Draugaganga í Edinborg. Myndin er héðan |
Myndin af Edinborg sem dularfullri borg með draugalega sögu rímar ágætlega við ýmislegt í yfirbragði og menningu borgarinnar; þröngar og krókóttar göturnar í miðbænum, dökkar hliðar húsanna, hefð skoskra ráðgátu- og lögreglusagna allt frá Robert Louis Stevenson og Arthur Conan Doyle til Ian Rankin, og líkræningjasögurnar eru svosem engin lygi. Væntanlega eru slíkar áherslur í markaðssetningu staða yfirleitt í einhverjum tengslum við raunveruleikann – ég ætla að standast mátið að fara út í skýrsluna alræmdu um Ímynd Íslands, sem kom út sama ár og ég fór til Edinborgar – en ég hef þó komist að því síðan að sá raunveruleiki sem markaðssetningin stendur í tengslum við þarf ekki að vera raunverulegur eða sannur í neinum hefðbundnum skilningi.
Í fyrsta lagi er hægt að taka fyrirbæri úr sögunni og fara með þau í nokkurn veginn hvaða átt sem er. Um þetta sannfærðist ég endanlega í sumar þegar ég kom til Salem í Massachusetts, rétt fyrir utan Boston. Bærinn Salem er þekktastur sem vettvangur frægustu nornaveiða í bandarískri sögu, en á árunum 1692-1693 var þar réttað yfir grunuðum nornum og tuttugu manns teknir af lífi í kjölfarið.
Steinbekkur í Salem |
Það sem mér, sem túrista í stuttri dagsferð, þótti þó meira áberandi var áköf notkun á norninni sem einhvers konar tákni bæjarins. Heiti fyrirtækja og verslana vísa í nornir, á einu aðaltorganna er stytta af eldhressri norn fljúgandi á kústi, og víða er að finna nýaldarverslanir þar sem fjárfesta má í orkusteinum, kristöllum, tarotspilum, pendúlum og öðrum yfirnáttúrulegum hjálpartækjum nútímanorna. Í þessu samhengi birtast fórnarlömb nornaréttarhaldanna í Salem eiginlega ekki sem fólk sem varð fyrir barðinu á ótengdum pólitískum ofsóknum og/eða múgsefjun, heldur frekar sem einhvers konar ofsóttur nornaminnihlutahópur – sem nú hefur fengið uppreisn æru og getur stundað sinn nornskap í friði (í upplýstu samfélagi?). Ég get ekki sagt að ég sé beinlínis mótfallin þessari birtingarmynd sögunnar í Salem en hún kom mér sannarlega á óvart, og ég velti fyrir mér hvort hún falli, eins og ég túlka hana, að hugsunarhætti núverandi íbúa Salem að öðru leyti.
Um daginn sagði samstarfsmaður minn mér síðan frá öðru fyrirbæri sem vakti mjög athygli mína, en það er ferðamannaiðnaðurinn kringum rúnasteininn frá Kensington í Minnesota. Árið 1898 fann sænskur innflytjandi í Minnesota, Olof Öhman bóndi, stein með rúnaáletrun á landareign sinni. Væri rúnasteinninn ósvikinn var það óneitanlega merkur fundur, enda merki um nærveru norrænna manna norðar í Ameríku en áður höfðu verið færðar sönnur á. Á síðari hluta 19. aldar ríkti hins vegar gríðarlegur áhugi í Bandaríkjunum á mögulegum ferðum víkinga þar vestra og „[v]íkingaminjar tóku að spretta upp á ólíklegustu stöðum“, eins og segir í eftirmála Adolfs Friðrikssonar við hina frábæru Vínlandsdagbók Kristjáns Eldjárn, þar sem meðal annars er fjallað um þennan mikla víkingaáhuga.
![]() |
Rúnasteinninn frá Kensington. Myndin er héðan |
Í Alexandriu, Minnesota er Rúnasteinssafnið og skammt frá er Kensington Runestone Park, þar sem bær Öhman bónda stóð forðum daga. Tilkomumesta minnismerkið um víkingana í Minnesota er þó hin átta metra háa stytta Big Ole frá árinu 1965. Hann stóð áður á umferðareyju í Alexandríu en hefur nú verið fluttur í almenninsgarð skammt frá. Á skildi hans er stolt yfirlýsing: Alexandria, the Birthplace of America.
![]() |
Big Ole. Myndin er héðan |
No comments:
Post a Comment