Sunday, November 17, 2013

Töfraheimur íslenskra fræða

Þessa dagana er ég mikið inni á vefnum timarit.is og fletti í gegnum upphafsár íslenskrar fræðiútgáfu. Fyrst fletti ég í gegnum Sögu, tímarit Sögufélags, sem kom fyrst út árið 1949, en þrátt fyrir að þar sé að finna ýmis furðulegheit þá hafði ég nú séð það flest áður í BA-náminu og fátt sem kom í raun á óvart. En, síðan sneri ég mér að Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, og það er nú allt annar handleggur. Árbókin hefur nefnilega komið út frá árinu 1880, hvorki meira né minna. Þetta hlýt ég eiginlega að hafa vitað áður, en ég held ég hafi bara ekki áttað mig á því hvað þetta er merkilegt, fyrr en ég skoðaði Árbókina í samræmi við Sögu. Að vísu á t.d. Skírnir sér enn eldri útgáfusögu, en ég hef ekkert verið að fletta honum enn sem komið er, svo ég læt hann liggja á milli hluta.

Eitt af því sem slær mann við það að lesa elstu árganga Árbókarinnar (og reyndar oft í Sögu líka, ef út í það er farið) er að höfundar greinanna vísa aldrei í neinar eftirheimildir. Það er af því að þær voru ekki til. Það var engin fræðahefð til staðar, ekkert til að bera sig saman við. Kannski var til eitthvað efni erlendis, en hversu auðvelt ætli það hafi verið að kynna sér það? Á þessum tíma stóð ekkert á milli fræðimanns og frumheimildar annað en hans eigin hrifnæmi. Í Árbókinni er íslensk fornleifafræði að taka sín fyrstu skref, ein og óstudd. Það vekur beinlínis hjá manni aðdáun að ráðist hafi verið í stofnun félagsins og metnaðarfulla útgáfu svona snemma. Félagatal fyrstu árbókarinnar er skemmtilegt, fyrst kemur ein blaðsíða með merkum einstaklingum sem hafa splæst í ævilanga áskrift og félagsmennsku. Þar á meðal eru erlendir prófessorar, embættismenn og meðlimir danskrar borgarastéttar á Íslandi, en einnig einn íslenskur bóndi og ein kona, barónessan Astrid Stampe. Þeir sem voru í ársáskrift voru öllu fjölbreyttari, bara í dálkinum A er að finna jafn ólíkar samfélagsstöður eins og umsjónarmaður á Rósenborg, bóndi og jungfrú.


Allt frá fyrsta blaði er augljóst að potturinn og pannan í Hinu íslenzka fornleifafélagi var Sigurður Vigfússon, sem yfirleitt samdi meirihluta greinanna. Mér krossbrá því þegar ég kom á sjöunda árgang, og sá að þrátt fyrir að Sigurður hefði skrifað allar greinarnar fimm, þá hafði hann látist fyrir útgáfu, því blaðið byrjar á minningargrein um hann. Minningargreinin hefst á fræðslu um ættir Sigurðar, allt aftur til langalangalangalangalangalangalangalangalangalangaafa hans, í báðar ættir, ef mér telst rétt til. Sigurður var greinilega ágætlega ættaður, en virðist hafa búið svo illa að eiga einungis þrjá kvenkyns ættinga, móður sína og tvær systur, ef marka má greinina. Lífshlaup Sigurðar er áhugavert, og ef það hefur ekki nú þegar verið nýtt í fræðilegar rannsóknir eða sögulega skáldsögu, þá hlýtur það að gerast á næstu árum. En burtséð frá því þá er ein setning í minningargreininni sem kristallar innihald Árbókarinnar þessa fyrstu áratugi: „Hann undi því illa, að sögur vorar væru véfengdar, og hefði honum enzt aldr til, ætlaði hann að rita sérstaka varnarritgerð móti ýmsum höfundum, sem rengt hafa sögulegan áreiðileik ýmsra af sögum vorum.“

Legsteinn Sigurðar og Ólínu, konu hans.

 Það er nefnilega svo, að allar fornminjar sem Sigurður og arftakar hans rannsaka reynast vera frá söguöld. Það er í skemmtilegri mótsögn við yfirlit um gripi sem safninu áskotnast á hverju ári, en þeir eru langflestir allt að 8 öldum yngri. En það sem meira er, þá vissu upphafsmenn íslenskrar fornleifafræði yfirleitt alltaf hvað fólkið hét sem bjó í rústunum sem þeir rannsökuðu, og jafnvel hvernig því hafði liðið þegar það var þar. Í elstu blöðum Árbókarinnar getum við lesið um það hvar gröf Guðrúnar Ósvífursdóttur er, hvar Þorsteinn rauðnefur geymdi nautin sín og hvar hinn og þessu bardagi fór raunverulega fram. Þetta þykir mér fagurt og indælt. Þessir ömmu- og langömmu- og langalangömmu- og langalangalangömmulausu menn gengu um landið, nutu náttúrufegurðarinnar og þurftu kannski ekki annað en að píra augun svolítið til að sjá í gegnum þunna himnu tímans, þar sem Auður djúpúðga sat á Dagverðarnesi. Síðan gátu þeir flutt okkur hinum fregnir af því hvað það eiginlega var sem hún var vön að borða í morgunmat, og með hvernig útskurði kamburinn sem hún missti á Kambsnesi var. Ég öfunda þessa menn, ekki af almennu ömmuleysi þeirra, heldur af trúnaðartraustinu og fullvissunni. Þeir vildu uppgötva horfna sögu og það var bókstaflega ekkert sem gat stoppað þá. Þeir leituðu og þeir fundu alltaf það sem þeir leituðu að.

 Mynd sem samræmist ímynd minni af íslenskum fornleifum og viðkvæmu ástandi þeirra.

En, á sama tíma og ég hrífst með ákafa Sigurðar, þá setur að mér hroll þegar ég renni yfir greinar þar sem hann lýsir til dæmis uppgreftri á Bergþórshvoli, Kirkjubæ á Síðu, Fjallabaksvegi, Þórólfsfelli, Goðalandi, Hofi og Kirkjubæ á Rangarvöllum, allt á sömu 12 síðunum. Ekki veit ég hvaða aðferðum var farið eftir á þessum tíma, en skelfingu lostið ímyndunarafl mitt býr til mynd af Sigurði þar sem hann æðir um landið með stóra garðskóflu og grefur djúpar holur, í von um að finna einhversstaðar Snorra Sturluson með áður óþekkta Íslendingasögu í kjúkunum. Mér finnst ekki ólíklegt að fornleifauppgreftir þessa tíma hafi stýrst að miklu leyti af eftirvæntingu eftir gripum, en mér hefur nú sýnst að íslensk nútímafornleifafræði snúist fyrst og fremst um greiningu á moldarlögum. Og í gegnum þessi viðvkæmu, gagnmerku moldarlög hefur skófla Sigurðar ruðst, og staflað þýðingarmikilli moldinni í einskisnýtar hrúgur. Ég reyni bara að hugga mig við það að bernskubrek íslenskrar fornleifafræði hafi helst falið í sér að róta í náttúrulegum þúfumyndunum. Maður getur allavegana leyft sér að vona.

No comments:

Post a Comment