Sunday, June 29, 2014

Mjólk, brauð og stríð

Síðustu mánuði hef ég verið að vinna við sýningu um neyslusögu Reykvíkinga á 20. öld sem opnaði á Árbæjarsafni nú í sumarbyrjun, og fengið því tækifæri til að kynnast aðeins hinu spennandi fræðasviði neyslusögunnar. Fremstir í þeim flokki á Íslandi hafa verið þeir Guðmundur Jónsson og Magnús Sveinn Helgason. Fyrir þá sem vilja kynna sér neyslusögu mæli ég sérstaklega með fimm þáttum um sögu neyslusamfélagsins eftir Magnús Svein sem er að finna á hlaðvarpi Ríkisútvarpsins. Guðmundur Jónsson hefur einnig skrifað margar áhugaverðar greinar á þessu sviði og upp úr einni þeirra skrifaði ég Smjörfjallspistil um breytingar á mataræði Íslendinga.

Í einni af greinum sínum minnist Guðmundur Jónsson á neytendasamvinnu reykvískra húsmæðra á fyrri hluta 20. aldar. Hann fer ekki náið út í það mál, en forvitni mín var vakin og ég fór á stúfana á hinum ómetanlegu síðum Tímarit.is og Fons Juris.

Neytendasamvinna var aldrei jafn blómleg á Íslandi og víða annars staðar. Íslenska samvinnuhreyfingin var bændahreyfing sem tók einkum mið af hagsmunum framleiðenda í dreifbýli. Þó urðu til nokkur pöntunarfélög og kaupfélög meðal verkamanna í þéttbýli – og oftar en einu sinni tóku húsmæður sig saman og létu í sér heyra, enda voru það þær sem sáu um innkaup og aðdrætti til heimilisins. Á Borgarskjalasafni Reykjavíkur er til dæmis að finna skjöl Húsmæðrafélags Reykjavíkur frá 1915-1919, en það var pöntunarfélag hvers tilgangur var að „að sjá til þess að félagskonur fengju sem bestar útlendar matvörur á sem lægstu verði“. Neyslusaga fléttast oft saman við kynjasögu, enda gerir rótgróin hugmyndafræði ráð fyrir því að framleiðslan sé hlutverk karlmannsins en konan sjái um neysluna. Karlmaðurinn er tengdur hinu praktíska og nauðsynlega en konan hinu hégómlega og óþarfa.

Friday, June 27, 2014

Ammæli

Smjörfjall sögunnar hefur verið á frekar rólegri siglingu undanfarið, enda ýmis lokkandi fyrirbæri á sveimi, svo sem lokaritgerðir, vinna og sumar. Það breytir því ekki að Smjörfjallið átti árs afmæli fyrir viku síðan, þann 20. júní. Eins árs og einnar viku afmæli bloggsíðunnar verður nú fagnað á viðeigandi hátt, með afmælisþemalagafærslu par excellence.

Eitt krúttlegasta afmælislag sem við munum eftir er úr þætti allra þátta, The Simpsons, nánar tiltekið þættinum Stark Raving Dad úr þriðju seríu, sem vísar mjög til kvikmyndarinnar One Flew Over the Cuckoo´s Nest. Homer er lagður inn á geðsjúkrahús, þar sem einn af samsjúklingum hans er maður sem heldur að hann sé Michael Jackson. Það er að sjálfsögðu Michael Jackson sjálfur sem talar fyrir karakterinn, og síðar í þættinum taka þeir Bart höndum saman um að búa til afmælislag handa Lisu. Þessi útgáfa er ekki í sérlega góðum gæðum en maður verður eiginlega að sjá atriðið með:


Hjartaknúsarinn Neil Sedaka hefur hins vegar sungið afmælislag sem er jafn lúmskt krípí og lagið hennar Lisu er krúttlegt. Þótt Smjörfjallið sé ekki orðið sextán getum við öll tekið undir með mr. Sedaka:

What happened to that funny face?
My little tomboy now wears satin and lace
I can't believe my eyes, you're just a teenage dream
Happy birthday sweet sixteen!



En æ, nei, ætli afmælisbarnið Smjörfjallið vilji ekki frekar þræða orma upp á bönd, geyma köngulær í vasanum, mála þungar bækur og líma þær saman...


Árið 1981 samdi hinn mikli vinur Smjörfjallsins, Stevie Wonder, afmælislag handa öðrum miklu manni, Martin Luther King, en Stevie og fleiri börðust fyrir því að afmælisdagur King væri gerður að lögbundnum frídegi í Bandaríkjunum. Það tókst stuttu síðar, þótt það sé reyndar ekki alltaf sjálfur fæðingardagur King, 15. janúar, sem haldið er upp á, heldur þriðji mánudagurinn í janúar.


Einn frægasti afmælissöngur bandarískrar sögu er sennilega þegar Marilyn Monroe söng svo seiðandi fyrir John F. Kennedy á 45 ára afmælinu hans árið 1962.


Tilfinningum Smjörfjallsins á þessum tímamótum er þó best lýst með lagi sem er ekki beinlínis afmælissöngur:

Friday, June 13, 2014

Föstudagslög feðranna

Ýmsir tónlistarmenn hafa í gegnum tíðina fundið hjá sér hvöt til að ávarpa og þakka þeim sem hafa staðið þeim næst og alið þá upp: mömmu og pabba, ömmu og afa. Föstudagsfærsla dagsins er stútfull af slíkum tileinkunum.

