Wednesday, November 19, 2014

Lifandi menningararfur: kátar nornir og risavaxnir víkingar

Draugaganga í Edinborg. Myndin er héðan
Í hinum mikla uppgangi ferðamannaiðnaðarins á Íslandi er „markaðssetning menningararfsins“ nærtækt umhugsunarefni. Menningararfurinn er nógu flókinn þegar hann er notaður til heimabrúks og ekki einfaldast málið þegar túrisminn kemur inn í myndina. Ég man hvenær ég upplifði fyrst markvissa notkun menningararfs í markaðssetningu staðar; það var þegar ég heimsótti Edinborg í fyrsta skipti árið 2008. Sú mynd af borginni sem haldið var að mér sem túrista virtist nokkuð heildstæð og einkenndist af hálfgotneskri stemmningu, í sögu borgarinnar var lögð áhersla á ýmis konar dularfull og jafnvel óhugnanleg fyrirbæri. Við heimsóttum kirkjugarða og neðanjarðarhvelfingar og fórum á skurðlækningasafnið þar sem við lásum æsilegar frásagnir af morðum og líkránum og sáum gömul krufningartæki og seðlaveski úr mannshúð. Ég lét mér þetta vel líka, enda er ég svo gotnesk týpa.

Myndin af Edinborg sem dularfullri borg með draugalega sögu rímar ágætlega við ýmislegt í yfirbragði og menningu borgarinnar; þröngar og krókóttar göturnar í miðbænum, dökkar hliðar húsanna, hefð skoskra ráðgátu- og lögreglusagna allt frá Robert Louis Stevenson og Arthur Conan Doyle til Ian Rankin, og líkræningjasögurnar eru svosem engin lygi. Væntanlega eru slíkar áherslur í markaðssetningu staða yfirleitt í einhverjum tengslum við raunveruleikann – ég ætla að standast mátið að fara út í skýrsluna alræmdu um Ímynd Íslands, sem kom út sama ár og ég fór til Edinborgar – en ég hef þó komist að því síðan að sá raunveruleiki sem markaðssetningin stendur í tengslum við þarf ekki að vera raunverulegur eða sannur í neinum hefðbundnum skilningi.

Sunday, November 9, 2014

Að finna upp heiðnina

Ég stunda þessa dagana mastersnám í klassískum viðtökufræðum (Classical Reception Studies) við háskólann í Bristol. Þar tókst mér að velja ágætt úrval kúrsa sem hafa opnað augu mín fyrir ýmsu sem ég hafði ekki áttað mig á áður - mér hefur tekist að fá nokkrum sinnum þessa skemmtilegu akademísku tilfinningu um að nú hafi eitthvað upplukist sem maður hafði áður verið algjörlega blindur á. Ég ætla að reyna að segja hér frá einni slíkri uppgötvun.

Aðalbygging háskólans í Bristol ber þarna við himininn.
Einn tíminn hérna og minn uppáhalds sem stendur kallast Pagans and Christians in Late Antiquity. Umfjöllunarefnið segir sig sjálft - hvernig þessir trúarhópar, hin rótgróna rómversk/gríska fjölgyðistrú og svo hin glænýja og skyndilega ofurmáttuga kristna trú deildu samfélagi síðfornaldar. En ég komst fljótt að því að það að orða þetta svona er raunar að kaupa sig inn í skilgreiningarheim kristninnar. Heiðingjarnir, "the pagans", lýstu sér alls ekki sem heiðingjum eða "pagans" - ekki einu sinni með forna orðinu paganus sem enska orðið kemur af. Það voru kristnir höfundar sem fundu upp á því að skilgreina þá sem ekki trúðu því sama og þeir með þessu orði (og öðrum).

Í heimi fjölgyðistrúarbragða er nefnilega engin þörf á svona skilgreiningum; þeir sem aðhylltust grísk/rómverskan sið höfðu ekkert orð yfir sig sjálfa til að aðgreina sig útfrá trúarbrögðum. Þeir skilgreindu sig útfrá stétt, útfrá tungumáli, útfrá fæðingarstað, en það var ekki fyrr en hin útilokandi eingyðistrú kristni sótti svona í sig veðrið sem þessi ákveðna við-og-þeir-skipting varð til.

Það er til dæmis lýsandi að þegar forni sagnfræðingurinn Heródótos talar um Egypta og Skýþa á fimmtu öld f. Kr. þá orðar hann það sem svo að þeir dýrki Seif og Aþenu og Díónýsos - þeir kalli þessa guði bara öðrum nöfnum. Aldrei myndu kristnir höfundar sætta sig við þá lýsingu að Grikkir tignuðu Guð þegar þeir tignuðu Seif - það væri bara annað nafn á sama hlut (eins og ýmsir "heiðingjar" héldu síðar fram í varnarritum fyrir hinn hefðbundna sið).

Sömuleiðis þróaðist á síðfornöld hugmyndin um skiptingu heimsins í hið veraldlega og hið trúarlega (the sacred and the secular). Í heimi fjölgyðistrúarbragða er þessi skipting ekki til, það er ekki einu sinni hægt að ímynda sér hana. Guðirnir eru allstaðar og allt athæfi mannsins er guðunum viðkomandi. Það er fyrst þegar Kristur finnur upp á þeirri stórkostlegu pólitísku lausn að gjalda Keisaranum það sem Keisarans er og Guði það sem Guðs er (Lúkas 20:25) sem þessi hugmynd fer að mótast - Guð býr í sálu mannsins og í kirkjunni en veraldlegt vald er aðskilinn heimur.

Fyrirfram hafði ég einhvernveginn ímyndað mér að hugtakið heiðni væri eldra en hugtakið kristni og að hugtakið trúarlegt væri eldra en hugtakið veraldlegt. En það er eins með þessi hugtök og samkynhneigð og gagnkynhneigð - gagnkynhneigð er nefnilega yngra hugtak, búið til sérstaklega til þess að lýsa öllum sem ekki eru samkynhneigðir. Hugmyndin um samkynhneigð kallaði á nýtt hugtak til að lýsa því normi sem fyrirfram taldist óþarfi að hafa orð á. Þvert á það sem maður myndi kannski halda (sé maður jafn vitlaus og ég!)

Þetta verður vonandi bara fyrsti pistill af mörgum um uppgötvanir við Bristol-háskóla. Einn daginn munu þeir vonandi koma út sem leðurbundin bók undir nafninu The Bristol Epiphanies.

Sunday, November 2, 2014

Ida Pfeiffer á Íslandi


Ida Pfeiffer í búningi virðulegrar dömu.
 Þann 16. maí 1845 steig austurríska hörkutólið Ida Pfeiffer á land í Hafnarfirði. Pfeiffer var einn af mörgum evrópskum ferðalöngum sem heimsóttu Ísland á 19. öld í vísindalegum tilgangi, og birtu í kjölfarið bók með ferðasögu sinni sem seldist í hestvagnaförmum. Ritun evrópskra ferðabóka af þessu tagi á sér langa sögu, eða allt frá lokum miðalda, en Pfeiffer var ein af fáum konum sem hösluðu sér völl sem landkönnuður. Lýsingar erlendra ferðalanga á Íslandi njóta töluverða vinsælda um þessar mundir (t.d. á hinu ágæta vefriti Lemúrnum), auk þess sem ég taldi mig hafa fengið ágæta yfirsýn yfir þetta menningarfyrirbæri í sagnfræðináminu. Engu að síður hafði ég ekki hugmynd um að neinn af þessum ferðalöngum hefði verið kvenkyns og varð töluvert hissa þegar ég uppgötvaði Idu Pfeiffer.

Ida Laura Reyer fæddist inn í efnaða millistéttarfjölskyldu í Vín árið 1797, og það virðist vera hálfgerð klisja í umfjöllun um hana að taka fram að pabbi hennar hvatti hana til að hegða sér eins og strákur, ganga í strákafötum, etja kappi við bræður sína og fara með þeim í kennslustundir. Hann dó þegar hún var níu ára, og í kjölfarið fylgdi nokkurra ára kalt stríð milli Idu og móður hennar, sem vildi fyrir alla muni gera hana hjónabandsvæna. Það heppnaðist á endanum einum of vel, því þegar Ida var 17 ára hugnaðist henni að giftast heimiliskennaranum, sem hafði átt stærstan hlut í því að fá hana til að sættast við hlutskipti millistéttarkonunnar. Kennarinn þótti hinsvegar of fátækur og var rekinn burt með smán. Ida hélt þó sambandi við hann út ævina, því hann deildi ástríðu hennar fyrir ferðalögum og skrifaði sjálfur ferðabækur.

