Vinnan snýst sem sagt um að lesa, greina og færa inn á tölvutækt form gögn um forna texta. Mér til lífsviðurværis hef ég því lesið óguðlegt magn af Rannsóknum Heródótosar, hins svokallaða fyrsta sagnfræðings, einhvern Sesar, nokkra biblíukafla og nú upp á síðkastið fremur sjaldlesinn texta - Króníku eftir býzanska embættismanninn Georgios Sfrantzes.
Ástæðan fyrir að sá texti var valinn fyrir gagnagrunninn er merkilegt tungutak hans. Flestir sagnfræðingar Býzanstímans (þ.e. á tímum Austur-rómverska keisaraveldisins) skrifuðu úrelta bókmenntatungu sem var eftirherma af málfari forn-grísku sagnfræðinganna frá því á 5. öld f. Kr. (eins og ég hef skrifað um hér). Sfrantzes skrifar hins vegar frjálsari texta sem líkist að ýmsu leiti nútímagrísku, þótt hann noti líka (oftast „ranglega“) fornar málfræðikonstrúksjónir. Niðurstaðan er merkileg innsýn inn í lifandi mál þessa tíma, sem annars er illaðgengilegt.
En umfjöllunarefni textans er sömuleiðis merkilegt. Sfrantzes segir frá ævi sinni við býzönsku hirðina og þjónustu sína við keisaraætt Paleológanna (Palaiologoi). Hann sinnti þegar mest lét embætti Fyrsta umsjónarmanns hins keisaralega fataskáps (Protovestiarites). Þetta embætti snerist ekki um það að klæða keisarann í kirtilinn sinn á morgnana heldur um fjármál keisarahallarinnar og um að vera keisaranum innan handar, hvað þá helst í samskiptum hans við erlenda bandamenn sína og við foringja Ottómanaveldisins sem stöðugt ógnuðu því sem eftir var af Býzans.
Umsátrið um Konstantínópel. Þessar gömlu myndir eru alltaf svo skemmtilega lítið dramatískar! |
Á þessum tíma (um miðja 15. öld) var Býzansveldið nefnilega lítt annað en Konstantínópel sjálf og svo hluti af Pelópsskaga í Grikklandi (eða Moreas eins og skaginn var kallaður þá.) Meira að segja þetta litla svæði misstu þeir svo smátt og smátt í hendur Ottómana, eins og Sfrantzes rekur skilmerkilega, og hörmungarandinn svífur yfir. Ritið hefst á eftirfarandi hátt:
[1] Hinn aumlegi Georgios Sfrantzes, sem eitt sinn var Protovestiarites, en heitir nú Grígorios munkur, skrifaði eftirfarandi um einhverja þá atburði sem komu fyrir hann í hans þrautum stráða lífi. [2] Fyrir mér hefði það verið ágætt að fæðast aldrei, eða deyja í barnæsku. En fyrst svo fór ekki, megi það fréttast að ég fæddist þriðjudaginn 30. ágúst árið 6909.
6909 frá sköpun heimsins, skv. Býzansmönnum: þ.e.a.s. árið 1401. Sfrantzes lýsir klifri sínu upp býzanska embættismannastigann af miklu stolti og hleður lofi á þá meðlimi keisarafjölskyldunnar sem hann þjónaði. Hann endar á því að þjóna Konstantínosi Paleologos, sem varð síðasti keisari Býzansveldisins, og hjálpar honum á ýmsan hátt í fálmkenndum tilraunum hans til þess að bjarga hinu agnarsmáa veldi undan hernaðarmætti Ottómana.
Til þess að fá betri samhengi í þetta las ég mér svo til í tvemur stuttum fræðibókum um Býzansveldið og sérstaklega þessi seinustu ár þess. Þar er áhugavert að sjá örla á annarri sýn en finnst hjá Sfrantzesi, sem átti starfa sinna vegna í heilmiklum samskiptum við óvini Býzansveldisins - nefnilega þeirri sýn sem kallast hefur Antemurale-mýtan.
