Wednesday, December 25, 2013

Leifar samtímans

Það er langt síðan ég hef orðið jafn spennt yfir viðfangsefni námskeiðs og í efnismenningarnámskeiðinu sem ég sat í haust, þegar við tókum fyrir ruslið. Meðal annars lásum við þriðja kafla úr klassíkinni Rubbish! The Archaeology of Garbage eftir William Rathje og Cullen Murphy, en þar fjalla þeir um ruslverkefnið sem samtímafornleifafræðingar (eða heita þeir kannski samtímaleifafræðingar?) hleyptu af stokkunum í Tucson, Arizona upp úr 1970 og hefur getið af sér heila fræðigrein, ruslfræðina (e. garbology).

Fornleifafræðingar hafa auðvitað starfað lengi á vettvangi ruslsins, grafið í gamla ruslahauga og dregið af því sem þeir fundu þar ýmsar ályktanir um efnismenningu fornra samfélaga. Með tilkomu ruslfræðanna byrjuðu fræðimenn hins vegar einnig að skoða ruslafurðir nútímasamfélags. Rathje og Murphy taka sem dæmi rannsóknir John W. Hohmann, sem tók þátt í ruslverkefninu í Arizona í árdaga þess. Hann kortlagði ruslið á opnu svæði við vegarenda í eyðimörkinni skammt utan við Tucson – glerbrot, notaða smokka, nærföt og fleira – og og greindi út frá því hegðun fólks á svæðinu, sem einkenndist af kynlífi og drykkju í bílum.
Skýringarmynd John W. Hohmann á dreifingu rusls á svæðinu þar sem vegurinn endar.
Myndin er á bls. 57 í bók Rathje og Murphy.

Tuesday, November 19, 2013

Hinn aumlegi Sfrantzes, hin aumlega brjóstvörn

Ég er svo heppinn að þótt ég leggi stund á fög sem maður mundi búast við að væru uppskrift að langtímaatvinnuleysi, alkóhólisma og brostnum vonum, þ.e. latínu og grísku, þá hefur mér tekist að fá vinnu við þau sömu fög samfellt undanfarin tvö ár. Ég hef til dæmis verið að vinna hjá Háskólanum í Osló við að fara yfir og setja inn málfræðigreiningu á grískum og latneskum textum inn í þar til gerðan gagnagrunn, sem á svo að nota við málvísindalegar rannsóknir. Þar sem ég er einmitt ekki í málvísindum skil ég engan veginn hvaða gagn blessaður grunnurinn mun gera, en sem betur fer er það óþarfi fyrir vinnuna.

Vinnan snýst sem sagt um að lesa, greina og færa inn á tölvutækt form gögn um forna texta. Mér til lífsviðurværis hef ég því lesið óguðlegt magn af Rannsóknum Heródótosar, hins svokallaða fyrsta sagnfræðings, einhvern Sesar, nokkra biblíukafla og nú upp á síðkastið fremur sjaldlesinn texta - Króníku eftir býzanska embættismanninn Georgios Sfrantzes.

Ástæðan fyrir að sá texti var valinn fyrir gagnagrunninn er merkilegt tungutak hans. Flestir sagnfræðingar Býzanstímans (þ.e. á tímum Austur-rómverska keisaraveldisins) skrifuðu úrelta bókmenntatungu sem var eftirherma af málfari forn-grísku sagnfræðinganna frá því á 5. öld f. Kr. (eins og ég hef skrifað um hér). Sfrantzes skrifar hins vegar frjálsari texta sem líkist að ýmsu leiti nútímagrísku, þótt hann noti líka (oftast ranglega) fornar málfræðikonstrúksjónir. Niðurstaðan er merkileg innsýn inn í lifandi mál þessa tíma, sem annars er illaðgengilegt.

En umfjöllunarefni textans er sömuleiðis merkilegt. Sfrantzes segir frá ævi sinni við býzönsku hirðina og þjónustu sína við keisaraætt Paleológanna (Palaiologoi). Hann sinnti þegar mest lét embætti Fyrsta umsjónarmanns hins keisaralega fataskáps (Protovestiarites). Þetta embætti snerist ekki um það að klæða keisarann í kirtilinn sinn á morgnana heldur um fjármál keisarahallarinnar og um að vera keisaranum innan handar, hvað þá helst í samskiptum hans við erlenda bandamenn sína og við foringja Ottómanaveldisins sem stöðugt ógnuðu því sem eftir var af Býzans.

Umsátrið um Konstantínópel. Þessar gömlu myndir eru alltaf svo skemmtilega lítið dramatískar!

Sunday, November 17, 2013

Töfraheimur íslenskra fræða

Þessa dagana er ég mikið inni á vefnum timarit.is og fletti í gegnum upphafsár íslenskrar fræðiútgáfu. Fyrst fletti ég í gegnum Sögu, tímarit Sögufélags, sem kom fyrst út árið 1949, en þrátt fyrir að þar sé að finna ýmis furðulegheit þá hafði ég nú séð það flest áður í BA-náminu og fátt sem kom í raun á óvart. En, síðan sneri ég mér að Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, og það er nú allt annar handleggur. Árbókin hefur nefnilega komið út frá árinu 1880, hvorki meira né minna. Þetta hlýt ég eiginlega að hafa vitað áður, en ég held ég hafi bara ekki áttað mig á því hvað þetta er merkilegt, fyrr en ég skoðaði Árbókina í samræmi við Sögu. Að vísu á t.d. Skírnir sér enn eldri útgáfusögu, en ég hef ekkert verið að fletta honum enn sem komið er, svo ég læt hann liggja á milli hluta.

Eitt af því sem slær mann við það að lesa elstu árganga Árbókarinnar (og reyndar oft í Sögu líka, ef út í það er farið) er að höfundar greinanna vísa aldrei í neinar eftirheimildir. Það er af því að þær voru ekki til. Það var engin fræðahefð til staðar, ekkert til að bera sig saman við. Kannski var til eitthvað efni erlendis, en hversu auðvelt ætli það hafi verið að kynna sér það? Á þessum tíma stóð ekkert á milli fræðimanns og frumheimildar annað en hans eigin hrifnæmi. Í Árbókinni er íslensk fornleifafræði að taka sín fyrstu skref, ein og óstudd. Það vekur beinlínis hjá manni aðdáun að ráðist hafi verið í stofnun félagsins og metnaðarfulla útgáfu svona snemma. Félagatal fyrstu árbókarinnar er skemmtilegt, fyrst kemur ein blaðsíða með merkum einstaklingum sem hafa splæst í ævilanga áskrift og félagsmennsku. Þar á meðal eru erlendir prófessorar, embættismenn og meðlimir danskrar borgarastéttar á Íslandi, en einnig einn íslenskur bóndi og ein kona, barónessan Astrid Stampe. Þeir sem voru í ársáskrift voru öllu fjölbreyttari, bara í dálkinum A er að finna jafn ólíkar samfélagsstöður eins og umsjónarmaður á Rósenborg, bóndi og jungfrú.

Thursday, October 31, 2013

Dagur kreólasöngsins

Í dag er haldið upp á Dag kreólasöngsins, eða el Día de la Canción Criolla, í Perú. Af því tilefni er upplagt að hlusta á Kanelblómið, lag um límenska rómantík.

Chabuca Granda syngur: Jasmínur í hárinu og rósir í kinnum, Kanelblómið gekk hnarreist og óskammfeilnin skein af henni.

Í öðrum pistli hér á Smjörfjallinu kom ég með þá dularfullu staðhæfingu að með öllu sem maður gerði í Perú, þá væri maður í raun að skipa sér í eitthvert lið, án þess að gera sér grein fyrir því.

Það sem ég meinti með þessu óljósa orðalagi var að perúskt samfélag einkennist af stéttaskiptingu sem er ekkert í líkingu við neitt sem Íslendingur getur ímyndað sér út frá sinni eigin reynslu. Stéttaskiptingin einkennist ekki bara af misskiptingu auðs, heldur líka því sem erfitt er að kalla annað en rasisma. Landfræðilega séð skiptist Perú í þrjá hluta, ströndina, Andesfjöllin og frumskógarsvæðin. Í Andesfjöllunum og á frumskógarsvæðunum býr til dæmis nokkur fjöldi fólks sem talar eitthvert afbrigði af tungumálunum Quechua og Aymara. Ströndin, að höfuðborginni meðtalinni, er hins vegar „evrópskari“, en þar er einnig að finna langflesta þá íbúa sem eru af afrískum eða asískum uppruna.

Tuesday, October 22, 2013

Með löggum skal land byggja

Það var óverjandi skot í stöng...
Mynd: RÚV
Fyrr í dag var athygli mín vakin á bloggfærslu Elínar Hirst alþingiskonu um handtöku Ómars Ragnarssonar, en hann var handtekinn ásamt fleirum í gær við að mótmæla vegaframkvæmdum í Gálgahrauni.