Sex árum síðar giftist Ida lögmanninum Mark Anton Pfeiffer og flutti með honum til austurrísku borgarinnar Lemberg/Liev í Úkraínu. Hr. Pfeiffer hafði allt til að bera sem heimilskennarinn hafði ekki haft, hann var um fimmtugt og vel stæður. Hið kaldhæðnislega er hins vegar að nokkrum árum síðar þá missti hr. Pfeiffer vinnuna. Ida Pfeiffer hélt því statt og stöðugt fram í bókum sínum að það hefði verið vegna þess að hann reyndi að fletta ofan af spillingu í austurríska embættismannakerfinu. Ég hef hins vegar ekki séð neinar aðrar heimildir fyrir því, og miðað við að Ida þagði þunnu hljóði um lögskilnað þeirra í metsölubókum sínum, þá get ég alveg séð fyrir mér að hún hafi eitthvað fegrað sannleikann í þessu máli.

Þrátt fyrir bestu óskir móðurinnar, þá endaði Ida á því að gera það sem þótti eflaust afar óæskilegt í hennar kreðsum, að vinna fyrir eiginmanni og börnum með því að bjóða upp á einkatíma í kvenlegum hannyrðum og píanóleik, fögunum sem hún hafði hatað ákaflega sem barn. Að lokum gafst hún upp og flutti með syni sína tvo aftur til Vínar, og gat fjármagnað menntun þeirra með móðurarfi sínum, eftir að hún var skilin við eiginmanninn. Pfeiffer var þá orðin 45 ára, og hafði uppfyllt þær kröfur sem hún taldi að samfélagið ætti rétt á að gera til sín, hún hafði gifst og alið upp börnin sín með eins sómasamlegum hætti og henni var unnt. Því ákvað hún að láta drauma sína rætast, og ferðast. Fyrsta ferðalag hennar lá til Landsins helga, sem hún áleit að væri viðeigandi metnaður fyrir dömu á hennar aldri. Það tók hana tvö ár að safna fyrir ferðinni, en peningaskortur átti eftir að hafa mótandi áhrif á öll hennar ferðalög, á tímum þegar flestir frístundaferðalangar, karlkyns eða kvenkyns, voru bæði auðugir og vel menntaðir.

Sunday, September 14, 2014

Faðir læknisvísindanna framkvæmir óvenjulega fóstureyðingu

Hippókrates kannast flestir við útfrá eiðnum fræga, sem læknar ku sverja enn í dag. Maðurinn sjálfur er fremur dularfull fígúra - Grikkir til forna litu á hann sem föður læknisfræðinnar og vottuðu fornir arftakar hans honum virðingu sína með því að gefa út öll sín læknisfræðirit undir hans nafni. Þaðan kemur hið gríðarlega hippókratíska ritsafn, merkasta samansafn fornrar læknisfræðihugsunar sem fyrirfinnst, sem inniheldur þó varla eitt einasta orð eftir sjálfan Hippókrates.

Hippókrates. Nafnið merkir "sá sem stjórnar hestum". Oft ruglast nafn hans saman við orðið "hypocrite" - "sá sem dæmir yfir" (leiðr. sjá 1. athugas.) - og úr verður "hippocrite" - "sá sem dæmir hesta". Helvítis hippókrit!

Það er hinsvegar spurning hvort læknar dagsins í dag ættu raunar að kenna sig svo glatt við manninn: Þótt læknar til forna hafi sannarlega haft ýmislegt til síns máls (eins og stöðuga áherslu á líkamsrækt sem flestra meina bót - viðhorf sem er nýlega dottið aftur í tísku) þá höfðu þeir jafnframt oft kostulega rangt fyrir sér, og gerðu stundum tilraunir og drógu ályktanir sem maður veit ekki hvort maður eigi að hlæja að eða gráta yfir.

Til dæmis um þetta vil ég þýða og birta frægan kafla úr hippókratíska ritsafninu, úr verki sem kallast Um eðli barnsins (þakkir til Arngríms Vídalín Smjörfjallspenna fyrir að grafa upp kaflann!) Þetta er kafli 13.1-4, þar sem læknirinn gerir ansi magnaða fóstureyðingartilraun á vændiskonu:

Sunday, July 20, 2014

Typpi, stór og lítil; konur, graðar og kaldar

Ýmis konar hugmyndir sem fyrir okkar vestrænu menningu eru fullkomlega sjálfsagðar eru þegar nánar er skoðað félagslegur tilbúningur - ein hugmynd getur ríkt um aldir og allt önnur svo tekið við og ríkt jafn lengi. Í fornaldarstúdíu finnast mýmörg áhugaverð dæmi um þetta, en hér ætla ég að fjalla um aðeins tvö: Æskilega typpastærð og kynferðislegan áhuga kvenna.

Í okkar menningu er það ríkt að typpi skulu vera stór; lítil typpi tákna litla karlmennsku, aumingjaskap og athlægi. Hugmyndin að baki er sú að lítil typpi geti ekki fullnægt konum né þjónað sem valdatákn í augum annarra karlmanna. Karlmaður með lítið typpi telst ekki hafa neitt tilkall til að hafa meiri völd og peninga en maður með stórt typpi, og sýniþörf hans á efnislegum gæðum er jafnan talin merki um over-compensation; að hann sé að bæta sér smæð kynfæranna upp með pallbíl eða rándýrri og langri veiðistöng.

Þessi hugmynd væri afar kunnugleg hinum forna rómverska menningarheimi. Þar hafði typpastærð svipaða merkingu fyrir virðingarröð karlmanna. En í hinum gríska menningarheimi var merkilega öðruvísi litið á hlutina: Þar töldust stór typpi grótesk og dýrsleg, en lítil typpi falleg og smekkleg.

Styttan af Adonis í Hallargarðinum í Reykjavík, sem er gerð eftir forn-grískum hugmyndum um ídeal karlmannslíkama. Úr greinasafni Mbl.
Eins og lesendur kannast kannski við úr klassískri höggmyndalist (svosem Davíð eftir Michaelangelo, eða Adonis að ofan) þá eru typpin á nöktum karlstyttum alltaf mjög lítil. Þetta eru áhrif frá forn-grískri höggmyndalist, sem ídólíseraði hárlausa líkama vöðvastæltra, mjórra, ungra karlmanna með lítil typpi. Þetta er ennþá okkar fegurðarímynd í hinu daglega lífi - fyrir utan typpið, sem nú skal vera stórt. Þennan mun má kannski skýra að einhverju leiti með því að í Grikklandi til forna var nekt karlmanna sjálfsögð - menn gengu um lítt klæddir í hitanum og æfðu íþróttir naktir á almannafæri. Það var einfaldlega ekkert til að fela og ekkert til að láta ímyndunaraflinu eftir, en í okkar menningu eru stór typpi frekar gefin í skyn en sýnd.

Rómverjar og síðari tímar almennt hermdu eftir stíl forn-grísku styttanna, en í menningunni héldu þeir fram allt annarri karlmennskuímynd þar sem stórt typpi þýddi mikil karlmennska, sem aftur þýddi mikil völd. Garðaguðinn Príapus er gott dæmi um rómverska typpadýrkun:

Guðinn Príapus, veggmálverk frá Pompeii. Takið eftir ávaxtakörfunni (þarna undir risatyppinu), sem bendir til hlutverks hans sem garðaguðs. Príapus er að vigta typpið á sér á vogarskál á móti poka af gulli.

Sunday, June 29, 2014

Mjólk, brauð og stríð

Síðustu mánuði hef ég verið að vinna við sýningu um neyslusögu Reykvíkinga á 20. öld sem opnaði á Árbæjarsafni nú í sumarbyrjun, og fengið því tækifæri til að kynnast aðeins hinu spennandi fræðasviði neyslusögunnar. Fremstir í þeim flokki á Íslandi hafa verið þeir Guðmundur Jónsson og Magnús Sveinn Helgason. Fyrir þá sem vilja kynna sér neyslusögu mæli ég sérstaklega með fimm þáttum um sögu neyslusamfélagsins eftir Magnús Svein sem er að finna á hlaðvarpi Ríkisútvarpsins. Guðmundur Jónsson hefur einnig skrifað margar áhugaverðar greinar á þessu sviði og upp úr einni þeirra skrifaði ég Smjörfjallspistil um breytingar á mataræði Íslendinga.

Í einni af greinum sínum minnist Guðmundur Jónsson á neytendasamvinnu reykvískra húsmæðra á fyrri hluta 20. aldar. Hann fer ekki náið út í það mál, en forvitni mín var vakin og ég fór á stúfana á hinum ómetanlegu síðum Tímarit.is og Fons Juris.

