Friday, January 31, 2014

Nýtt kvæði eftir Saffó!

Þau undur og stórmerki gerðust nú fyrir nokkrum vikum að áður óþekkt kvæðabrot eftir forn-gríska skáldið Saffó frá Lesbos (7-6 öld f. Kr.) uppgötvuðust - og það fyrir einskæra tilviljun!

Svo virðist sem að ónefndur einkasafnari hafi nýlega komið að máli við Dr. Dirk Obbink, papýrusfræðing við Oxford-háskóla, og sýnt honum papýrustætlu sem honum hafði áskotnast (guð veit hvar) með einhverri grískri skrift á. Það hefur ekki tekið langan tíma fyrir Obbink að sjá hvað var um að ræða; þetta eru tvö kvæðabrot á Saffóarlaginu svokallaða (þ.e.a.s. bragarhættinum sem hún gerði frægan), skrifuð á æólískri grísku sem var einmitt hennar mállýska, og hið fyrra nafngreinir bræður hennar tvo, Kharaxos og Larikhos, sem við þekkjum til úr öðrum heimildum.

Samkvæmt Heródótosi, Strabon og Aþenæosi átti Saffó það til að skrifa kvæði til bræðra sinna Kharaxosar og Larikhosar. Sá fyrri var skipstjóri á kaupskipi og ferðaðist víða, en Saffó á að hafa skammað hann fyrir samband hans við vændiskonuna Dóríku. Sömuleiðis á Saffó að hafa lofað bróður sinn Larikhos, sem skenkti víni í tignum húsum á Lesbos. Einhver kvæðabrot sem gætu passað við þessar lýsingar hafa varðveist, en nöfn bræðranna koma þar hvergi fyrir; einhverjir fræðimenn hafa því efast um alla þessa bræðrasögu og talið hana einhvern síðari tíma misskilning. En nú staðfestist semsagt (vonandi) tilvist þeirra og sannsögli Heródótosar og félaga.

Efni fyrra kvæðabrotsins, sem er heillegra, er kannski ekki brjálæðislega spennandi - Saffó ávarpar einhvern (þetta er ekki heilt kvæði og við sjáum ekki hvern hún ávarpar) og segir viðkomandi að það sé tilgangslaust að tala endalaust um vonir sínar um endurkomu Kharaxosar með fullt skip af vörum; það eina sem stoði sé að biðja til guðanna um að hann snúi aftur og að Saffó og viðmælandinn verði heil á húfi þegar það gerist. Loks talar hún um hinn bróðurinn, Larikhos, og tjáir þá von að hann þroskist og verði að heilsteyptum manni. Þá endar brotið. Hið næsta virðist vera byrjunin á ástarkvæði, en þar er papýrusinn orðinn illa farinn og einkar erfitt að lesa í textann.

Nú skal ekki loku fyrir það skotið að þetta gæti reynst eitthvað gabb - en ef svo er þá væri það einstaklega vandað gabb. Enn á eftir að gefa út fræðilega útgáfu af papýrusnum (en það mun gerast á næstu mánuðum í Zeitschrift für Papyrologie und Epigraphik) og það sést strax að deilur munu verða um hvernig skal lesa í textann - þegar hafa birst nokkrar leiðréttingar og ábendingar í kommentakerfi sem Oxford-háskóli stofnaði til umræðu um nýju kvæðin (hvílík undur útlanda! Vitræn kommentakerfi!). En nóg um varanagla: Ég ætla hér að ríða á vaðið með afar beinni þýðingu á bræðrakvæðinu eins og texti þess stendur í dag; þýðingin gæti vel orðið úrelt á morgun en maður verður nú að hamra járnið á meðan það er heitt.

...en þú blaðraðir endalaust um að Kharaxos myndi koma
með fullt skip með sér; það, held ég,
veit Seifur og guðirnir allir; en þér
ber ekki að hugsa um slíkt

heldur að senda mig brott og biðja mig
um að biðla heitt til Heru drottningar
að Kharaxos nái hingað
með skip sín

og hitti okkur heil á húfi; allt annað
skulum við láta guðunum eftir.
Því góðviðri birtist skjótt upp úr
miklum stormi.

Konungur Ólympstinds beinir heillaanda
til sumra manna sem hjálpar þeim úr erfiðleikum;
þetta eru sælir menn og
ríkir mjög.

Og ef Larikhos lyftir höfði
og verður að fullgildum manni,
vittu til, við myndum strax losna undan
miklum hjartans þyngslum...

Upprunalegi linkurinn á greinina virðist hafa horfið af einhverjum ástæðum (nú vonar maður innilega að þeir hafi ekki uppgötvað að þetta sé gabb) en textann má finna á þessari vefslóð. Gamli linkurinn var hér.

Uppfært: Obbink hefur nú rofið þögnina og skrifar um fundinn hér.

Wednesday, January 22, 2014

Æviminningar karla af Skarðsströnd I: Enn nú um ýmislegt í veröld séra Friðriks

Líf mitt og yndi? Jú, bloggbálkar með mjög sérhæfðu þema.