Bloggfærsla Elínar er stutt og hljóðar svo:

„Að Ómar Ragnarsson minn kæri samstarfsmaður til margra ára og föðurlandsvinur yrði handtekinn á Íslandi fyrir að standa fast á skoðun sinni sem umhverfissinni hefði ég aldrei ímyndað mér. Þetta fer ekki vel í mig. Ekki endilega sammála mínum góða vini Ómari en við verðum að leysa málin hér á landi í friði og með rökræðu. Þetta minnir á atburði á Söguöld.“

Fyrirsögnin er: Handtaka Ómars – minnir á söguöld.

Það væri sjálfsagt hægt að orðræðugreina bloggfærslu Elínar í drasl en látum nægja að skoða þessa síðastnefndu samlíkingu hennar, sem sýnir ágætlega hvernig ekki einu sinni handtaka manns með landföðurlega áru Ómars Ragnarssonar megnar að hrista upp í hugmyndum sumra um það rétta og ranga í samfélaginu; hversu stórfenglegir sögulegir loftfimleikar geta orðið.

Söguöld var fyrri hluti þjóðveldisaldar, sem stóð þar til Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd með Gamla sáttmála um 1260. Ég geri ráð fyrir því að með samlíkingu sinni eigi Elín Hirst við að á söguöld hafi hver höndin verið upp á móti annarri og menn ekki viljað leysa málin „í friði og með rökræðu“ – með lögum skal land byggja – en það hefur gjarnan verið álitið einkenni á íslenska þjóðveldinu að þar hafi ekki verið neitt framkvæmdavald, og það hafi átt þátt í að verða því að falli (um það mætti svo skrifa langan pistil sem er utan míns sérsviðs).

Það sem er þversagnakennt við samlíkingu Elínar er að það voru einmitt fulltrúar framkvæmdavalds íslenska ríkisins sem handtóku vin hennar Ómar Ragnarsson. En hvenær höfum við látið þversagnir trufla okkur?

Sunday, October 20, 2013

Listin og heimildin

Í byrjun mánaðar opnaði á Kjarvalsstöðum sýning á ljósmyndum rússneska listamannsins Alexanders Rodchenko, sem vert er að mæla með, en sýningin stendur fram yfir áramót. Ég fór í gær og er að hugsa um að fara aftur sunnudaginn 17. nóvember, þegar Benedikt Hjartarson mun fjalla um verk Rodchenko í samhengi við framúrstefnu í listum á fyrri hluta 20. aldar.

Alexander Rodchenko var semsé ljósmyndari en líka málari, höggmyndasmiður og grafískur hönnuður; ætli flestir kannist ekki við myndina hér að ofan, af listakonunni Lilyu Brik, sem einnig var ástkona Vladímírs Majakovskí. Á sýningunni eru einmitt einnig portrettljósmyndir Rodchenko af Majakovskí, sem og kápur sem hann hannaði fyrir ljóðabækur hans.

Rétt áður en ég fór á sýninguna í gær var ég að blaða í Miðvikudögum í Moskvu eftir Árna Bergmann. Það er fín bók, dálítið skemmtileg að lesa núna því hún kom út árið 1979, á þessum síð-Sovéttíma sem mér finnst maður oft heyra og lesa minna um en róttækasta tímabilið á 3. áratugnum og síðan árin undir Stalín. Í kaflanum sem ég var að fletta í gær er lýsing á sovésku sósíalrealismaþráhyggjunni sem ég fór með inn á sýninguna, en Rodchenko féll um síðir í ónáð hjá sovéskum yfirvöldum eins og svo margir listamenn:

„Það var merkilegt hve miklu púðri var eytt á abstraktlist. Abstraktlist var fjandsamleg því markmiði húmanismans að kanna veruleikann, hún var enn eitt bragð auðvaldsins til að leiða alþýðuna á brott frá skilningi á þjóðfélaginu. Amríkanar stríddu Rússum lævíslega á þessu máli. Þeir prentuðu í tímariti sínu, Ameríka, litmyndir af abstraktlist við hliðina á ljósmyndum sem teknar voru í gegnum smásjár af undraveröld vefja og mólekúla. Sjáið þið bara hve lítill útlitsmunur er á list og vísindalegri heimild! Hver sýnir veruleika efnisins mestan trúnað?“ (145-146)


Monday, October 7, 2013

Skipasmíðar, örbylgjuofnar og kópvogsk saga í útvarpi allra landsmanna

Smjörfjall sögunnar vekur athygli á útvarpsþáttaröðinni Sagan í munnlegri geymd sem flutt verður á Rás 1 í október og nóvember. Þættirnir eru gerðir af meistaranemum í sagnfræði við Háskóla Íslands, þar á meðal undirritaðri, en þar vinnum við með hljóðritað efni sem til er á Miðstöð munnlegrar sögu.

Fyrsti þátturinn er á dagskrá í kvöld kl. 20:30 og ég gef honum mín bestu meðmæli, enda er hann eftir mig. Hann ber yfirskriftina Múlka og stúlkurnar í Reykjavík og er byggður á frásögnum Önnu Klemensdóttur í Laufási af bæjarlífinu í Reykjavík um og upp úr aldamótunum 1900. Ýmislegt kemur þar við sögu, til dæmis úthlutun verðmætra byggingarlóða við Tjarnargötuna, danskir konungar, skemmtiferðir í Öskjuhlíðina og síðast en ekki síst rússneska stúlkan Múlka sem setti svip sinn á lífið í Reykjavík árið 1913.

Hér er listi yfir þættina:

7. október
Kristín Svava Tómasdóttir: Múlka og stúlkurnar í Reykjavík

14. október
Jón Páll Björnsson: Sjósókn frá Landeyjasandi

21. október
Sigurður Högni Sigurðsson: Ris og hnignun íslensks skipasmíðaiðnaðar

28. október
Jón Páll Björnsson: Sjóslys við Vestmannaeyjar 1950

4. nóvember
Stefán Svavarsson: Uppvaxtarár í Kópavogi

11. nóvember
Sigurður Högni Sigurðsson: RARIK og rafvæðing Íslands

18. nóvember
Kristín Svava Tómasdóttir: Örbylgjuofninn kemur til Íslands

Hér verður svo aðgengileg frekari lýsing á hverjum þætti eftir því sem fram vindur.

Friday, October 4, 2013

Barnsfæðing árið 1490

Haustið 2010 fór ég í skiptinám til smábæjarins Alcalá de Henares á Spáni. Dvölin þar var á margan hátt lærdómsrík, ekki síst fyrir þá innsýn sem hún veitti mér í ljótan og niðurdrepandi arkitektúr frá áttunda áratugnum, og þau skelfilegu áhrif sem hann getur haft á sálarlífið. Einnig kom það mér nokkuð á óvart að í samanburði við spænska hugvísindanema, þá eru íslenskir sagnfræðinemar bæði áhugasamir og iðnir. „Hafiði einhverjar spurningar?“ var kennarinn í námskeiðinu Spánn á tímum Francos vanur að spyrja, og þeir nemendur sem höfðu nennt að mæta gláptu upp í hornin á kennslustofunni á glæsilegri, 16. aldar háskólabyggingunni, og höfðu engan áhuga á sögunni sem foreldrar þeirra og afar og ömmur höfðu upplifað á eigin skinni. 

Það var því ekki eingöngu vegna áhuga á kvennasögu sem námskeiðið Konur á miðöldum var í uppáhaldi hjá mér, skráðir nemendur voru ekki nema fimm, og þar af voru þrír þeirra skiptinemar. Þarna upplifði ég líka ástand sem fáir kvenkyns miðaldafræðingar fá tækifæri til að reyna, að 90% viðfangsefnisins séu af sama kyni. Einnig er það óvenjulegt og ánægjulegt fyrir Íslending að námskeið um miðaldir sé prýtt svona miklu af myndefni. Ofan á allt annað bættist það að kennarinn talaði eins og excel-skjal, í skipulegum flokkum og undirflokkum, sem er mjög þægilegt þegar maður þarf að glósa á erlendu tungumáli.

Eitt af því fáa sem mér fannst spænsk sagnfræðikennsla (sem hafði að því er virtist skapað alla þessa penna-nagandi uppvakninga) hafa fram yfir þá íslensku var notkun frumheimilda í kennslu. Flestum námskeiðum fylgdu litlir bæklingar með uppskriftum úr frumheimildum, og nemendur voru svo látnir greina innihaldið í einskonar skýrslu. Ég tók alla frumheimildabæklingana með mér heim, en uppáhalds frumheimildin mín af þeim öllum er lýsing á barnsfæðingu hefðarkonu í Zaragoza undir lok síðmiðalda. Þetta skjal gefur innsýn inn í svo marga ólíka hluti, og á svo súrrealískan hátt, að það á sér engan sinn líka. Því set ég það inn í heild sinni í amatörlegri þýðingu minni. Frumtextinn birtist í bókinni Taller de historia. El oficio que amamos frá árinu 2006. 