Neytendasamvinna var aldrei jafn blómleg á Íslandi og víða annars staðar. Íslenska samvinnuhreyfingin var bændahreyfing sem tók einkum mið af hagsmunum framleiðenda í dreifbýli. Þó urðu til nokkur pöntunarfélög og kaupfélög meðal verkamanna í þéttbýli – og oftar en einu sinni tóku húsmæður sig saman og létu í sér heyra, enda voru það þær sem sáu um innkaup og aðdrætti til heimilisins. Á Borgarskjalasafni Reykjavíkur er til dæmis að finna skjöl Húsmæðrafélags Reykjavíkur frá 1915-1919, en það var pöntunarfélag hvers tilgangur var að „að sjá til þess að félagskonur fengju sem bestar útlendar matvörur á sem lægstu verði“. Neyslusaga fléttast oft saman við kynjasögu, enda gerir rótgróin hugmyndafræði ráð fyrir því að framleiðslan sé hlutverk karlmannsins en konan sjái um neysluna. Karlmaðurinn er tengdur hinu praktíska og nauðsynlega en konan hinu hégómlega og óþarfa.

Friday, June 27, 2014

Ammæli

Smjörfjall sögunnar hefur verið á frekar rólegri siglingu undanfarið, enda ýmis lokkandi fyrirbæri á sveimi, svo sem lokaritgerðir, vinna og sumar. Það breytir því ekki að Smjörfjallið átti árs afmæli fyrir viku síðan, þann 20. júní. Eins árs og einnar viku afmæli bloggsíðunnar verður nú fagnað á viðeigandi hátt, með afmælisþemalagafærslu par excellence.

Eitt krúttlegasta afmælislag sem við munum eftir er úr þætti allra þátta, The Simpsons, nánar tiltekið þættinum Stark Raving Dad úr þriðju seríu, sem vísar mjög til kvikmyndarinnar One Flew Over the Cuckoo´s Nest. Homer er lagður inn á geðsjúkrahús, þar sem einn af samsjúklingum hans er maður sem heldur að hann sé Michael Jackson. Það er að sjálfsögðu Michael Jackson sjálfur sem talar fyrir karakterinn, og síðar í þættinum taka þeir Bart höndum saman um að búa til afmælislag handa Lisu. Þessi útgáfa er ekki í sérlega góðum gæðum en maður verður eiginlega að sjá atriðið með:


Hjartaknúsarinn Neil Sedaka hefur hins vegar sungið afmælislag sem er jafn lúmskt krípí og lagið hennar Lisu er krúttlegt. Þótt Smjörfjallið sé ekki orðið sextán getum við öll tekið undir með mr. Sedaka:

What happened to that funny face?
My little tomboy now wears satin and lace
I can't believe my eyes, you're just a teenage dream
Happy birthday sweet sixteen!



En æ, nei, ætli afmælisbarnið Smjörfjallið vilji ekki frekar þræða orma upp á bönd, geyma köngulær í vasanum, mála þungar bækur og líma þær saman...


Árið 1981 samdi hinn mikli vinur Smjörfjallsins, Stevie Wonder, afmælislag handa öðrum miklu manni, Martin Luther King, en Stevie og fleiri börðust fyrir því að afmælisdagur King væri gerður að lögbundnum frídegi í Bandaríkjunum. Það tókst stuttu síðar, þótt það sé reyndar ekki alltaf sjálfur fæðingardagur King, 15. janúar, sem haldið er upp á, heldur þriðji mánudagurinn í janúar.


Einn frægasti afmælissöngur bandarískrar sögu er sennilega þegar Marilyn Monroe söng svo seiðandi fyrir John F. Kennedy á 45 ára afmælinu hans árið 1962.


Tilfinningum Smjörfjallsins á þessum tímamótum er þó best lýst með lagi sem er ekki beinlínis afmælissöngur:

Friday, June 13, 2014

Föstudagslög feðranna

Ýmsir tónlistarmenn hafa í gegnum tíðina fundið hjá sér hvöt til að ávarpa og þakka þeim sem hafa staðið þeim næst og alið þá upp: mömmu og pabba, ömmu og afa. Föstudagsfærsla dagsins er stútfull af slíkum tileinkunum.

Tvö ástsæl íslensk stykki koma strax upp í hugann. Það fyrra er Ó, pabbi minn, sem er íslenskur titill þýska söngleikjalagsins O mein papa frá 1939. Íslenski textinn er eftir Þorstein Sveinsson, en þess má til gamans geta að hann samdi líka texta við lagið Móðir mín sem kom út um svipað leyti. Bæði lög voru hljóðrituð af Ingibjörgu Þorbergs, en ekki síður þekkt er útgáfa Bjarkar Guðmundsdóttur og Guðmundar Ingólfssonar af hinni sívinsælu plötu Gling gló frá 1990.


Á sömu plötu flutti Björk einnig hið eina sanna íslenska mömmulag, Litla tónlistarmanninn eftir Freymóð Jóhannesson, undir listamannsnafninu 12. september. Bæði Erla Þorsteinsdóttir og Vilhjálmur Vilhjálmsson fluttu lagið á sínum tíma. Litríkasti flutningur lagsins tilheyrir þó sennilega Jóni Jósep Snæbjörnssyni, betur þekktum sem Jónsa Í svörtum fötum, en hann flutti Litla tónlistarmanninn í söngkeppni framhaldsskólanna árið 1996. Sannkölluð 90´s bomba.



Þeir sem áttu ungdómsár sín á síðari hluta 10. áratugsins muna ef til vill eftir öðru mömmulagi frá 1996, með hinum brjálæðislega vinsælu Spice Girls. Mama er óneitanlega ekki þeirra besta lag en það eru voða krúttlegar barnamyndir af litlu Kryddpíunum í myndbandinu.


Það hlýtur að vera sjaldgæft að lög sem ná toppi vinsældalistans séu tólf mínútur að lengd. Það gerði hins vegar útgáfa bandarísku hljómsveitarinnar The Temptations af laginu Papa Was a Rolling Stone árið 1972. Ólíkt flestum lögunum sem hér birtast er hér birt frekar dimm mynd af föðurnum.


Ömmur og afar hafa líka verið umfjöllunarefni dægurlaga. Hér syngur hinn egypsk-franski en af ítalsk-grísku bergi brotni Georges Moustaki (á frönsku) um afa sinn, "flóttamann frá Korfú og Konstantínópel" - fjölþjóðlegt og harmrænt lag.


Árið 1962 söng Alfreð Clausen um þær ráðleggingar sem amma hans gaf honum og hvernig hún sagði honum sögur og bað honum alls til blessunar. Ömmubæn er eftir Jenna Jónsson, bæði lagi og texti. Tónalísur syngja bakraddir hjá Alfreð.


Tæplega tíu árum síðar hljóðritaði bandaríski söngvarinn Bill Withers sitt ömmulag, í nokkuð öðrum stíl en framlag Jenna og Alfreðs. Grandma´s Hands er frábært, sem og hjartnæmt, grúvlag.

Friday, June 6, 2014

Föstudagslagið: Erfiður sunnudagur

Það væri synd að segja að föstudagslag dagsins sé hressandi - þvert á móti er það angistarfullt og átakanlegt. Gloomy Sunday er reyndar svo angistarfullt og átakanlegt að það hefur lent í öðru sæti á lista yfir dapurlegustu lög allra tíma og á árum síðari heimsstyrjaldarinnar var bannað að spila það á BBC þar sem óttast var að það skaðaði stríðsmóralinn. Allt frá 4. áratugnum hafa gengið flökkusögur um lagið sem tengja það sjálfsvígum og það hefur verið kallað ungverska sjálfsmorðslagið.

Þessar sögur fengu væntanlega byr undir báða vængi þegar höfundur lagsins, píanistinn og tónskáldið Rezső Seress, framdi sjálfsmorð árið 1968. Seress var ungverskur gyðingur, fæddur árið 1899, og samdi lagið sem síðar varð þekktast sem Gloomy Sunday árið 1933. Lagið var hljóðritað í fyrsta skipti af ungverska söngvaranum Pál Kalmár árið 1935.


Thursday, June 5, 2014

Heimsókn í gyðingakirkjugarðinn í Varsjá

Það er langt síðan kirkjugarðsfærsla hefur birst á Smjörfjallinu og löngu kominn tími á aðra. Nýlega ferðaðist ég til Varsjár í Póllandi og þar lagði ég mig sérstaklega eftir því að komast í kirkjugarð. Að morgni síðasta dagsins lögðum við af stað tvær í sporvagni að heimsækja gyðingakirkjugarðinn við Okopowa-götu. Við höfðum ekki mikinn tíma og sáum því ekki nema lítið horn af þessum stóra kirkjugarði, en áttum þar þó ánægjulega en jafnframt tregafulla morgunstund í vorveðrinu.


