Sunday, March 30, 2014

Kvenleg illska í óbyggðum

Tilgátuhúsið Þjóðhildarkirkja, Grænlandi.
Einu sinni, fyrir margt löngu, lýsti ég því yfir að ég ætlaði að fjalla um seinni hluta bókarinnar Íslensk fornrit IV, í sérstökum pistli. Nú, einum og hálfum mánuði síðar, hef ég einsett mér að sitja nógu lengi við lyklaborðið til að skrifa niður það sem mér datt í hug þegar ég las þessa ágætu bók upphaflega, milli jóla og nýárs. Þá er bara að vona að mér takist að kreista upp úr mér einhverja andagift um þennan löngu liðna lestur.

Við fyrstu útgáfu Íslenskra fornrita IV var, auk meginsögunnar Eyrbyggju, að finna þar þrjár „mismunandi“ sögur um landnám norræna manna á Grænlandi og Vínlandi, þær Eiríks sögu rauða, Grænlendinga sögu og Grænlendinga þátt. Ástæða þess að þeim var skellt í sömu bók og Eyrbyggja sögu er að fjölskyldurnar sem stóðu að þessu landnámi höfðu um tíma búið í Breiðafirði, sögusviði Eyrbyggju. Um þennan hluta útgáfunnar sá Matthías Þórðarson, en þegar Eyrbyggja var endurútgefin 1985, bætti Ólafur Halldórsson við fjórðu Grænlandssögunni, Eiríks sögur rauða eftir texta Skálholtsbókar.

Ég vona að þetta sé rétt upp talið hjá mér en þori ekki að ábyrgjast það, því þessar sögur rugluðu mig skelfilega í ríminu, auk þess sem ég las þær, eins og fyrr segir, í lok desember. Ég þurfti að vissu leyti að pína mig í gegnum þennan hluta bókarinnar, því stundum endurtekur einhver sagan nær orðrétt kafla úr sögunni á undan eða eftir, áður en hún skyndilega bregður út af og fer að fjalla um eitthvað allt annað. Ég hef ekki vanið mig á að nota bókamerki þegar ég legg bók frá mér, heldur finn alltaf staðinn sem ég var á út frá samhengi. Eins og gefur að skilja þá brást þessi aðferð mér algjörlega við lesturinn á Grænlendingasögum, og ég fletti oftsinnis fram og til baka í mikilli frústrasjón í tilraun til að finna rétta staðinn í réttu sögunni. Ég get því í raun ekki fullyrt að ég hafi lesið allar þessar sögur í réttri röð, þó ég hafi gert mitt besta.

Annað sem truflaði mig við lesturinn var að ég er, innst inni, alls ekki hrifin af svona „sameiginlegum sagnaheimi“ sem er unnið úr á mismunandi hátt. Það truflaði mig til dæmis meira en lítið þegar ég las Andrés Önd sem barn að byggðasaga Andabæjar var ekki alltaf eins, að Jóakim Aðalönd hafði að því er virtist átt svona fimm mismunandi æskuskeið, og að ættartré Andafjölskyldunnar gekk ekki upp, ættartengsl t.d. Andrésar Andar og Ömmu Andar voru síbreytileg. Ég hef því miður ekki losnað við þessa íhaldssemi og kassahugsun, og á erfitt með að lesa texta sem heldur sig ekki við eina útgáfu af „sannleikanum“. Svo reyni ég að lesa þessar Grænlands og Vínlands sögur sem áhugasamur og samviskusamur miðaldafræðingur, og þá geta þær bara ómögulega gefið sömu upplýsingar um það hverjir voru með í hvaða leiðangri, hvar þau komu að landi, hvernig landslagið var og hvað þau voru þar lengi. Og hvenær og með hvaða hætti fannst hinn frægi vínviður eiginlega? Svona skelfilega margir möguleikar á atburðarás valda mér heilakláða.

Rostungur. Svipur hans ber vott um yfirvegun gagnvart flækjum norræns landnáms, sem höfund skortir.

Friday, March 28, 2014

Reykjavík í dægurtónlist


Alla 20. öldina, og jafnvel allt frá upphafi þeirrar nítjándu, var Reykjavík bitbein í dægurmálaumræðu. Hún naut þess vafasama heiðurs að vera augljósasta birtingarmynd nútímavæðingar og erlendra áhrifa í íslensku samfélagi. Það er eflaust hægt að grípa niður á hvaða áratug sem er í sögu Íslands síðastliðin 150-200 ár og finna umræður um það hvort eitthvað eigi eða megi vera í Reykjavík, hvort sem það er Alþingi, kvennaskólar, Jafnréttisstofa, eða bara fólk.

Sjálf hef ég alloft fengið spurninguna „Hvaðan ert þú svo?“ frá Reykvíkingum sem eru eldri en ég, og þetta finnst þeim greinilega ekki skrítin spurning, þó hún sé borin upp á kaffihúsi í Aðalstræti. Hið rétta svar við þessari spurningu er nefnilega aldrei: „Ha-humm, ég er nú bara ... frá Reykjavík?“ Þannig að ef ég er í kurteisu skapi þá reyni ég að rifja upp dvalarstað einhverrar langömmu eða langafa, til þess að gera þessu fólki kleift að staðsetja mig í heimsmynd sinni.

Reykjavík var lengi, og er jafnvel enn í huga sumra, staður sem fólk kemur til, en ekki staður sem fólk er frá. Líklega eiga barnæskuminningar mjög stóran þátt í því að fólk bindist stöðum tilfinningaböndum, þannig að auk þess að Reykjavík hefði almennt á sér orð (vægrar) spillingar í opinberri umræðu, þá skorti hana lengi sanna fylgismenn. Tvær aldir eru nú samt sem áður býsna langur tími, og það er til töluvert af Reykjavíkurrómantík, svo sem lagið Ó borg mín borg. Það er eitt frægasta lagið með Hauki Morthens og var flutt á seinni hluta 20. aldar. Ég þorði ómögulega að vera nákvæmari því internetið vildi ekki segja mér frá nánari tímasetningu en ábending barst í athugasemdakerfið um að lagið hefði náð vinsældum í síðasta lagi 1954. (Einnig má heyra lagið í flutningi Bjarkar hér, en bloggforritið vill af einhverjum ástæðum ekki birta það almennilega)


Friday, March 21, 2014

Föstudagslög - um fullnægingar í dægurtónlist

Eitt sinn giltu strangar reglur um hvað mátti syngja um og hvað ekki í dægurlögum. Ef þessar reglur (þótt jafnan óskráðar væru) voru brotnar neituðu útvarpsstöðvar einfaldlega að spila lögin, og var þá mestallur tekjugrunnur listamannanna horfinn. Popptónlistarmenn skutu sér þó framhjá þessu með ýmsum hætti. Beach Boys gátu t.d. talað um unað kynlífsins í laginu Wouldn't It Be Nice á meistaraverki þeirra Pet Sounds (1966) með því að setja það allt í viðtengingarhátt - þetta mun allt verða svona yndislegt, eftir að við giftum okkur.


En popptónlistin var þá að brjótast út úr þessu formi og farin að spýta framan í sensorinn. Einn brautryðjandinn var franska ólíkindatólið Serge Gainsbourg. Margir lesendur ættu að kannast við lag hans Je t'aime... moi non plus (Ég elska þig... ekki ég heldur). Þekktasta útgáfan af því lagi kom út árið 1969 og var dúett milli hans og þáverandi ástkonu hans Jane Birkin. Í kringum mig var það samt aðallega þannig að fólk spilaði þá útgáfu og flissaði vandræðalega að henni; hún var sett upp sem eitthvað fyndið.

Mér fannst ég hinsvegar uppgötva lagið upp á nýtt þegar ég heyrði upprunalegu útgáfuna af laginu, með Serge og fyrri ástkonu hans, sjálfri Brigitte Bardot (tekið upp 1967, en gefin fyrst út árið 1986). Þar eru strengirnir dýpri, orgelið þyngra og takturinn hægari - og svo koma fullnægingarstunur Bardot (Serge heldur náttúrulega virðulegri þögn á meðan) - og lagið verður einfaldlega himneskt.


Textinn er líka stórskemmtilegur. Sumt er bara gott, venjulegt kynlífsmyndmál (þú ert aldan, ég er eyjan nakta), en annað er frábærlega frumlegt:

Tu vas et tu viens
entre mes rheins

Þú kemur og ferð
milli nýrnanna á mér

Nýrnanna!

Nú var ákveðinn bolti farinn af stað sem sálartónlistin tók hvað helst yfir. Tina Turner tók þetta til dæmis alla leið í þessari útgáfu af sálarklassíkinni I've Been Loving You Too Long (To Stop Now). Hér syngur hún lagið á upphitunartónleikum fyrir Rolling Stones árið 1969. Ekkert í textanum er neitt sérstaklega kynferðislegt, en í performansinu snýr hún þessu upp í stórkostlegan óð til munnmaka. Það er reyndar eilítið krípí að þessi óður fari fram sem call-and-response við þáverandi eiginmann hennar Ike Turner...