Die X Janurii anno M° CCCCLXXXX. Cesarauguste. In Dei nomine. Amen. Sé það öllum ljóst að á eittþúsund-fjögurhundruð-og nítugasta ári frá fæðingu herra vors Jesú Krists, á degi sem taldist tíundi dagur janúarmánaðar, á milli tíundu og elleftu stundar fyrir hádegi, inni í herbergi hvers gluggar vísa að götunni og taka við ljósi, í háum vistarverum, staðsettum innan húsakynna hins mikilfenglega herra Martins Gil de Palomar y de Gurrea, herra yfir Argavieso, staðsettum í sókn heilags Jóhanns del Puent í borginni Zaragoza, en fyrrnefnd húsakynni snúa að húsakynnum Sancho d´Aylala, bóksala, ásamt húsakynnum Martin de Pertusa, og eru opinberlega kölluð la Guchilleria; þar var hin göfuga Ysabel de la Cavalleria, dóttir hins merka og virta herra Alfonso de la Cavalleria og eiginkona hins merka Pedro de Francia, sem er nú látinn, frá Burueta, gangandi um fyrrnefnt herbergi, að gluggunum opnum og kveikt á nokkrum blessuðum kertum, í fylgd tveggja kvenna sem héldu undir handarkrika hennar, kveinkandi sér undan þungun sinni, hún undirbjó sig og vildi fæða.                           

Saturday, September 28, 2013

Tvær breiðfirskar breddur á síðum tímans

Ég var ekki farin að lesa dagblöðin að neinu ráði á síðari hluta 9. áratugarins, og reyndar voru foreldrar mínir sennilega ekki áskrifendur að Tímanum hvort eð er, en ég uppgötvaði nýlega að á þessum árum og eitthvað fram yfir 1990 var fylgirit helgarblaðs Tímans að miklu leyti helgað sögulegum fróðleik. Þar voru ítarlegar greinar um söguleg málefni, atburði og persónur, gjarnan í dramatískum stíl með æsilegum millifyrirsögnum. Oft fylgdu greinunum myndskreytingar, og þá stundum eins konar skopmyndir eftir teiknara Tímans.

Með frekar stuttu millibili fann ég í þessu fylgiriti Tímans umfjöllun um tvær breiðfirskar konur fyrri alda, sem fá sínar skopmyndir og millifyrirsagnir óþvegnar. Þær voru reyndar ekki bara báðar breiðfirskar heldur voru þær báðar af hinni miklu höfðingjaætt sem kennd er við Skarð á Skarðsströnd; þær Ólöf ríka Loftsdóttir og Guðrún Eggertsdóttir eldri.

Hin syndgandi kona
15. aldar konan Ólöf ríka er líklega öllu frægari persóna. Hún er einna kunnust fyrir þá yfirlýsingu sína að ekki skuli „gráta Björn bónda, heldur safna liði“, eftir að maður hennar, Björn Þorleifsson, hafði verið drepinn af Englendingum. Ólöf var umsvifamikil athafnakona og landeigandi og af henni ganga ýmsar sögur, en það voru meint skriftamál hennar sem Tíminn fjallaði um í apríl 1988.

Skriftamálin sem eignuð voru Ólöfu ríku virðast við fyrstu sýn vera skriftir konu fyrir presti sínum. Þær snúast mjög um ýmsar kynferðislegar syndir sem konan játar á sig, þótt þær komi manni nú ekki mjög pervertískt fyrir sjónir í dag: sjálfsfróun, samfarir á hlið og kynlíf meðan á blæðingum stendur, en þetta þótti kirkjunnar mönnum allt afskaplega ónáttúrulegt.

Thursday, September 12, 2013

Aristóteles og þrælarnir í ár og síð

Það stefnir í að verða almennt þema í mínum Smjörfjallsskrifum að fjalla um hin furðulega lífsseigu áhrif eldgamra Grikkja á gang sögunnar, langt utan þess mikilvægis sem þeim ætti að vera gefið. Eitt dæmi sprettur upp úr einni af merkilegri en jafnframt minna þekktum kennisetningum Aristótelesar, þ.e. kenningu hans um eðlilegt þrælahald.

Þessi kennisetning birtist í Stjórnspeki (Politika) Aristótelesar, sem fjallar um hvernig borgríkinu fer best að vera byggt upp, allt frá sínum smæstu einingum í sínar stærstu. Um þetta málefni voru afar deildar skoðanir á 4. öld f. Kr., þegar ritið er skrifað, til dæmis um réttmæti þeirrar stofnunar sem hélt öllu borgríkinu uppi - þrælahaldsins.

Efasemdirnar um þrælahald eru gjarnar raktar til hinna svokölluðu sófista. Þeir voru farandkennarar sem lögðu mikla áherslu á ræðulist og það að snúa viðteknum sannindum á haus með rökum. Ein frægasta sófistakennisetningin er sú að flest það sem telst eðlilegt og sjálfsagt sé raunar ekkert nema merkingarlausar mannasetningar sem fólk eigi að losa sig undan. Til dæmis um þetta tóku þeir þrældóminn; þræll í hlutverki húsbónda myndi haga sér eins og húsbóndinn áður, og öfugt; það væri hending ein sem réði því hver væri sá efsti í samfélaginu og hver sá lægsti.

Sögulegir atburðir ýttu sömuleiðis undir þessar vangaveltur. Máttur Spörtu hafði hvað helst byggt á hryllilegri kúgun þeirra á þarlendri þrælastétt, sem þeir kölluðu Helóta. Helótarnir komu að miklu leyti frá Messenu, borgríki nálægt Spörtu sem Spartverjar höfðu sigrað fyrir löngu; að því gerðu þrælkuðu þeir íbúana og ræktuðu þá síðan upp sem endurnýjanlegan þrælastofn (Hitler, eins og frægt var, sótti mikinn innblástur til Spörtu.) En árið 371 f. Kr. töpuðu Spartverjar orrustunni við Levktra fyrir Þebverjum og hervald þeirra var brotið harkalega á bak aftur. Helótarnir nýttu sér þetta, flúðu og stofnsettu nýja, frjálsa Messenu. Í stjórnarskrá borgarinnar stóð: Guð veitti öllum mönnum að vera frjálsir, eðlið hefur engan gert að þræl.

Wednesday, September 11, 2013

Íslenski kúrinn

Í dag er enginn maður með mönnum nema vera á hörðu lágkolvetnamataræði. Hluti þeirra sem aðhyllast mataræði með lágu eða engu kolvetnainnihaldi gerir það á sögulegum forsendum og fylgir hinu svokallaða paleo-mataræði, sem kennt er við steinöldina, áður en mennirnir byrjuðu að stunda jarðyrkju. Smjörfjallið fagnar að sjálfsögðu hinum sögulega vinkli í mataræði sem öðru og stingur upp á nýrri lausn fyrir fólk í leit að kolvetnalausum lífsstíl: hið íslenska nýaldarmataræði. Það mætti jafnframt gauka þessu að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, sem eins og kunnugt er hefur sérstaka ástríðu fyrir þjóðlegri, íslenskri matargerðarlist.

Ísland skar sig mjög úr hópi Evrópuþjóða hvað varðar mataræði á nýöld. Franski sagnfræðingurinn Fernand Braudel lýsti mataræði evrópskrar alþýðu fyrir iðnbyltingu svo að það hefði gengið út á „brauð, meira brauð og graut“, þótt þetta hafi verið forkapítalískur grautur en ekki þessi hér:



Íslenski sagnfræðingurinn Guðmundur Jónsson lýsir mataræði Íslendinga hins vegar þannig að það hafi einkennst af „mjólk, meiri mjólk og fiski“. Íslendingar neyttu mjög lítils kornmetis en lifðu að langmestu leyti á dýraafurðum, og átti það sér varla hliðstæðu í Evrópu nema hjá inúítum á Grænlandi, hirðingjum í Lapplandi og strandsamfélögum nyrst í Evrópu. Kartaflan varð ekki sú undirstöðufæða á Íslandi sem hún var annars staðar í Evrópu; framsæknir bændur voru farnir að rækta kartöflur á 18. öld en Íslendingar fóru ekki að borða þær að ráði fyrr en um miðja 19. öld.

Monday, September 2, 2013

Fólkið sem kvikfjártalið gleypti

Fyrir tveimur mánuðum skrifaði ég hér um manntalið 1703, ljóðræna vídd þess að gera tilraun til að skrá alla einstaklinga í samfélagi – og angist mína við tilhugsunina um fólkið sem gæti hafa gleymst. Ég nefndi Viðey sem dæmi, en í varðveittu handriti manntalsins er enginn skráður þar til heimilis. Það er örugglega rangt, enda var Viðey löngum höfðingjasetur. Helgi Skúli Kjartansson hefur fjallað sérstaklega um þessa týndu íbúa Viðeyjar og hvar þeir gætu hafa lent í afmælisriti manntalsins, Manntalið 1703 þrjú hundruð ára.