Gyðingakirkjugarðurinn við Okopowa-götu er 33 hektarar að stærð og var tekinn í notkun um aldamótin 1800. Í seinni heimsstyrjöldinni lenti hann í víglínunni miðri og var lengi mjög skaddaður. Fjöldamörg fórnarlömb nasista eru grafin í garðinum, þar á meðal fólk sem lést í hinni blóðugu uppreisn í gettóinu í Varsjá árið 1943. Þar eru einnig minnismerki um þau fórnarlömb sem aldrei fengu sérstaka gröf.

Friday, May 30, 2014

Föstudagslög: Söngvar um sjúkdóma

Þema föstudagstónlistar Smjörfjallsins í dag er: sjúkdómar. Til eru gríðarmörg lög um sjúkdóma, enda fátt sem hefur jafn mikil áhrif á líf listamanna, rétt eins og annars fólks, og andlegt og líkamlegt heilsufarsástand þeirra. Mörg sjúkdómalög eru átakanleg, önnur fyndin eða kaldhæðin. Og sum auðvitað leiðinleg, en við birtum þau ekki hér.

Ímynd dægurtónlistarmanna hefur löngum verið tengd villtu líferni og vímuefnaneyslu, og margir hafa sungið um glímu sína við þá bræður Bakkus og eiturlyfjadjöfulinn. Í fyrsta lagi dagsins syngja flytjendurnir þó ekki um sinn eigin vanda heldur um fíkn eirðarlausrar húsmóður, sem finnst að

cooking fresh food for a husband's just a drag 
so she buys an instant cake and she burns her frozen steak 
and goes running for the shelter of a mother's little helper

Hjálparhella húsmóðurinnar er að sjálfsögðu valíum. Það má deila um það hvort Mick Jagger og Keith Richards sýni mikla samúð með aðalsöguhetjunni í texta sínum við þetta lag Rolling Stones - húsmæðradópið skorar almennt ekki mörg rokkstig í menningu vorri - en hugurinn hvarflar til hrollvekjandi ímyndar hinnar einangruðu, bandarísku úthverfahúsmóður eftirstríðsáranna og mann langar ósjálfrátt að taka af henni valíumglasið og rétta henni frosið lambalæri.


Friday, May 23, 2014

Föstudagslagið: Tainted Love

Árið 2001, þegar ég var 13 ára, náði lagið Tainted Love í útgáfu Marilyn Manson töluverðum vinsældum. Eins og flest frá þessum tíma, þá er lagið að mínu mati einfaldlega of hallærislegt til að hægt sé að birta það hér. Lagið hljómaði í kvikmyndinni Not Another Teen Movie, sem jafnaldrar mínir muna kannski eftir, og myndbandið við lagið sýnir því partí með persónum úr myndinni sem er krashað af „ógnvekjandi gothurum“.

Stilla úr þessu stórkostlega myndbandi. Er eitthvað hallærislegra en pródúcerað uppreisnaríkon?

Af einhverjum ástæðum náði lagið þó ekki mikilli hylli í mínu nærumhverfi á þessum tíma. Ég man skýrt eftir að hafa heyrt eftirfarandi samtal:

A: „Finnst þér Tainted Love skemmtilegt?“
B: „Sko, ég hlusta bara á upprunalegu útgáfuna.“

Þetta er náttúrulega útspil sem gerir þig að svölustu manneskju á svæðinu, hvar og hvenær sem er. Eftir á að hyggja þá var viðkomandi samt líklega eitthvað að ruglast, því upprunalega útgáfa Tainted Love kom út árið 1964:



Tainted Love var B-hliðin á singúlnum My Bad Boy's Comin' Home, sem er ekkert sérstaklega grípandi, ef satt skal segja. Enda floppaði smáskífan, en fyrir tilviljun náði Tainted Love ákveðnum költ status í breskum sálarklúbbum á áttunda áratugnum. Aumingja Gloria reyndi þá að endurútgefa lagið, en aftur án árangurs. Þetta lag skilaði henni aldrei neinum peningum, þrátt fyrir að það malaði gull fyrir Marilyn Manson og næntíshljómsveitina Soft Cell, sem á án vafa þekktustu útgáfu lagsins:



Myndbandið við þetta lag er stórvirki, þó mögulega væri ég annarar skoðunar ef ég hefði verið 13 ára árið 1982. Það er einfaldlega svo furðulegt að það fer út fyrir öll velsæmismörk. Af hverju er t.d. hinn illi elskhugi representaður af smástelpu? Undarlegur symbólismi, artí klippingar og slakir leiklistartilburðir koma þessu myndbandi á þann dekadens-hátind sem Not Another Teen Movie gat ekki einu sinni látið sig dreyma um.

Tainted Love er einnig gott dæmi um útbreiddan internetmisskilning. Útgáfa Soft Cell á laginu er töluvert frægari en allt annað sem Soft Cell gaf út, og því ekki að undra að fólk tengi lagið oft við frægari sveitir, t.d. the Cure:

Þetta er upp að einhverju marki skiljanlegur misskilningur, en kommon youtube, the Clash?


Monday, May 19, 2014

Alexander mikli segir Aristótelesi frá ófreskjum

Eitt útbreiddasta einkabréf sögunnar, að minnsta kosti miðalda, var bréf Alexanders mikla til Aristótelesar sem þýtt var á latínu á fjórðu öld eftir Krist (skv. Omari Khalaf), en átti sér þó lengri sögu. Nú var Alexander að sönnu lærisveinn Aristótelesar og gæti vel hafa skrifað honum einhvern tíma, en þetta tiltekna bréf er uppspuni eins og nær má geta þegar það er lesið.

Alexander battlar skrímsli
Í handritinu AM 226 fol. frá um 1350-70 fylgir bréfið á eftir íslenskri þýðingu kvæðisins Alexandreis eftir Gualterius sem nefnd hefur verið Alexanders saga. Talið er að Brandur Hólabyskup Jónsson hafi þýtt söguna eftir miðja 13. öld og gáfu Finnur Jónsson o.fl. hana út ásamt bréfinu eftir þeirri ætlan árið 1925 (þá útgáfu má sækja ókeypis hingað). Þetta er mér vitandi eina varðveitta þýðing bréfsins á íslensku þótt ég hafi nú ekki gengið úr skugga um það og ég veit heldur ekki hver útbreiðsla þess var á Íslandi á miðöldum, en tilvist þessarar gerðar (ásamt ýmsum öðrum varðveittum bókmenntum) bendir þó til þess að Íslendingar hafi verið í góðum tengslum við evrópska poppmenningu. Vænta má þess að íslenska gerð bréfsins sé að nokkru leyti frábrugðin öðrum varðveittum gerðum en ég hef ekki lagst sérstaklega í athugun á því. Megininntakið er í öllu falli hið sama.

Bréf Alexanders er hin magnaðasta lesing og skákar jafnvel sögunni. Nú þegar Alexander er orðinn „ráðandi kringlu alls heims“ tekur hann sér andartak til að færa í letur orðsendingu til læriföður síns Aristótelesar, sem hann hugsar jafnan til næst móður sinni og systrum, og því ritar hann honum til að segja honum

„þá hluti sem ég sá og heyrða á Indialandi og minningar eru verðir, því að þeir eru með margföldum háttum teljandi er ég sá og öngum manni mundi ég trúa þótt mér segði að þar væri svo mikil undur og hve margra málma, dýra og aldina jörðin er þar móðir og enginn mann er svo vitur að því mundi trúa utan hann hefði sjálfur séð.“ (156)

Svona formálar eru býsna algengir í miðaldaritum og fyrst um sinn er ekki að sjá að neitt óvenjulegt verði rapporterað. Alexander nefnir sigur sinn á Dario Serklandskonungi og næstum Poro konungi á Indialandi sem á hina reisulegustu höll með 40 stólpum gerðum úr gulli einu og veggirnir þaktir „fingrar þykkum gullspöngum“. Þaðan fer Alexander til hafnar einnar sem nefnd er Kaspias og er sagt að ormar og villidýr bíði hans og manna hans í dölum þar og heiðum. Þeir halda nú samt áfram að reka flótta Poro konungs, Alexander og „hálft annað hundrað leiðsögumanna“ (sem mér finnst vera gríðarlega fallegt orðalag, en ég er nú annálaður orðapervert) um brennandi sanda Indialands. Og þá byrjar ballið. Þorsti sverfur að liðinu, en það er „þúsund stórra fíla, þeirra er gull báru, og 400 vagna, og 1000 karta, 20 þúsundir riddara liðs, og 400 þúsunda fótgöngu liðs … Þeir voru sumir er drukku gang sinn og voru nálega áður að bana komnir.“

Friday, May 16, 2014

Föstudagslagið: All of me

Föstudagslag Smjörfjallsins að þessu sinni er níutíu ára gamalt. Það var samið í Bandaríkjunum árið 1931, í kreppunni miðri, og hljóðritað sama ár af söngkonunni Ruth Etting:


All of me varð einn af þessum standördum sem voru hljóðritaðir af flestum frægustu djasssöngvurum 20. aldarinnar, svo sem Billie Holiday, Louis Armstrong, Dinah Washington og Ellu Fitzgerald, og croonerum á borð við Frank Sinatra og Dean Martin. Ég er einna hrifnust af þessari útgáfu með Söruh Vaughan:


Brasilísku meistararnir pikkuðu lagið líka upp, enda fellur það eins og flís við rass hins hugljúfa bossanova. João Gilberto, Caetano Veloso og Gilberto Gil leiddu saman hesta sína í brasilískri útgáfu lagsins undir titlinum Disse alguém:


Eins og stundum vill verða með jafn ó-agressív lög og All of me fær maður samt sérstaka ánægju út úr því þegar til sögunnar kemur tónlistarmaður sem tekur ekki á því með neinum silkihönskum. Það á til dæmis við um hina eftirminnilegu live útgáfu Megasar á All of me af plötunni (Kristilega kærleiksblómin spretta kringum) Hitt & þetta, sem var hluti af þrefaldri safnplötu Megasar sem kom út árið 2002.