Með þessu bloggi hefst loks þriggja færslu serían Æviminningar karla af Skarðsströnd („ýmsir hafa komið að máli við mig og kvartað yfir ærandi þögn Smjörfjallsins um æviminningar karla af Skarðsströnd“) sem ég hef leynt og ljóst verið að undirbúa síðan í september, með umfangsmiklum æviminningalestri og nákvæmum glósum.

Séra Friðrik Eggerz. Mynd tekin úr
Sunnanfara 1. ágúst 1914.
Saman spanna umrædd endurminningaverk ríflega tvær aldir. Skarðsstrendingurinn sem fyrstur er á dagskrá, séra Friðrik Eggerz (1802-1894), skrifaði ekki bara sína eigin ævisögu heldur hóf hann söguna meðal forfeðra sinna á 18. öld og stór hluti hennar er ævisaga hins „skynsama, góðgjarna, kjarkmikla og breyska föður“ Friðriks, séra Eggerts Jónssonar (1775-1846), en þeir feðgar voru báðir prestar á Ballará á Skarðsströnd. Séra Friðrik skrifaði endurminningarnar um 1870 þegar hann hafði látið af prestskap. Þetta var ekkert smádundur hjá gamla manninum, því útgefin samanstendur bókin af tveimur bindum sem hvort um sig eru á fimmta hundruð blaðsíður, og er þó ýmsu sleppt.

Það var séra Jón Guðnason sem tók æviminningar séra Friðriks saman og gaf út árið 1950 undir titlinum Úr fylgsnum fyrri aldar. Í formála lýsir Jón ævisögunni sem apólógíu eða varnarriti séra Friðriks, sem taldi að víða væri á sig og föður sinn hallað og vildi tryggja að þeirra sjónarmið kæmu fram. Séra Friðrik og séra Eggert stóðu nefnilega oft í deilum við samferðamenn sína, um allt frá erfðamálum og landamerkjum til húsbygginga, og skipti þá ekki máli hvort um var að ræða fiskhjalla eða kirkjur. (Einn kafli fyrra bindis heitir Taldir nokkrir mótstöðumenn séra Eggerts, og er ekki stuttur.)

Saturday, January 18, 2014

Þingkonurnar - dómur með útúrdúrum

Þótt kannski megi ætla annað annað þá er leikhús listform sem hefur tekið algerum stakkaskiptum í gegnum tíðina. Þessi staðreynd blasir hressilega við þeim sem bregða sér á Þingkonurnar eftir forn-gríska gamanleikjaskáldið Aristófanes, sem sýnt er í Þjóðleikhúsinu þessa dagana.

Í Aþenu til forna voru leikritin sett upp á umfangsmikilli fimm daga hátíð til heiðurs guðinum Díónýsosi, guði víns, svalls, vímu, hamsleysis og ærsla. Í samræmi við það var hátíðin gríðarlegt drykkjupartí þar sem Aþeningar þömbuðu vín, átu yfir sig af annars sjaldétnu kjöti og ofar öllu, þyrptust í leikhúsið til þess að njóta gríðarlegs leikhúsmaraþons.

Harmleikjahöfundar (þrír talsins hverju sinni) skrifuðu sinn harmleikjaþríleikinn hver, og létu svo eitt ærslaleikrit fylgja með undir lokin til að létta stemminguna. Uppsetning þessa hefur tekið allan daginn frá morgni til kvölds, og áhorfendurnir voru jafnan skelþunnir og berskjaldaðir fyrir hryllingnum sem harmleikirnir sérhæfa sig í. Gamanleikjahöfundar höfðu svo sinn eigin dag, fimm höfundar tóku þátt, hver með eitt verk. Þetta var ekki bara leiklistarhátíð heldur jafnframt keppni; að leik loknum ákváðu dómarar hver hefði skrifað besta verkið eða verkin og þótti það mikill heiður að sigra. Leiksýning í Aþenu til forna var því ekki alveg það sama og að sitja meðal gamla fólksins í virðingarverðu Þjóðleikhúsinu og klappa fyrir forsetanum ef hann sýnir sig.

Það er sem sagt röng stemming í Þjóðleikhúsinu fyrir Aristófanes. Sá merki höfundur er hvað þekktastur fyrir alveg hreint magnaðan dónaskap sem er nokkuð handan við allt það grín sem hjá okkur á að kallast gróft. Nauðganir, drengjaástir, skítát, endaþarmar, you name it - til að finna dónalegri ritverk verður maður að leita í De Sade.

En leikrit hans snúast ekki bara um kúkabrandara. Aristófanes var jafnframt einskonar Spaugstofa þar sem stjórnmálamenn og nafntogaðir einstaklingar voru grillaðir á sviði fyrir framan alþjóð. Munurinn er reyndar sá að á meðan Halldór Ásgrímsson var útmálaður sem eilítið leiðinlegur í Spaugstofunni, sýnir Aristófanes leiðtoga borgarinnar hiklaust sem kúkætur og menn sem elska að láta ríða sér í rass, en í forn-grísku samhengi var það alveg hrikalegur áfellisdómur yfir manni. Það er áhugavert að þrátt fyrir þetta algjöra hispursleysi þá höfðu grísku kómedíurnar að því er virðist engu meiri áhrif á stjórnmál borgarinnar en Spaugstofan hafði á landsmálin hér. Pólitískt grín virðist jafnan styrkja ráðandi öfl í sessi ef eitthvað er.