Frasinn ku koma frá Leó páfa tíunda - hann nefndi þau lönd sem samkvæmt honum mynduðu varnarmúr fyrir hina kaþólsku Vestur-Evrópu gagnvart múslímum antemurale christianitatis, eða „brjóstvörn kristninnar“. Ýmsar þjóðir hafa verið dubbaðar svo, og síðar hafa risið þar þjóðernismýtur sem byggja á þeirri dubbun; þar má nefna Albaníu, Serbíu, Króatíu, Ungverjaland og svo loks Býzans; allar þessar þjóðir töpuðu stríðum gegn Ottómönum sem páfinn hafði ötullega att þeim út í. Síðan hefur brjóstvarnarmýtan vaxið og dreifst út; þessi mýta ku t.d. þekkt í Póllandi sem "varði" hinn kaþólska heim fyrst fyrir rétttrúnaðarkirkjunni og síðar fyrir guðlausum kommúnisma frá steppum Rússlands.
Þetta er þó einkar innihaldslaus nafngift frá páfastólnum. Eins og Sfrantzes greinir skýrt frá þá var páfinn grátbeðinn um að aðstoða Konstantínópel þegar Ottómanar nálguðust borgina. En páfinn nýtti sér neyð Býzansveldisins til þess að kúga grísku rétttrúnaðarkirkjuna um hlægilega smávægileg guðfræðileg álitamál - filioque-klausuna sem fjallar um núansa í þríeiningu guðs, og svo spurninguna um hvort biskup Rómar (þ.e.a.s. páfinn) ætti að teljast öðrum biskupum kristinna stórborga æðri. Ekki lá svo mjög á brjóstvörninni þá. Keisari Býzansveldisins lúffaði fyrir þessum guðfræðilegu kröfum páfans og fékk þarmeð stóran hluta rétttrúnaðarkirkjunnar upp á móti sér; en sama hvað var gert þá fullnægði það ekki páfastólnum.
Hið sama má segja um hin kristnu stórveldin í Evrópu. Helsti keppinautur og á sama tíma helsti bandamaður Býzans var á þessum tíma borgríkið Feneyjar, sem réði yfir öflugum flota og átti til dæmis borgina Aþenu. En þeir höfðu meiri áhuga á að nýta sér veikleika Býzansveldisins en að byggja neinskonar kristna brjóstvörn; hið sama var að segja um Frakkland og England sem keisari Konstantínópel sótti langdvölum heim til þess að grátbiðja um aðstoð. Hana fékk hann ekki; fyrir utan örfáa Feneyinga sem komu loks til aðstoðar þá stóðu Konstantínópel-búar einir þegar Ottómanar réðust loks á borgina árið 1453.
Það ber sem sagt ennþá á þessari söguskoðun í nútímasagnfræðibókunum tvemur; máske því þeim er ætlað að vera alþýðlegar. Í bók Judith Herrin segir í inngangi að innblástur bókaskrifanna hafi fengist þegar tveir verkamenn af hinum ómenntuðu stéttum hafi komið inn í skrifstofu höfundar til að skipta um glugga; þeir hafi forvitnast um hvað „Byzantine history“, sem hún var prófessor í, merkti nákvæmlega og þá hafi hugmyndin að bókinni orðið til. Mann grunar að fræðimaðurinn hafi gripið til mýtunnar til að réttlæta köllun sína eins og hugvísindafólki er ósköp tamt; Býzans væri mikilvægt því það hefði varið okkur gegn Íslam.
Sú vörn dugði allavega skammt. Borgin féll, keisarinn var veginn í bardaga og Sfrantzes, ásamt öðrum íbúum Konstantínópel, var hnepptur í þrældóm. Hann var síðar keyptur laus. Honum tókst að greiða lausnargjaldið fyrir eiginkonu sína en dóttir hans dó fjórtán ára gömul í kvennabúri soldánsins. Hann endaði svo ævi sína sem munkur í útlegð á Korfú, afgamall, beygður og gigtveikur; heimsveldið og valdaættin sem hann hafði þjónað alla sína ævi höfðu þurrkast út.
Heimildir:
- Herrin, Judith. Byzantium: The Surprising Life of a Medieval Empire. London: Penguin, 2008.
- Nicol, Donald M. The Last Centuries of Byzantium, 1261-1453. Camridge: Cambridge University Press, 1999.
- Philippides, Marios. The Fall of the Byzantine Empire: A Chronicle by George Sphrantzes, 1401-1477. Amherst: University of Massachusetts, 1980. [Ensk þýðing á Sfrantzesi.]
- Grecu, Vasile. Scriptores Byzantini V: Georgios Sphrantzes, Memorii 1401-1477, în anexa Pseudo-Phrantzes: Mavarie Melissenos Cronica 1258-1481. Búkarest: Editura Academiei Republicii Socialiste România, 1966.
No comments:
Post a Comment