Friday, May 9, 2014

Föstudagslagið: Spítali og hótel heilags Jakobs og blússöngvarinn Blind Willie McTell

Eitt kröftugasta blúslag sem hefur verið samið er St. James Infirmary, einnig þekkt sem Gambler's Blues. Textinn rekur ættir sínar til ensks þjóðlags sem kallast The Unfortunate Rake eða The Unfortunate Lad, en sjálf melódían sem lagið er sungið við er margbreytileg. Louis Armstrong gerði lagið frægt árið 1928 - ég efast um að útgáfan að neðan sé sú (upptakan er of skýr til að vera frá því ári) en krafturinn er ótrúlegur:

Harmurinn lekur af þessu, þótt Armstrong hlæi og haldi hinni frægu, blúsuðu fjarlægð frá efninu. Hann fer á spítala heilags Jakobs, sem er óvíst hver hefur verið - giskað hefur verið á ákveðinn holdsveikispítala í London á 17. öld - og sér líkið af ástkonu sinni; um leið fer hann að hugsa um eigin dauða og hvernig hann vill að gengið verði frá eigin líki:

put a 20 dollar gold piece on my watch chain
so the boys will know I died standing pat


Beinaber útgáfa þjóðlagasöngvarans Dave Van Ronk af laginu er í miklu uppáhaldi hjá mér. Hjá honum eru fleiri erindi; jarðarförin sem sögumaðurinn óskar sér er heil New Orleans-líkfylgd með djasssveit og svörtum hestvagni.

Bob Dylan samdi gjarnan lög með því að grípa þjóðlagaþemu héðan og þaðan og frumsemja í eyðurnar, og tók hann þá list á ákveðinn hápunkt með laginu Blind Willie McTell. Laglínan þar endurómar af útgáfu Louis Armstrong af St. James Infirmary. Þar kemur spítali heilags Jakobs hvergi við sögu, heldur er Dylan að horfa út um gluggann á hóteli kenndu við sama dýrling, St. James Hotel, og er hann horfir út er eins og gervöll saga Bandaríkjanna ljúkist upp fyrir honum.


Hvaða hótel er þetta? Til eru mörg hótel í Bandaríkjunum sem kenna sig við heilagan Jakob. Á Dylan við hótelið í Red Wing í Minnesota, þar sem hann fór mögulega á upptökuheimili um stund og söng um það lagið Walls of Red Wing? Er það hótelið í Cimarron í Nýju Mexíkó, þar sem Jesse James, Wyatt Earp, Buffalo Bill og um það bil allir aðrir frægir byssumenn Villta vestursins dvöldu og skutu ótalda menn? Er það hótelið í New Orleans, þar sem tenging lagsins við þá borg er skýr? Eða allt þetta? Maður veit ekki.

No-one can sing the blues like Blind Willie McTell, segir Dylan. Þá er um að gera að loka hringnum með útgáfu sjálfs Blind Willie McTell á St. James Infimary/Gambler's Blues/The Unfortunate Rake, sem hann nefnir enn einu nafninu: The Dying Crapshooter's Blues, að þessu sinni með allt annarri laglínu:

Friday, May 2, 2014

Vihreät niityt: Kunnugleg orð í framandi máli

Í nóvember síðastliðnum heimsótti ég Finnland í fyrsta skipti. Það var mér uppspretta sérstakrar ánægju að koma til Norðurlands þar sem tungumálið var mér algjörlega framandi og ég gat notið þess á þeim forsendum, án nokkurrar pressu um að reyna að tala það sjálf.

Sum orð voru þó kunnuglegri en önnur. Einn daginn gengum við framhjá fasteignasölu, minnir mig, frekar en ferðaskrifstofu, og ég hrópaði upp yfir mig þegar ég sá kunnuglegt orð á skilti í glugganum:  
Vihreät! Hvað þýðir það?
Finnskt ljóðskáld: Það þýðir að eitthvað sé grænt.

Hér er ástæðan fyrir því að þetta að öðru leyti ógegnsæja orð var mér kunnuglegt, fyrsta föstudagslagið í maí:


Friday, April 25, 2014

Áttunda föstudagslag: Stórkostleg sál í arfavondum kvikmyndum

Þennan föstudag ætlar Smjörfjallið að rifja upp stórfurðulegt fenómenón frá áttunda áratugnum í Bandaríkjunum. Þá gáfu helstu meistarar sálartónlistarinnar út einhver sín bestu verk, verk sem hafa orðið að klassík í bandarískri tónlistarsögu, en þau litu dagsins ljós sem sándtrökk fyrir kvikmyndir sem stóðust tónlistinni jafnan engan veginn snúning. Þetta voru kvikmyndir sem síðar voru kenndar við blaxploitation-stefnuna.

Orðið blaxploitation er, augljóslega, samansett úr orðunum black og exploitation, og vísar jafnframt til annars kvikmyndageira sem kallaðist sexploitation. Þetta voru illa gerðar og hræódýrar myndir með vondum söguþræði og slæmum leikurum sem náðu engu að síður að trekkja fólk að með gjörsamlega tilgangslausri nekt og kynlífsatriðum; þær voru ekki klámmyndir próper og voru því ekki fastar við klámbíóin, heldur gátu farið í almennar sýningar og náð til fólks sem máske þorði ekki í rykfrakkann og í rauða hverfið. Sexploitation hefur dottið úr tísku sem genre eftir vídeóbyltinguna, en maður sér reyndar endurnýtingu hugtaksins þessa dagana í tengslum við hina nýju sjónvarpsbyltingu í BNA - Game of Thrones-þættirnir hafa t.d. verið sakaðir um að gæla á stundum við sexploitation. Dæmi hver fyrir sig!

Blaxploitation-myndirnar lögðu hinsvegar meiri áherslu á að exploitera tilfinningar svartra Bandaríkjamanna (þótt nóg væri af tilgangslausri nekt og kynlífsatriðum). Þar var hinni hefðbundnu Hollywood-formúlu snúið á hvolf, þar sem svört eða erlend illmenni voru drepin af hvítri söguhetju; í blaxploitation var svarti maðurinn hetja og hvíti rasistinn var skúrkur. Yfirleitt var fínum blæbrigðum sleppt, réttlætiskennd áhorfandans var svalað á hreinan og beinan hátt án þess að hafa neinar áhyggjur af siðferðislegum smáatriðum, sérstaklega þeim sem hvíta meirihlutanum var hvað mest annt um. Quentin Tarantino hefur mikið vísað í blaxploitation-hefðina; í denn með Jackie Brown (1997) og svo nýlega með Inglorious Basterds (2009) og Django Unchained (2012).

Blaxploitation-æðið hófst eiginlega á þeirri mynd sem jafnan hefur þótt sú besta sinnar tegundar, þ.e. hin fræga Shaft (1971).

Shaft var framleidd í Hollywood, sem gerir hana einstaka í geiranum - öllu meira var til tjaldað en annars. Myndin sló líka í gegn, en ekki bara á eigin forsendum, heldur út af sándtrakkinu þar sem sálargoðið Isaac Hayes fór á kostum. Þema myndarinnar, Theme from Shaft, þekkja flestir, en hér er það í rosalegri læv-útgáfu, með Isaac í afrískri skykkju og klæddur í ekkert nema gullkeðjur undir - með alla blaxploitation-estetíkina í botni:


Friday, April 18, 2014

Sjöunda föstudagslag: Fagra Vermaland

Glæsileg og sjarmerandi kona, Monica. Myndin er frá Aftonbladet
Um þessar mundir er sýnd í Bíó Paradís kvikmyndin Monica Z. Hún fjallar um sænsku söngkonuna Monicu Zetterlund og hefur einkum vakið athygli á Íslandi fyrir þá staðreynd að aðalleikararnir eru íslenskættaðir. Ég fór að sjá myndina í vikunni og hef verið á sannkölluðu Monicu-fylleríi síðan, sem er nú ekki leiðinlegasta fyllerí sem hægt er að fara á.

