Hippókrates kannast flestir við útfrá eiðnum fræga, sem læknar ku sverja enn í dag. Maðurinn sjálfur er fremur dularfull fígúra - Grikkir til forna litu á hann sem föður læknisfræðinnar og vottuðu fornir arftakar hans honum virðingu sína með því að gefa út öll sín læknisfræðirit undir hans nafni. Þaðan kemur hið gríðarlega hippókratíska ritsafn, merkasta samansafn fornrar læknisfræðihugsunar sem fyrirfinnst, sem inniheldur þó varla eitt einasta orð eftir sjálfan Hippókrates.
Það er hinsvegar spurning hvort læknar dagsins í dag ættu raunar að kenna sig svo glatt við manninn: Þótt læknar til forna hafi sannarlega haft ýmislegt til síns máls (eins og stöðuga áherslu á líkamsrækt sem flestra meina bót - viðhorf sem er nýlega dottið aftur í tísku) þá höfðu þeir jafnframt oft kostulega rangt fyrir sér, og gerðu stundum tilraunir og drógu ályktanir sem maður veit ekki hvort maður eigi að hlæja að eða gráta yfir.
Til dæmis um þetta vil ég þýða og birta frægan kafla úr hippókratíska ritsafninu, úr verki sem kallast Um eðli barnsins (þakkir til Arngríms Vídalín Smjörfjallspenna fyrir að grafa upp kaflann!) Þetta er kafli 13.1-4, þar sem læknirinn gerir ansi magnaða fóstureyðingartilraun á vændiskonu: