Friday, April 25, 2014

Áttunda föstudagslag: Stórkostleg sál í arfavondum kvikmyndum

Þennan föstudag ætlar Smjörfjallið að rifja upp stórfurðulegt fenómenón frá áttunda áratugnum í Bandaríkjunum. Þá gáfu helstu meistarar sálartónlistarinnar út einhver sín bestu verk, verk sem hafa orðið að klassík í bandarískri tónlistarsögu, en þau litu dagsins ljós sem sándtrökk fyrir kvikmyndir sem stóðust tónlistinni jafnan engan veginn snúning. Þetta voru kvikmyndir sem síðar voru kenndar við blaxploitation-stefnuna.

Orðið blaxploitation er, augljóslega, samansett úr orðunum black og exploitation, og vísar jafnframt til annars kvikmyndageira sem kallaðist sexploitation. Þetta voru illa gerðar og hræódýrar myndir með vondum söguþræði og slæmum leikurum sem náðu engu að síður að trekkja fólk að með gjörsamlega tilgangslausri nekt og kynlífsatriðum; þær voru ekki klámmyndir próper og voru því ekki fastar við klámbíóin, heldur gátu farið í almennar sýningar og náð til fólks sem máske þorði ekki í rykfrakkann og í rauða hverfið. Sexploitation hefur dottið úr tísku sem genre eftir vídeóbyltinguna, en maður sér reyndar endurnýtingu hugtaksins þessa dagana í tengslum við hina nýju sjónvarpsbyltingu í BNA - Game of Thrones-þættirnir hafa t.d. verið sakaðir um að gæla á stundum við sexploitation. Dæmi hver fyrir sig!

Blaxploitation-myndirnar lögðu hinsvegar meiri áherslu á að exploitera tilfinningar svartra Bandaríkjamanna (þótt nóg væri af tilgangslausri nekt og kynlífsatriðum). Þar var hinni hefðbundnu Hollywood-formúlu snúið á hvolf, þar sem svört eða erlend illmenni voru drepin af hvítri söguhetju; í blaxploitation var svarti maðurinn hetja og hvíti rasistinn var skúrkur. Yfirleitt var fínum blæbrigðum sleppt, réttlætiskennd áhorfandans var svalað á hreinan og beinan hátt án þess að hafa neinar áhyggjur af siðferðislegum smáatriðum, sérstaklega þeim sem hvíta meirihlutanum var hvað mest annt um. Quentin Tarantino hefur mikið vísað í blaxploitation-hefðina; í denn með Jackie Brown (1997) og svo nýlega með Inglorious Basterds (2009) og Django Unchained (2012).

Blaxploitation-æðið hófst eiginlega á þeirri mynd sem jafnan hefur þótt sú besta sinnar tegundar, þ.e. hin fræga Shaft (1971).

Shaft var framleidd í Hollywood, sem gerir hana einstaka í geiranum - öllu meira var til tjaldað en annars. Myndin sló líka í gegn, en ekki bara á eigin forsendum, heldur út af sándtrakkinu þar sem sálargoðið Isaac Hayes fór á kostum. Þema myndarinnar, Theme from Shaft, þekkja flestir, en hér er það í rosalegri læv-útgáfu, með Isaac í afrískri skykkju og klæddur í ekkert nema gullkeðjur undir - með alla blaxploitation-estetíkina í botni:


Friday, April 18, 2014

Sjöunda föstudagslag: Fagra Vermaland

Glæsileg og sjarmerandi kona, Monica. Myndin er frá Aftonbladet
Um þessar mundir er sýnd í Bíó Paradís kvikmyndin Monica Z. Hún fjallar um sænsku söngkonuna Monicu Zetterlund og hefur einkum vakið athygli á Íslandi fyrir þá staðreynd að aðalleikararnir eru íslenskættaðir. Ég fór að sjá myndina í vikunni og hef verið á sannkölluðu Monicu-fylleríi síðan, sem er nú ekki leiðinlegasta fyllerí sem hægt er að fara á.

