Saturday, September 28, 2013

Tvær breiðfirskar breddur á síðum tímans

Ég var ekki farin að lesa dagblöðin að neinu ráði á síðari hluta 9. áratugarins, og reyndar voru foreldrar mínir sennilega ekki áskrifendur að Tímanum hvort eð er, en ég uppgötvaði nýlega að á þessum árum og eitthvað fram yfir 1990 var fylgirit helgarblaðs Tímans að miklu leyti helgað sögulegum fróðleik. Þar voru ítarlegar greinar um söguleg málefni, atburði og persónur, gjarnan í dramatískum stíl með æsilegum millifyrirsögnum. Oft fylgdu greinunum myndskreytingar, og þá stundum eins konar skopmyndir eftir teiknara Tímans.

Með frekar stuttu millibili fann ég í þessu fylgiriti Tímans umfjöllun um tvær breiðfirskar konur fyrri alda, sem fá sínar skopmyndir og millifyrirsagnir óþvegnar. Þær voru reyndar ekki bara báðar breiðfirskar heldur voru þær báðar af hinni miklu höfðingjaætt sem kennd er við Skarð á Skarðsströnd; þær Ólöf ríka Loftsdóttir og Guðrún Eggertsdóttir eldri.

Hin syndgandi kona
15. aldar konan Ólöf ríka er líklega öllu frægari persóna. Hún er einna kunnust fyrir þá yfirlýsingu sína að ekki skuli „gráta Björn bónda, heldur safna liði“, eftir að maður hennar, Björn Þorleifsson, hafði verið drepinn af Englendingum. Ólöf var umsvifamikil athafnakona og landeigandi og af henni ganga ýmsar sögur, en það voru meint skriftamál hennar sem Tíminn fjallaði um í apríl 1988.

Skriftamálin sem eignuð voru Ólöfu ríku virðast við fyrstu sýn vera skriftir konu fyrir presti sínum. Þær snúast mjög um ýmsar kynferðislegar syndir sem konan játar á sig, þótt þær komi manni nú ekki mjög pervertískt fyrir sjónir í dag: sjálfsfróun, samfarir á hlið og kynlíf meðan á blæðingum stendur, en þetta þótti kirkjunnar mönnum allt afskaplega ónáttúrulegt.

Þessum skriftamálum var lengi klínt á Ólöfu og voru til dæmis birt með hennar nafni í Fornbréfasafni Hins íslenska bókmenntafélags um aldamótin 1900, þótt þá hafi reyndar verið tekin sú ákvörðun að ritskoða mestu klúrheitin. Ritskoðunin kemur dálítið skemmtilega út því kaflarnir hafa ekki verið klipptir út heldur er búið að þurrka út orðin á síðunni og setja punktalínur yfir, svo punktalínur þekja mestalla blaðsíðuna. (Þegar Landsbókasafnið fór að setja Fornbréfasafnið á netið var þó notast við óritskoðaða útgáfu, svo þar eru öll klúrheitin aðgengileg í dag.)

Árið 1999 skrifaði Helga Kress mjög áhugaverða grein í Nýja sögu þar sem hún færði rök fyrir því að hér væri alls ekki um skriftamál Ólafar ríku að ræða, og ekki raunveruleg skriftamál konu yfirhöfuð, heldur paródíu á skriftamál, sem skrifuð væri af (mögulega gröðum) karlmanni. Áður hafði Stefán Karlsson handritafræðingur reyndar einnig dregið tengsl skriftamálanna við Ólöfu í efa, og Björn Þorsteinsson lýst því að hér væri líklega um einhvers konar „fróunar- og fræðslubókmenntir klerka“ að ræða.

Og viti menn, nokkrum öldum síðar sá Tíminn einnig tækifæri til fróunar og fræðslu í skriftamálum þessarar „syndahöðnu“, eins og hin skriftandi kona er þar kölluð: „Jafnframt verður ekki loku fyrir það skotið að syndahaðnan Ólöf hafi fundið sér nokkra fordild í að játa bresti sína á sem stórfenglegastan hátt.“ Við þetta tækifæri fékk teiknari blaðsins síðan útrás í nektarmyndum, stórum nefjum og andlitsvörtum.

En Ólöf ríka var ekki eina konan af Skarðsætt sem prýdd var stóru nefi og vörtu, eins og sést á annarri umfjöllun Tímans ári fyrr.


Guðrún eldri Eggertsdóttir fæddist rúmum tveimur öldum á eftir Ólöfu Loftsdóttur og lést í hárri elli árið 1724. Guðrún var dóttir Eggerts ríka Björnssonar á Skarði, en hann og Valgerður kona hans voru ein ríkustu hjón á Íslandi á 17. öld. Fimm dætur þeirra Eggerts og Valgerðar komust til fullorðinsára. Guðrún var elst, en hún átti systurnar Arnfríði, Helgu eldri, Helgu yngri og Guðrúnu yngri. Arnfríður erfði ættaróðalið Skarð á Skarðsströnd og bjó þar. Guðrún erfði hins vegar Saurbæ, eða Bæ, á Rauðasandi, og fluttist þangað með eiginmanni sínum, Birni Gíslasyni sýslumanni. Hann var sonur Vísa-Gísla Magnússonar sýslumanns, og mættust í hjónabandi þeirra Guðrúnar og Björns einhverjar mestu höfðingjaættir á landinu.

