Thursday, October 31, 2013

Dagur kreólasöngsins

Í dag er haldið upp á Dag kreólasöngsins, eða el Día de la Canción Criolla, í Perú. Af því tilefni er upplagt að hlusta á Kanelblómið, lag um límenska rómantík.

Chabuca Granda syngur: Jasmínur í hárinu og rósir í kinnum, Kanelblómið gekk hnarreist og óskammfeilnin skein af henni.

Í öðrum pistli hér á Smjörfjallinu kom ég með þá dularfullu staðhæfingu að með öllu sem maður gerði í Perú, þá væri maður í raun að skipa sér í eitthvert lið, án þess að gera sér grein fyrir því.

Það sem ég meinti með þessu óljósa orðalagi var að perúskt samfélag einkennist af stéttaskiptingu sem er ekkert í líkingu við neitt sem Íslendingur getur ímyndað sér út frá sinni eigin reynslu. Stéttaskiptingin einkennist ekki bara af misskiptingu auðs, heldur líka því sem erfitt er að kalla annað en rasisma. Landfræðilega séð skiptist Perú í þrjá hluta, ströndina, Andesfjöllin og frumskógarsvæðin. Í Andesfjöllunum og á frumskógarsvæðunum býr til dæmis nokkur fjöldi fólks sem talar eitthvert afbrigði af tungumálunum Quechua og Aymara. Ströndin, að höfuðborginni meðtalinni, er hins vegar „evrópskari“, en þar er einnig að finna langflesta þá íbúa sem eru af afrískum eða asískum uppruna.

Tuesday, October 22, 2013

Með löggum skal land byggja

Það var óverjandi skot í stöng...
Mynd: RÚV
Fyrr í dag var athygli mín vakin á bloggfærslu Elínar Hirst alþingiskonu um handtöku Ómars Ragnarssonar, en hann var handtekinn ásamt fleirum í gær við að mótmæla vegaframkvæmdum í Gálgahrauni.

Bloggfærsla Elínar er stutt og hljóðar svo:

„Að Ómar Ragnarsson minn kæri samstarfsmaður til margra ára og föðurlandsvinur yrði handtekinn á Íslandi fyrir að standa fast á skoðun sinni sem umhverfissinni hefði ég aldrei ímyndað mér. Þetta fer ekki vel í mig. Ekki endilega sammála mínum góða vini Ómari en við verðum að leysa málin hér á landi í friði og með rökræðu. Þetta minnir á atburði á Söguöld.“

Fyrirsögnin er: Handtaka Ómars – minnir á söguöld.

Það væri sjálfsagt hægt að orðræðugreina bloggfærslu Elínar í drasl en látum nægja að skoða þessa síðastnefndu samlíkingu hennar, sem sýnir ágætlega hvernig ekki einu sinni handtaka manns með landföðurlega áru Ómars Ragnarssonar megnar að hrista upp í hugmyndum sumra um það rétta og ranga í samfélaginu; hversu stórfenglegir sögulegir loftfimleikar geta orðið.

Söguöld var fyrri hluti þjóðveldisaldar, sem stóð þar til Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd með Gamla sáttmála um 1260. Ég geri ráð fyrir því að með samlíkingu sinni eigi Elín Hirst við að á söguöld hafi hver höndin verið upp á móti annarri og menn ekki viljað leysa málin „í friði og með rökræðu“ – með lögum skal land byggja – en það hefur gjarnan verið álitið einkenni á íslenska þjóðveldinu að þar hafi ekki verið neitt framkvæmdavald, og það hafi átt þátt í að verða því að falli (um það mætti svo skrifa langan pistil sem er utan míns sérsviðs).

Það sem er þversagnakennt við samlíkingu Elínar er að það voru einmitt fulltrúar framkvæmdavalds íslenska ríkisins sem handtóku vin hennar Ómar Ragnarsson. En hvenær höfum við látið þversagnir trufla okkur?