Monica Zetterlund var fædd árið 1937 og sló í gegn í Svíþjóð um 1960 - tók meðal annars þátt í Eurovision fyrir hönd Svíþjóðar árið 1963 og fékk ekki eitt einasta stig. Hún vann með mörgum af fremstu djassistum síns tíma, en frægust er hún fyrir samstarf sitt við Bill Evans. Þau gerðu saman plötuna Waltz for Debby árið 1964, en titillagið syngur Monica reyndar á sænsku, sem Monicas vals. Á lýðnetinu er að finna mjög skemmtilega upptöku af flutningi þeirra á laginu. Myndin Monica Z segir aðeins frá fyrri hlutanum af ævi og ferli Monicu Zetterlund, en síðustu árin var hún orðin sjúklingur og lést árið 2005. Ævisaga hennar er til á bókasafni Norræna hússins; Þórdís Gísladóttir skrifaði um hana á Druslubækur og doðranta fyrir nokkrum árum.

Uppáhaldslagið mitt í myndinni var tvímælalaust tregasöngurinn Trubbel eftir Olle Adolphson:


Ég komst hins vegar fljótlega að því að engin útgáfa af Trubbel jafnast á við útgáfu Monicu og því hentaði það ekki nógu vel sem föstudagslag. Í staðinn valdi ég annað lag úr hennar sarpi, sænska þjóðlagið Ack Värmeland, du sköna.


Wednesday, April 16, 2014

Rósvita frá Gandersheim, konan á bak við Liam Neeson

Allir vita að vestræn leikritun hefst í Grikklandi, eða nánar tiltekið Aþenu. Þar voru settir á svið stórmerkilegir harm- og gamanleikir sem hafa margir varðveist og eru enn leiknir í dag (oft með dræmum árangri, eins og ég hef fjallað um hér). En geymd grísku leikritanna og hefðin í kringum þau er langt frá því samfelld. Handritin voru varðveitt í Konstantínópel og Alexandríu og fleiri svæðum þar sem töluð var gríska, en í Vestur-Evrópu var allt önnur hefð við lýði, nefnilega hefð latnesku gamanleikjanna.

Latnesku gamanleikirnir byggjast á gríska „Nýja gamanleiknum“ svokallaða, en þekktasti höfundur þeirrar stefnu (og sá eini sem hefur varðveist í einhverjum mæli) er Menander (c. 341/42 – c. 290 f. Kr.) Hann sker sig afar greinilega frá fyrirrennara sínum Aristófanesi, sem er einn af dónalegri höfundum sem völ er á - aþenska lýðræðishefðin skín í gegnum þann vana hans að rífa fólk í sig á sviði fyrir framan alþjóð. En þegar Menander var við lýði fór aþenska lýðræðinu hnignandi og leikritin eru eftir því töm. Þar byggist grínið ekki á því að segja að valdamenn vilji láta ríða sér í rass (sem er okkur ansi framandi) heldur á módeli sem við þekkjum fullkomlega - útklipptar stereótýpur koma sér í vandræði í ástarlífinu, en allt fer vel að lokum!

Aðeins eitt verk Menanders hefur varðveist í heillegri mynd (sem heitir Dyskolos eða Skaphundurinn) og það uppgötvaðist aðeins á sjötta áratug seinustu aldar. Lengst af var því hefð Nýju gamanleikjanna aðallega þekkt í gegnum þá latnesku gamanleikjahöfunda sem sóttu til Menanders og félaga. Af þeim hafa þó einungis tveir varðveist, Plautus, sem þrátt fyrir skemmtileg leikrit átti eftir að gleymast á miðöldum, og svo eftirmaður hans Terentius.

