Tuesday, July 16, 2013

Andóf gegn manntölum I: Súffragettur á hjólaskautum

Hér ku Davíð vera að skipa fyrir um hið stórhættulega
manntal, sem kom aldeilis í bakið á honum
Fyrstu tillögur um allsherjarmanntal í Bretlandi voru lagðar fram um miðja 18. öld og vöktu miklar deilur á breska þinginu. Þingmaðurinn William Thornton var einn heitasti andstæðingur allsherjarmanntalsins, en hann taldi slíka manntalsskráningu ríkisins ganga gegn hefðbundnum frelsishugsjónum Breta og vera til marks um einræðistilburði stjórnvalda; raunverulegt markmið þeirra væri að „molest and perplex every single family in the Kingdom merely to set a beggar to work, or determine any questions in political arithmetic“. Hann kvaðst sjálfur myndu neita skráningarmönnum um upplýsingar um sig og fjölskyldu sína, eða flytja úr landi, ef manntalið fengi fram að ganga. Thornton sagðist þess fullviss að manntalsskráning af þessu tagi byði heim hættunni á félagslegum óróleika og jafnvel uppreisn, og vísaði þar til meints ótta almennings við guðlega refsingu, en í Biblíunni segir frá því hvernig Satan æsti Davíð til að telja Ísarelsmenn og Guð refsaði honum með því að senda plágu yfir Ísrael.

Thornton og fylgjendur hans höfðu betur í manntalsdeilunni það sinnið. Áhugamenn um lýðfræði urðu að láta sér nægja að gera sjálfstæðar tilraunir með manntalsskráningu í smáum stíl á síðari hluta 18. aldar, meðal annars í tengslum við deilur um mannfjöldaþróun í landinu. Stjörnufræðingurinn og stærðfræðingurinn William Wales virkjaði til dæmis vini sína og kunningja víða um land til að safna fyrir sig upplýsingum með til þess gerða spurningalista að vopni, en hann var sannfærður um að nákvæmar upplýsingar fengjust ekki nema aðilar sem hefðu engin tengsl við skattkerfið sæju um öflun þeirra. Það gekk þó ekki alltaf farsællega að sannfæra almenning um að skattþörf ríkisins væri ekki á bak við allt saman og Wales og vinir hans mættu barsmíðum og hótunum, enda gafst hann upp á endanum og notaðist við upplýsingar úr kirkjubókum í staðinn.

Smám saman dró úr andstöðu við manntalsskráningu í Bretlandi og svo fór að lög um manntöl voru samþykkt á þinginu aldamótaárið 1800 og fyrsta allsherjarmanntalið tekið í landinu 1801. Almennt virðist manntalið fljótt hafa orðið að samþykktri hefð og engin tilraun gerð til uppreisnar vegna ótta við guðlega refsingu. Það var líka hægt að rökræða sig framhjá hugmyndinni um synd manntalsins ef viljinn var fyrir hendi, eins og sést í grein sem birtist í The Quarterly Review árið 1835. Þar skrifar greinarhöfundur að þegar Davíð taldi mannfjöldann hafi honum réttilega verið refsað fyrir það, enda hafi hann gert það af drambi og hégóma. Nútímamanntalið í Bretlandi væri hins vegar framkvæmt í þeim tilgangi að auðvelda siðferðislegar og lagalega réttlátar aðgerðir samfélaginu til heilla og hlyti því að vera guði þóknanlegt.

Stjórnvöld lögðu áherslu á að vekja traust til manntalsins meðal almennings, meðal annars með því að virkja presta og kennara til að hvetja fólk til þátttöku, en kirkjan gegndi víða mikilvægu hlutverki í söfnun lýðfræðilegra upplýsinga fyrr á öldum, meðal annars á Norðurlöndunum.

