Saturday, September 28, 2013

Tvær breiðfirskar breddur á síðum tímans

Ég var ekki farin að lesa dagblöðin að neinu ráði á síðari hluta 9. áratugarins, og reyndar voru foreldrar mínir sennilega ekki áskrifendur að Tímanum hvort eð er, en ég uppgötvaði nýlega að á þessum árum og eitthvað fram yfir 1990 var fylgirit helgarblaðs Tímans að miklu leyti helgað sögulegum fróðleik. Þar voru ítarlegar greinar um söguleg málefni, atburði og persónur, gjarnan í dramatískum stíl með æsilegum millifyrirsögnum. Oft fylgdu greinunum myndskreytingar, og þá stundum eins konar skopmyndir eftir teiknara Tímans.

Með frekar stuttu millibili fann ég í þessu fylgiriti Tímans umfjöllun um tvær breiðfirskar konur fyrri alda, sem fá sínar skopmyndir og millifyrirsagnir óþvegnar. Þær voru reyndar ekki bara báðar breiðfirskar heldur voru þær báðar af hinni miklu höfðingjaætt sem kennd er við Skarð á Skarðsströnd; þær Ólöf ríka Loftsdóttir og Guðrún Eggertsdóttir eldri.

Hin syndgandi kona
15. aldar konan Ólöf ríka er líklega öllu frægari persóna. Hún er einna kunnust fyrir þá yfirlýsingu sína að ekki skuli „gráta Björn bónda, heldur safna liði“, eftir að maður hennar, Björn Þorleifsson, hafði verið drepinn af Englendingum. Ólöf var umsvifamikil athafnakona og landeigandi og af henni ganga ýmsar sögur, en það voru meint skriftamál hennar sem Tíminn fjallaði um í apríl 1988.

Skriftamálin sem eignuð voru Ólöfu ríku virðast við fyrstu sýn vera skriftir konu fyrir presti sínum. Þær snúast mjög um ýmsar kynferðislegar syndir sem konan játar á sig, þótt þær komi manni nú ekki mjög pervertískt fyrir sjónir í dag: sjálfsfróun, samfarir á hlið og kynlíf meðan á blæðingum stendur, en þetta þótti kirkjunnar mönnum allt afskaplega ónáttúrulegt.

Thursday, September 12, 2013

Aristóteles og þrælarnir í ár og síð

Það stefnir í að verða almennt þema í mínum Smjörfjallsskrifum að fjalla um hin furðulega lífsseigu áhrif eldgamra Grikkja á gang sögunnar, langt utan þess mikilvægis sem þeim ætti að vera gefið. Eitt dæmi sprettur upp úr einni af merkilegri en jafnframt minna þekktum kennisetningum Aristótelesar, þ.e. kenningu hans um eðlilegt þrælahald.

Þessi kennisetning birtist í Stjórnspeki (Politika) Aristótelesar, sem fjallar um hvernig borgríkinu fer best að vera byggt upp, allt frá sínum smæstu einingum í sínar stærstu. Um þetta málefni voru afar deildar skoðanir á 4. öld f. Kr., þegar ritið er skrifað, til dæmis um réttmæti þeirrar stofnunar sem hélt öllu borgríkinu uppi - þrælahaldsins.

Efasemdirnar um þrælahald eru gjarnar raktar til hinna svokölluðu sófista. Þeir voru farandkennarar sem lögðu mikla áherslu á ræðulist og það að snúa viðteknum sannindum á haus með rökum. Ein frægasta sófistakennisetningin er sú að flest það sem telst eðlilegt og sjálfsagt sé raunar ekkert nema merkingarlausar mannasetningar sem fólk eigi að losa sig undan. Til dæmis um þetta tóku þeir þrældóminn; þræll í hlutverki húsbónda myndi haga sér eins og húsbóndinn áður, og öfugt; það væri hending ein sem réði því hver væri sá efsti í samfélaginu og hver sá lægsti.

Sögulegir atburðir ýttu sömuleiðis undir þessar vangaveltur. Máttur Spörtu hafði hvað helst byggt á hryllilegri kúgun þeirra á þarlendri þrælastétt, sem þeir kölluðu Helóta. Helótarnir komu að miklu leyti frá Messenu, borgríki nálægt Spörtu sem Spartverjar höfðu sigrað fyrir löngu; að því gerðu þrælkuðu þeir íbúana og ræktuðu þá síðan upp sem endurnýjanlegan þrælastofn (Hitler, eins og frægt var, sótti mikinn innblástur til Spörtu.) En árið 371 f. Kr. töpuðu Spartverjar orrustunni við Levktra fyrir Þebverjum og hervald þeirra var brotið harkalega á bak aftur. Helótarnir nýttu sér þetta, flúðu og stofnsettu nýja, frjálsa Messenu. Í stjórnarskrá borgarinnar stóð: Guð veitti öllum mönnum að vera frjálsir, eðlið hefur engan gert að þræl.

