Sunday, September 14, 2014

Faðir læknisvísindanna framkvæmir óvenjulega fóstureyðingu

Hippókrates kannast flestir við útfrá eiðnum fræga, sem læknar ku sverja enn í dag. Maðurinn sjálfur er fremur dularfull fígúra - Grikkir til forna litu á hann sem föður læknisfræðinnar og vottuðu fornir arftakar hans honum virðingu sína með því að gefa út öll sín læknisfræðirit undir hans nafni. Þaðan kemur hið gríðarlega hippókratíska ritsafn, merkasta samansafn fornrar læknisfræðihugsunar sem fyrirfinnst, sem inniheldur þó varla eitt einasta orð eftir sjálfan Hippókrates.

Hippókrates. Nafnið merkir "sá sem stjórnar hestum". Oft ruglast nafn hans saman við orðið "hypocrite" - "sá sem dæmir yfir" (leiðr. sjá 1. athugas.) - og úr verður "hippocrite" - "sá sem dæmir hesta". Helvítis hippókrit!

Það er hinsvegar spurning hvort læknar dagsins í dag ættu raunar að kenna sig svo glatt við manninn: Þótt læknar til forna hafi sannarlega haft ýmislegt til síns máls (eins og stöðuga áherslu á líkamsrækt sem flestra meina bót - viðhorf sem er nýlega dottið aftur í tísku) þá höfðu þeir jafnframt oft kostulega rangt fyrir sér, og gerðu stundum tilraunir og drógu ályktanir sem maður veit ekki hvort maður eigi að hlæja að eða gráta yfir.

Til dæmis um þetta vil ég þýða og birta frægan kafla úr hippókratíska ritsafninu, úr verki sem kallast Um eðli barnsins (þakkir til Arngríms Vídalín Smjörfjallspenna fyrir að grafa upp kaflann!) Þetta er kafli 13.1-4, þar sem læknirinn gerir ansi magnaða fóstureyðingartilraun á vændiskonu:

13. Ég hef  sjálfur orðið vitni að sæði sem dvaldi inni í móðurinni í sex daga og féll svo út . Ég byggi restina af rökleiðslum mínum á útliti þessa og þeim ályktunum sem ég dró á þeim tíma útfrá því.

Ég mun nú skýra það út hvernig stóð á því að ég sá þetta sex daga gamla sæði. Ættkona mín átti verðmæta söngambátt sem svaf hjá mönnum [þ.e.a.s. vændiskona sem var send í veislur til að syngja fyrir gesti og sofa hjá þeim] en mátti ekki verða ólétt, því þá myndi virði hennar hrapa. 

Nú, söngkonan hafði heyrt það sem konur segja hver við aðra, að þegar kona verður ólétt, þá lekur sæðið ekki út, heldur dvelur eftir inni. Hún meðtók það sem sagt var og var ávallt á verði, og þegar eitt sinn hún fann að sæðið rann ekki út, þá sagði hún húsfreyjunni frá því, og málið var borið undir mig. 

Þegar ég hafði heyrt allt af létta, þá skipaði ég henni að hoppa upp og niður svo að hælarnir næmu við rasskinnarnar. Hún hoppaði sjö sinnum, og sæðið rann þá niður á jörðina með skelli. Stúlkan sá það, starði og undraðist mjög. 

Ég skal segja ykkur frá því hvernig það var: Eins og einhver hefði tekið ytri skurnina af hráu eggi, og hið vota innvols þess sæist í gegn um innri himnuna. Útlit þess var einhvernveginn svona, án þess þó að lýsa því í smáatriðum: Það var rautt og kúlulaga; hvítar og þykkar sinar sáust í himnunni, umkringdar af þykkum, rauðum blóðvökva, en blóðtappar umluktu himnuna fyrir utan. Í gegn um himnuna miðja skagaði eitthvað mjótt út sem mér sýndist vera naflastrengur, og ég tel að andardrátturinn fari fyrst fram þar, inn og út. Himnan teigði sig út frá þessum naflastreng og hélt sæðinu algjörlega inni. Svona var sæðið þegar ég sá það á sjötta degi.

Fyrir utan hina hrollvekjandi valdbeitingu hins vísindalega karlmanns á undirskipaðri þrælakonu, þá vaknar spurningin: Hvað í ósköpunum er þetta sem "Hippókrates" sá þarna? Ekki var það raunverulega sex daga gamalt fóstur (sem fornmenn kalla bara "sæði", þar sem þeir töldu að fóstur væri samruni karlsæðis og kvensæðis) - það er svo sannarlega ekki orðið jafn heillegt og það sem hér er lýst. Auk þess eru fóstureyðingar alls ekki svona auðveldar í framkvæmd (don't try this at home, kids). Nú vitum við líka að hinn viðtekni sannleikur "Hippókratesar" og ambáttarinnar, að getnaður verði eingöngu ef sæðið lekur ekki út, er vitleysa. Þá má ímynda sér að þetta sé í raun og veru eldra fóstur sem þarna lak út - en ætti þetta hopp að geta valdið því?

Þetta er söguleg ráðgáta sem Smjörfjallslesendur eru hvattir til að reyna að leysa!

2 comments:

  1. Etymologían sem hér er gefin á 'hypocrite' er röng. Það er ekki sá sem "dæmir yfir sig", heldur sá sem "leikur hlutverk" eða "er að þykjast", þ.e. vera eitthvað sem hann er ekki. Komið 'hypokrinesthai' -- en hypo þýðir 'undir' en ekki 'yfir'.

    ReplyDelete