Björn Gíslason lést ungur úr sárasótt og kenningar eru uppi um að Guðrún hafi smitast af honum og af þeim sökum misst börn sín í bernsku og orðið blind. Guðrún giftist ekki aftur en var ekkja áratugum saman. Hún var, rétt eins og Ólöf ríka Loftsdóttir, umsvifamikill landeigandi og stóð í miklum rekstri og útgerð á jörðum sínum. Þegar jarðabókinni úr Barðastrandarsýslu frá öndverðri 18. öld er flett er nærvera Guðrúnar Eggertsdóttur yfirþyrmandi; sumar jarðir á hún ekki nýtingarinnar vegna, heldur eingöngu til að spara sér óþægindi af lausagöngu fjár af jörðunum sem hún á báðum megin við.

Árni Magnússon, sem skráði jarðabókina í Barðastrandarsýslu, lýsir Guðrúnu á mjög neikvæðan hátt. Hann undirstrikar þær kvaðir sem hún lagði á leiguliða sína (en slíkar kvaðir voru viðtekin hefð landeigenda) og af lýsingum hans má ráða að hún hafi sýnt þeim sérstakt harðræði. Hún bannaði þeim að nota segl, sem hefði sparað þeim erfiði í róðrum, og neyddi þá til að leigja af sér potta og katla. Athugasemdir Árna eru oftar en ekki skráðar á frönsku eða þýsku, eins og til að forða því að allir gætu lesið þær: „Qvand le paisan, a cause des imposts cruelles, n´est pas plus solvendo, on le jette dehors pourquoi il est contraint à crever. So gengur það til á eignum Guðrúnar Eggertsdóttur.“ (335)

Æ síðan hefur Guðrúnu Eggertsdóttur í Bæ verið lýst sem sérlega valdasjúkri og miskunnarlausri konu. Fyrirsögnin í grein Tímans um Guðrúnu er til dæmis „Þrælahald á Barðaströnd“. (Millifyrirsögn: ÁTTI ALLA ELDUNARPOTTANA.) Víða hefur verið vitnað til harðræðis hennar og óvinsælda vestra - það má segja að ímynd hennar hafi löngum verið mjög neikvæð - en ég hef ekki fundið vísanir í neina aðra samtímaheimild en jarðabókina, sem hefur vakið með mér nokkra forvitni. Hér skal tekið fram að ég dreg ekki í efa að forríkt yfirstéttarfólk á borð við Guðrúnu hafi haft öll ráð leiguliða sinna í hendi sér, en þessar dramatísku lýsingar á framkomu Guðrúnar sérstaklega þykja mér áhugaverðar.

Hvers vegna blöskrar Árna Magnússyni framferði Guðrúnar á þennan hátt, hann sem var þó búinn að skrá jarðabók víða um land? Var hún svona miklu harðari við undirsáta sína en aðrir stórjarðeigendur á 17. öld? Hver var það sem Árni var hræddur um að kæmist í athugasemdir hans, svo hann skrifaði þær á útlensku? Eru til aðrar samtímaheimildir um Guðrúnu Eggertsdóttur?

Því miður er ég ekki á heimavelli þegar kemur að heimildaleit á 17. öld. Hins vegar þykir mér einsýnt að Guðrún Eggertsdóttir eldri sé athyglisvert rannsóknarefni, bæði atvinnurekstur hennar og staða hennar sem stórjarðeigandi á 17. öld sem og saga ímyndar hennar sem sadísks kvenþrælahaldara (hún er ekki sú eina í sögunni) allt frá Árna Magnússyni til Grýlumynda Tímans á áliðinni 20. öld.


Heimildir:
Helga Kress, „Confessio turpissima. Um skriftamál Ólafar ríku Loftsdóttur“. Ný saga 11 (1999), bls. 4-20
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns VI. Dalasýsla og Barðastrandarsýsla. Reykjavík 1983
„Léttlátar augnatilrenningar, umspenningar og nákvæm líkamanna samkoma“. Tíminn. Helgin 16. apríl 1988
„Þrælahald á Barðaströnd“. Tíminn. Helgarblað 21. júní 1987
(Einnig má benda á lokaritgerð sem María Ásdís Stefánsdóttir skrifaði árið 2002 um eignir Eggerts Björnssonar, Valgerðar Gísladóttur og dætra þeirra, en hún heitir „Íslenskur aðall“.)

No comments:

Post a Comment