Wednesday, September 11, 2013

Íslenski kúrinn

Í dag er enginn maður með mönnum nema vera á hörðu lágkolvetnamataræði. Hluti þeirra sem aðhyllast mataræði með lágu eða engu kolvetnainnihaldi gerir það á sögulegum forsendum og fylgir hinu svokallaða paleo-mataræði, sem kennt er við steinöldina, áður en mennirnir byrjuðu að stunda jarðyrkju. Smjörfjallið fagnar að sjálfsögðu hinum sögulega vinkli í mataræði sem öðru og stingur upp á nýrri lausn fyrir fólk í leit að kolvetnalausum lífsstíl: hið íslenska nýaldarmataræði. Það mætti jafnframt gauka þessu að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, sem eins og kunnugt er hefur sérstaka ástríðu fyrir þjóðlegri, íslenskri matargerðarlist.

Ísland skar sig mjög úr hópi Evrópuþjóða hvað varðar mataræði á nýöld. Franski sagnfræðingurinn Fernand Braudel lýsti mataræði evrópskrar alþýðu fyrir iðnbyltingu svo að það hefði gengið út á „brauð, meira brauð og graut“, þótt þetta hafi verið forkapítalískur grautur en ekki þessi hér:



Íslenski sagnfræðingurinn Guðmundur Jónsson lýsir mataræði Íslendinga hins vegar þannig að það hafi einkennst af „mjólk, meiri mjólk og fiski“. Íslendingar neyttu mjög lítils kornmetis en lifðu að langmestu leyti á dýraafurðum, og átti það sér varla hliðstæðu í Evrópu nema hjá inúítum á Grænlandi, hirðingjum í Lapplandi og strandsamfélögum nyrst í Evrópu. Kartaflan varð ekki sú undirstöðufæða á Íslandi sem hún var annars staðar í Evrópu; framsæknir bændur voru farnir að rækta kartöflur á 18. öld en Íslendingar fóru ekki að borða þær að ráði fyrr en um miðja 19. öld.

Monday, September 2, 2013

Fólkið sem kvikfjártalið gleypti

Fyrir tveimur mánuðum skrifaði ég hér um manntalið 1703, ljóðræna vídd þess að gera tilraun til að skrá alla einstaklinga í samfélagi – og angist mína við tilhugsunina um fólkið sem gæti hafa gleymst. Ég nefndi Viðey sem dæmi, en í varðveittu handriti manntalsins er enginn skráður þar til heimilis. Það er örugglega rangt, enda var Viðey löngum höfðingjasetur. Helgi Skúli Kjartansson hefur fjallað sérstaklega um þessa týndu íbúa Viðeyjar og hvar þeir gætu hafa lent í afmælisriti manntalsins, Manntalið 1703 þrjú hundruð ára.

Þegar ég talaði um fólkið sem gleymdist var ég líka að hugsa um annað dæmi sem mig rámaði í en gat ekki flett upp, verandi í útlandinu, og fann ekki á netinu – en rakst svo á þegar ég var að fletta þjóðdeildareintakinu af manntalinu 1703 á Þjóðarbókhlöðunni í síðustu viku. Aftan við Trékyllishrepp á Ströndum hefur verið skeytt aukablaðsíðu, undirritaðri af Bjarna Vilhjálmssyni þjóðskjalaverði, með nöfnum níu einstaklinga, auk tveggja ónefndra barna, sem voru til húsa hjá Sveini Jónssyni bónda í Ófeigsfirði þegar manntal var tekið þar síðasta laugardag fyrir páska árið 1703.

„Miðinn úr Trékyllisvík“ fannst á Þjóðskjalasafninu árið 1963 eða 1964, en hann leyndist með kvikfjártalinu sem tekið var á sama tíma. Einstaklingarnir á honum eru því ekki í manntalinu sem prentað var á árunum 1924-1947, en hefur verið skeytt inn í fáein virðulegri eintök af manntalinu. Manneskjurnar á listanum eru ómagar og húsgangsfólk, sem var hvergi heimilisfast en átti að skrá þar sem það dvaldist síðasta laugardag fyrir páska 1703.