Wednesday, February 19, 2014

Apollón og strumparnir

Nú nýlega gerðist sá furðulegi atburður að eldforn, glæsileg, forn-grísk bronsstytta af guðinum Apollóni fór til sölu á Ebay. Auglýsingin er vægast sagt athyglisverð, en hana má finna hér. Seljendur styttunnar voru staddir í Gaza-borg á samnefndri strönd í herkví Ísraelsmanna, stjórnað af Hamas-samtökunum. Í ljósi þessa var kannski ekki furðulegt að kaupandi var vinsamlegast beðinn um að sækja styttuna sjálfur, eða eins og það er orðað á Ebay, „Free Local Pickup“. Ljósmynd af gripnum fylgdi auglýsingunni, þar sem styttan lá, yfirveguð, á svampdýnu með strumpalaki:

Apollón var nú þrátt fyrir allt guð eilífrar æsku...
En styttan hvarf fljótt af Ebay. Ekki furða. Þar var beðið um hálfa milljón dollara, sem er heilmikið en ekki upp í nös á ketti miðað við verðið sem eðlilegt væri að fá fyrir upprunalega forn-gríska styttu. Forvitni heimsins var vakin og fréttamenn reyndu að komast að hinu sanna í málinu. Einfaldaðist málið þá lítið.

Fréttamenn höfðu upp á tvemur Gazabúum sem sögðu misvísandi sögur af fundi styttunnar. Einn, Mounir að nafni, segist hafa fundið styttuna um nótt um miðjan september síðastliðinn. Hann hafi verið að veiða fisk nokkra metra frá ströndu og fest netið í styttunni. Fjölskylda hans hafi svo hjálpað honum að losa hana úr sandinum og koma henni í land. Hinn maðurinn heitir Jouda Ghurab og segist hafa fundið styttuna um miðjan dag í ágúst. Hann var á sundi um 100 metrum frá ströndu og sá glitta í styttuna í hafinu á 4-5 metra dýpi. Hann sömuleiðis lét fjölskyldu sína hjálpa sér að flytja styttuna á land. Samkvæmt Mounir heyrði Hamas fljótt af fundinum og gerði styttuna upptæka; Jouda segir hinsvegar að einhver hverfisherforingi hafi heyrt af fundvísi hans, tekið styttuna og sett á Ebay; þá hafi yfirstjórn Hamas komist í málið og tekið styttuna eignarhaldi.

En burtséð frá því hvernig styttan fannst þá eru uppi efasemdir um mikilvægi hennar. Í fyrsta lagi segja fornleifafræðingar að styttur sem komi upp úr söltum sjó eftir aldalanga dvöl líti alls ekki út eins og þessi; hún hafi væntanlega komið af landi og þá verið rænt úr fornleifauppgreftri. Miklar efasemdir eru uppi um að styttan sé raunverulega forn-grísk; líklegra er að hún sé síðhellenísk eða rómversk. Eða jafnvel úr nútímanum - hún sé fölsun. Sömuleiðis hafa fornleifafræðingar varað við því að hrapa að því að hún sé af Apollóni; öruggara sé bara að kalla hana "bakkaberann", því hún virðist hafa haldið á vínbakka. Hvað sem öllu því líður þá liggur styttan undir skemmdum; þegar maður skoðar myndirnar þá er hún með tvo inngreypta augasteina á sumum myndum en á öðrum hefur annar þeirra verið rifinn úr.

Nú veit maður ekki hver framtíð þessa máls verður - ríkisstjórnir hins vestræna heims viðurkenna náttúrulega ekki Hamas-stjórnina og eiga ekki nein samskipti við hana. Því verður væntanlega erfitt að koma upp nokkurs konar fræðilegri samvinnu til þess að sannreyna uppruna styttunnar. Ef styttan reynist raunverulega forn þá munu vestræn stjórnvöld ennfremur vilja flytja hana á þarlend söfn, en slíku arðráni hafa þau lengi sérhæft sig í. En hvað sem því líður, þá virðist enginn skortur vera þessa dagana á furðulegum uppgötvunum úr fornöldinni.

Fylgjast má með nýjustu fréttum af þessu furðumáli hér. Ég vara hinsvegar við fréttaflutningi hefðbundnu miðlanna; þeir virðast einfaldlega trúa máli þeirra Mounirs eða Jouda eftir því hvorn þeirra viðkomandi miðill hefur komist í samband við.