Monica Zetterlund var fædd árið 1937 og sló í gegn í Svíþjóð um 1960 - tók meðal annars þátt í Eurovision fyrir hönd Svíþjóðar árið 1963 og fékk ekki eitt einasta stig. Hún vann með mörgum af fremstu djassistum síns tíma, en frægust er hún fyrir samstarf sitt við Bill Evans. Þau gerðu saman plötuna Waltz for Debby árið 1964, en titillagið syngur Monica reyndar á sænsku, sem Monicas vals. Á lýðnetinu er að finna mjög skemmtilega upptöku af flutningi þeirra á laginu. Myndin Monica Z segir aðeins frá fyrri hlutanum af ævi og ferli Monicu Zetterlund, en síðustu árin var hún orðin sjúklingur og lést árið 2005. Ævisaga hennar er til á bókasafni Norræna hússins; Þórdís Gísladóttir skrifaði um hana á Druslubækur og doðranta fyrir nokkrum árum.

Uppáhaldslagið mitt í myndinni var tvímælalaust tregasöngurinn Trubbel eftir Olle Adolphson:


Ég komst hins vegar fljótlega að því að engin útgáfa af Trubbel jafnast á við útgáfu Monicu og því hentaði það ekki nógu vel sem föstudagslag. Í staðinn valdi ég annað lag úr hennar sarpi, sænska þjóðlagið Ack Värmeland, du sköna.


Wednesday, April 16, 2014

Rósvita frá Gandersheim, konan á bak við Liam Neeson

Allir vita að vestræn leikritun hefst í Grikklandi, eða nánar tiltekið Aþenu. Þar voru settir á svið stórmerkilegir harm- og gamanleikir sem hafa margir varðveist og eru enn leiknir í dag (oft með dræmum árangri, eins og ég hef fjallað um hér). En geymd grísku leikritanna og hefðin í kringum þau er langt frá því samfelld. Handritin voru varðveitt í Konstantínópel og Alexandríu og fleiri svæðum þar sem töluð var gríska, en í Vestur-Evrópu var allt önnur hefð við lýði, nefnilega hefð latnesku gamanleikjanna.

Latnesku gamanleikirnir byggjast á gríska „Nýja gamanleiknum“ svokallaða, en þekktasti höfundur þeirrar stefnu (og sá eini sem hefur varðveist í einhverjum mæli) er Menander (c. 341/42 – c. 290 f. Kr.) Hann sker sig afar greinilega frá fyrirrennara sínum Aristófanesi, sem er einn af dónalegri höfundum sem völ er á - aþenska lýðræðishefðin skín í gegnum þann vana hans að rífa fólk í sig á sviði fyrir framan alþjóð. En þegar Menander var við lýði fór aþenska lýðræðinu hnignandi og leikritin eru eftir því töm. Þar byggist grínið ekki á því að segja að valdamenn vilji láta ríða sér í rass (sem er okkur ansi framandi) heldur á módeli sem við þekkjum fullkomlega - útklipptar stereótýpur koma sér í vandræði í ástarlífinu, en allt fer vel að lokum!

Aðeins eitt verk Menanders hefur varðveist í heillegri mynd (sem heitir Dyskolos eða Skaphundurinn) og það uppgötvaðist aðeins á sjötta áratug seinustu aldar. Lengst af var því hefð Nýju gamanleikjanna aðallega þekkt í gegnum þá latnesku gamanleikjahöfunda sem sóttu til Menanders og félaga. Af þeim hafa þó einungis tveir varðveist, Plautus, sem þrátt fyrir skemmtileg leikrit átti eftir að gleymast á miðöldum, og svo eftirmaður hans Terentius.

Terentius í geislabaug hins vestræna kanóns

Friday, April 11, 2014

Sjötta föstudagslag: Sometimes I feel like a motherless child

Það er fátt sem kemur jafn rækilega út á mér gæsahúðinni og dimmar bassaraddir. Þið getið því ímyndað ykkur áhrifin sem flutningur hins merka söngvara, leikara, lögfræðings, íþróttamanns og pólitíska aktívista Paul Robeson á föstudagslagi dagsins hefur á ungmeyjarlegt taugakerfi mitt:


Galdurinn liggur auðvitað ekki bara hjá Paul Robeson. Negrasálmurinn Sometimes I feel like a motherless child er með fegurri lögum - og ég kalla eftir upplýsingum um það hvort hugtakið negrasálmur sé enn í almennri notkun. Sálmurinn er tengdur aðstæðum og örlögum bandarískra blökkumanna órjúfanlegum böndum, þessi tregafulli söngur barnsins sem hefur verið slitið frá móður sinni og móðurlandi. Faðir Paul Robeson var fæddur í þrælahaldi en slapp þaðan á unglingsaldri og var orðinn prestur í Princeton þegar Paul fæddist árið 1898.

Wednesday, April 9, 2014

Æviminningar karla af Skarðsströnd III: Ásauðarhyglari og hagvaxtarhemill í íslenska lýðveldinu


Þetta er þriðja og síðasta færslan í bloggseríunni Æviminningar karla af Skarðsströnd í bili, eða þar til einhver bendir mér á fleiri æviminningar karla af Skarðsströnd. Ég er við símann núna (þrjár stuttar, ein löng).

Bókin sem hér um ræðir er langstyst þeirra þriggja sem um hefur verið fjallað (aðeins 187 síður með nafnaskrá), langnýjust (útgáfuár 2003) og sú eina sem rituð er af öðrum en viðfangi sögunnar (Finnboga Hermannssyni). Sá sem ævi sinnar minnist er Steinólfur Lárusson (1928-2012), bóndi í Ytri-Fagradal á Skarðsströnd, og titill bókarinnar er Einræður Steinólfs í Ytri-Fagradal.

Þetta var fyrsta bókin sem ég las af þeim þremur sem ég hef fjallað um og sú eina sem ég hafði lesið áður, hún er auðlesnust og langsamlega jafnskemmtilegust. Sagan er sögð af Steinólfi í fyrstu persónu, skrásetjarinn heldur sér til hlés í frásögninni, sem er blæbrigðarík og fyndin. Bókina prýða margar myndir af Skarðsströndinni og persónum og leikendum vestra.

Friday, April 4, 2014

Fimmta föstudagslag: Ungmennin frá Ipanema

Hverjum aðdáanda brasilíska tónlistarmannsins António Carlos Jobim er það sársaukafull staðreynd að mikill fjöldi fólks tengir hann einkum við lyftutónlist. Hið brasilíska bossanova er oftar en ekki svo unaðslega kliðmjúkt að illar sálir hafa gert sér far um að spila það við sem lágkúrulegastar aðstæður, í verslunarmiðstöðvum og á vondum veitingastöðum þar sem yfirmenn hafa lært mannauðsstjórnun. Þar má aumingja Jobim rekast innan um panflaututónverk og hroðann úr væmnum ballöðulistamönnum sem vinsælir eru á Bylgjunni og öðrum einkareknum útvarpsstöðvum.

Hvað um það. Þekktasta lag Jobim er án efa lagið um stúlkuna frá Ipanema og þekktasta útgáfa þess er jafnframt ein sú besta. Þar leikur saxófónleikarinn Stan Getz undir söng hjónakornanna Astrud og João Gilberto:


Lagið er af hinni rómuðu plötu Getz/Gilberto frá 1964, en þar unnu Stan Getz og João Gilberto með António Carlos Jobim og kynntu bossanova-tónlistina fyrir bandarískum hlustendum. Astrud Gilberto söng tvö undurfögur lög á plötunni, The Girl from Ipanema og Corcovado. Hún hafði ekki mikla reynslu sem söngkona og það var hálfgerð tilviljun að hún skyldi syngja á plötunni. Almannarómur hefur viljað útskýra þátttöku hennar með ástarsambandi hennar við Stan Getz, en þótt hún sé óþjálfuð stendur hún fyrir sínu og ásamt eiginmanni sínum ljær hún lögum Jobim einmitt þann milda tón sem þau þarfnast. Platan Getz/Gilberto sló rækilega í gegn og er í dag talin með mikilvægari verkum bossanova-hefðarinnar.

