvenkyns og varð töluvert hissa þegar ég uppgötvaði Idu Pfeiffer.

Ida Laura Reyer fæddist inn í efnaða millistéttarfjölskyldu í Vín árið 1797, og það virðist vera hálfgerð klisja í umfjöllun um hana að taka fram að pabbi hennar hvatti hana til að hegða sér eins og strákur, ganga í strákafötum, etja kappi við bræður sína og fara með þeim í kennslustundir. Hann dó þegar hún var níu ára, og í kjölfarið fylgdi nokkurra ára kalt stríð milli Idu og móður hennar, sem vildi fyrir alla muni gera hana hjónabandsvæna. Það heppnaðist á endanum einum of vel, því þegar Ida var 17 ára hugnaðist henni að giftast heimiliskennaranum, sem hafði átt stærstan hlut í því að fá hana til að sættast við hlutskipti millistéttarkonunnar. Kennarinn þótti hinsvegar of fátækur og var rekinn burt með smán. Ida hélt þó sambandi við hann út ævina, því hann deildi ástríðu hennar fyrir ferðalögum og skrifaði sjálfur ferðabækur.

Sex árum síðar giftist Ida lögmanninum Mark Anton Pfeiffer og flutti með honum til austurrísku borgarinnar Lemberg/Liev í Úkraínu. Hr. Pfeiffer hafði allt til að bera sem heimilskennarinn hafði ekki haft, hann var um fimmtugt og vel stæður. Hið kaldhæðnislega er hins vegar að nokkrum árum síðar þá missti hr. Pfeiffer vinnuna. Ida Pfeiffer hélt því statt og stöðugt fram í bókum sínum að það hefði verið vegna þess að hann reyndi að fletta ofan af spillingu í austurríska embættismannakerfinu. Ég hef hins vegar ekki séð neinar aðrar heimildir fyrir því, og miðað við að Ida þagði þunnu hljóði um lögskilnað þeirra í metsölubókum sínum, þá get ég alveg séð fyrir mér að hún hafi eitthvað fegrað sannleikann í þessu máli.

Þrátt fyrir bestu óskir móðurinnar, þá endaði Ida á því að gera það sem þótti eflaust afar óæskilegt í hennar kreðsum, að vinna fyrir eiginmanni og börnum með því að bjóða upp á einkatíma í kvenlegum hannyrðum og píanóleik, fögunum sem hún hafði hatað ákaflega sem barn. Að lokum gafst hún upp og flutti með syni sína tvo aftur til Vínar, og gat fjármagnað menntun þeirra með móðurarfi sínum, eftir að hún var skilin við eiginmanninn. Pfeiffer var þá orðin 45 ára, og hafði uppfyllt þær kröfur sem hún taldi að samfélagið ætti rétt á að gera til sín, hún hafði gifst og alið upp börnin sín með eins sómasamlegum hætti og henni var unnt. Því ákvað hún að láta drauma sína rætast, og ferðast. Fyrsta ferðalag hennar lá til Landsins helga, sem hún áleit að væri viðeigandi metnaður fyrir dömu á hennar aldri. Það tók hana tvö ár að safna fyrir ferðinni, en peningaskortur átti eftir að hafa mótandi áhrif á öll hennar ferðalög, á tímum þegar flestir frístundaferðalangar, karlkyns eða kvenkyns, voru bæði auðugir og vel menntaðir.