Monday, February 17, 2014

Stubbur og óvæntir ættfeður hans

Síðasta sumar dvaldi ég í borg allra borga, hinni kátu Berlín, og frænka mín notaði tækifærið til að heimsækja borgina í fyrsta sinn. Einn heitan júlídag skelltum við okkur til Potsdam að skoða hallirnar – og hófst þá hið langa ferli sem lýkur með þessari bloggfærslu.

Þessa mynd tók Sigrún frænka.
Potsdam er gamall bær skammt fyrir utan eða inni í Berlín. Þar var lengi aðsetur þjóðhöfðingja Prússlands og síðar hins sameinaða Þýskalands, með tilheyrandi konungshöllum og hallargörðum sem sveittur túristapöpullinn getur nú í anda lýðræðislegri tíma trampað um og potað í með skítugum puttunum. Eins og lög gera ráð fyrir heitir aðalhöllin frönsku nafni: Sanssouci (en það orð lærði ég fyrst sextán ára gömul á snyrtivörukynningu, sem heiti á dagkremi). Sanssouci í Potsdam er laglegt, gullskreytt rókókóflipp frá 18. öld og var sumarhöll Friðriks annars Prússakeisara. Meðal þess sem prýðir garðana kringum höllina er nokkuð sem mig hafði lengi langað að sjá með eigin augum og gladdi mig sérstaklega þennan júlídag: rústirnar á Ruinenberg.

Friday, February 14, 2014

Fyrsta föstudagslag: The Letter

Í dag hefur göngu sína nýr fastur liður á Smjörfjalli sögunnar: föstudagslagið. Hvað er betra á föstudegi en létthristur kokkteill af sögu og grúvi?

Fyrsta föstudagslagið er mikið uppáhaldslag Smjörfjallspenna: The Letter. Lagið var fyrst hljóðritað af memphísku hljómsveitinni The Box Tops árið 1967, og var samið af tónlistarmanninum Wayne Carson Thompson sem gerði nokkur lög fyrir sveitina. Söngvarinn Alex Chilton, þótt ótrúlegt megi virðast, var sextán ára gamall þegar hann söng lagið.


Lagið náði strax gríðarlegum vinsældum og seldist í meira en milljón eintaka. Mjög fljótlega fóru aðrir tónlistarmenn að taka The Letter og árið 1979 var talið að meira en tvö hundruð ólíkar upptökur af því hefðu verið gerðar. Smjörfjallspennar vilja benda á nokkrar uppáhaldsábreiður sínar. Þær eru:

Útgáfan með sálargoðinu Al Green, sem kom út á þriðju plötu hans Green Is Blues árið 1969:


Green tekur lagið í sálar- og gospelátt, drifið áfram af hinni frægu ryþmasveit Hi Records, plötufyrirtækis Green. Breski rokktónlistarmaðurinn Joe Cocker tók það svo alla leið í rokkextravagansi á tónleikum sem voru gefnir út á mynd og plötu undir nafninu Mad Dogs and Englishmen árið 1970. Cocker veifar höndum eins og hann sé að fara yfirum (eins og venjulega) og blásarar og hippalegur gospelkór keyra upp stemminguna:


Og loks er lagið tekið í glæsilega diskóátt hjá Dionne Warwick!


Eigið grúví föstudag!

Wednesday, February 12, 2014

Eyrbyggja saga og hið kvenlega


Um jólin var ég svo lánsöm að fá að gjöf tvær bækur úr ritröðinni Íslenzk fornrit, nánar tiltekið Vatnsdæla sögu og Eyrbyggja sögu. Þó það styttist í að ég útskrifist með virðulega gráðu miðaldafræðings, þá hef ég engu að síður lesið vandræðalega lítið af íslenskum fornbókmenntum. Því hef ég hafið hægfara söfnun á Íslenzkum fornritum, og fjölskylda mín var svo elskuleg að leggja mér lið með þessum hætti. En þó að það sé kominn febrúar þá verð ég að viðurkenna að ég hef enn ekki lesið Vatnsdæla sögu. Því þó miðaldir heilli mig mikið, þá hefur þessi ágæta ritröð einfaldlega takmarkaða samkeppnishæfni við sænska fantasíuþríleikinn um Hringinn.