Terentius í geislabaug hins vestræna kanóns

Friday, April 11, 2014

Sjötta föstudagslag: Sometimes I feel like a motherless child

Það er fátt sem kemur jafn rækilega út á mér gæsahúðinni og dimmar bassaraddir. Þið getið því ímyndað ykkur áhrifin sem flutningur hins merka söngvara, leikara, lögfræðings, íþróttamanns og pólitíska aktívista Paul Robeson á föstudagslagi dagsins hefur á ungmeyjarlegt taugakerfi mitt:


Galdurinn liggur auðvitað ekki bara hjá Paul Robeson. Negrasálmurinn Sometimes I feel like a motherless child er með fegurri lögum - og ég kalla eftir upplýsingum um það hvort hugtakið negrasálmur sé enn í almennri notkun. Sálmurinn er tengdur aðstæðum og örlögum bandarískra blökkumanna órjúfanlegum böndum, þessi tregafulli söngur barnsins sem hefur verið slitið frá móður sinni og móðurlandi. Faðir Paul Robeson var fæddur í þrælahaldi en slapp þaðan á unglingsaldri og var orðinn prestur í Princeton þegar Paul fæddist árið 1898.

Wednesday, April 9, 2014

Æviminningar karla af Skarðsströnd III: Ásauðarhyglari og hagvaxtarhemill í íslenska lýðveldinu


Þetta er þriðja og síðasta færslan í bloggseríunni Æviminningar karla af Skarðsströnd í bili, eða þar til einhver bendir mér á fleiri æviminningar karla af Skarðsströnd. Ég er við símann núna (þrjár stuttar, ein löng).

Bókin sem hér um ræðir er langstyst þeirra þriggja sem um hefur verið fjallað (aðeins 187 síður með nafnaskrá), langnýjust (útgáfuár 2003) og sú eina sem rituð er af öðrum en viðfangi sögunnar (Finnboga Hermannssyni). Sá sem ævi sinnar minnist er Steinólfur Lárusson (1928-2012), bóndi í Ytri-Fagradal á Skarðsströnd, og titill bókarinnar er Einræður Steinólfs í Ytri-Fagradal.

Þetta var fyrsta bókin sem ég las af þeim þremur sem ég hef fjallað um og sú eina sem ég hafði lesið áður, hún er auðlesnust og langsamlega jafnskemmtilegust. Sagan er sögð af Steinólfi í fyrstu persónu, skrásetjarinn heldur sér til hlés í frásögninni, sem er blæbrigðarík og fyndin. Bókina prýða margar myndir af Skarðsströndinni og persónum og leikendum vestra.

Friday, April 4, 2014

Fimmta föstudagslag: Ungmennin frá Ipanema

Hverjum aðdáanda brasilíska tónlistarmannsins António Carlos Jobim er það sársaukafull staðreynd að mikill fjöldi fólks tengir hann einkum við lyftutónlist. Hið brasilíska bossanova er oftar en ekki svo unaðslega kliðmjúkt að illar sálir hafa gert sér far um að spila það við sem lágkúrulegastar aðstæður, í verslunarmiðstöðvum og á vondum veitingastöðum þar sem yfirmenn hafa lært mannauðsstjórnun. Þar má aumingja Jobim rekast innan um panflaututónverk og hroðann úr væmnum ballöðulistamönnum sem vinsælir eru á Bylgjunni og öðrum einkareknum útvarpsstöðvum.

Hvað um það. Þekktasta lag Jobim er án efa lagið um stúlkuna frá Ipanema og þekktasta útgáfa þess er jafnframt ein sú besta. Þar leikur saxófónleikarinn Stan Getz undir söng hjónakornanna Astrud og João Gilberto:


Lagið er af hinni rómuðu plötu Getz/Gilberto frá 1964, en þar unnu Stan Getz og João Gilberto með António Carlos Jobim og kynntu bossanova-tónlistina fyrir bandarískum hlustendum. Astrud Gilberto söng tvö undurfögur lög á plötunni, The Girl from Ipanema og Corcovado. Hún hafði ekki mikla reynslu sem söngkona og það var hálfgerð tilviljun að hún skyldi syngja á plötunni. Almannarómur hefur viljað útskýra þátttöku hennar með ástarsambandi hennar við Stan Getz, en þótt hún sé óþjálfuð stendur hún fyrir sínu og ásamt eiginmanni sínum ljær hún lögum Jobim einmitt þann milda tón sem þau þarfnast. Platan Getz/Gilberto sló rækilega í gegn og er í dag talin með mikilvægari verkum bossanova-hefðarinnar.