Thursday, October 31, 2013

Dagur kreólasöngsins

Í dag er haldið upp á Dag kreólasöngsins, eða el Día de la Canción Criolla, í Perú. Af því tilefni er upplagt að hlusta á Kanelblómið, lag um límenska rómantík.

Chabuca Granda syngur: Jasmínur í hárinu og rósir í kinnum, Kanelblómið gekk hnarreist og óskammfeilnin skein af henni.

Í öðrum pistli hér á Smjörfjallinu kom ég með þá dularfullu staðhæfingu að með öllu sem maður gerði í Perú, þá væri maður í raun að skipa sér í eitthvert lið, án þess að gera sér grein fyrir því.

Það sem ég meinti með þessu óljósa orðalagi var að perúskt samfélag einkennist af stéttaskiptingu sem er ekkert í líkingu við neitt sem Íslendingur getur ímyndað sér út frá sinni eigin reynslu. Stéttaskiptingin einkennist ekki bara af misskiptingu auðs, heldur líka því sem erfitt er að kalla annað en rasisma. Landfræðilega séð skiptist Perú í þrjá hluta, ströndina, Andesfjöllin og frumskógarsvæðin. Í Andesfjöllunum og á frumskógarsvæðunum býr til dæmis nokkur fjöldi fólks sem talar eitthvert afbrigði af tungumálunum Quechua og Aymara. Ströndin, að höfuðborginni meðtalinni, er hins vegar „evrópskari“, en þar er einnig að finna langflesta þá íbúa sem eru af afrískum eða asískum uppruna.

Það er litið niður á fátækt fólk í Perú og það er litið niður á indjána. Engu að síður þá eru frekar fáir í Perú sem eru ekki fátækir þegar allt kemur til alls. Í það minnsta eru tiltölulega fáir sem eru öruggir um að verða það ekki ef eitthvað kemur upp á, veikindi, slys eða uppsögn úr starfi. Að sama skapi eru mjög fáir sem líta ekki út fyrir að vera indjánar eða komnir af indjánum. Þó er fámennur hópur sem uppfyllir þessi skilyrði, fólk úr þeim hópi á meiri peninga en flestir íslenskir auðmenn (eða er í það minnsta minna feimið við að flíka þeim), hefur „rétta“ útlitið og heitir sjaldgæfu, evrópsku ættarnafni. Af ýmsum flóknum sögulegum ástæðum þá hefur Perú, öfugt við til dæmis Mexíkó, í raun alltaf skilgreint „hinn sanna Perúana“, út frá þessum hópi. Það eru ekki bara eignir og menning sem aðskilja meirihluta Perúana frá þessum hópi. Sjálf genin þeirra koma í veg fyrir að þeir, eða börnin þeirra, muni nokkurn tíma ná viðlíka samfélagsvirðingu, sama hvað þeir gera. Í slíku samfélagi skiptir hin ytri ímynd miklu máli. Ímynd þeirra sem eru á botni samfélagsins er mjög vel skilgreind, og til að halda þinni stöðu þá verðurðu stöðugt að skilgreina þig frá þessum botni. Er ekki örugglega einhver sem er dekkri í framan, fátækari, minna menntaður? Einhver sem er nýkominn úr sveitinni, með hreim á spænskunni eða á ekki heimili með vatnsklósetti? Hah, ég er allavegana ekki hann! En að sjálfsögðu virkar þetta líka öfugt, það er næstum alltaf einhver fyrir ofan þig í samfélagasstiganum, og þú veist að hann fyrirlítur þig, svo til að halda einhverri örðu af sjálfsvirðingu, þá finnurðu þér ástæðu til að fyrirlíta hann á móti.

Perú er engu að síður yndislega fallegt land og íbúarnir almennt séð kurteisir, hjálpsamir og vinsamlegir. Það tekur mann þó nokkurn tíma að átta sig á þeirri togstreitu sem býr undir niðri. En það er nauðsynlegt að vera meðvitaður um þetta, meðal annars til að skilja af hverju það er í fúlustu alvöru rætt um það í útvarpinu að reisa múr í kringum fátækrahverfin í Líma, og af hverju fólk sem þú þekkir af engu nema elskulegheitunum finnst það skynsamleg, nei, sjálfsögð uppástunga. Eða af hverju fólk verður mjög móðgað ef það er á einhvern hátt gefið í skyn að það líti út fyrir að vera frá Perú. Maður verður einfaldlega að átta sig á því í hvaða ósýnilega liði viðmælandi manns telur sig vera í, til þess að langtíma samskipti geti farið áfallalaust fram. Þú vilt ekki hljóma eins og þú sért að skilgreina viðmælenda þinn fyrir neðan þig sjálfan, en þú vilt líka forðast að taka þátt í því að skilgreina aðra á neikvæðan hátt, til dæmis með því að hlæja að þingkonunni sem talaði móðurmál sitt Quechua á þinginu. En þessi jafnvægislist er flókin, eitthvað sem í fyrstu virðist saklaust umræðuefni er engu að síður sprottið úr sögulegum bakgrunni og getur haft ófyrirséðar aukamerkingar.