Þegar ég talaði um fólkið sem gleymdist var ég líka að hugsa um annað dæmi sem mig rámaði í en gat ekki flett upp, verandi í útlandinu, og fann ekki á netinu – en rakst svo á þegar ég var að fletta þjóðdeildareintakinu af manntalinu 1703 á Þjóðarbókhlöðunni í síðustu viku. Aftan við Trékyllishrepp á Ströndum hefur verið skeytt aukablaðsíðu, undirritaðri af Bjarna Vilhjálmssyni þjóðskjalaverði, með nöfnum níu einstaklinga, auk tveggja ónefndra barna, sem voru til húsa hjá Sveini Jónssyni bónda í Ófeigsfirði þegar manntal var tekið þar síðasta laugardag fyrir páska árið 1703.

„Miðinn úr Trékyllisvík“ fannst á Þjóðskjalasafninu árið 1963 eða 1964, en hann leyndist með kvikfjártalinu sem tekið var á sama tíma. Einstaklingarnir á honum eru því ekki í manntalinu sem prentað var á árunum 1924-1947, en hefur verið skeytt inn í fáein virðulegri eintök af manntalinu. Manneskjurnar á listanum eru ómagar og húsgangsfólk, sem var hvergi heimilisfast en átti að skrá þar sem það dvaldist síðasta laugardag fyrir páska 1703.

Wednesday, August 28, 2013

Myndlist í sigruðu landi

Að loknu stúdentsprófi á því herrans ári 2007 fór ég til Perú. Það var mikil ferð þar sem ég aflaði mér til dæmis þeirrar ómissandi kunnáttu að bera hratt og vel fram martraðarkennd andísk örnefni. Ég dvaldist nær eingöngu í borginni Cuzco, sem ég stafset einnig sem Cusco, af því að ég hreinlega get ekki munað hvort er réttara. Perú er land þar sem maður er alltaf að skipa sér í einhver ósýnileg lið með öllu sem maður gerir, og stafsetning þessarar borgar er ekki undanskilin. Enskumælandi fólk skrifar oftast Cusco með s-i, en Spánverjar Cuzco með z-u, svo maður myndi halda að það síðastnefnda væri réttara. Fólk í Perú hefur hins vegar stökustu óbeit á því hvernig Spánverjar stafa og bera fram spænsku. Það sleppur kannski að skrifa borgarheitið með z-u, en hjálpi þeim sem ferðamanni sem ætlar að gera sig breiðan og bera z-una fram sem þ-onn. Mig minnir að borgin heiti formlega Cusco, en sé af einhverjum ástæðum í Cuzco-héraði, og þar hafiði það.

Kúskó (hoho) var höfuðborg Inkanna á 16. öld, en þegar þeir voru í miðjum klíðum við að leggja undir sig nágranna sína á allar hliðar réðust Spánverjar inn í ríki þeirra. Þeir eyðilögðu flest sem þeir sáu, en sem betur fer reistu þeir strandborgina Lima og gerðu að höfuðborg, svo enn eru einhverjar rústir í Cusco. Qusqu (enn ein stafsetningin) er borg sem er hlaðin tveimur dómkirkjum. Raunin er sú að eingöngu önnur kirkjan er dómkirkja, hin er minnismerki um brjálæðislega sýniþörf jesúíta seint á 16. öld. Jesúítarnir hófu framkvæmdir örfáum árum eftir að biskupinn tók að byggja dómkirkjuna, og létu sig engu skipta þó hann klagaði þá í páfann. Þeir sáu ekki einu sinni sóma sinn í því að hafa sína kirkju hinum megin við aðaltorgið, heldur stendur hún skáhallt á móti dómkirkjunni. Auk þess virðast kirkjurnar ganga undir svona 3-4 mismunandi nöfnum hvor, og ekki margir 19 ára ferðamenn sem geta lagt allt þetta á minnið til frambúðar. Ég man því ekkert í hvorri kirkjunni myndlistin sem ég ætla að segja frá er, en þið getið athugað það ef þið eigið leið hjá, eða hafið meiri google-þolinmæði en ég. 

Jesúítabrjálæðið. Mynd tekin af hinni töluvert smekklausu vefsíðu sacred destinations.

Tuesday, August 27, 2013

Byggðasafn í Brooklyn

Eitt sinn þóttu mér íslensk byggðasöfn frámunalega leiðinlegir staðir, óskipulögð og yfirfull og ekkert að sjá nema yfirlætislítið drasl í sauðalitunum, alls staðar eins; í löngum bunum kambar, ljáir, askar, sauðskinnsskór og útsaumsmyndir úr mannshári. Ég veit ekki hvort námið hefur gert mig svona póstmóderníska en ég er farin að kunna betur að meta kaotískt yfirbragð hins hefðbundna byggðasafns.

Á dögunum heimsótti ég bandarískt byggðasafn sem minnti mig í mörgu á byggðasöfn æsku minnar, nema hvað ég er mun spenntari fyrir erlendri borgarsögu en amboðum úr íslenskri sveit. Safnið er staðsett í Williamsburg-hverfinu í Brooklyn í New York og heitir The City Reliquary. Það er, eins og afgreiðslukonan orðaði það, „safn hinnar gleymdu sögu New York“.

Tuesday, August 20, 2013

Andóf gegn manntölum II: Herskátt lýðræði og rökkursvæði í Vestur-Þýskalandi

Hið veika Weimar með augum George Grosz
Fyrir skömmu skrifaði ég grein um það þegar súffragettur andæfðu manntalinu í Bretlandi 1911 og skemmtu sér á hjólaskautum alla nóttina í staðinn. Súffragettur sniðgengu manntalið til að vekja athygli á tvískinnungi í afstöðu stjórnvalda til kvenna, en þær voru ekki á móti manntalinu í sjálfu sér.

Sjötíu árum síðar andæfðu Vestur-Þjóðverjar þarlendu manntali. Mótmælunum í Vestur-Þýskalandi árið 1983 og 1987 var beint gegn sjálfri manntalsskráningunni, þótt þau snerust að vissu leyti einnig um samskipti stjórnvalda og borgaranna.

Breski fræðimaðurinn Matthew Hannah skrifaði fína bók um vesturþýsku manntalsmótmælin fyrir nokkrum árum, Dark Territory in the Information Age. Hannah setur mótmælin í samhengi við hugmyndafræðilega þróun vesturþýska ríkisins eftir seinni heimsstyrjöldina, en stjórnarskráin sem gerð var fyrir Vestur-Þýskaland árið 1949 og stefna ráðamanna eftir stríð var mótuð af reynslunni milli stríða. Það var litið svo á að veikleikar Weimar-lýðveldisins hefðu gert nasistum kleift að notfæra sér verkfæri lýðræðisins til þess að taka völdin. Vesturþýsk stjórnvöld iðkuðu því það sem Hannah kallar „herskátt lýðræði“; lögðu áherslu á styrk ríkisstofnana en síður á pólitíska tjáningu fólksins.

Vesturþýskir ráðamenn voru þvert á móti mjög tortryggnir á þann breiða skala andófshreyfinga sem þreifst í Vestur-Þýskalandi á 7. og 8. áratugnum, svo sem friðarhreyfingar, umhverfisverndarsinna og femínista, en hluti þeirra beitti ofbeldisfullum aðgerðum (þar eru Rote Armee Fraktion sennilega frægust).

Í baráttunni gegn raunverulegum og ímynduðum óvinum ríkisins gripu stjórnvöld til æ umfangsmeira eftirlits og upplýsingasöfnunar um borgarana. Sú þróun í tölvutækni sem átti sér stað á svipuðum tíma gerði þeim kleift að beita æ flóknari aðferðum í úrvinnslu á upplýsingum, svo sem með samkeyrslu ólíkra gagnagrunna.

Saturday, August 10, 2013

Kvenréttindakona elur upp karlrembu

Sumarverkefnið, sem ég hef áður minnst á hér, hefur nú leitt mig til Afríku. Í internetleit að áhugaverðum konum til að fjalla um benti google mér á allstóran hóp nígerískra kvenna sem voru áberandi í innanlandspólitík og sjálfstæðisbaráttu Nígeríu um miðja 20. öld. Það nafn sem skilaði bestum fræðilegum leitarniðurstöðum var Funmilayo Ransome-Kuti. Ég velti fyrst smávegis fyrir mér hvort það gæti verið að hún væri nokkuð eitthvað skyld tónlistarmanninum Fela Kuti, upphafsmanni afro-beatsins, en fannst það ólíklegt. Kuti væri líklega eftirnafn á par við Smith eða Hansen. En viti menn, Funmilayo reyndist vera móðir Fela. Þessi fjölskyldutengsl voru ekki síst ástæða þess að ég fann meira efni um hana en t.d. Margaret Ekpo eða Elizabeth Adekogbe.