Tvö ástsæl íslensk stykki koma strax upp í hugann. Það fyrra er Ó, pabbi minn, sem er íslenskur titill þýska söngleikjalagsins O mein papa frá 1939. Íslenski textinn er eftir Þorstein Sveinsson, en þess má til gamans geta að hann samdi líka texta við lagið Móðir mín sem kom út um svipað leyti. Bæði lög voru hljóðrituð af Ingibjörgu Þorbergs, en ekki síður þekkt er útgáfa Bjarkar Guðmundsdóttur og Guðmundar Ingólfssonar af hinni sívinsælu plötu Gling gló frá 1990.


Á sömu plötu flutti Björk einnig hið eina sanna íslenska mömmulag, Litla tónlistarmanninn eftir Freymóð Jóhannesson, undir listamannsnafninu 12. september. Bæði Erla Þorsteinsdóttir og Vilhjálmur Vilhjálmsson fluttu lagið á sínum tíma. Litríkasti flutningur lagsins tilheyrir þó sennilega Jóni Jósep Snæbjörnssyni, betur þekktum sem Jónsa Í svörtum fötum, en hann flutti Litla tónlistarmanninn í söngkeppni framhaldsskólanna árið 1996. Sannkölluð 90´s bomba.



Þeir sem áttu ungdómsár sín á síðari hluta 10. áratugsins muna ef til vill eftir öðru mömmulagi frá 1996, með hinum brjálæðislega vinsælu Spice Girls. Mama er óneitanlega ekki þeirra besta lag en það eru voða krúttlegar barnamyndir af litlu Kryddpíunum í myndbandinu.


Það hlýtur að vera sjaldgæft að lög sem ná toppi vinsældalistans séu tólf mínútur að lengd. Það gerði hins vegar útgáfa bandarísku hljómsveitarinnar The Temptations af laginu Papa Was a Rolling Stone árið 1972. Ólíkt flestum lögunum sem hér birtast er hér birt frekar dimm mynd af föðurnum.


Ömmur og afar hafa líka verið umfjöllunarefni dægurlaga. Hér syngur hinn egypsk-franski en af ítalsk-grísku bergi brotni Georges Moustaki (á frönsku) um afa sinn, "flóttamann frá Korfú og Konstantínópel" - fjölþjóðlegt og harmrænt lag.


Árið 1962 söng Alfreð Clausen um þær ráðleggingar sem amma hans gaf honum og hvernig hún sagði honum sögur og bað honum alls til blessunar. Ömmubæn er eftir Jenna Jónsson, bæði lagi og texti. Tónalísur syngja bakraddir hjá Alfreð.


Tæplega tíu árum síðar hljóðritaði bandaríski söngvarinn Bill Withers sitt ömmulag, í nokkuð öðrum stíl en framlag Jenna og Alfreðs. Grandma´s Hands er frábært, sem og hjartnæmt, grúvlag.

Friday, June 6, 2014

Föstudagslagið: Erfiður sunnudagur

Það væri synd að segja að föstudagslag dagsins sé hressandi - þvert á móti er það angistarfullt og átakanlegt. Gloomy Sunday er reyndar svo angistarfullt og átakanlegt að það hefur lent í öðru sæti á lista yfir dapurlegustu lög allra tíma og á árum síðari heimsstyrjaldarinnar var bannað að spila það á BBC þar sem óttast var að það skaðaði stríðsmóralinn. Allt frá 4. áratugnum hafa gengið flökkusögur um lagið sem tengja það sjálfsvígum og það hefur verið kallað ungverska sjálfsmorðslagið.

Þessar sögur fengu væntanlega byr undir báða vængi þegar höfundur lagsins, píanistinn og tónskáldið Rezső Seress, framdi sjálfsmorð árið 1968. Seress var ungverskur gyðingur, fæddur árið 1899, og samdi lagið sem síðar varð þekktast sem Gloomy Sunday árið 1933. Lagið var hljóðritað í fyrsta skipti af ungverska söngvaranum Pál Kalmár árið 1935.


Thursday, June 5, 2014

Heimsókn í gyðingakirkjugarðinn í Varsjá

Það er langt síðan kirkjugarðsfærsla hefur birst á Smjörfjallinu og löngu kominn tími á aðra. Nýlega ferðaðist ég til Varsjár í Póllandi og þar lagði ég mig sérstaklega eftir því að komast í kirkjugarð. Að morgni síðasta dagsins lögðum við af stað tvær í sporvagni að heimsækja gyðingakirkjugarðinn við Okopowa-götu. Við höfðum ekki mikinn tíma og sáum því ekki nema lítið horn af þessum stóra kirkjugarði, en áttum þar þó ánægjulega en jafnframt tregafulla morgunstund í vorveðrinu.


Gyðingakirkjugarðurinn við Okopowa-götu er 33 hektarar að stærð og var tekinn í notkun um aldamótin 1800. Í seinni heimsstyrjöldinni lenti hann í víglínunni miðri og var lengi mjög skaddaður. Fjöldamörg fórnarlömb nasista eru grafin í garðinum, þar á meðal fólk sem lést í hinni blóðugu uppreisn í gettóinu í Varsjá árið 1943. Þar eru einnig minnismerki um þau fórnarlömb sem aldrei fengu sérstaka gröf.