Friday, January 31, 2014

Nýtt kvæði eftir Saffó!

Þau undur og stórmerki gerðust nú fyrir nokkrum vikum að áður óþekkt kvæðabrot eftir forn-gríska skáldið Saffó frá Lesbos (7-6 öld f. Kr.) uppgötvuðust - og það fyrir einskæra tilviljun!

Svo virðist sem að ónefndur einkasafnari hafi nýlega komið að máli við Dr. Dirk Obbink, papýrusfræðing við Oxford-háskóla, og sýnt honum papýrustætlu sem honum hafði áskotnast (guð veit hvar) með einhverri grískri skrift á. Það hefur ekki tekið langan tíma fyrir Obbink að sjá hvað var um að ræða; þetta eru tvö kvæðabrot á Saffóarlaginu svokallaða (þ.e.a.s. bragarhættinum sem hún gerði frægan), skrifuð á æólískri grísku sem var einmitt hennar mállýska, og hið fyrra nafngreinir bræður hennar tvo, Kharaxos og Larikhos, sem við þekkjum til úr öðrum heimildum.

Samkvæmt Heródótosi, Strabon og Aþenæosi átti Saffó það til að skrifa kvæði til bræðra sinna Kharaxosar og Larikhosar. Sá fyrri var skipstjóri á kaupskipi og ferðaðist víða, en Saffó á að hafa skammað hann fyrir samband hans við vændiskonuna Dóríku. Sömuleiðis á Saffó að hafa lofað bróður sinn Larikhos, sem skenkti víni í tignum húsum á Lesbos. Einhver kvæðabrot sem gætu passað við þessar lýsingar hafa varðveist, en nöfn bræðranna koma þar hvergi fyrir; einhverjir fræðimenn hafa því efast um alla þessa bræðrasögu og talið hana einhvern síðari tíma misskilning. En nú staðfestist semsagt (vonandi) tilvist þeirra og sannsögli Heródótosar og félaga.

Efni fyrra kvæðabrotsins, sem er heillegra, er kannski ekki brjálæðislega spennandi - Saffó ávarpar einhvern (þetta er ekki heilt kvæði og við sjáum ekki hvern hún ávarpar) og segir viðkomandi að það sé tilgangslaust að tala endalaust um vonir sínar um endurkomu Kharaxosar með fullt skip af vörum; það eina sem stoði sé að biðja til guðanna um að hann snúi aftur og að Saffó og viðmælandinn verði heil á húfi þegar það gerist. Loks talar hún um hinn bróðurinn, Larikhos, og tjáir þá von að hann þroskist og verði að heilsteyptum manni. Þá endar brotið. Hið næsta virðist vera byrjunin á ástarkvæði, en þar er papýrusinn orðinn illa farinn og einkar erfitt að lesa í textann.

Nú skal ekki loku fyrir það skotið að þetta gæti reynst eitthvað gabb - en ef svo er þá væri það einstaklega vandað gabb. Enn á eftir að gefa út fræðilega útgáfu af papýrusnum (en það mun gerast á næstu mánuðum í Zeitschrift für Papyrologie und Epigraphik) og það sést strax að deilur munu verða um hvernig skal lesa í textann - þegar hafa birst nokkrar leiðréttingar og ábendingar í kommentakerfi sem Oxford-háskóli stofnaði til umræðu um nýju kvæðin (hvílík undur útlanda! Vitræn kommentakerfi!). En nóg um varanagla: Ég ætla hér að ríða á vaðið með afar beinni þýðingu á bræðrakvæðinu eins og texti þess stendur í dag; þýðingin gæti vel orðið úrelt á morgun en maður verður nú að hamra járnið á meðan það er heitt.

...en þú blaðraðir endalaust um að Kharaxos myndi koma
með fullt skip með sér; það, held ég,
veit Seifur og guðirnir allir; en þér
ber ekki að hugsa um slíkt

heldur að senda mig brott og biðja mig
um að biðla heitt til Heru drottningar
að Kharaxos nái hingað
með skip sín

og hitti okkur heil á húfi; allt annað
skulum við láta guðunum eftir.
Því góðviðri birtist skjótt upp úr
miklum stormi.

Konungur Ólympstinds beinir heillaanda
til sumra manna sem hjálpar þeim úr erfiðleikum;
þetta eru sælir menn og
ríkir mjög.

Og ef Larikhos lyftir höfði
og verður að fullgildum manni,
vittu til, við myndum strax losna undan
miklum hjartans þyngslum...

Upprunalegi linkurinn á greinina virðist hafa horfið af einhverjum ástæðum (nú vonar maður innilega að þeir hafi ekki uppgötvað að þetta sé gabb) en textann má finna á þessari vefslóð. Gamli linkurinn var hér.

Uppfært: Obbink hefur nú rofið þögnina og skrifar um fundinn hér.

2 comments:

  1. Má ég skjóta smá athugasemdum að:

    Ég held að Kharaxos komi aftur með bara eitt skip (νᾶα). Og getur ekki verið að skipið sé frekar "heilt á húfi" frekar en að "σάαν" sé eignarfornafn, eins og mér sýnist þú skilja það.

    Svo er annað, sem er meira smekksatriði, og það er "blaðraðir", sem mér finnst óþarflega neikvætt. Mín túlkun á ljóðinu er í þá áttina að Saffó vilji að viðmælandi hennar stilli bænum sínum í hóf og biðji um það sem skiptir í raun og veru máli, þ.e. heill og öryggi sinna nánustu frekar en að einhver svaka varningur fylgi þeim að utan.

    En þetta er býsna vel hamrað járn hjá þér, verð ég að segja.

    ReplyDelete
  2. Málfræðilega hittirðu náttúrulega beint í mark! Grábölvaður sé þessi æólíski díalekt. Hitt er svo spurning líka.

    ReplyDelete