Sunday, March 30, 2014

Kvenleg illska í óbyggðum

Tilgátuhúsið Þjóðhildarkirkja, Grænlandi.
Einu sinni, fyrir margt löngu, lýsti ég því yfir að ég ætlaði að fjalla um seinni hluta bókarinnar Íslensk fornrit IV, í sérstökum pistli. Nú, einum og hálfum mánuði síðar, hef ég einsett mér að sitja nógu lengi við lyklaborðið til að skrifa niður það sem mér datt í hug þegar ég las þessa ágætu bók upphaflega, milli jóla og nýárs. Þá er bara að vona að mér takist að kreista upp úr mér einhverja andagift um þennan löngu liðna lestur.

Við fyrstu útgáfu Íslenskra fornrita IV var, auk meginsögunnar Eyrbyggju, að finna þar þrjár „mismunandi“ sögur um landnám norræna manna á Grænlandi og Vínlandi, þær Eiríks sögu rauða, Grænlendinga sögu og Grænlendinga þátt. Ástæða þess að þeim var skellt í sömu bók og Eyrbyggja sögu er að fjölskyldurnar sem stóðu að þessu landnámi höfðu um tíma búið í Breiðafirði, sögusviði Eyrbyggju. Um þennan hluta útgáfunnar sá Matthías Þórðarson, en þegar Eyrbyggja var endurútgefin 1985, bætti Ólafur Halldórsson við fjórðu Grænlandssögunni, Eiríks sögur rauða eftir texta Skálholtsbókar.

Ég vona að þetta sé rétt upp talið hjá mér en þori ekki að ábyrgjast það, því þessar sögur rugluðu mig skelfilega í ríminu, auk þess sem ég las þær, eins og fyrr segir, í lok desember. Ég þurfti að vissu leyti að pína mig í gegnum þennan hluta bókarinnar, því stundum endurtekur einhver sagan nær orðrétt kafla úr sögunni á undan eða eftir, áður en hún skyndilega bregður út af og fer að fjalla um eitthvað allt annað. Ég hef ekki vanið mig á að nota bókamerki þegar ég legg bók frá mér, heldur finn alltaf staðinn sem ég var á út frá samhengi. Eins og gefur að skilja þá brást þessi aðferð mér algjörlega við lesturinn á Grænlendingasögum, og ég fletti oftsinnis fram og til baka í mikilli frústrasjón í tilraun til að finna rétta staðinn í réttu sögunni. Ég get því í raun ekki fullyrt að ég hafi lesið allar þessar sögur í réttri röð, þó ég hafi gert mitt besta.

Annað sem truflaði mig við lesturinn var að ég er, innst inni, alls ekki hrifin af svona „sameiginlegum sagnaheimi“ sem er unnið úr á mismunandi hátt. Það truflaði mig til dæmis meira en lítið þegar ég las Andrés Önd sem barn að byggðasaga Andabæjar var ekki alltaf eins, að Jóakim Aðalönd hafði að því er virtist átt svona fimm mismunandi æskuskeið, og að ættartré Andafjölskyldunnar gekk ekki upp, ættartengsl t.d. Andrésar Andar og Ömmu Andar voru síbreytileg. Ég hef því miður ekki losnað við þessa íhaldssemi og kassahugsun, og á erfitt með að lesa texta sem heldur sig ekki við eina útgáfu af „sannleikanum“. Svo reyni ég að lesa þessar Grænlands og Vínlands sögur sem áhugasamur og samviskusamur miðaldafræðingur, og þá geta þær bara ómögulega gefið sömu upplýsingar um það hverjir voru með í hvaða leiðangri, hvar þau komu að landi, hvernig landslagið var og hvað þau voru þar lengi. Og hvenær og með hvaða hætti fannst hinn frægi vínviður eiginlega? Svona skelfilega margir möguleikar á atburðarás valda mér heilakláða.

Rostungur. Svipur hans ber vott um yfirvegun gagnvart flækjum norræns landnáms, sem höfund skortir.

Friday, March 28, 2014

Reykjavík í dægurtónlist


Alla 20. öldina, og jafnvel allt frá upphafi þeirrar nítjándu, var Reykjavík bitbein í dægurmálaumræðu. Hún naut þess vafasama heiðurs að vera augljósasta birtingarmynd nútímavæðingar og erlendra áhrifa í íslensku samfélagi. Það er eflaust hægt að grípa niður á hvaða áratug sem er í sögu Íslands síðastliðin 150-200 ár og finna umræður um það hvort eitthvað eigi eða megi vera í Reykjavík, hvort sem það er Alþingi, kvennaskólar, Jafnréttisstofa, eða bara fólk.

Sjálf hef ég alloft fengið spurninguna „Hvaðan ert þú svo?“ frá Reykvíkingum sem eru eldri en ég, og þetta finnst þeim greinilega ekki skrítin spurning, þó hún sé borin upp á kaffihúsi í Aðalstræti. Hið rétta svar við þessari spurningu er nefnilega aldrei: „Ha-humm, ég er nú bara ... frá Reykjavík?“ Þannig að ef ég er í kurteisu skapi þá reyni ég að rifja upp dvalarstað einhverrar langömmu eða langafa, til þess að gera þessu fólki kleift að staðsetja mig í heimsmynd sinni.

Reykjavík var lengi, og er jafnvel enn í huga sumra, staður sem fólk kemur til, en ekki staður sem fólk er frá. Líklega eiga barnæskuminningar mjög stóran þátt í því að fólk bindist stöðum tilfinningaböndum, þannig að auk þess að Reykjavík hefði almennt á sér orð (vægrar) spillingar í opinberri umræðu, þá skorti hana lengi sanna fylgismenn. Tvær aldir eru nú samt sem áður býsna langur tími, og það er til töluvert af Reykjavíkurrómantík, svo sem lagið Ó borg mín borg. Það er eitt frægasta lagið með Hauki Morthens og var flutt á seinni hluta 20. aldar. Ég þorði ómögulega að vera nákvæmari því internetið vildi ekki segja mér frá nánari tímasetningu en ábending barst í athugasemdakerfið um að lagið hefði náð vinsældum í síðasta lagi 1954. (Einnig má heyra lagið í flutningi Bjarkar hér, en bloggforritið vill af einhverjum ástæðum ekki birta það almennilega)


Friday, March 21, 2014

Föstudagslög - um fullnægingar í dægurtónlist

Eitt sinn giltu strangar reglur um hvað mátti syngja um og hvað ekki í dægurlögum. Ef þessar reglur (þótt jafnan óskráðar væru) voru brotnar neituðu útvarpsstöðvar einfaldlega að spila lögin, og var þá mestallur tekjugrunnur listamannanna horfinn. Popptónlistarmenn skutu sér þó framhjá þessu með ýmsum hætti. Beach Boys gátu t.d. talað um unað kynlífsins í laginu Wouldn't It Be Nice á meistaraverki þeirra Pet Sounds (1966) með því að setja það allt í viðtengingarhátt - þetta mun allt verða svona yndislegt, eftir að við giftum okkur.


En popptónlistin var þá að brjótast út úr þessu formi og farin að spýta framan í sensorinn. Einn brautryðjandinn var franska ólíkindatólið Serge Gainsbourg. Margir lesendur ættu að kannast við lag hans Je t'aime... moi non plus (Ég elska þig... ekki ég heldur). Þekktasta útgáfan af því lagi kom út árið 1969 og var dúett milli hans og þáverandi ástkonu hans Jane Birkin. Í kringum mig var það samt aðallega þannig að fólk spilaði þá útgáfu og flissaði vandræðalega að henni; hún var sett upp sem eitthvað fyndið.

Mér fannst ég hinsvegar uppgötva lagið upp á nýtt þegar ég heyrði upprunalegu útgáfuna af laginu, með Serge og fyrri ástkonu hans, sjálfri Brigitte Bardot (tekið upp 1967, en gefin fyrst út árið 1986). Þar eru strengirnir dýpri, orgelið þyngra og takturinn hægari - og svo koma fullnægingarstunur Bardot (Serge heldur náttúrulega virðulegri þögn á meðan) - og lagið verður einfaldlega himneskt.


Textinn er líka stórskemmtilegur. Sumt er bara gott, venjulegt kynlífsmyndmál (þú ert aldan, ég er eyjan nakta), en annað er frábærlega frumlegt:

Tu vas et tu viens
entre mes rheins

Þú kemur og ferð
milli nýrnanna á mér

Nýrnanna!

Nú var ákveðinn bolti farinn af stað sem sálartónlistin tók hvað helst yfir. Tina Turner tók þetta til dæmis alla leið í þessari útgáfu af sálarklassíkinni I've Been Loving You Too Long (To Stop Now). Hér syngur hún lagið á upphitunartónleikum fyrir Rolling Stones árið 1969. Ekkert í textanum er neitt sérstaklega kynferðislegt, en í performansinu snýr hún þessu upp í stórkostlegan óð til munnmaka. Það er reyndar eilítið krípí að þessi óður fari fram sem call-and-response við þáverandi eiginmann hennar Ike Turner...