Þeir sem hafa skrifað um Funmilayo eiga yfirleitt í nokkrum vandræðum með það hvaða nafni eigi að kalla hana. Við fæðingu, árið 1900, var henni gefið nafnið Frances Abigail Olufunmilayo, og hún bar eftirnafnið Thomas. Eftir að hafa stundað framhaldsnám í Bretlandi skerptist á andstöðu hennar við nýlendustefnu, og þegar hún sneri heim til Nígeríu árið 1922 hafði hún sleppt fyrstu nöfnunum tveimur og kallaðist einfaldlega Funmilayo Thomas. Árið 1925 gifti hún sig og tók upp eftirnafn eiginmanns síns, Ransome-Kuti, og flestir fjalla um hana undir því nafni. Á áttræðisaldri losaði hún sig hins vegar við síðustu bresku áhrifin í nafni sínu og tók upp ættarnafnið Anikulapo-Kuti, eftir fordæmi sonar síns, Fela. 

Thursday, August 8, 2013

Í upphafi var vond þýðing og hún er þar enn

Margir lesendur ættu að muna eftir deilunum sem sköpuðust í kring um nýju biblíuþýðinguna á íslensku sem kom út árið 2007 (að því er ég held) og sáu þar hvernig afar smávægilegar breytingar á hinu heilaga orði gátu komið mörgum nokkuð úr jafnvægi, jafnvel á okkar trúlausu tímum. En mest sjokkerandi þýðingarbreytingarnar á biblíunni í sögu kristninnar komu undir lok miðalda og voru gerðar af ólíkindatólinu og Hollendingnum Desiderius Erasmus - breytingar sem myndu væntanlega enn valda hneykslan í dag, væri þeim fylgt eftir.

Grallaraspóinn atarna.
Árið 1519 gaf Erasmus út nýja, krítíska útgáfu af Nýja testamentinu. Hann var í fararbroddi fyrir endurreisn grískumenntunar í Evrópu á þeim tíma, og sú menntun gerði honum kleift að skoða biblíuna með gagnrýnni augum en áður hafði verið gert (Erasmus var enginn trúleysingi, skal tekið fram - hann var harður kaþólikki). Í allri Evrópu á þessum tíma var biblían lesin á latínu, í útgáfunni sem kallaðist vúlgatan (versio vulgata). Þessi latneska þýðing gríska og hebreska frumtextans var sögð hafa verið skrifuð af dýrlingnum Híerónýmusi, og fékk þannig ákveðna guðdómlega vigt; vúlgatan var því allstaðar notuð og var eina útgáfan af orði guðs sem fólk þekkti. Latína var almennt séð sem tungumál guðs.

Sunday, August 4, 2013

Ljósbláa lesbíubókmenntagabbið um Bilitis og óvænt áhrif þess

Ég hef verið hugmyndalaus undanfarið og ætla því að rekja ákveðinn þráð sem ég annars rakti (á hálfgerðu hundavaði) í BA-ritgerðinni minni. Ritgerðin fjallar um viðtökusögu grísku skáldkonunnar Saffóar frá Lesbos, en sökum Saffóar eru lesbíur kallaðar lesbíur (lesbia á grísku þýðir einfaldlega "kona frá Lesbos", og er þar vísað í Saffó.) Saffó skrifaði sem sagt hómóerótísk kvæði til kvenna, en geymd kvæðanna er afar slæm og brotakennd og er því hægt að lesa í eyðurnar í höfundaverkinu með ýmsum hætti, bæði til þess að gera hana að kynlausri veru, heiðvirðri, giftri og gagnkynhneigðri konu, eða jafnvel að fantasíulesbíu. Ég ætla hér að taka dæmi um hið síðastnefnda.

Síðla á 18. öld í Frakklandi var farið að bera á umfjöllun um annars afskaplega tabú umræðuefni, samkynhneigð kvenna. Yfirleitt var fjallað um efnið í tengslum við Saffó, sem léði því ákveðna fjarlægð og ákveðinn menningarlegan anda. Til dæmis kom út klámbæklingur árið 1793 (eða "á öðru ári Franska lýðveldisins" eins og það er orðað) sem hét "Hin nýja Saffó, eða saga andkarlsafnaðarins" (La nouvelle Sapho, ou histoire de la secte anandryne). Þar segir frá ungri franskri sveitastúlku sem er tekin inn í ógnvænlegan lesbíusöfnuð í París, sökum þess hve "djöfullegan sníp" hún hefur (un clitoris diabolique!) Eða eins og Madame Furiel, forstöðukona safnaðarins, segir við sveitastúlkuna: "Sjálf Saffó hafði hann ekki fegurri - þú munt verða mín Saffó!"

Monday, July 29, 2013

Go easy on Schnaps

Ég rakst á frábæra litla bók um helgina, Instructions for British Servicemen in Germany 1944. Um er að ræða útgáfu The Bodleian Library á leiðbeiningum sem breska utanríkisráðuneytið gaf út árið 1944 fyrir breska hermenn á leið til Þýskalands. Í bókinni – sem hefur væntanlega verið einhvers konar bæklingur upphaflega – eru bresku hermennirnir fræddir um þýska landafræði og sögu, grundvallarorðaforða í þýsku og síðast en ekki síst hugarfar og eðli óvinaþjóðarinnar.

Samkvæmt því gamalkunnuga viðhorfi til þýskrar sögu sem birtist í bókinni er árásargirnin Þjóðverjum í blóð borin, sem arfur frá Prússum. Eftir fyrri heimsstyrjöldina sýndu Bretar og bandamenn þeirra hinum sigruðu Þjóðverjum of mikla linkind, en sú mistök megi ekki gera aftur; ef Þjóðverjar fái tækifæri til séu þeir vísir til að stofna til þriðju heimsstyrjaldarinnar. Því er í leiðbeiningunum lögð mikil áhersla á að bresku hermennirnir verði að vera á verði gagnvart Þjóðverjum: „There will be no brutality about a British occupation, but neither will there be softness or sentimentality.“ (6) Stefna Breta á þessum tíma var að banna samgang - eða fraternization - breskra hermanna við Þjóðverja.

Berlín í júlí 1945

Thursday, July 25, 2013

Blekking sjálfsævisögunnar

Síðastliðna viku hef ég, starfs míns vegna, lesið svo mikið sem þrjár sjálfsævisögur. Ég er svo heppin í sumar að hafa fengið styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að vinna að vefsíðu sem á að halda nafni ýmissa kvenna í sögunni á lofti, og er hugsuð með með lesandahópinn 13 ára til níræðs í huga. (Fyrir forvitna, þá mun síðan líta nokkurn veginn svona út þegar hún fer í loftið). Framtíðarplan síðunnar er að fólk víðsvegar að geti sent inn greinar um konur sem það þekkir til, en þar sem síðan er í startholunum þarf ég að glíma við þá áskorun að skrifa um konur frá sem flestum heimsálfum, og helst með ólíkan bakgrunn. Þetta veldur mér töluverðu heimildastappi, því ég verð að finna nógu margar og góðar heimildir til að geta tjáð mig um efnið með sjálfstæðum hætti, annars gæti ég í flestum tilfellum allt eins sett inn link á viðkomandi konu á Wikipediu. Hins vegar mega heimildirnar ekki vera of viðamiklar, því umfjöllunin um hverja konu á helst ekki að vera neitt meira en 900 orð í mesta lagi. Heimildavinnan má heldur ekki taka heila eilífð. En, þetta starf hefur sumsé rekið mig að heimild sem mér hafði með árangursríkum hætti tekist að forðast þau fimm ár sem ég sinnt sagnfræði, hina ógurlegu sjálfsævisögu.

Saturday, July 20, 2013

Nautabanar og bólerósöngvarar í kirkjugarði í Sevilla

Sumir kirkjugarðar eru ekki einungis eftirsóknarverðir vegna almennra huggulegheita sinna heldur verða eins konar pílagrímsstaðir, hafi nógu merkum mönnum verið holað þar niður. Gott dæmi er gröf Jim Morrison í Père Lachaise-kirkjugarðinum í París, þar sem verður reyndar ekki þverfótað fyrir gröfum fræga fólksins. Á síðasta ári héldum við Smjörfjallspennar, ég, Þorsteinn og Ragnhildur, ásamt Guðrúnu Elsu vinkonu okkar í aðeins meira obskúr pílagrímsferð í San Fernando-kirkjugarðinn í Sevilla.

San Fernando-kirkjugarðurinn var stofnaður árið 1852 til að anna greftrunum í hinni ört stækkandi borg. Hann er dálítinn spöl frá miðbænum og það var satt að segja bölvað vesen að komast þangað. Það var þar að auki steikjandi hiti þegar við vorum þar á ferð í júní, sem jók á suðrænan blæ kirkjugarðsins. Hann prýða meðal annars fjölmörg pálmatré, sem samkvæmt hinni alvitru og dramatísku Wikipediu „tákna sigur lífsins, og eilífðina“.

