Fornleifafræðingar hafa auðvitað starfað lengi á vettvangi ruslsins, grafið í gamla ruslahauga og dregið af því sem þeir fundu þar ýmsar ályktanir um efnismenningu fornra samfélaga. Með tilkomu ruslfræðanna byrjuðu fræðimenn hins vegar einnig að skoða ruslafurðir nútímasamfélags. Rathje og Murphy taka sem dæmi rannsóknir John W. Hohmann, sem tók þátt í ruslverkefninu í Arizona í árdaga þess. Hann kortlagði ruslið á opnu svæði við vegarenda í eyðimörkinni skammt utan við Tucson – glerbrot, notaða smokka, nærföt og fleira – og og greindi út frá því hegðun fólks á svæðinu, sem einkenndist af kynlífi og drykkju í bílum.
Skýringarmynd John W. Hohmann á dreifingu rusls á svæðinu þar sem vegurinn endar. Myndin er á bls. 57 í bók Rathje og Murphy. |
(Annað dæmi um sláandi áhrif fjölmiðlaumfjöllunar á hegðun fólks var hvernig Toxics Away!-átaksdagurinn, sem átti að hvetja fólk til að losa sig við eitraðan úrgang á þar til gerða söfnunarstaði á tilteknum degi, gerði það þvert á móti að verkum að fólk henti öllum eitraða úrganginum sínum í heimilisruslið. Það meðtók semsagt skilaboðin „toxics away“, en af því að átakið stóð bara yfir í einn dag missti fólk auðveldlega af tækifærinu að fara með ruslið á söfnunarstaðina og henti þá bara öllu eitraða draslinu út í tunnu.)
Það er gegnumgangandi stef í rannsóknum ruslrannsakenda á sóun matar að því óhefðbundnara sem hráefnið er, því líklegra er að því verði hent. Til dæmis er mun algengara að fínu bakkelsi sé hent en venjulegu samlokubrauði, sem fólki þykir auðveldara að innlima inn í sínar hefðbundnu máltíðir. Þetta eru ógnvænlegar fréttir fyrir Lýðheilsustofnun, en því einhæfara sem mataræði fólks er, þeim mun minni mat sóar það. Lýðheilsufræðingar gætu reyndar hvatt fólk til að borða meiri mexíkanskan mat, því rannsóknir í Bandaríkjunum sýna að íbúar af mexíkönskum uppruna sóa síður mat en aðrir. Það er talið stafa af því að innihaldið í mexíkönskum réttum er oft það sama – baunir, kjöt, avókadó, laukur og svo framvegis – og því er mikil velta á hráefninu í ísskápnum og auðvelt að innlima afgangana í nýja rétti.
Þannig greina ruslfræðingar ruslið ekki bara út frá innihaldi pokans hverju sinni heldur einnig efnahagslegri og félagslegri stöðu heimilanna sem ruslinu henda. Meðal þess sem fyrstu niðurstöður staðfestu var til dæmis að efnameiri fjölskyldur eru líklegri til að kaupa stórar og hagkvæmar pakkningar en fátækari fjölskyldur, sem hafa ekki efni á stóru pakkningunum hverju sinni og neyðast því til að kaupa minni og óhagkvæmari pakkningar sem gefa á endanum minna fyrir peninginn – meðal annars þannig er fólki haldið í vítahring fátæktarinnar.
Það sem heillaði mig einna mest í umfjöllun Rathje og Murphy voru samanburðarrannsóknirnar sem gerðar voru á því sem fólk sagði um eigin neyslu og sóun og því sem kom upp úr ruslapokunum. Jafnvel þótt fólk vissi fullvel að rannsakendur væru að fara gegnum ruslið þess sagði það samt meðvitað eða ómeðvitað ósatt um neyslu- og sóunarmynstur sitt. Fólk sagðist henda litlu sem engu, en samt var ruslið fullt af nýtilegum mat. Fólk sagðist einkum borða grænmeti og ávexti, en ruslið var fullt af súkkulaði- og beikonumbúðum. (Það var síðan stéttbundinn munur á ýkjunum; millistéttarfólk dró frekar úr þegar það lýsti kjötneyslu sinni, þar sem það leit á hana sem tákn um óhollustu, en efnaminna fólk ýkti hana, þar sem það leit á hana sem stöðutákn.)
Tafla yfir þær fæðutegundir sem fólk ýkti helst og dró úr þegar það gaf skýrslu um eigin neyslu. Taflan er á bls. 71 í bók Rathe og Murphy. |
Ég fékk nokkra innsýn inn í veruleika ruslrannsakenda í kjölfar lestursins, því þá beið okkar það verkefni að greina eigið rusl. Ég kom mér því fyrir einn daginn úti í bílskúr með ruslapoka, myndavél og gúmmíhanska og hóf rannsóknina. Strax á fyrstu mínútunum gerði ég mér ljóst hversu mikil áhrif aðstaða ruslrannsakenda hlýtur að hafa á nákvæmni rannsóknarinnar; það var kalt og dimmt í bílskúrnum, mér fannst ruslið miklu ógeðslegra en ég hafði búist við, og mér varð fljótt illt í bakinu af því að bogra yfir kóríanderstönglum og mandarínuberki með myndavélina. Í kafla Rathje og Murphy kemur fram að það hafi verið bylting í starfi ruslrannsakenda þegar þeir fóru að nota frysti undir ruslið – lyktin og óþægindin minnkuðu til muna (enda loftslag heitt í Arizona, öfugt við Reykjavík í nóvember).
Hugtakið kjötbleyja, sem ruslfræðimenn nota yfir frauð- plaststykkið sem kjötið liggur á í pakkanum, gefur mynd- ræna hugmynd um ógeðslegri blæbrigði ruslrannsókna. |
Undanfarin ár hafa ruslfræðingar í auknum mæli reynt að horfa á heildarmyndina þegar kemur að því að skoða hvað fólk losar sig við og hvernig; hvað er það sem er ekki í ruslapokanum? Af hverju eru sumir hlutir þar og aðrir ekki, og hvaða aðrar leiðir hefur fólk til að losa sig við það sem það vill ekki eiga áfram? Í ruslverkefninu í Arizona var áfengisneysla til dæmis eitt af því sem var skoðað, og þá út frá áfengisumbúðum, en aukin endurvinnsla á flöskum og dósum hlýtur að hafa takmarkandi áhrif á slíkar rannsóknir ef þær beinast eingöngu að ruslinu úr tunnunni. Frekar en að einblína á það sem hlutirnir í ruslatunnunni segja um hegðun fólks skoða ruslfræðingar nú einnig hegðun fólks við það að henda rusli; til dæmis þá tilhneigingu einstaklingsins sem hefur það hlutverk í fjölskyldunni að gefa fólkinu að borða til að taka á sig þá fórn að borða afgangana daginn eftir. Í öðrum tilvikum eru afgangarnir jafnan geymdir samviskusamlega í ísskápnum í nokkra daga áður en þeim er hent.
Ruslið hennar Madonnu. |
Jafnvel þegar engin persónuverndarsjónarmið eru til staðar er ruslið á gráu svæði, eins og sést til dæmis á því hvað fólk virðist oft eiga erfitt með að samþykkja þá athöfn að rusla; að taka og borða mat sem stórmarkaðir hafa hent. Þar blandast ógeðsfaktor rusls á athyglisverðan hátt saman við hugmyndir um eignarétt, því af hverju ætti einhver að vilja eiga það sem hefur verið skilgreint sem rusl? Samt þykir fólki réttlætanlegra af fyrirtækjum að henda ætum mat en af öðru fólki að taka þennan sama æta mat sem hefur verið hent og borða hann.
No comments:
Post a Comment