Þegar kemur að lofsöngvum til kynlífs stenst hinsvegar fátt sálargoðinu Isaac Hayes snúning. Hann var með sérstakt teik á sálartónlist; hráleikinn vék fyrir rosalegu pródúksjóni og mögnuðum hljóðheimi. Lögin voru gjarnan um 15 mínútur og áttu allavega fimm þessara mínútna til að fara í djúpraddaðar einræður Isaacs um ástina og lífið. Þetta gat verið skemmtilegt (eins og hér) eða kostulega aulahrollsvaldandi og drepfyndið (eins og hér). En sem betur fer sleppti hann hlustendum við allt slíkt í meistaraverkinu Joy (1973). Dáleiðandi trommu- og bassagrúv kýla lagið áfram, en þegar svo lokaparturinn hefst fer Isaac að stynja eins og lífið sé að leysa og heldur því til streitu í tíu mínútur. Hann þorði því sem Serge þorði ekki!


Hápunktur fullnæginganna í dægurtónlistinni hlýtur hinsvegar að vera Love To Love You Baby (1975) með diskósöngkonunni Donnu Summer. Það sem Brigitte Bardot skorti í leikrænum hæfileikum og Isaac Hayes í kynferðislegum sjarma á Donna Summer heilu geymslurnar af - Love To Love You Baby hreinlega logar af greddu. Hljóðheimurinn er sömuleiðis magnaður, eitt af meistaraverkum pródúsentsins Giorgio Moroder sem Daft Punk tileinkuðu nýlega lag.


En nú er spurning hvað hefur gerst síðan. Með tilkomu tónlistarmyndbandanna er eins og kynferðisleg tjáning dægurtónlistar hafi færst úr hljóðheiminum yfir í myndmálið. Ég man í fljótu bragði ekki eftir nýlegu, vinsælu dægurlagi sem hefur eitthvað eins og fullnægingarnar í Love To Love You Baby og Je t'aime... moi non plus, en hinsvegar eru flestöll tónlistarmyndbönd með kynferðislegu þema, sama hversu lítið það á við texta eða hljóðheim lagsins. Af hverju er t.d. Miley Cyrus nakin ofan á húsarifskúlunni í því fræga lagi? Textinn fjallar um ástarsorg og hljóðheimurinn er eftir því dramatískur - nektin væri miklu skiljanlegri í lagi sem fjallaði um kynlíf en ekki skort á því.

Ég persónulega sakna kynlífsins úr hljóðheimi dægurtónlistarinnar. Það er einhver ástæða fyrir því að öllum er sama um nekt og kynlíf í tónlistarmyndböndum en það myndi gera flesta vandræðalega að heyra Love To Love You Baby spilað á FM957. Róttæknin liggur greinilega í fullnægingum á teipi. Það hefur verið talað um það nýlega hvernig popptónlist virðist vera ófær um að hneyksla þessa dagana - ég vil halda því fram að hér sé komin kjörin leið til að ná aftur fyrri sjokk-faktor.

Thursday, March 20, 2014

Blóði drifin Hellenaæta að nafni Fallmerayer

Í dag heitir gríska ríkið Hellas (eða Ellaða á nútímagrískuforminu) og landsmenn kallast Hellenar (Ellínes) á grísku. Þetta er vísun í fjarlæga fortíð; í fornöld voru þetta nöfnin yfir þá sem töluðu grísku, og landið sem þeir byggðu. En það er raunar langt frá því sjálfsagt að þetta orð sé notað yfir landsmenn í dag. Allt frá því að Grikkland fór undir stjórn Rómarveldis, kristnaðist og laut loks grískættuðum og grískumælandi Rómarkeisurum sem ríktu frá Konstantínópel, fóru Grikkir að tala um sig sem Rómverja (Romeí) og tungumál sitt sem rómversku (romeíkí). Helleni merkti þá Grikkja sem heiðraði fornu goðin - það táknaði fyrirlitlega heiðingja.

Með aukinni þjóðernishyggju á 19. öld voru hins vegar orðin Hellas og Helleni endurvakin, og þannig var Grikkland þess tíma tengt beint við Grikkland hið forna. Grikkir börðust þá fyrir sjálfstæði sínu frá Ottómanska heimsveldinu, og evrópskir andstæðingar Ottómana fylktu sér þeim að baki. Þeir áköfustu voru kallaðir fílhellenar, þeir sem elska Hellena. Sumir þeirra (þar er frægastur skáldið Byron) ferðuðust meira að segja til hins bjarta Hellas til þess að berjast við óvininn úr austri og endurtaka hetjudáðirnar við Laugarskarð.