Sunday, October 20, 2013

Listin og heimildin

Í byrjun mánaðar opnaði á Kjarvalsstöðum sýning á ljósmyndum rússneska listamannsins Alexanders Rodchenko, sem vert er að mæla með, en sýningin stendur fram yfir áramót. Ég fór í gær og er að hugsa um að fara aftur sunnudaginn 17. nóvember, þegar Benedikt Hjartarson mun fjalla um verk Rodchenko í samhengi við framúrstefnu í listum á fyrri hluta 20. aldar.

Alexander Rodchenko var semsé ljósmyndari en líka málari, höggmyndasmiður og grafískur hönnuður; ætli flestir kannist ekki við myndina hér að ofan, af listakonunni Lilyu Brik, sem einnig var ástkona Vladímírs Majakovskí. Á sýningunni eru einmitt einnig portrettljósmyndir Rodchenko af Majakovskí, sem og kápur sem hann hannaði fyrir ljóðabækur hans.

Rétt áður en ég fór á sýninguna í gær var ég að blaða í Miðvikudögum í Moskvu eftir Árna Bergmann. Það er fín bók, dálítið skemmtileg að lesa núna því hún kom út árið 1979, á þessum síð-Sovéttíma sem mér finnst maður oft heyra og lesa minna um en róttækasta tímabilið á 3. áratugnum og síðan árin undir Stalín. Í kaflanum sem ég var að fletta í gær er lýsing á sovésku sósíalrealismaþráhyggjunni sem ég fór með inn á sýninguna, en Rodchenko féll um síðir í ónáð hjá sovéskum yfirvöldum eins og svo margir listamenn:

„Það var merkilegt hve miklu púðri var eytt á abstraktlist. Abstraktlist var fjandsamleg því markmiði húmanismans að kanna veruleikann, hún var enn eitt bragð auðvaldsins til að leiða alþýðuna á brott frá skilningi á þjóðfélaginu. Amríkanar stríddu Rússum lævíslega á þessu máli. Þeir prentuðu í tímariti sínu, Ameríka, litmyndir af abstraktlist við hliðina á ljósmyndum sem teknar voru í gegnum smásjár af undraveröld vefja og mólekúla. Sjáið þið bara hve lítill útlitsmunur er á list og vísindalegri heimild! Hver sýnir veruleika efnisins mestan trúnað?“ (145-146)


Monday, October 7, 2013

Skipasmíðar, örbylgjuofnar og kópvogsk saga í útvarpi allra landsmanna

Smjörfjall sögunnar vekur athygli á útvarpsþáttaröðinni Sagan í munnlegri geymd sem flutt verður á Rás 1 í október og nóvember. Þættirnir eru gerðir af meistaranemum í sagnfræði við Háskóla Íslands, þar á meðal undirritaðri, en þar vinnum við með hljóðritað efni sem til er á Miðstöð munnlegrar sögu.

Fyrsti þátturinn er á dagskrá í kvöld kl. 20:30 og ég gef honum mín bestu meðmæli, enda er hann eftir mig. Hann ber yfirskriftina Múlka og stúlkurnar í Reykjavík og er byggður á frásögnum Önnu Klemensdóttur í Laufási af bæjarlífinu í Reykjavík um og upp úr aldamótunum 1900. Ýmislegt kemur þar við sögu, til dæmis úthlutun verðmætra byggingarlóða við Tjarnargötuna, danskir konungar, skemmtiferðir í Öskjuhlíðina og síðast en ekki síst rússneska stúlkan Múlka sem setti svip sinn á lífið í Reykjavík árið 1913.

Hér er listi yfir þættina:

7. október
Kristín Svava Tómasdóttir: Múlka og stúlkurnar í Reykjavík

14. október
Jón Páll Björnsson: Sjósókn frá Landeyjasandi

21. október
Sigurður Högni Sigurðsson: Ris og hnignun íslensks skipasmíðaiðnaðar

28. október
Jón Páll Björnsson: Sjóslys við Vestmannaeyjar 1950

4. nóvember
Stefán Svavarsson: Uppvaxtarár í Kópavogi

11. nóvember
Sigurður Högni Sigurðsson: RARIK og rafvæðing Íslands

18. nóvember
Kristín Svava Tómasdóttir: Örbylgjuofninn kemur til Íslands

Hér verður svo aðgengileg frekari lýsing á hverjum þætti eftir því sem fram vindur.