Þegar kemur að lofsöngvum til kynlífs stenst hinsvegar fátt sálargoðinu Isaac Hayes snúning. Hann var með sérstakt teik á sálartónlist; hráleikinn vék fyrir rosalegu pródúksjóni og mögnuðum hljóðheimi. Lögin voru gjarnan um 15 mínútur og áttu allavega fimm þessara mínútna til að fara í djúpraddaðar einræður Isaacs um ástina og lífið. Þetta gat verið skemmtilegt (eins og hér) eða kostulega aulahrollsvaldandi og drepfyndið (eins og hér). En sem betur fer sleppti hann hlustendum við allt slíkt í meistaraverkinu Joy (1973). Dáleiðandi trommu- og bassagrúv kýla lagið áfram, en þegar svo lokaparturinn hefst fer Isaac að stynja eins og lífið sé að leysa og heldur því til streitu í tíu mínútur. Hann þorði því sem Serge þorði ekki!


Hápunktur fullnæginganna í dægurtónlistinni hlýtur hinsvegar að vera Love To Love You Baby (1975) með diskósöngkonunni Donnu Summer. Það sem Brigitte Bardot skorti í leikrænum hæfileikum og Isaac Hayes í kynferðislegum sjarma á Donna Summer heilu geymslurnar af - Love To Love You Baby hreinlega logar af greddu. Hljóðheimurinn er sömuleiðis magnaður, eitt af meistaraverkum pródúsentsins Giorgio Moroder sem Daft Punk tileinkuðu nýlega lag.


En nú er spurning hvað hefur gerst síðan. Með tilkomu tónlistarmyndbandanna er eins og kynferðisleg tjáning dægurtónlistar hafi færst úr hljóðheiminum yfir í myndmálið. Ég man í fljótu bragði ekki eftir nýlegu, vinsælu dægurlagi sem hefur eitthvað eins og fullnægingarnar í Love To Love You Baby og Je t'aime... moi non plus, en hinsvegar eru flestöll tónlistarmyndbönd með kynferðislegu þema, sama hversu lítið það á við texta eða hljóðheim lagsins. Af hverju er t.d. Miley Cyrus nakin ofan á húsarifskúlunni í því fræga lagi? Textinn fjallar um ástarsorg og hljóðheimurinn er eftir því dramatískur - nektin væri miklu skiljanlegri í lagi sem fjallaði um kynlíf en ekki skort á því.

Ég persónulega sakna kynlífsins úr hljóðheimi dægurtónlistarinnar. Það er einhver ástæða fyrir því að öllum er sama um nekt og kynlíf í tónlistarmyndböndum en það myndi gera flesta vandræðalega að heyra Love To Love You Baby spilað á FM957. Róttæknin liggur greinilega í fullnægingum á teipi. Það hefur verið talað um það nýlega hvernig popptónlist virðist vera ófær um að hneyksla þessa dagana - ég vil halda því fram að hér sé komin kjörin leið til að ná aftur fyrri sjokk-faktor.

Thursday, March 20, 2014

Blóði drifin Hellenaæta að nafni Fallmerayer

Í dag heitir gríska ríkið Hellas (eða Ellaða á nútímagrískuforminu) og landsmenn kallast Hellenar (Ellínes) á grísku. Þetta er vísun í fjarlæga fortíð; í fornöld voru þetta nöfnin yfir þá sem töluðu grísku, og landið sem þeir byggðu. En það er raunar langt frá því sjálfsagt að þetta orð sé notað yfir landsmenn í dag. Allt frá því að Grikkland fór undir stjórn Rómarveldis, kristnaðist og laut loks grískættuðum og grískumælandi Rómarkeisurum sem ríktu frá Konstantínópel, fóru Grikkir að tala um sig sem Rómverja (Romeí) og tungumál sitt sem rómversku (romeíkí). Helleni merkti þá Grikkja sem heiðraði fornu goðin - það táknaði fyrirlitlega heiðingja.

Með aukinni þjóðernishyggju á 19. öld voru hins vegar orðin Hellas og Helleni endurvakin, og þannig var Grikkland þess tíma tengt beint við Grikkland hið forna. Grikkir börðust þá fyrir sjálfstæði sínu frá Ottómanska heimsveldinu, og evrópskir andstæðingar Ottómana fylktu sér þeim að baki. Þeir áköfustu voru kallaðir fílhellenar, þeir sem elska Hellena. Sumir þeirra (þar er frægastur skáldið Byron) ferðuðust meira að segja til hins bjarta Hellas til þess að berjast við óvininn úr austri og endurtaka hetjudáðirnar við Laugarskarð.

Framsetningin var sem sagt sú að nú væri hin forna ofurþjóð Hellena risin upp; Evrópubúum sem dáðust að hinni fornu menningu landsins bar skylda til þess að aðstoða þá við að sigrast á óvini sínum (sem svo vildi til að var sameiginlegur óvinur þeirra sjálfra.) En til voru aðrar túlkanir á ástandinu. Helsti talsmaður þeirra var týrólski ferðalangurinn, prósastílistinn og fræðimaðurinn Johann Philipp Fallmerayer (1790 – 1861).

"Þú afsakar, mér er dálítið bumbult af því að éta alla þessa Hellena"

Friday, March 14, 2014

Þriðja föstudagslag: Hin margumsungna paradís

Ég held mér sé óhætt að fullyrða að hinir tónelsku Smjörfjallspennar hafi fáa listamenn í jafn miklum metum og Stevie Wonder. Sumarið 2012 hörkuðum við af okkur ríflega tveggja klukkutíma langa tónleika með aftúrkreistíngnum Bryan Adams og uppskárum í kjölfarið enn lengri tónleika með Stevie, þar sem hann ekki bara lék öll sín bestu lög af fádæma spilagleði heldur jós lífsvisku og ástarjátningum yfir áhorfendur.

Það var svona mikið stuð á Rock in Rio í júní 2012.
Meistarinn fæddist í Michigan árið 1950 og hóf tónlistarferil sinn aðeins ellefu ára gamall. Um tvítugt byrjaði hann að raða inn hverri snilldarplötunni á eftir annarri, þar á meðal Songs in the Key of Life sem kom út árið 1976. Af þeirri plötu er fengið föstudagslag Smjörfjallsins í dag, Pastime Paradise.


Í texta lagsins gagnrýnir Stevie hugmyndafræðilegt ástand samtímans:

They've been spending most their lives 
Living in a pastime paradise 
They've been wasting most their lives 
Glorifying days long gone behind 
They've been wasting most their days 
In remembrance of ignorance oldest praise 

Tell me who of them will come to be 
How many of them are you and me 
Dissipation 
Race relations
Consolation 
Segregation 
Dispensation 
Isolation 
Exploitation 
Mutilation 
Mutations 
Miscreation 
Confirmation.......to the evils of the world

Þetta grípandi lag hefur verið hljóðritað þó nokkrum sinnum af öðrum listamönnum. Frægust er sennilega Íslandsvinkonan Patti Smith með ansi svala útgáfu:

 

Nýlegt, hresst kover á hip hop og brassbandið Youngblood Brass Band frá Wisconsin:


En sennilega þekkja flestir hið grípandi bít úr einhverju eftirminnilegasta lagi 10. áratugarins, svanasöng rapparans Coolio, Gangsta´s Paradise:


Eins og ráða má af tónlistarmyndbandinu hljómaði Gangsta´s Paradise fyrst árið 1995 í kvikmyndinni Dangerous Minds, en þar kennir Michelle Pfeiffer krökkunum úr gettóinu að meta Dylan Thomas (hann höfðar einnig sterkt til hvítra millistéttarbarna).

Hvað Coolio varðar hefur hann ekki farið með himinskautum síðan þetta var en tekið þátt í nokkrum raunveruleikasjónvarpsþáttum, sem gengu út á allt frá eldamennsku til makaskipta. Með Gangsta´s Paradise varð hann þó ýmsum öðrum sérkennilegum listamönnum innblástur, til dæmis Weird Al Yankovic, sem strax árið 1996 gaf lagið út með frumsömdum texta um paradís Amishmannsins:


Uppi á Íslandi létu Halli og Laddi ekki sitt eftir liggja. Á plötunni Strumpastuð, sem kom út árið 1996 og inniheldur strumpaðar útgáfur af lögum á borð við Macarena (Strumpamakarena), Stayin´ Alive (Strump með mér) og Saturday Night með Whigfield (Draumastrumpur), var að sjálfsögðu einnig að finna hafnfirska útgáfu á Strumpaparadís: