Saturday, August 10, 2013

Kvenréttindakona elur upp karlrembu

Sumarverkefnið, sem ég hef áður minnst á hér, hefur nú leitt mig til Afríku. Í internetleit að áhugaverðum konum til að fjalla um benti google mér á allstóran hóp nígerískra kvenna sem voru áberandi í innanlandspólitík og sjálfstæðisbaráttu Nígeríu um miðja 20. öld. Það nafn sem skilaði bestum fræðilegum leitarniðurstöðum var Funmilayo Ransome-Kuti. Ég velti fyrst smávegis fyrir mér hvort það gæti verið að hún væri nokkuð eitthvað skyld tónlistarmanninum Fela Kuti, upphafsmanni afro-beatsins, en fannst það ólíklegt. Kuti væri líklega eftirnafn á par við Smith eða Hansen. En viti menn, Funmilayo reyndist vera móðir Fela. Þessi fjölskyldutengsl voru ekki síst ástæða þess að ég fann meira efni um hana en t.d. Margaret Ekpo eða Elizabeth Adekogbe.

Þeir sem hafa skrifað um Funmilayo eiga yfirleitt í nokkrum vandræðum með það hvaða nafni eigi að kalla hana. Við fæðingu, árið 1900, var henni gefið nafnið Frances Abigail Olufunmilayo, og hún bar eftirnafnið Thomas. Eftir að hafa stundað framhaldsnám í Bretlandi skerptist á andstöðu hennar við nýlendustefnu, og þegar hún sneri heim til Nígeríu árið 1922 hafði hún sleppt fyrstu nöfnunum tveimur og kallaðist einfaldlega Funmilayo Thomas. Árið 1925 gifti hún sig og tók upp eftirnafn eiginmanns síns, Ransome-Kuti, og flestir fjalla um hana undir því nafni. Á áttræðisaldri losaði hún sig hins vegar við síðustu bresku áhrifin í nafni sínu og tók upp ættarnafnið Anikulapo-Kuti, eftir fordæmi sonar síns, Fela. 

Fyrsta nafnabreytingin gefur til kynna að Funmilayo hafi myndað sér sterkar skoðanir á pólitík nokkuð snemma. Hún og eiginmaður hennar urðu síðar meir stofnaðilar að ýmsum samtökum, bæði á sviði verkalýðsbaráttu og stjórnmála. Meðal þeirra var NCNC, National Council of Nigeria and the Cameroons, sem átti eftir að verða leiðandi í Nígeríu fyrstu áratugina eftir sjálfstæði. Funmilayo lifði því lífi „sjálfstæðrar nútímakonu“, hún var menntuð, starfaði sem skólastjóri, lifði í einkvænishjónabandi og tók virkan þátt í stjórnmálum. Hún bjó í borginni Abeokuta og stofnaði þar sérstakan dömuklúbb, sem hún var í forsvari fyrir. Dömuklúbburinn sá í fyrstu aðallega um að skipuleggja lautarferðir og íþróttamót. Það átti hins vegar eftir að breytast á fimmta áratugnum, þegar markaðskonurnar í Abeokuta gengu til liðs við klúbbinn, og til varð verkalýðsfélagið AWU, Abeokuta Women's Union, árið 1946.

Forsagan er sú að Abeokuta og nágrenni var stjórnað af Bretum í gegnum innlendan millilið, einhvers konar konung sem kallaðist aleke. Þegar Bretar komu þessu fyrirkomulagi á, í tilraun til að byggja á innviðum samfélagsins, þá hunsuðu þeir algerlega þau (takmörkuðu) áhrif sem konur höfðu áður notið. Engu að síður voru konur enn mjög áberandi í efnahagslífinu, og voru til dæmis yfirgnæfandi meirihluti kaupmanna. Þær voru því einn af stærstu tekjumöguleikum ríkisins gegnum skattheimtu, þrátt fyrir að hafa engin völd innan ríkisins. Til að bæta gráu ofan á svart þá var konum beinlínis mismunað, og þær byrjuðu að borga skatt við 15 ára aldur, en karlmenn við 17 ára aldur. Skattheimtumennirnir beittu konurnar oft líkamlegu ofbeldi, og notuðu tækifærið til að rífa unglingsstúlkur úr fötunum, til að athuga hvort þær væru með nógu stór brjóst til að þurfa að borga skatt. Gegn öllu þessu barðist AWU, og eftir þriggja ára baráttu, þar sem þær beittu fjöldamótmælum, blaðaskrifum og lögsóknum tókst þeim að ná öllu samfélaginu á sitt band. Einhverjar breytingar voru gerðar á kerfinu (ég treysti mér ekki til að segja hve miklar) og konungurinn neyddist til að segja af sér og flýja land.

Þær greinar sem ég hef lesið lýsa því ástandinu sem svo að konur hafi að einhverju marki verið að reyna að endurheimta fyrri réttindi og stöðu. Þessi fjöldahreyfing kvenna, ásamt öðrum víðar um landið, bendir vissulega til þess að konur hafi litið á sig sem pólitíska gerendur. Til samanburðar getum við litið á pólitíska þáttöku íslenskra kvenna á sama áratug. En önnur skoðun sem ég las úr þessum sömu greinum var sú að kvenréttindabaráttu fimmta og sjötta áratugarins hefði þrátt fyrir allt mistekist. Konur hefðu sett sjálfstæðisbaráttuna og þjóðernishyggjuna í fyrsta sætið, og afleiðingin hefði verið sú að þeim mistókst að ná fyrri áhrifum í opinberu lífi, hvað þá að auka þau. Þvert á móti hafi staða kvenna í Nígeríu versnað eftir því sem leið á 20. öldina.

Hér get ég ekki annað en byrjað að sjá hliðstæður með þróun sögunnar og fjölskyldutengslum Funmilayo og Fela Kuti. Allir þrír synir Funmilayo voru róttækir eins og hún og háværir andstæðingar herstjórnarinnar á 8. áratugnum, en Fela var að sögn sá herskáasti (hvergi sá ég neitt minnst á það hvað einkadóttir hennar kaus að gera við líf sitt). Ég þekkti ekki mikið til Fela Kuti áður en ég hóf lesturinn, og til að vera sanngjörn þá skal ég fúslega viðurkenna að viðhorf hans til kvenréttinda eru ábyggilega ekki besti staðurinn til að byrja, ef manni vill líka vel við manninn. Frægast er að hann átti 27 eiginkonur, að eigin sögn til að mótmæla hegemóníu vestræns siðferðis og þjóðfélagsskipulags. Alveg er ég tilbúin til að hlusta á rök um lifnaðarhætti sem eru ólíkir mínum eigin, en ef þú átt 27 eiginkonur þá sérðu konur sem hluti. Punktur. Einn kafli í sjálfsævisögu hans heitir víst: „What woman is to me“ og hefur undirtitlana Mattress og Lady, sem einnig eru frægir slagarar eftir Fela. Ég meina, hversu óþolandi er hægt að vera? Stefnan, „þjóðerni ofar kvenréttindum“ virðist birtast á kristaltæran hátt í laginu Lady. Þar lýsir Fela því hvernig konur sem heimta sömu virðingu og karlmenn séu óþjóðlegar og spilltar af evrópskum áhrifum. Að hans mati áttu þær sumsé að hætta að þykjast vera dömur, og gera svo vel að byrja að gegna hlurverki sínu sem dýnur.
African woman go dance.. She know him manna Masster/ She go cook for am/ She go do anything he say/ But Lady no be so

Þetta er bara svo óþverralegt karlrembubragð til að beita konur í undirokuðu landi, að ég á ekki orð. Ekki getur grey Fela borið við fáfræði því hann var, fjandinn hafi það, alinn upp af konunni sem var þekkt sem ljónynjan af Lisabi, en með því var verið að líkja Funmilayo við þekkta kvenhetju úr nígerískri sögu. Mótsagnakenndum viðhorfum Fela til ljónynjunnar móður sinnar og dýnanna 27 hefur verið líkt við evrópsku tvíhyggjuna um Maríu og Evu. Það sem ég spyr mig helst að er hvernig Funmilayo brást við þessari karlrembu sonar sín. Að því er virðist, þá varð þetta þeim ekki neitt sérstakt ágreiningsefni. Hún breytti eftirnafni sínu að hans fordæmi, og í ellinni kaus hún að búa hjá honum í fjölkvæniskommúnunni sem hann nefndi Kalakuta-lýðveldið. Í upphafi árs 1978 virðist nígeríska herstjórnin hafa fengið nóg af andófi Fela og pólitískum boðskap tónlistar hans, og sendi herinn á Kalakuta lýðveldið. Gengið var í skrokk á heimilismönnum og allar tónlistarupptökur Fela voru eyðilagðar. Funmilayo var hins vegar sú eina sem lét lífið. Hermennirnir hentu henni út um glugga, og hún lést nokkrum mánuðum síðar af áverkum sínum.

Ég spyr mig líka hvort það hafi bara verið tilviljun að Funmilayo var sú eina sem var drepin.  Af hverju ákváðu hermennirnir að henda 77 ára gamalli konu út um glugga? Ég hef ekki nógu góðar lýsingar á atburðinum til að gera neitt annað en að spekúlera. Funmilayo var þjóðþekkt kona, og engin ástæða til að ætla að morð hennar hafi ekki verið pólitískt, þó árásin hafi fyrst og fremst beinst að syni hennar. Sáu hermennirnir í henni konu sem hafði þóst vera lady, og þar með sýnt öðrum nígerískum konum hættulegt fordæmi? Eða voru þeir kannski komnir það langt í kvenfyrirlitningu að þeir voru ófærir um að sjá hana sem pólitískan andstæðing? Kannski fannst þeim bara að konu sem væri orðin of gömul til að þjóna sem dýna mætti allt eins henda út um gluggann.

Coffin for Head of State, 23 mínutna langt lag sem Fela Kuti samdi um viðbrögð sín við morðið á móður sinni.


Heimildir:
Raisa Simola: “The Construction of a Nigerian Nationalist and Feminist, Funmilayo Ransome-Kuti.” Nordic Journal of African Studies (8:1), 1999, bls. 94-114. (Hægt er að ná í hana hér, fyrir áhugasama: http://www.njas.helsinki.fi/pdf-files/vol8num1/simola.pdf) 
Cheryl Johnson: “Grass Roots Organizing: Women in Anticolonial Activity in Southwestern Nigeria.” African Studies Review. (25:2/3), 1982, bls. 137-157. 
Stephanie Shonekan: “Fela’s Foundation: Examining the Revolutionary Songs  of Funmilayo Ransome-Kuti and the Abeokuta Market Women’s Movement in 1940s Western Nigeria. Black Music Research Journal (29:1), 2009, bls. 127-144. (Fyrir sjúklega áhugsama, þá náði ég í þessar af jstor.org)

No comments:

Post a Comment