Ýmis konar hugmyndir sem fyrir okkar vestrænu menningu eru fullkomlega sjálfsagðar eru þegar nánar er skoðað félagslegur tilbúningur - ein hugmynd getur ríkt um aldir og allt önnur svo tekið við og ríkt jafn lengi. Í fornaldarstúdíu finnast mýmörg áhugaverð dæmi um þetta, en hér ætla ég að fjalla um aðeins tvö: Æskilega typpastærð og kynferðislegan áhuga kvenna.
Í okkar menningu er það ríkt að typpi skulu vera stór; lítil typpi tákna litla karlmennsku, aumingjaskap og athlægi. Hugmyndin að baki er sú að lítil typpi geti ekki fullnægt konum né þjónað sem valdatákn í augum annarra karlmanna. Karlmaður með lítið typpi telst ekki hafa neitt tilkall til að hafa meiri völd og peninga en maður með stórt typpi, og sýniþörf hans á efnislegum gæðum er jafnan talin merki um
over-compensation; að hann sé að bæta sér smæð kynfæranna upp með pallbíl eða rándýrri og langri veiðistöng.
Þessi hugmynd væri afar kunnugleg hinum forna rómverska menningarheimi. Þar hafði typpastærð svipaða merkingu fyrir virðingarröð karlmanna. En í hinum gríska menningarheimi var merkilega öðruvísi litið á hlutina: Þar töldust stór typpi grótesk og dýrsleg, en lítil typpi falleg og smekkleg.
|
Styttan af Adonis í Hallargarðinum í Reykjavík, sem er gerð eftir forn-grískum hugmyndum um ídeal karlmannslíkama. Úr greinasafni Mbl. |
Eins og lesendur kannast kannski við úr klassískri höggmyndalist (svosem Davíð eftir Michaelangelo, eða Adonis að ofan) þá eru typpin á nöktum karlstyttum alltaf mjög lítil. Þetta eru áhrif frá forn-grískri höggmyndalist, sem ídólíseraði hárlausa líkama vöðvastæltra, mjórra, ungra karlmanna með lítil typpi. Þetta er ennþá okkar fegurðarímynd í hinu daglega lífi - fyrir utan typpið, sem nú skal vera stórt. Þennan mun má kannski skýra að einhverju leiti með því að í Grikklandi til forna var nekt karlmanna sjálfsögð - menn gengu um lítt klæddir í hitanum og æfðu íþróttir naktir á almannafæri. Það var einfaldlega ekkert til að fela og ekkert til að láta ímyndunaraflinu eftir, en í okkar menningu eru stór typpi frekar gefin í skyn en sýnd.
Rómverjar og síðari tímar almennt hermdu eftir stíl forn-grísku styttanna, en í menningunni héldu þeir fram allt annarri karlmennskuímynd þar sem stórt typpi þýddi mikil karlmennska, sem aftur þýddi mikil völd. Garðaguðinn Príapus er gott dæmi um rómverska typpadýrkun:
|
Guðinn Príapus, veggmálverk frá Pompeii. Takið eftir ávaxtakörfunni (þarna undir risatyppinu), sem bendir til hlutverks hans sem garðaguðs. Príapus er að vigta typpið á sér á vogarskál á móti poka af gulli. |