Friday, October 4, 2013

Barnsfæðing árið 1490

Haustið 2010 fór ég í skiptinám til smábæjarins Alcalá de Henares á Spáni. Dvölin þar var á margan hátt lærdómsrík, ekki síst fyrir þá innsýn sem hún veitti mér í ljótan og niðurdrepandi arkitektúr frá áttunda áratugnum, og þau skelfilegu áhrif sem hann getur haft á sálarlífið. Einnig kom það mér nokkuð á óvart að í samanburði við spænska hugvísindanema, þá eru íslenskir sagnfræðinemar bæði áhugasamir og iðnir. „Hafiði einhverjar spurningar?“ var kennarinn í námskeiðinu Spánn á tímum Francos vanur að spyrja, og þeir nemendur sem höfðu nennt að mæta gláptu upp í hornin á kennslustofunni á glæsilegri, 16. aldar háskólabyggingunni, og höfðu engan áhuga á sögunni sem foreldrar þeirra og afar og ömmur höfðu upplifað á eigin skinni. 

Það var því ekki eingöngu vegna áhuga á kvennasögu sem námskeiðið Konur á miðöldum var í uppáhaldi hjá mér, skráðir nemendur voru ekki nema fimm, og þar af voru þrír þeirra skiptinemar. Þarna upplifði ég líka ástand sem fáir kvenkyns miðaldafræðingar fá tækifæri til að reyna, að 90% viðfangsefnisins séu af sama kyni. Einnig er það óvenjulegt og ánægjulegt fyrir Íslending að námskeið um miðaldir sé prýtt svona miklu af myndefni. Ofan á allt annað bættist það að kennarinn talaði eins og excel-skjal, í skipulegum flokkum og undirflokkum, sem er mjög þægilegt þegar maður þarf að glósa á erlendu tungumáli.

Eitt af því fáa sem mér fannst spænsk sagnfræðikennsla (sem hafði að því er virtist skapað alla þessa penna-nagandi uppvakninga) hafa fram yfir þá íslensku var notkun frumheimilda í kennslu. Flestum námskeiðum fylgdu litlir bæklingar með uppskriftum úr frumheimildum, og nemendur voru svo látnir greina innihaldið í einskonar skýrslu. Ég tók alla frumheimildabæklingana með mér heim, en uppáhalds frumheimildin mín af þeim öllum er lýsing á barnsfæðingu hefðarkonu í Zaragoza undir lok síðmiðalda. Þetta skjal gefur innsýn inn í svo marga ólíka hluti, og á svo súrrealískan hátt, að það á sér engan sinn líka. Því set ég það inn í heild sinni í amatörlegri þýðingu minni. Frumtextinn birtist í bókinni Taller de historia. El oficio que amamos frá árinu 2006. 

Die X Janurii anno M° CCCCLXXXX. Cesarauguste. In Dei nomine. Amen. Sé það öllum ljóst að á eittþúsund-fjögurhundruð-og nítugasta ári frá fæðingu herra vors Jesú Krists, á degi sem taldist tíundi dagur janúarmánaðar, á milli tíundu og elleftu stundar fyrir hádegi, inni í herbergi hvers gluggar vísa að götunni og taka við ljósi, í háum vistarverum, staðsettum innan húsakynna hins mikilfenglega herra Martins Gil de Palomar y de Gurrea, herra yfir Argavieso, staðsettum í sókn heilags Jóhanns del Puent í borginni Zaragoza, en fyrrnefnd húsakynni snúa að húsakynnum Sancho d´Aylala, bóksala, ásamt húsakynnum Martin de Pertusa, og eru opinberlega kölluð la Guchilleria; þar var hin göfuga Ysabel de la Cavalleria, dóttir hins merka og virta herra Alfonso de la Cavalleria og eiginkona hins merka Pedro de Francia, sem er nú látinn, frá Burueta, gangandi um fyrrnefnt herbergi, að gluggunum opnum og kveikt á nokkrum blessuðum kertum, í fylgd tveggja kvenna sem héldu undir handarkrika hennar, kveinkandi sér undan þungun sinni, hún undirbjó sig og vildi fæða.