Saturday, January 11, 2014

Hinn ólýsanlegi löstur Grikkja

"Omit: A reference to the unspeakable vice of the Greeks", áminnir grískukennarinn í bókinni Maurice eftir E.M. Forster. Hann er að hlýða nemendum sínum yfir Samdrykkjuna eftir Platon, sem fjallar um ágæti drengjaásta - án þess að það megi minnast á drengjaástir í tímanum. Þær eru, eins og hann segir, „unspeakable“.

Þessi furðulegheit hafa mér lengi verið hugleikin: Hvernig sérstaklega hinn breski menningarheimur gat verið með forn-gríska menningu algjörlega á heilanum, en jafnframt þurfti að fela af einstakri natni augljós einkenni hennar. Hvernig fóru þeir að þessu? Fannst þeim þetta ekkert skrýtið?

Bretar höfðu nefnilega þá furðulegu hugmynd að Grikkland og Róm hefðu verið forverar breska heimsveldisins; Grikkir og Rómverjar hefðu raunar verið Bretar í tóga. Enn þann dag í dag eimir raunar eftir af þessu - ef Grikkir eða Rómverjar til forna birtast í enskumælandi bíómyndum eða þáttum eru þeir jafnan látnir tala ensku með breskum hreim, þótt kvikmyndin/þátturinn sé alls ekki þaðan.

Þetta sjónarmið beið hinsvegar heilmikið skipbrot þegar fornu rómversku bæirnir Pompeii og Herculaneum voru grafnir upp af fornleifafræðingum á fyrri hluta 19. aldar, og það kom í ljós að bæirnir líktust London bara ekki neitt. Rómverjar höfðu allt aðrar hugmyndir en breska heimsveldið um kynlíf og kynferði og hvað væri próper og hvað ekki. Til dæmis má taka þessa meistaralegu styttu úr Herculaneum af guðinum Pan að ríða geit:


Thursday, January 2, 2014

Fólkið með gulu krossana

Margir hljóta að kannast við þá tilfinningu úr háskólanámi að vera alltaf að lesa um áhugaverðar bækur, án þess að hafa tíma til þess að lesa þær sjálfar. Ekki veit ég hvort sagnfræðin er sérstaklega slæm að þessu leyti, en ég hugsa að í BA-náminu hafi ég til dæmis lesið allar mögulegar ritdeilur sem Sigurður Gylfi Magnússon hefur staðið í um einsöguna, án þess að hafa lesið eina einustu einsögurannsókn, hvorki eftir hann né nokkurn annan. En hvað um það, lesturinn á öllum þessum yfirlitsgreinum skildi í það minnsta eftir sig nokkra titla sem ég hafði óljósa hugmynd um að gæti verið gaman að lesa einhverntímann í fjarlægri framtíð. Sú eina sem ég hef kynnt mér, enn sem
komið er, er bókin Montaillou eftir franska sagnfræðinginn Emmanuel Le Roy Ladurie sem kom út árið 1978. Montaillou er lítið þorp í Pýreneafjöllunum, nálægt spænsku landamærunum, sem á árabilinu 1318 til 1325 varð fyrir þeirri ógæfu að 94 íbúanna voru yfirheyrðir af rannsóknarréttinum. Það vildi nefnilega svo til að stór hluti þorpsbúa aðhylltist mjög sérstakt afbrigði kristinnar trúar, ég veit ekki hvort ég á að kalla það villutrú, sértrúarsöfnuð eða hvað, sem heitir kaþarismi.

Til að gera langa sögu stutta þá gengur kaþarismi út á tvíhyggju. Til voru tvö öfl, hið góða og hið vonda, guð og djöfullinn, en ólíkt kaþólskri kristni þá gáfu kaþarar sér það að djöfullinn hefði sköpunarkraft, og að allt veraldlegt væri skapað af honum og þar af leiðandi illt. Trúariðkun þeirra snerist um að hreinsa sig af hinu veraldlega, til að sál þeirra gæti sloppið úr þessum djöfullega heimi við dauðann og komist yfir í hinn andlega heim, sem skapaður var af guði. Annars var hætta á því að endurfæðast inn í þennan heim Satans. Þetta er í algjörri andstæðu við trúarheim kaþólskra og árekstrar voru óhjákvæmilegir. Kaþarar borðuðu ekki sakramentið, því það var ekki hold Krists heldur gert af djöflinum, og þeir dýrkuðu ekki krossa eða líkneski því þau voru úr djöfullegum efnivið. Kynlíf óhreinkaði og dýrakjöt var óhreinna en annað fæði, því það var jú búið til með kynlífi. Kaþarar þóttu líka leiðinlegir nágrannar því þeir voru þekktir fyrir að tilkynna ófrískum konum að þær gengju með sköpunarverk djöfulsins.