Michael Drake, sem hefur skrifað um mannfjöldadeilur í Bretlandi á 19. öld, nefnir örfá dæmi um mótþróa einstaklinga við manntalið, til dæmis eldri konu í London sem neitaði að gefa upp aldur sinn við manntalið 1841 en skrifaði „gettu“ við spurninguna. Það kom jafnframt fyrir að fólk gæfi vísvitandi röng svör við spurningum manntalsins. Til dæmis ýktu íbúar Wales velskukunnáttu sína af þjóðernisástæðum í manntalinu 1891 og í sama manntali var oft gefinn upp lægri fjöldi íbúa í fátækrahverfum London til að forðast kærur vegna brots á reglum um íbúafjölda í hverri íbúð.

Það var erfitt að keppa við Chicago á 19. öld.
Þar var fyrsta parísarhjólið reist á heimssýningunni 1893.
Þau dæmi sem mér finnast einna áhugaverðust um manntalsfalsanir koma reyndar frá Bandaríkjunum, en þar var ríkjandi á 19. öld gríðarlegt kapphlaup um það hvaða borgir yrðu stórborgir framtíðarinnar. St. Louis atti til dæmis kappi við Chicago löngu eftir að það var orðið útséð um að fljótaborgin ætti nokkurn séns í járnbrautaborgina. Þegar mannfjöldatölurnar sem komu út úr manntölunum voru ekki nógu hagstæðar – en mannfjöldinn gaf auðvitað skýra vísbendingu um framfarir – heimtuðu spekúlantar viðkomandi borgar, svokallaðir city boosters, endurtalningu. Í einu slíku tilfelli árið 1870 tókst Indianapolis að hækka sínar mannfjöldatölur um 19% með því að yfirtaka stærra landsvæði fyrir endurtalninguna.

Árið 1911, þegar ríkisstjórn Herbert Henry Asquith boðaði til reglubundins manntals í Bretlandi, skipulögðu súffragettur afar athyglisvert andóf gegn manntalinu. Eins og fyrr segir hafði manntal verið tekið í Bretlandi frá 1801, en árið 1911 ákváðu stjórnvöld að bæta við spurningum: um það hversu lengi hver gift kona á viðkomandi heimili hefði verið í yfirstandandi hjónabandi, hversu mörg börn hefðu fæðst inn í hjónabandið og hversu mörg þeirra barna væru á lífi. Niðurstöðurnar átti að nýta í umfangsmiklar velferðarumbætur sem ríkisstjórnin stóð fyrir á þessum tíma, en yfirvöld höfðu sérstakar áhyggjur af stærð breskra fjölskyldna og dánartíðni ungbarna.

Sem kunnugt er börðust súffragettur fyrir kosningarétti kvenna. (Konur fengu kosningarétt í Bretlandi með aldurs- og eignatakmörkunum 1918 og loks allar 1928.) Fyrir manntalið 1911 mótmæltu þær því að stjórnvöld réðust á þennan hátt inn í einkalíf giftra kvenna og krefðu eiginmenn þeirra svara fyrir þeirra hönd. Súffragettur grunaði einnig að niðurstöður manntalsins yrðu ekki bara notaðar til að stuðla að velferð kvenna og barna heldur gætu þær nýst ráðamönnum til að komast að ákveðnum niðurstöðum um tengsl frjósemi og vinnu mæðra sem síðan yrðu notaðar til að setja lög sem takmörkuðu vinnu kvenna og skertu þar með möguleika þeirra á fjárhagslegu sjálfstæði.

Síðast en ekki síst vildu súffragettur nota manntalið til að vekja athygli á mótsagnakenndri stöðu kvenna í hinu borgaralega samfélagi, þar sem þær voru skyldugar til að taka þátt í aðgerðum á borð við manntal stjórnvalda þrátt fyrir að vera ekki álitnar fullgildir borgarar. Súffragettur ákváðu því að hvetja konur til að sniðganga manntalið, fela sig fyrir skráningarmönnum eða neita að svara spurningum þeirra: Women do not count, neither shall they be counted.