Framsetningin var sem sagt sú að nú væri hin forna ofurþjóð Hellena risin upp; Evrópubúum sem dáðust að hinni fornu menningu landsins bar skylda til þess að aðstoða þá við að sigrast á óvini sínum (sem svo vildi til að var sameiginlegur óvinur þeirra sjálfra.) En til voru aðrar túlkanir á ástandinu. Helsti talsmaður þeirra var týrólski ferðalangurinn, prósastílistinn og fræðimaðurinn Johann Philipp Fallmerayer (1790 – 1861).

"Þú afsakar, mér er dálítið bumbult af því að éta alla þessa Hellena"

Friday, March 14, 2014

Þriðja föstudagslag: Hin margumsungna paradís

Ég held mér sé óhætt að fullyrða að hinir tónelsku Smjörfjallspennar hafi fáa listamenn í jafn miklum metum og Stevie Wonder. Sumarið 2012 hörkuðum við af okkur ríflega tveggja klukkutíma langa tónleika með aftúrkreistíngnum Bryan Adams og uppskárum í kjölfarið enn lengri tónleika með Stevie, þar sem hann ekki bara lék öll sín bestu lög af fádæma spilagleði heldur jós lífsvisku og ástarjátningum yfir áhorfendur.

Það var svona mikið stuð á Rock in Rio í júní 2012.
Meistarinn fæddist í Michigan árið 1950 og hóf tónlistarferil sinn aðeins ellefu ára gamall. Um tvítugt byrjaði hann að raða inn hverri snilldarplötunni á eftir annarri, þar á meðal Songs in the Key of Life sem kom út árið 1976. Af þeirri plötu er fengið föstudagslag Smjörfjallsins í dag, Pastime Paradise.


Í texta lagsins gagnrýnir Stevie hugmyndafræðilegt ástand samtímans:

They've been spending most their lives 
Living in a pastime paradise 
They've been wasting most their lives 
Glorifying days long gone behind 
They've been wasting most their days 
In remembrance of ignorance oldest praise 

Tell me who of them will come to be 
How many of them are you and me 
Dissipation 
Race relations
Consolation 
Segregation 
Dispensation 
Isolation 
Exploitation 
Mutilation 
Mutations 
Miscreation 
Confirmation.......to the evils of the world

Þetta grípandi lag hefur verið hljóðritað þó nokkrum sinnum af öðrum listamönnum. Frægust er sennilega Íslandsvinkonan Patti Smith með ansi svala útgáfu:

 

Nýlegt, hresst kover á hip hop og brassbandið Youngblood Brass Band frá Wisconsin:


En sennilega þekkja flestir hið grípandi bít úr einhverju eftirminnilegasta lagi 10. áratugarins, svanasöng rapparans Coolio, Gangsta´s Paradise:


Eins og ráða má af tónlistarmyndbandinu hljómaði Gangsta´s Paradise fyrst árið 1995 í kvikmyndinni Dangerous Minds, en þar kennir Michelle Pfeiffer krökkunum úr gettóinu að meta Dylan Thomas (hann höfðar einnig sterkt til hvítra millistéttarbarna).

Hvað Coolio varðar hefur hann ekki farið með himinskautum síðan þetta var en tekið þátt í nokkrum raunveruleikasjónvarpsþáttum, sem gengu út á allt frá eldamennsku til makaskipta. Með Gangsta´s Paradise varð hann þó ýmsum öðrum sérkennilegum listamönnum innblástur, til dæmis Weird Al Yankovic, sem strax árið 1996 gaf lagið út með frumsömdum texta um paradís Amishmannsins:


Uppi á Íslandi létu Halli og Laddi ekki sitt eftir liggja. Á plötunni Strumpastuð, sem kom út árið 1996 og inniheldur strumpaðar útgáfur af lögum á borð við Macarena (Strumpamakarena), Stayin´ Alive (Strump með mér) og Saturday Night með Whigfield (Draumastrumpur), var að sjálfsögðu einnig að finna hafnfirska útgáfu á Strumpaparadís:

Saturday, March 8, 2014

Hjálpræði Gyðu

Í dag birtir Smjörfjall sögunnar sinn fyrsta gestapistil. Höfundur hans er Sigurður Högni Sigurðsson, MA-nemi í sagnfræði við Háskóla Íslands, en hann skrifar um endurminningar Gyðu Thorlacius og fleiri sögulegar heimildir frá Austfjörðum. Svo skemmtilega vill til að Smjörfjallspenninn Kristín Svava hefur einnig skrifað um endurminningar Gyðu á bloggsíðuna Druslubækur og doðrantar. Við þökkum Sigurði Högna kærlega fyrir pistilinn og hvetjum alla áhugasama til að senda inn pistla.

