Wednesday, August 28, 2013

Myndlist í sigruðu landi

Að loknu stúdentsprófi á því herrans ári 2007 fór ég til Perú. Það var mikil ferð þar sem ég aflaði mér til dæmis þeirrar ómissandi kunnáttu að bera hratt og vel fram martraðarkennd andísk örnefni. Ég dvaldist nær eingöngu í borginni Cuzco, sem ég stafset einnig sem Cusco, af því að ég hreinlega get ekki munað hvort er réttara. Perú er land þar sem maður er alltaf að skipa sér í einhver ósýnileg lið með öllu sem maður gerir, og stafsetning þessarar borgar er ekki undanskilin. Enskumælandi fólk skrifar oftast Cusco með s-i, en Spánverjar Cuzco með z-u, svo maður myndi halda að það síðastnefnda væri réttara. Fólk í Perú hefur hins vegar stökustu óbeit á því hvernig Spánverjar stafa og bera fram spænsku. Það sleppur kannski að skrifa borgarheitið með z-u, en hjálpi þeim sem ferðamanni sem ætlar að gera sig breiðan og bera z-una fram sem þ-onn. Mig minnir að borgin heiti formlega Cusco, en sé af einhverjum ástæðum í Cuzco-héraði, og þar hafiði það.

Kúskó (hoho) var höfuðborg Inkanna á 16. öld, en þegar þeir voru í miðjum klíðum við að leggja undir sig nágranna sína á allar hliðar réðust Spánverjar inn í ríki þeirra. Þeir eyðilögðu flest sem þeir sáu, en sem betur fer reistu þeir strandborgina Lima og gerðu að höfuðborg, svo enn eru einhverjar rústir í Cusco. Qusqu (enn ein stafsetningin) er borg sem er hlaðin tveimur dómkirkjum. Raunin er sú að eingöngu önnur kirkjan er dómkirkja, hin er minnismerki um brjálæðislega sýniþörf jesúíta seint á 16. öld. Jesúítarnir hófu framkvæmdir örfáum árum eftir að biskupinn tók að byggja dómkirkjuna, og létu sig engu skipta þó hann klagaði þá í páfann. Þeir sáu ekki einu sinni sóma sinn í því að hafa sína kirkju hinum megin við aðaltorgið, heldur stendur hún skáhallt á móti dómkirkjunni. Auk þess virðast kirkjurnar ganga undir svona 3-4 mismunandi nöfnum hvor, og ekki margir 19 ára ferðamenn sem geta lagt allt þetta á minnið til frambúðar. Ég man því ekkert í hvorri kirkjunni myndlistin sem ég ætla að segja frá er, en þið getið athugað það ef þið eigið leið hjá, eða hafið meiri google-þolinmæði en ég. 

Jesúítabrjálæðið. Mynd tekin af hinni töluvert smekklausu vefsíðu sacred destinations.

Tuesday, August 27, 2013

Byggðasafn í Brooklyn

Eitt sinn þóttu mér íslensk byggðasöfn frámunalega leiðinlegir staðir, óskipulögð og yfirfull og ekkert að sjá nema yfirlætislítið drasl í sauðalitunum, alls staðar eins; í löngum bunum kambar, ljáir, askar, sauðskinnsskór og útsaumsmyndir úr mannshári. Ég veit ekki hvort námið hefur gert mig svona póstmóderníska en ég er farin að kunna betur að meta kaotískt yfirbragð hins hefðbundna byggðasafns.

Á dögunum heimsótti ég bandarískt byggðasafn sem minnti mig í mörgu á byggðasöfn æsku minnar, nema hvað ég er mun spenntari fyrir erlendri borgarsögu en amboðum úr íslenskri sveit. Safnið er staðsett í Williamsburg-hverfinu í Brooklyn í New York og heitir The City Reliquary. Það er, eins og afgreiðslukonan orðaði það, „safn hinnar gleymdu sögu New York“.

Tuesday, August 20, 2013

Andóf gegn manntölum II: Herskátt lýðræði og rökkursvæði í Vestur-Þýskalandi

Hið veika Weimar með augum George Grosz
Fyrir skömmu skrifaði ég grein um það þegar súffragettur andæfðu manntalinu í Bretlandi 1911 og skemmtu sér á hjólaskautum alla nóttina í staðinn. Súffragettur sniðgengu manntalið til að vekja athygli á tvískinnungi í afstöðu stjórnvalda til kvenna, en þær voru ekki á móti manntalinu í sjálfu sér.

Sjötíu árum síðar andæfðu Vestur-Þjóðverjar þarlendu manntali. Mótmælunum í Vestur-Þýskalandi árið 1983 og 1987 var beint gegn sjálfri manntalsskráningunni, þótt þau snerust að vissu leyti einnig um samskipti stjórnvalda og borgaranna.

Breski fræðimaðurinn Matthew Hannah skrifaði fína bók um vesturþýsku manntalsmótmælin fyrir nokkrum árum, Dark Territory in the Information Age. Hannah setur mótmælin í samhengi við hugmyndafræðilega þróun vesturþýska ríkisins eftir seinni heimsstyrjöldina, en stjórnarskráin sem gerð var fyrir Vestur-Þýskaland árið 1949 og stefna ráðamanna eftir stríð var mótuð af reynslunni milli stríða. Það var litið svo á að veikleikar Weimar-lýðveldisins hefðu gert nasistum kleift að notfæra sér verkfæri lýðræðisins til þess að taka völdin. Vesturþýsk stjórnvöld iðkuðu því það sem Hannah kallar „herskátt lýðræði“; lögðu áherslu á styrk ríkisstofnana en síður á pólitíska tjáningu fólksins.

Vesturþýskir ráðamenn voru þvert á móti mjög tortryggnir á þann breiða skala andófshreyfinga sem þreifst í Vestur-Þýskalandi á 7. og 8. áratugnum, svo sem friðarhreyfingar, umhverfisverndarsinna og femínista, en hluti þeirra beitti ofbeldisfullum aðgerðum (þar eru Rote Armee Fraktion sennilega frægust).

Í baráttunni gegn raunverulegum og ímynduðum óvinum ríkisins gripu stjórnvöld til æ umfangsmeira eftirlits og upplýsingasöfnunar um borgarana. Sú þróun í tölvutækni sem átti sér stað á svipuðum tíma gerði þeim kleift að beita æ flóknari aðferðum í úrvinnslu á upplýsingum, svo sem með samkeyrslu ólíkra gagnagrunna.

Saturday, August 10, 2013

Kvenréttindakona elur upp karlrembu

Sumarverkefnið, sem ég hef áður minnst á hér, hefur nú leitt mig til Afríku. Í internetleit að áhugaverðum konum til að fjalla um benti google mér á allstóran hóp nígerískra kvenna sem voru áberandi í innanlandspólitík og sjálfstæðisbaráttu Nígeríu um miðja 20. öld. Það nafn sem skilaði bestum fræðilegum leitarniðurstöðum var Funmilayo Ransome-Kuti. Ég velti fyrst smávegis fyrir mér hvort það gæti verið að hún væri nokkuð eitthvað skyld tónlistarmanninum Fela Kuti, upphafsmanni afro-beatsins, en fannst það ólíklegt. Kuti væri líklega eftirnafn á par við Smith eða Hansen. En viti menn, Funmilayo reyndist vera móðir Fela. Þessi fjölskyldutengsl voru ekki síst ástæða þess að ég fann meira efni um hana en t.d. Margaret Ekpo eða Elizabeth Adekogbe.

Þeir sem hafa skrifað um Funmilayo eiga yfirleitt í nokkrum vandræðum með það hvaða nafni eigi að kalla hana. Við fæðingu, árið 1900, var henni gefið nafnið Frances Abigail Olufunmilayo, og hún bar eftirnafnið Thomas. Eftir að hafa stundað framhaldsnám í Bretlandi skerptist á andstöðu hennar við nýlendustefnu, og þegar hún sneri heim til Nígeríu árið 1922 hafði hún sleppt fyrstu nöfnunum tveimur og kallaðist einfaldlega Funmilayo Thomas. Árið 1925 gifti hún sig og tók upp eftirnafn eiginmanns síns, Ransome-Kuti, og flestir fjalla um hana undir því nafni. Á áttræðisaldri losaði hún sig hins vegar við síðustu bresku áhrifin í nafni sínu og tók upp ættarnafnið Anikulapo-Kuti, eftir fordæmi sonar síns, Fela. 

