Í okkar menningu er það ríkt að typpi skulu vera stór; lítil typpi tákna litla karlmennsku, aumingjaskap og athlægi. Hugmyndin að baki er sú að lítil typpi geti ekki fullnægt konum né þjónað sem valdatákn í augum annarra karlmanna. Karlmaður með lítið typpi telst ekki hafa neitt tilkall til að hafa meiri völd og peninga en maður með stórt typpi, og sýniþörf hans á efnislegum gæðum er jafnan talin merki um over-compensation; að hann sé að bæta sér smæð kynfæranna upp með pallbíl eða rándýrri og langri veiðistöng.
Þessi hugmynd væri afar kunnugleg hinum forna rómverska menningarheimi. Þar hafði typpastærð svipaða merkingu fyrir virðingarröð karlmanna. En í hinum gríska menningarheimi var merkilega öðruvísi litið á hlutina: Þar töldust stór typpi grótesk og dýrsleg, en lítil typpi falleg og smekkleg.
Styttan af Adonis í Hallargarðinum í Reykjavík, sem er gerð eftir forn-grískum hugmyndum um ídeal karlmannslíkama. Úr greinasafni Mbl. |
Rómverjar og síðari tímar almennt hermdu eftir stíl forn-grísku styttanna, en í menningunni héldu þeir fram allt annarri karlmennskuímynd þar sem stórt typpi þýddi mikil karlmennska, sem aftur þýddi mikil völd. Garðaguðinn Príapus er gott dæmi um rómverska typpadýrkun:
Það er áhugavert að alveg frá fornri tíð voru naktar karlmannsstyttur fullkomlega sjálfsagðar í hinum gríska menningarheimi, en kvenstyttur voru til að byrja með alltaf klæddar - naktar kvenstyttur komu seint og um síðir og þóttu til að byrja með mikið klám. Hin sjálfsagða og fagra nekt var nekt karlmannsins en hin forboðna og lágkúrulega var kvenmannsins. Í dag eru hinsvegar naktar konur á hverju auglýsingaskilti, en karlmannstyppi sjást nær hvergi í almannarými - nema einmitt á styttum eftir forn-gríska módelinu!
Rómverski og forn-gríski menningarheimurinn höfðu svo sameiginlega sýn á konur og kynferðiskröfur þeirra sem er jafnframt fullkomlega andstæð við okkar eigin. Í okkar menningu þykir það sjálfsagt og sést greinilega í hverskyns sitcom-gamanþáttum (og þessum stórkostlega kommentaþræði) að karlar eigi að glíma við ofvirka og sturlaða kynhvöt sem lætur þá aldrei í friði - þeir þurfa alltaf að vera að fá það og ganga af göflunum ef það gengur ekki eftir. Hinsvegar eru konur kaldar skepnur sem langar sjaldnast til að sofa hjá og þurfa endalaust að vera að neita spólgröðum karlmönnum um athygli sína. Ellegar eru þær hórur.
Þetta er hinsvegar fullkomlega öfugt við mat fornaldar á kynlöngun kynjanna. Í Róm og Grikklandi til forna voru það almenn sannindi að konur væru gjörsamlega hamslausar af greddu og gengu af göflunum ef þær fengu ekki kynlíf; karlmenn væru hinsvegar af náttúrunnar hendi með litla kynhvöt. Það var talið til marks um mikla karlmennsku að hafa fullkominn hemil á kynhvöt sinni og æsast sem sjaldnast - þetta var hin fræga sjálfsstjórn sem forn heimspeki miðaði svo gjarnan að.
Þessi náungi yrði talin algjör barbari í Aþenu til forna. Eða raunar hvar sem er. |
En augljóslega eru svona menningarímyndir - og hafa alltaf verið - í órafjarlægð frá raunveruleikanum hverju sinni. Kynhvöt mannsins er miklu flóknara fyrirbrigði en svo að einhverjar algildar menningarlegar reglur fái henni lýst.
No comments:
Post a Comment