Eins og hæfir andalúsískum kirkjugarði er San Fernando-garðurinn fullur af nautabönum og flamencolistamönnum. Nautabanarnir, þær miklu þjóðhetjur, hafa fengið sérstaklega glæsileg minnismerki. Það var bannað að taka myndir í garðinum og minnismerki nautabananna voru svo nálægt aðalhliðinu að ég þorði ekki að óhlýðnast banninu þar, en fann myndir af þeim á netinu:

Í þessu dramatíska grafhýsi hvílir nautabaninn Joselito (1895-1920),
sem lést eftir að hafa særst í hringnum

Tuesday, July 16, 2013

Andóf gegn manntölum I: Súffragettur á hjólaskautum

Hér ku Davíð vera að skipa fyrir um hið stórhættulega
manntal, sem kom aldeilis í bakið á honum
Fyrstu tillögur um allsherjarmanntal í Bretlandi voru lagðar fram um miðja 18. öld og vöktu miklar deilur á breska þinginu. Þingmaðurinn William Thornton var einn heitasti andstæðingur allsherjarmanntalsins, en hann taldi slíka manntalsskráningu ríkisins ganga gegn hefðbundnum frelsishugsjónum Breta og vera til marks um einræðistilburði stjórnvalda; raunverulegt markmið þeirra væri að „molest and perplex every single family in the Kingdom merely to set a beggar to work, or determine any questions in political arithmetic“. Hann kvaðst sjálfur myndu neita skráningarmönnum um upplýsingar um sig og fjölskyldu sína, eða flytja úr landi, ef manntalið fengi fram að ganga. Thornton sagðist þess fullviss að manntalsskráning af þessu tagi byði heim hættunni á félagslegum óróleika og jafnvel uppreisn, og vísaði þar til meints ótta almennings við guðlega refsingu, en í Biblíunni segir frá því hvernig Satan æsti Davíð til að telja Ísarelsmenn og Guð refsaði honum með því að senda plágu yfir Ísrael.

Thornton og fylgjendur hans höfðu betur í manntalsdeilunni það sinnið. Áhugamenn um lýðfræði urðu að láta sér nægja að gera sjálfstæðar tilraunir með manntalsskráningu í smáum stíl á síðari hluta 18. aldar, meðal annars í tengslum við deilur um mannfjöldaþróun í landinu. Stjörnufræðingurinn og stærðfræðingurinn William Wales virkjaði til dæmis vini sína og kunningja víða um land til að safna fyrir sig upplýsingum með til þess gerða spurningalista að vopni, en hann var sannfærður um að nákvæmar upplýsingar fengjust ekki nema aðilar sem hefðu engin tengsl við skattkerfið sæju um öflun þeirra. Það gekk þó ekki alltaf farsællega að sannfæra almenning um að skattþörf ríkisins væri ekki á bak við allt saman og Wales og vinir hans mættu barsmíðum og hótunum, enda gafst hann upp á endanum og notaðist við upplýsingar úr kirkjubókum í staðinn.

Saturday, July 13, 2013

Tveir kirkjugarðar í Lissabon

Fáir staðir veita manni jafn rómantíska tilfinningu fyrir hverfulleikanum og kirkjugarðar, enda fullir af dánu fólki. Ég er mikil kirkjugarðamanneskja og finnst afar notalegt að ganga þar um, skoða minnismerki og lesa á legsteina, og mér þykir liggja beint við að innlima umfjöllun um kirkjugarða, þá miklu minningastaði, í þessa bloggsíðu um fortíðina. (Við það tækifæri vil ég vekja sérstaka athygli á tenglinum hér til hægri inn á heimasíðu Bautasteins, tímarits Kirkjugarðasambands Íslands. Tímaritið er helgað kirkjugörðum, kemur út einu sinni á ári og er aðgengilegt á netinu.) Undanfarin ár hef ég markvisst heimsótt kirkjugarða á ferðum mínum erlendis (ég er mikil heimsmanneskja) og hef jafnvel sigrast á blygðunarkenndinni og byrjað að taka þar ljósmyndir.

Á síðasta ári heimsótti ég fáeina kirkjugarða á Íberíuskaganum, þar af tvo í Lissabon: Prazeres-kirkjugarðinn og Alto de São João-kirkjugarðinn. Sennilega leggja fleiri ferðamenn leið sína í Prazeres-garðinn enda er hann mjög aðgengilegur frá miðbænum (hinn mikli túristasporvagn númer 28 á endastöð sína hjá garðinum) og fullkomlega verðugur áfangastaður eigi maður leið um borgina.

Prazeres-kirkjugarðurinn var stofnaður í kjölfar kólerufaralds á fyrri hluta 19. aldar og er stærsti kirkjugarður í Lissabon. Hann er vandlega skipulagður, með steyptum gangstígum og breiðgötum, og grafhýsi af öllum stærðum og gerðum setja mark sitt á hann. Samkvæmt heimasíðu borgarstjórnarinnar í Lissabon voru „glæsilegustu íbúðarhúsin í Lissabon flest staðsett í þessum hluta borgarinnar og því eru margir af merkustu mönnum samtímasögu okkar grafnir í þessum kirkjugarði“.

Fallegt útsýni og snyrtilegar götur í Prazeres-garðinum

Thursday, July 11, 2013

Sagnir 2013



Nú í júní síðastliðnum tókst að lokum, með miklu grettistaki, að gefa út tímarit sagnfræðinema, Sagnir. Tímaritið kom síðast út árið 2009 og því má segja að eftirvæntingin eftir nýjasta árgangnum hafi verið blandin hálfgerðri örvæntingu. Það er ekkert annað en frábært að blaðið skuli loks vera komið út. Ég held að sagnfræðin sé eina námsgreinin sem býr svo vel að hafa hefð fyrir því að gefa út rannsóknir nemenda. Ég hefði því orðið ósegjanlega skúffuð ef ég og nemendur mér samferða hefðu misst af þessu tækifæri til að gera rannsóknir okkar aðgengilegri. Því stundum er maður einfaldlega mjög ánægður með einhverja námsritgerðina og þá er það frekar leiðinleg tilhugsun að enginn lesi hana nema kennarinn. Í raun og veru er svona útgáfa grundvallarmál, ef við lítum svo á að það starf sem fer fram innan háskólans hafi einhverja víðari skírskotun.

Tuesday, July 9, 2013

Hvernig vinna skal skýþverskt hryssusmjör

Ég þakka Eiríki Gauta stjörnukommentara Smjörfjallsins fyrir þá ábendingu að eftirfarandi kafli úr Rannsóknum forn-gríska sagnfræðingsins Heródótosar ætti sannarlega heima á síðunni - hann hefur allt: Blindun þræla, uppblásin kynfæri og síðast en ekki síst - smjör! Hér er fróðleiksmoli um hina fjarlægu Skýþaþjóð, sem bjuggu þar sem nú er Úkraína og S-Rússland:

Þetta er léttáfengur hryssumjólkurdrykkur að nafni
Kúmys sem er drukkinn á steppum Mið-Asíu.
4.2. En Skýþar blinda alla þræla sína vegna mjólkurinnar sem þeir drekka [væntanlega til að koma í veg fyrir að þrælarnir steli mjólkinni], og þeir fá hana á þennan hátt. Þeir taka hol bein sem líkjast mest flautum, setja þau inn í kynfæri hryssanna og blása í þær með munninum, á meðan aðrir mjólka. Þeir segjast gera þetta af þessari ástæðu: Æðar hryssurnar blási upp og fyllist og júgrin sígi þá niður. Þegar þeir hafa mjólkað, þá hella þeir mjólkinni í hol viðargímöld, raða blindum þrælunum upp í kring um þau og [láta þá] hrista mjólkina. Þeim þykir það sem situr efst vera verðmætast [þ.e. smjörið], en það sem liggur undir [þ.e. áfirnar] öllu síðra hinu. Vegna þessa blinda Skýþar alla sem þeir grípa höndum. Því þeir eru ekki bændur heldur hirðingjar.

Saturday, July 6, 2013

Hark! A vagrant!


Eitt af því sem mér finnst skemmtilegast að skoða á netinu eru síður með teiknimyndasögum. Sögurnar eru yfirleitt býsna stuttar og það tekur svo lítinn tíma að skoða þær að maður hefur alltaf afsökun fyrir að smella á random takkann og skoða eina í viðbót. Með þessum hætti næ ég að fresta nauðsynlegum hlutum heilu og hálfu dagana með ágætum árangri. Ein af þessum síðum er Hark! A vagrant, sem höfðar sérstaklega til mín af þeirri ástæðu að hún fjallar að mestu um sagnfræði. Höfundur síðunnar, Kate Beaton, er kanadísk og kláraði gráðu í sagnfræði og mannfræði frá Mount Allison University. Það er að vísu ekki mikið um mannfræðilegar skopmyndir á síðunni, en hún teiknar hins vegar býsna mikið af efni sem tengist sígildum bókmenntum eins og Vesalingunum eða The Great Gatsby.