Eða með orðum súffragettunnar Edith How Martyn: Any Government which refuses to recognize women must be met by women’s refusal to recognize the Government. Í manntalinu sáu súffragettur tækifæri fyrir konur til að sýna slíka höfnun á ríkisvaldinu - á mildari hátt en í ýmsum öðrum aðgerðum súffragetta, svo sem hungurverkföllum, en stjórnvöld staðfestu það fyrir manntalið að andófsfólk yrði ekki sótt til saka. Þær sáu því ef til vill fram á að hægt væri að ná breiðri samstöðu um manntalsandófið.

Harðjaxlinn Dora Montefiore
Svipuð hugmyndafræði bjó til dæmis að baki samtökunum Women´s Tax Resistance League, sem hvatti konur til að neita að borga skatt; meðan þær hefðu ekki full borgararéttindi ættu þær heldur ekki gangast undir borgaralegar skyldur. Frægasta aðgerð tengd samtökunum var þegar ljóðskáldið, sósíalistinn og súffragettan Dora Montefiore víggirti heimili sitt fyrir skattheimtumönnum í sex vikur árið 1906.

Áætlun súffragetta var hrint í framkvæmd þegar manntalsskráning hófst sunnudaginn 2. apríl 1911. Sumar konur földu sig fyrir skráningarmönnum, aðrar sýndu andstöðu sína opinskátt með því að fylla eyðublaðið rangt út eða krota á það mótmæli. Mótmæli fóru fram á Trafalgar-torgi og samtökin Women´s Social and Political Union stóðu fyrir hjólaskautapartíi á Aldwych-skautabrautinni alla nóttina.

Jill Liddington og Elizabeth Crawford telja að um hundrað konur hafi mótmælt beint en um tvöhundruð reynt að komast hjá skráningu. Þetta eru færri konur en Liddington og Crawford gerðu ráð fyrir þegar þær hófu að rannsaka manntalsandóf súffragetta (en tengil á grein þeirra er að finna hér að neðan), og þær uppgötvuðu að margar virkar kvenréttindakonur höfðu ekki tekið þátt í að sniðganga manntalið (aðrar höfðu reyndar gert tilraun til þess en verið gripnar, til dæmis þar sem þær földu sig inni í skáp). Þær telja að margar konur hafi verið milli steins og sleggju í málinu; manntalið 1911 hafi verið hluti af átaki stjórnvalda í velferðarmálum, sem meðal annars skyldi vinna gegn ungbarnadauða, og súffragettur voru með andófi sínu sakaðar um að fórna meiri hagsmunum fyrir minni, vinna að eigin sérhagsmunum en horfa framhjá velferð komandi kynslóða, kvenna og barna. Andóf þeirra gegn manntalinu væri beinlínis siðferðislega rangt, og aðför að vísindunum að auki.

Eftir niðurstöðum Jill Liddington og Elizabeth Crawford að dæma var andóf súffragetta gegn manntalinu 1911 ekki sérlega árangursríkt. Hlutfallslega fáar konur tóku þátt, og kosningarétturinn var ekki endanlega í höfn fyrr en sautján árum síðar. Hins vegar er tilraun súffragetta með manntalið sem andófsvopn verulega athyglisverð, og ég mun fjalla um annað og umfangsmeira 20. aldar dæmi um slíkt í næstu grein.

Heimildir:

Anderson, Margo J., The American Census. A Social History. New Haven og London 1988
Drake, Michael, „The Census, 1801-1891“. Nineteenth-century Society. Essays in the Use of Quantitative Methods for the Study of Social Data. Ritstj. Edward Anthony Wrigley. Cambridge 1972, bls. 7-30
Glass, David V., Numbering the People. The Eighteenth-Century Population Controversy and the Development of Census and Vital Statistics in Britain. Farnborough 1973
Liddington, Jill og Elizabeth Crawford, „„Women do not count, neither shall they be counted“. Suffrage, Citizenship and the Battle for the 1911 Census“. History Workshop Journal 71:1 (2011)

No comments:

Post a Comment