Dæmi um þetta er dagur kreólasöngsins. Ég var í Perú á sínum tíma um þetta leyti árs og man vel eftir þessum krúttlega menningarviðburði, sem mörgum til armæðu var að renna saman við einhverja skelfilega útvatnaða útgáfu af amerískri Hrekkjavöku. Ég ætlaði að skrifa um þetta nokkrar línur og bjóða upp á eins og eitt lag, lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Fimm sekúndna undirbúningsvinna á netinu nægði til að ég áttaði mig á því að dagur kreólasöngsins er ekki krúttlegur menningarviðburður heldur aðferð til að draga mörkin milli hástéttar og lágstéttar, borgar og sveitar, hvítra og indjána. Það var árið 1944 sem þáverandi forseti Perú, Manuel Prado Ugarteche, ákvað að helga kreólskri tónlist sérstakan dag, í ljósi stórfelldra fólksflutninga úr sveitum Andesfjallanna til höfuðborgarinnar. Borgin var að fyllast af sveitafólki sem kom með sína úlekkeru indjánamenningu með sér. Þá var þörf á því að standa vörð um gömlu, góðu gildin, og gefa hefðbundinni límenskri menningu opinberan sess, á sérstökum degi. 

Það fýkur í mann þegar maður hugsar út í það hversu fáránleg þessi afstaða var, og er. Hélt fólk í Lima að Perú yrði eina landið í heiminum þar sem nútímavæðing hefði ekki þau áhrif að fólk flykktist úr sveit í borg? Hélt það að þetta væri fyrst og fremst eitthvað persónulegt val þessara einstaklinga? Þeir hefðu bara ákveðið að flytja búferlum í ógeðslegt fátækrahverfi til þess að pirra gamalgróna íbúa með sveitalegum tónlistarsmekk og rangri áherslu á orðinu plátano? Að til að mega vera þarna þá þyrfti þetta fólk að aðlagast og læra að skammast sín fyrir sjálft sig? Þessi langlífa andúð á búferlaflutningum andísks sveitafólks til borgarinnar verður enn ömurlegri ef hugsað er til níunda áratugarins, þegar fjöldi fólks varð að flýja heimasveitir sínar vegna átaka hersins og maóísku hryðjuverkasamtakanna Hins skínandi stígs (Sendero Luminoso). Þrátt fyrir alla sína retórík þá var það fyrst og fremst bændafólkið sem Skínandi stígur ofsótti, og perúski herinn var ekki yfir það hafinn heldur.

Til þess að geta notið perúskrar kreólatónlistar með góðri samvisku skulum við því líka hlusta á eitt frægt andískt lag, en árið 2006 ákvað þáverandi forseti Perú, Alejandro Toledo, að gera 15. júní að degi andíska lagsins (el día de la canción andina). Það heitir einnig eftir blómi, en á annars fátt sameiginlegt með Flor de la Canela. Flor de Retama var upprunalega samið um átök perúska ríkisins og stúdenta árið 1969, til að minnast nemenda sem létu lífið í þeim átökum í smábæ í Ayacucho-héraði. Skínandi stígur bókstaflega stal laginu 10-15 árum síðar og gerði það að einkennislagi sínu. Því er Flor de Retama annað gott dæmi um fyrirbæri sem getur komið af stað harkalegu rifrildi í Perú. En, þrátt fyrir að lagið veki upp slæmar minningar hjá mörgum, þá er textinn þess eðlis að erfitt er að túlka það á annan hátt en sem samúð með fólki sem er ofsótt og beitt ofbeldi, hvort sem það er af ríkinu eða hryðjuverkasamtökum.

Martina Portocarrero syngur: Blóð alþýðunnar hefur höfgan ilm, það ilmar af fjólubláum jasmínum, blágresi, margarítum, púðri og dýnamíti.

1 comment:

  1. It's interesting to read this - I get the important points, though Google-translated English does make some interesting challenges..

    ReplyDelete