Ég myndi ekki kalla teiknimyndirnar fræðandi, því yfirleitt verður maður að þekkja hinn sögulega bakgrunn til að fatta brandarann. Ef þú hefur t.d. ekki lesið Önnu í Grænuhlíð þá er ólíklegt að þér þyki þessi teiknimyndasaga um Hinrik 8. skemmtileg. Sagnfræðimenntun okkar tveggja skarast í raun og veru merkilega lítið, til að mynda botna ég ekkert í bröndurum hennar um sögu kanadískra stjórnmála, og mér þykja þeir fáu miðaldabrandarar sem á síðunni eru ekki skrifaðir af miklu innsæi. En jafnvel þótt ég þekki ekki bakgrunn einhverrar sögunnar eða finnist brandarinn ekkert fyndinn, þá hef ég alltaf einhverja lúmska ánægju af því að skoða síðuna. Kate Beaton virðist bara vera svo vingjarnleg og viðkunnaleg manneskja, auk þess sem það er alltaf einhver góðlegur kjánaskapur í teikningunum hennar og textanum. Hver gæti svo sem staðist frasann: dude watchin' with the Brontës?

Ég hvet því eindregið þá sem ekki þekkja til síðunnar til að kíkja á hana, hún hefur verið uppi frá árinu 2006, svo það er hægt að ýta býsna lengi á random takkann.

Friday, July 5, 2013

Upplýsingaskilti, göngustígar, tómur kirkjugarður

Fyrr í vetur las ég og bloggaði um Söguna af klaustrinu á Skriðu eftir Steinunni Kristjánsdóttur fornleifafræðing, mér til töluverðrar ánægju. Þegar ég átti leið um Austfirði í sumarbyrjun vildi ég endilega fara á Skriðuklaustur, en uppgreftrinum þar er nú lokið og búið að ganga frá uppgraftarsvæðinu fyrir áhugasama gesti, setja upp upplýsingaskilti og leggja göngustíga. Það var mjög gaman að heimsækja Skriðuklaustur eftir að hafa lesið bókina, upplifa umhverfi klaustursins beint og horfa út Fljótsdalinn í sporum munkanna.


Thursday, July 4, 2013

2500 ár af grískri hreintungustefnu

Ég er tungumálanörd og hef verið undanfarið að grúska í nútímagrísku. Saga þessa tungumáls er stórmerkileg og stórskrýtin og segir margt um ótrúlegan sögulegan mátt menningarlegs auðmagns og pólitíkur á tungumálið.

Forngríska eins og hún var skrifuð í Aþenu á 5. öld f. Kr. öðlaðist sitt mikla menningarlega vægi strax skömmu eftir sjálfa 5. öldina - kanón hinna "klassísku" grísku höfunda var þegar fullmyndað um Krists burð. Æskhýlos, Sófókles og Evrípídes voru þá strax þekktir sem merkilegustu leikritahöfundarnir, Hómer merkasta sagnaskáldið, Platon merkasti heimspekingurinn - og enn eru nákvæmlega þessir höfundar kenndir í heimsbókmenntakúrsum háskólanna og því haldið fram að lestur þeirra bæti mannsandann.

Sú merkilega galdratrú að lestur ákveðinna texta, sem 2000 ára gömul elíta ákvað að væru bestir í heimi, bæti sálina, er stúdía út af fyrir sig. En áhrif þess að frysta hið "fullkomna" tungumál við eina ákveðna öld á einum ákveðnum stað hafði mikil áhrif á hinn gríska menningarheim þar eftir. Allt skrifað tungumál miðaðist afturábak: Þeim mun fjærri hinu talaða máli sem hið skrifaða var, þeim mun fínna var það og meira til marks um háa samfélagsstöðu höfundar.

Sunday, June 30, 2013

Klingið glösum fyrir manntalinu 1703! Upphefðin er komin að utan!

Mynd af Wikipediu:
manntalið á Skógarströnd
Nú í vikunni voru miklar gleðifréttir gerðar heyrinkunnar: íslenska manntalið 1703 hefur verið tekið á varðveisluskrá UNESCO!

Ég lít á þetta sem persónulegan sigur, enda er manntalið 1703 uppáhaldsmanntalið mitt. Ég kynntist því fyrst síðasta sumar og það hefur staðið hjarta mínu nærri síðan, auk þess áhuga sem það vakti með mér á manntölum almennt. Ég er jafnvel alvarlega að velta fyrir mér að óska mér manntalsins 1703 í útskriftargjöf þegar ég útskrifast úr MA-náminu á næsta ári, en manntalið kom út í heftum á árunum 1924-1947 og kostar fúlgur fjár innbundið í dag svo það verður að vera ærið tilefni til að fjárfesta í því. (Reyndar er ekki mikil eftirspurn eftir því á Þjóðarbókhlöðunni og með reglulegum endurnýjunum gæti ég sennilega haft það í láni í meira en tuttugu ár áður en ég væri komin upp í núverandi kaupverð, miðað við gildandi verðskrá bókasafnsins.)

Vinir mínir – jákvætt og þolinmótt fólk – hafa þurft að sitja undir ansi mörgum ástríðufullum einræðum um manntöl síðan ég kynntist manntalinu 1703. Það er ýmislegt við manntöl sem gerir þau spennandi í mínum augum. Í fyrsta lagi höfða þau einfaldlega sterkt til skráningarperrans í mér; það er bara eitthvað við mörghundruð blaðsíður af nöfnum, vandlega skráð og flokkuð eftir bæjum, hreppum og sýslum.

Friday, June 28, 2013

Frammi fyrir dómstól í London árið 1320

Fyrir um það bil mánuði var ég, sem endranær, að leita að efni í mastersritgerðina mína. Við slík tækifæri vilja leitarorðin sem ég slæ inn í Gegni leiða mig á hinar áhugaverðustu brautir, þó það sé afar sjaldgæft að efnið komi mér að einhverjum praktískum notum. En, Smjörfjallið er fyrir allt annað en hið nytsamlega og skynsamlega og því ætla ég að taka til umfjöllunar kafla úr bókinni Of Good and Ill repute. Gender and Social Control in Medieval England eftir Barböru A. Hanawalt. Þetta er orðið sérlega aðkallandi í ljósi þess að bókin er nú þegar farin að safna sektum á mínu góða nafni og orðstír.

Ætli leitarorðin sem leiddu mig að þessari bók hafi ekki verið medieval og gender, eða kannski medieval og reputation. Titill bókarinn er þó að mínu mati villandi, því meginumfjöllunarefni bókarinnar er í raun réttarsaga, þó feminísku sjónarhorni sé beitt í sumum köflum. Réttast væri að kalla bókina greinasafn, því þó allir kaflarnir fjalli um England á síðmiðöldum þá eru þeir býsna ólíkir innbyrðis, og standa nær algjörlega sjálfstætt. Þó ég hafi sem stendur engin augljós not af þekkingu á réttarsögu Englands þá samt las ég nokkra kafla í bókinni, því hún er bæði vel skrifuð og áhugaverð. Hins vegar þá dytti mér aldrei í hug að fjalla um hana annars staðar en á þessum óformlega vettvangi, því án grundvallarþekkingar á orðaforða og stofnunum enska réttarkerfisins á 14. öld er efnið oft torskilið. Lesendur verða því að taka umfjöllun minni með nokkrum fyrirvara.

Thursday, June 27, 2013

Spilverk þjóðanna

Fyrstu færslur mínar á þessu nýja bloggi bera margar keim af sumarlegum lífsstíl mínum, tíðum ferðalögum, myndatökum og safnaheimsóknum síðustu vikur. Nýlega dvaldi ég nokkra daga í hollensku borginni Utrecht, og skoðaði þar eitt af þessum gríðarlega sérhæfðu söfnum sem fá mann til að öðlast alveg nýja sýn á fyrirbæri sem maður hefur aldrei pælt í áður. Ég vona að þarna úti séu einhverjir sem hafa burðast með það allt sitt líf að hafa meiri áhuga á sögu og virkni spilverks en eðlilegt getur talist, og að þeir muni á einhverjum ánægjulegum tímapunkti uppgötva hið umfangsmikla og ítarlega Museum Speelklok í Utrecht, sem helgað er hvers kyns sjálfspilandi tækni.