Thursday, August 8, 2013

Í upphafi var vond þýðing og hún er þar enn

Margir lesendur ættu að muna eftir deilunum sem sköpuðust í kring um nýju biblíuþýðinguna á íslensku sem kom út árið 2007 (að því er ég held) og sáu þar hvernig afar smávægilegar breytingar á hinu heilaga orði gátu komið mörgum nokkuð úr jafnvægi, jafnvel á okkar trúlausu tímum. En mest sjokkerandi þýðingarbreytingarnar á biblíunni í sögu kristninnar komu undir lok miðalda og voru gerðar af ólíkindatólinu og Hollendingnum Desiderius Erasmus - breytingar sem myndu væntanlega enn valda hneykslan í dag, væri þeim fylgt eftir.

Grallaraspóinn atarna.
Árið 1519 gaf Erasmus út nýja, krítíska útgáfu af Nýja testamentinu. Hann var í fararbroddi fyrir endurreisn grískumenntunar í Evrópu á þeim tíma, og sú menntun gerði honum kleift að skoða biblíuna með gagnrýnni augum en áður hafði verið gert (Erasmus var enginn trúleysingi, skal tekið fram - hann var harður kaþólikki). Í allri Evrópu á þessum tíma var biblían lesin á latínu, í útgáfunni sem kallaðist vúlgatan (versio vulgata). Þessi latneska þýðing gríska og hebreska frumtextans var sögð hafa verið skrifuð af dýrlingnum Híerónýmusi, og fékk þannig ákveðna guðdómlega vigt; vúlgatan var því allstaðar notuð og var eina útgáfan af orði guðs sem fólk þekkti. Latína var almennt séð sem tungumál guðs.

Sunday, August 4, 2013

Ljósbláa lesbíubókmenntagabbið um Bilitis og óvænt áhrif þess

Ég hef verið hugmyndalaus undanfarið og ætla því að rekja ákveðinn þráð sem ég annars rakti (á hálfgerðu hundavaði) í BA-ritgerðinni minni. Ritgerðin fjallar um viðtökusögu grísku skáldkonunnar Saffóar frá Lesbos, en sökum Saffóar eru lesbíur kallaðar lesbíur (lesbia á grísku þýðir einfaldlega "kona frá Lesbos", og er þar vísað í Saffó.) Saffó skrifaði sem sagt hómóerótísk kvæði til kvenna, en geymd kvæðanna er afar slæm og brotakennd og er því hægt að lesa í eyðurnar í höfundaverkinu með ýmsum hætti, bæði til þess að gera hana að kynlausri veru, heiðvirðri, giftri og gagnkynhneigðri konu, eða jafnvel að fantasíulesbíu. Ég ætla hér að taka dæmi um hið síðastnefnda.

Síðla á 18. öld í Frakklandi var farið að bera á umfjöllun um annars afskaplega tabú umræðuefni, samkynhneigð kvenna. Yfirleitt var fjallað um efnið í tengslum við Saffó, sem léði því ákveðna fjarlægð og ákveðinn menningarlegan anda. Til dæmis kom út klámbæklingur árið 1793 (eða "á öðru ári Franska lýðveldisins" eins og það er orðað) sem hét "Hin nýja Saffó, eða saga andkarlsafnaðarins" (La nouvelle Sapho, ou histoire de la secte anandryne). Þar segir frá ungri franskri sveitastúlku sem er tekin inn í ógnvænlegan lesbíusöfnuð í París, sökum þess hve "djöfullegan sníp" hún hefur (un clitoris diabolique!) Eða eins og Madame Furiel, forstöðukona safnaðarins, segir við sveitastúlkuna: "Sjálf Saffó hafði hann ekki fegurri - þú munt verða mín Saffó!"