![]() |
Mynd fengin frá hinni netvæddu Reykjavíkurborg nútímans |
Löggæsla á Íslandi var að stærstum hluta á könnu sveitarfélaganna fram yfir 1970 en hugmyndir um varalögreglu fóru að láta á sér kræla í vaxandi stéttaóróa í íslenskum þéttbýlisstöðum á 3. áratugnum; fast aukalið vopnaðra lögreglumanna á vegum ríkisins sem gæti lagt bæjarlögreglunni lið þegar með þyrfti. Varalögregla var stofnuð með nýju lögreglufrumvarpi árið 1933, í kjölfar Gúttóslagsins, en var stuttlifað fyrirbæri í lagalegum skilningi; hún var lögð niður þegar stjórn hinna vinnandi stétta tók við stjórnartaumunum 1934.
Þótt hin formlega varalögregla væri aðeins starfrækt í eitt ár eða svo greip lögreglan víða um land til þess bæði fyrr og síðar að kveðja út varalið á álagsstundum. Það var umdeilt hvort slíkar aðgerðir ættu sér stoð í lögum; í lögreglusamþykktum var gert ráð fyrir því að borgurunum bæri skylda til að aðstoða lögregluna við krítískar aðstæður, en mörgum þótti langt seilst að túlka þetta ákvæði svo að lögreglan gæti beinlínis gripið til liðssöfnunar. Það var þó gert oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, á miskerfisbundinn hátt.
Frægustu dæmin frá þessum tíma eru hvíta stríðið 1921 og Gúttóslagurinn 1932, hvort tveggja atburðir með skýra pólitíska þýðingu, þótt kveikjan að hvíta stríðinu hafi snúist um sóttvarnir. Gúttóslagurinn sérstaklega hefur verið ofarlega á baugi síðustu ár í umræðum um byltingaráætlanir og –getu íslenskra kommúnista á þessum tíma og viðbrögð stjórnvalda við þeim. Ég þekkti mitt hvíta stríð og Gúttóslag áður en ég byrjaði að skrifa BA-ritgerðina, en það kom mér mjög í opna skjöldu að uppgötva að stórfelldar óeirðir áttu sér stað í miðbæ Reykjavíkur á svo að segja hverju ári – á gamlárskvöld.
Frá þessum gamlárstryllingi er sagt einna ítarlegast á bls. 141-150 í bók Þorsteins Jónssonar og Guðmundar Guðjónssonar, Lögreglan á Íslandi. Stéttartal og saga, sem ég styðst við hér. Þar segir að fyrst hafi byrjað að bera á „óspektum og skrílslátum“ í miðbænum á gamlárskvöld í byrjun 3. áratugarins, og stóð þessi hefð með miklum blóma fram yfir miðja öldina. Í umfjöllun Þorsteins og Guðmundar, sem byggð er á skjölum lögreglunnar, er því lýst hvernig gluggar voru brotnir, eldar kveiktir, grjóti og sprengjum kastað í fólk og byggingar, auk þess sem þótti mikið sport að velta bílum á hliðina. Árið 1924 var sprengju kastað „á fullorðinn Vestbæing, svo að stykki rifnuðu upp úr kinninni og hann missti sjón á öðru auga“. Ári síðar velti „flokkur óspektarmanna“ bifreið á Bókhlöðustíg sem í voru „fjórar aldraðar konur, sem voru á leið í dómkirkjuna til aftansöngs“. Ítrekað voru gerðar tilraunir til að kveikja í jólatrénu á Austurvelli. Árið 1948 var sett sprengja í rör umferðarskiltis fyrir utan Alþingishúsið, skiltið sprakk í tætlur svo fimm rúður brotnuðu í húsinu og veggir þess sködduðust, auk þess sem farþegi í nærliggjandi bíl hlaut höfuðáverka og missti meðvitund. Samkvæmt afa mínum, sem var ungur maður í Reykjavík á 5. áratugnum, voru allir gluggar á Hótel Borg byrgðir á gamlárskvöld.
Morgunblaðið 14. febrúar 1948. Kristján Albertsson skrifar um gamlárskvöld |
Spegillinn 17. janúar 1931 |
Um 1950 fór að draga úr látunum í miðbæ Reykjavíkur á gamlárskvöld. Bærinn byrjaði að halda áramótabrennur, fyrst tvær en síðan fleiri, og lagði jafnvel til flugelda. Þessar brennur fóru flestar fram í hinum vaxandi úthverfum Reykjavíkur og þannig dreifðist mannfjöldinn og færri lögðu leið sína í miðbæinn. Þeir Þorsteinn Jónsson og Guðmundur Guðjónsson vitna í Bjarka Elíasson, fyrrverandi yfirlögregluþjón, sem lýsir þessum áhrifum úthverfabrennanna – en „eðlilegt ástand“ í miðbænum hafi endanlega komist á með tilkomu sjónvarpsins árið 1966.
Dagskrá Sjónvarpsins á gamlárskvöld 1966 |
No comments:
Post a Comment