Wednesday, December 25, 2013

Leifar samtímans

Það er langt síðan ég hef orðið jafn spennt yfir viðfangsefni námskeiðs og í efnismenningarnámskeiðinu sem ég sat í haust, þegar við tókum fyrir ruslið. Meðal annars lásum við þriðja kafla úr klassíkinni Rubbish! The Archaeology of Garbage eftir William Rathje og Cullen Murphy, en þar fjalla þeir um ruslverkefnið sem samtímafornleifafræðingar (eða heita þeir kannski samtímaleifafræðingar?) hleyptu af stokkunum í Tucson, Arizona upp úr 1970 og hefur getið af sér heila fræðigrein, ruslfræðina (e. garbology).

Fornleifafræðingar hafa auðvitað starfað lengi á vettvangi ruslsins, grafið í gamla ruslahauga og dregið af því sem þeir fundu þar ýmsar ályktanir um efnismenningu fornra samfélaga. Með tilkomu ruslfræðanna byrjuðu fræðimenn hins vegar einnig að skoða ruslafurðir nútímasamfélags. Rathje og Murphy taka sem dæmi rannsóknir John W. Hohmann, sem tók þátt í ruslverkefninu í Arizona í árdaga þess. Hann kortlagði ruslið á opnu svæði við vegarenda í eyðimörkinni skammt utan við Tucson – glerbrot, notaða smokka, nærföt og fleira – og og greindi út frá því hegðun fólks á svæðinu, sem einkenndist af kynlífi og drykkju í bílum.
Skýringarmynd John W. Hohmann á dreifingu rusls á svæðinu þar sem vegurinn endar.
Myndin er á bls. 57 í bók Rathje og Murphy.