Því verð ég að láta mér nægja að lýsa lestrarupplifun minni af 4. bindi Íslenzkra fornrita, enn sem komið er. Auk sjálfrar Eyrbyggja sögu inniheldur bindið einnig þáttinn um Brand örva, Eiríks sögu rauða, Grænlendinga sögu og Grænlendinga þátt, sem ég hyggst fjalla um síðar. Eyrbyggja og Grænlandsefnið kom fyrst út árið 1957 í útgáfu Einars Ól. Sveinssonar og Matthíasar Þórðarsonar. Önnur útgáfa kom svo út 1985 með athugasemdinni „í þessari ljósprentuðu útgáfu hafa verið gerðar fáeinar lagfæringar“. Annarri útgáfu fylgir viðauki með Eiríks sögu rauða, en þar fyrir utan á ég erfitt með að ímynda mér að miklar breytingar hafi verið gerðar á bókinni, því það er ósvikull fifties-bragur á textanum. Og þar sem ég lá afvelta á jóladag, eftir að hafa innbyrt óheppilegt magn af brimsöltu hangikjöti, og þrælaði mér af samviskusemi gegnum formálann, þá vakti eftirfarandi fullyrðing athygli mína:

„Þó að sagan sé þannig fyrst og fremst „karlmannasaga“ (eins og norska skáldið Kinck kemst að orði), þá hefur hún þó fengið einn kafla með öðru efni, en það er þátturinn af ástum Bjarna og Þuríðar.“ (Bls. XL)

Ég varð blátt áfram snortin yfir því að hann Einar Ól. Sveinsson (og hið dularfulla norska skáld Kinck) hafi tekið eftir því árið 1957 að ritið sem hann var að gefa út væri karllægt. Ég myndi lýsa gervöllu Íslandi árið 1957 sem karllægu, ekki hvað síst háskólasamfélaginu, og því allt annað en sjálfsagt að Einar skuli hafa tekið eftir þessu einkenni. Í það minnsta vantar ýmislegt upp á að margir Íslendingar í dag velti þessu fyrir sér með bækur sem þeir lesa eða skrifa. En jæja, ég staldraði sumsé við þessa setningu. Og ef til vill hefði ég farið að undirbúa mig andlega undir einhverja svakalega bromance-sögu þar sem testósterónið flæddi yfir síðurnar, ef ekki hefði verið fyrir samhengi fullyrðingarinnar. Hún er í undirkaflanum Einkenni Eyrbyggju og þau „karlmannlegu“ einkenni sem lýst er á undan tilvitnuninni eru forn fræði og sagnfræðilegur hugsunarháttur, þjóðtrú og dularheimar, deilur, vígaferli og pólitík. Það sem taldist hins vegar ekki hluti af karlmannlega söguþræðinum eru svo fyrrnefndar ástir Bjarna og Þuríðar.

Friday, February 7, 2014

Æviminningar karla af Skarðsströnd II: Ísland er sálnamorðingi

Sætur kall. Mynd úr Þjóðviljanum 11. nóvember 1981
Er þá komið að annarri færslu í bloggsyrpunni Æviminningar karla af Skarðsströnd.

Magnús Blöndal Jónsson (1861-1956) á það sameiginlegt með höfundinum sem fjallað var um í fyrri færslu, séra Friðriki Eggerz á Ballará, að hafa verið prestur, og æviminningar Magnúsar voru einnig gefnar út í tveimur þykkum bindum – Bernska og námsár og Prestur og bóndi – sem telja samanlagt um sjöhundruð síður og eru þó ekki nema þrír fimmtu hlutar þess texta sem Magnús lét eftir sig.

Það var Sigfús Daðason sem gaf út æviminningar Magnúsar að honum löngu látnum árið 1980, en þær voru ritaðar fjörutíu árum fyrr. Eiginkona Magnúsar var þá orðin svo heilsulítil að hann gat ekki farið frá henni, en kunni illa við að sitja iðjulaus. Þar sem hann taldi að hann myndi „innan skamms verða að hreinum ræfli“ ef hann færi að stunda tímadráp á borð við rómanalestur tók hann til við að skrifa æviminningar sínar í staðinn, og það er satt að segja ótrúlegt hvað þessi aldraði maður lýsir nákvæmlega atburðum, fólki og staðháttum úr bernsku sinni.

Endurminningar séra Friðriks Eggerz, Úr fylgsnum fyrri aldar, eru frekar köflóttar og nokkrir kaflar afspyrnu leiðinlegir, en höfundurinn nær sér jafnan á strik aftur með hnyttinni gamansögu eða ljúfsárum hugleiðingum um lífsins gang. Það er til hagræðingar fyrir lesendur að leiðinlegu kaflarnir í endurminningum séra Magnúsar eru allir í seinna bindinu. Af vísindalegum metnaði plægði ég í gegnum þau bæði en ég held að mér sé óhætt að mæla eingöngu með fyrra bindinu, séu lesendur ekki þeim mun áhugasamari um búnaðarhætti og heimilisbókhald á Austurlandi á fyrri hluta 20. aldar.