 Sjálfspilandi trompet

Fornleifauppgröftur á Gufuskálum

Nú stendur yfir forvitnilegur fornleifauppgröftur á Gufuskálum á Snæfellsnesi, en þar er verið að grafa upp gamla verbúð og leita minja sem tengdar eru sjósókn á staðnum. Þessir hressu fornleifafræðingar halda úti Facebooksíðu þar sem hægt er að fylgjast með uppgreftrinum: Gufuskálar Archaeology. Samkvæmt fréttum Skessuhorns er áhugasömum ferðamönnum á Snæfellsnesi líka velkomið að skoða uppgröftinn meðan fornleifafræðingarnir eru að störfum, milli átta og fimm. Fullkomið roadtrip frá Reykjavík!

Meðfylgjandi mynd er tekin af Zach Zorich og fylgir þessari grein um uppgröftinn á heimasíðu Fornleifafræðistofnunar Bandaríkjanna.

Wednesday, June 26, 2013

Afsteypur æskublómans í Aþenu

Eitt það skemmtilegasta sem maður rekur sig á í sögunni eru mismunandi álit samfélaga á hvað telst venjulegt og hvað ekki. Það geta verið himinn og haf (ég hugsaði "humar og haf" af einhverri ástæðu) á milli manns eigin samfélags og annars, sem sýnir manni skemmtilega fram á hversu lítilvægar mannasetningarnar geta nú verið.

Eins og frægt er þá var deitsenan í Aþenuborg 5. aldar heitust milli frjálsborinna, eldri karlmanna og frjálsborinna, yngri manna eða drengja. Konur voru giftar við 13 ára aldurinn og þareftir geymdar innandyra; aþenski karlmaðurinn þurfti því að opinbera ástsjúka sálu sína í samskiptum við íðilfagra drengi. Drengirnir eru reyndar ekki eins og þeir voru, samkvæmt Vitringnum í Skýjunum eftir Aristófanes. Eitt sinn giltu reglur um hvernig maður átti að sitja í glímusandinum:

Í denn urðu drengirnir að sitja með krosslögð læri í leikfimi,
svo þeir myndu ekki flassa neinu óviðeigandi að þeim sem utan stóðu.
Þegar drengur stóð svo aftur upp þá sópaði hann sandinum yfir, og hafði vit á því
að skilja ekki eftir afsteypu af æskublóma sínum handa vonbiðlunum.

Og drengir smurðu sig aldrei með olíu fyrir neðan nafla í þá daga,
svo að döggin og dúnninn fengu að blómstra á kynfærunum!
(Aristófanes, Skýin 972-6)

Tuesday, June 25, 2013

Í harðbýlu landi

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur skrifaði grein í Fréttablaðið um helgina þar sem hann leiðrétti nokkrar rangfærslur um söguleg atriði í ávarpi forsætisráðherra 17. júní. Sögulegar rangfærslur stjórnmálamanna eru ekki nýjar af nálinni og þær fullyrðingar Sigmundar Davíðs sem Guðni gagnrýnir eru alveg dæmigerðar; snúast um einingu og samheldni íslensku þjóðarinnar gagnvart utanaðkomandi erfiðleikum. Eins og bent var á í umræðum á Gammabrekku, póstlista sagnfræðinga, er athyglisvert að aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs, Jóhannes Þór Skúlason, er menntaður sagnfræðingur og hefur lengi starfað sem sögukennari, svo varla er hægt að kenna um algjörri vanþekkingu í nánasta umhverfi Sigmundar.

Árið 2008 skrifaði ég grein í Sagnir, tímarit sagnfræðinema, sem bar yfirskriftina Íslandi allt! og fjallaði um söguskoðunina sem birtist í hinni alræmdu skýrslu Ímynd Íslands. Greinin var byggð á styttri grein sem birtist á Vefritinu á svipuðum tíma. Skýrslan Ímynd Íslands stendur enn fyrir sínu sem stórkostlega brjáluð lesning og sagan er bara einn hluti hennar, en Sagnfræðingafélag Íslands tók sig til á sínum tíma og mótmælti þeirri söguskoðun sem birtist í skýrslunni í línum á borð við þessa: „Íslendingar eru dugleg og stolt þjóð, mótuð af lífsbaráttu í harðbýlu landi.“ Myndirnar hafa líka verið rifjaðar upp reglulega:

Monday, June 24, 2013

Smjörbrú

Lengsta brúin í Delft í Hollandi heitir að sjálfsögðu Boterbrug; Smjörbrú. Í svalanum undir henni geymdu bændurnir smjörið sitt í gamla daga þegar þeir komu í bæinn að selja afurðir sínar.

Sunday, June 23, 2013

Stríðsminjar á Valahjalla

Ég heimsótti Austfirði nú í byrjun júní og hugaði að sjálfsögðu að austfirskri sögu í ferðinni. Meðal þess sem við gerðum var að ganga út á Valahjalla við Reyðarfjörð og skoða stríðsminjar; brak úr þýskri Heinkel H111 herflugvél sem fórst þar í klettunum í þokuveðri árið 1941. Þó nokkur heilleg stykki úr vélinni er enn að finna á Valahjalla og áhrifamikið að ganga innan um þau.

Á leiðinni út Eskifjörð heilsaði ég upp á heimaslóðir gamallar vinkonu, Gyðu Thorlacius, hvers endurminningar frá Íslandi ég bloggaði um á síðu Druslubóka og doðranta í vetur. Gyða bjó þar sem nú heita Helgustaðir (sem Helgustaðanáma er kennd við) en þá hét Gyðuborg.

Við lögðum upp í gönguna út á Valahjalla frá eyðibýlinu Karlsskála:


Þaðan er gengið í átt að Krossanesi. Það má fara fyrir nesið og alla leið út í Vöðlavík, en við gengum bara á hjallann og til baka. Gangan tók okkur rúmlega fimm tíma, en það er dálítil hækkun upp á Valahjallann og svo þarf maður að ganga nokkurn spöl inn eftir honum til að komast að brakinu.

Friday, June 21, 2013

Yfirnáttúrulegir atburðir og sjúkdómar á 12. öld

Í gær las ég í fyrsta skipti dýrlingaævi, þó það sé í raun furðulegt að ég hafi ekki gert það fyrr. Það kom mér á óvart hvað frásögnin var fjölbreytileg og vel upp sett. Dýrlingaævinni er skipt í þrjár bækur, sem hver um sig er útbúin efnisyfirliti, „so that the reader may know more quickly what he ought to find there“. Báðir höfundar (sá fyrri dó frá hálfkláruðu verki) lífga reglulega upp á frásögnina með innskotum úr bréfum og því sem lítur út eins og æviminningar dýrlingsins. Höfundarnir eru þó mjög áberandi í textanum og eru duglegir við að gefa frásögnum dýrlingsins af hinum yfirnáttúrulegu sýnum einkunnir á borð við: „Þetta gæti engum leiðst að lesa!“ (Þó ég hafi reyndar stundum þurft að vera ósammála í þeim efnum).

Dýrlingurinn sem um ræðir er Hildegard af Bingen, en hún var reyndar aldrei tekin formlega í tölu dýrlinga af kaþólsku kirkjunni. Það virðist þó ekki hafa haft mikil áhrif á átrúnað almennings í Bingen og nágrenni, og í kirkjunni í Eibingerstrasse er víst hægt að sjá hjarta hennar og tungu í gullnu helgiboxi.

Smjör óvinarins

Viðtökurnar við Smjörfjalli sögunnar síðan við hleyptum því af stokkunum í gær hafa verið afskaplega góðar og ég veit að við fengum öll fiðring í magann við fyrsta kommentið. Arngrímur Vídalín gerði sér lítið fyrir og bloggaði um smjörneyslu og ófreskjur.

Thursday, June 20, 2013

Freudískur misskilningur

 

Í hvert skipti sem ég tek neðanjarðarlestina í Vín kemst ég ekki hjá því að álykta að Freud (ásamt, barnafólki, fötluðum og þunguðum konum) eigi frátekið sæti í lestinni.

Smjörfjall sögunnar

Þegar Þorsteinn stakk upp á því að bloggið sem nú hefur göngu sína hefði yfirskriftina Smjörfjall sögunnar fögnuðum við Ragnhildur þeirri hugmynd mjög. Við þóttumst báðar muna eftir því að í einu grunnnámskeiðanna í sagnfræðinni hefði verið fjallað um smjörfjall í Skálholti á öldum áður, tekið upp úr frásögn ferðalangs sem við mundum reyndar ekki hver var. Það var okkur þó sérlega minnisstætt að smjörfjallið, sem hafði uppbyggst af smjörskatti alþýðunnar, átti að hafa verið grænt að utan af myglu og þurft að skafa utan af því til að komast í ætt smjör.

Við sáum strax fyrir okkur að smjörvísunin gæfi tilefni til hressilegrar upphafsfærslu, þar sem við lýstum hinu mjög svo myndræna græna smjörfjalli og klykktum út með eins og einni hnyttinni tilvitnun í ferðalanginn ónefnda, sem brygði ljósi á nafngift bloggsíðunnar: Eins og smjörfjall er sagan, græn að utan en súr hið innra.