--

Síðastliðið sumar fékk ég tækifæri til að leggja svolítið af mörkum í áhugaverðu verkefni. Viðfangsefnið var daglegt líf og umhverfi fólks á Austurlandi á fyrstu árum 19. aldar. Tiltölulega einfalt reyndist að safna saman umbeðnum upplýsingum um staðsetningu og dýrleika nokkurra sveitabýla. En þetta var aðeins önnur hliðin á mínu afmarkaða verkefni, hin hliðin snéri að daglegu lífi og hvernig var að búa á Austfjörðum fyrir rúmum 200 árum. Best væri að geta gengið í frásagnir raunverulegs fólks og fengið þannig frá fyrstu hendi vitnisburði um barnalán og búsorgir.

Svo vel vildi til að ég taldi mig hafa heyrt talað um einmitt slíka bók, eða ég vonaði í það minnsta að hún stæðist væntingarnar. Einn kennara minna ræddi nokkuð um þessa bók í námskeiðum sínum, enda er þar að finna skemmtilegt innlegg í söguna af valdatíð Jörgens Jörgensens á Íslandi. Þetta var bókin Endurminningar frú Gyðu Thorlacius frá dvöl hennar á Íslandi 1801-1815.

Bókin stóð alveg undir væntingum mínum og í henni var einmitt að finna svipmynd af lífi fólks á Austfjörðum fyrir 200 árum og frá sjónarhorni manneskju sem kemur alls ókunnug á nýjar og framandi slóðir. Til eru þó nokkrar ferðasögur erlendra manna, einkum Englendinga, frá sama tímabili. Þær eru merkilegar og áhugaverðar vegna þess að þar birtist sýn gestsaugans á land og þjóð, en sögumennirnir eru vel menntaðir heldri menn sunnan úr Evrópu. Frásögn frú Gyðu Thorlacius er sérstök að því leyti að í henni fylgir lesandinn ungri konu, rúmlega tvítugri, sem alið hafði allan sinn aldur í nágrenni Kaupmannahafnar, á leið hennar til Íslands til að setjast þar að með eiginmanni sínum. Hann var íslenskur í föðurætt en hafði dvalist mest alla sína ævi í Danmörku. Þau voru nýgift er haldið var til Íslands og hvorugt gat vitað hvað beið þeirra í Reyðarfirði þar sem hann átti að taka við sýslumannsembættinu.

Friday, March 7, 2014

Annað föstudagslag: Bésame mucho

Annað föstudagslag Smjörfjallsins er hið víðfræga Bésame mucho, eitt vinsælasta suðurameríska dægurlag allra tíma. Það var samið árið 1940 af hinni mexíkönsku Consuelo Velázquez og hefur síðan verið flutt af gríðarlegum fjölda tónlistarmanna víðs vegar um heiminn.

Frægustu flytjendurnir hljóta að vera Los Beatles, þótt sú útgáfa heyrist ekki á hverjum degi:


Nokkru áður en Bítlarnir tóku lagið var gerð af því mín uppáhaldshljóðritun, af hinni stórkostlegu kúbönsku söngkonu Fredesvindu Garcia: La Freddy. Hún hljóðritaði sína einu plötu, Ella cantaba boleros, árið 1960. Ári síðar lést hún, aðeins 26 ára gömul - nokkuð sem maður hefði aldrei giskað á út frá rödd hennar. Guillermo Cabrera Infante gerði La Freddy síðar að persónu í skáldsögunni Tres Tristes Tigres.

Ég minnist þess alltaf þegar ég heyrði fyrst í annarri kúbanskri söngkonu, Celiu Cruz, og trúði því ekki að það væri kona sem söng. Celia Cruz er hins vegar eins og kórdrengur í samanburði við La Freddy:


Bésame mucho er dálítið væmið lag, það er kannski ekki hægt að hlusta neitt rosalega lengi á það í einu, og við skulum þess vegna láta eina útgáfu í viðbót duga. Það eru brasilísku kanónurnar Caetano Veloso og João Gilberto sem hér leiða saman hesta sína á tónleikum: