Thursday, January 2, 2014

Fólkið með gulu krossana

Margir hljóta að kannast við þá tilfinningu úr háskólanámi að vera alltaf að lesa um áhugaverðar bækur, án þess að hafa tíma til þess að lesa þær sjálfar. Ekki veit ég hvort sagnfræðin er sérstaklega slæm að þessu leyti, en ég hugsa að í BA-náminu hafi ég til dæmis lesið allar mögulegar ritdeilur sem Sigurður Gylfi Magnússon hefur staðið í um einsöguna, án þess að hafa lesið eina einustu einsögurannsókn, hvorki eftir hann né nokkurn annan. En hvað um það, lesturinn á öllum þessum yfirlitsgreinum skildi í það minnsta eftir sig nokkra titla sem ég hafði óljósa hugmynd um að gæti verið gaman að lesa einhverntímann í fjarlægri framtíð. Sú eina sem ég hef kynnt mér, enn sem
komið er, er bókin Montaillou eftir franska sagnfræðinginn Emmanuel Le Roy Ladurie sem kom út árið 1978. Montaillou er lítið þorp í Pýreneafjöllunum, nálægt spænsku landamærunum, sem á árabilinu 1318 til 1325 varð fyrir þeirri ógæfu að 94 íbúanna voru yfirheyrðir af rannsóknarréttinum. Það vildi nefnilega svo til að stór hluti þorpsbúa aðhylltist mjög sérstakt afbrigði kristinnar trúar, ég veit ekki hvort ég á að kalla það villutrú, sértrúarsöfnuð eða hvað, sem heitir kaþarismi.

Til að gera langa sögu stutta þá gengur kaþarismi út á tvíhyggju. Til voru tvö öfl, hið góða og hið vonda, guð og djöfullinn, en ólíkt kaþólskri kristni þá gáfu kaþarar sér það að djöfullinn hefði sköpunarkraft, og að allt veraldlegt væri skapað af honum og þar af leiðandi illt. Trúariðkun þeirra snerist um að hreinsa sig af hinu veraldlega, til að sál þeirra gæti sloppið úr þessum djöfullega heimi við dauðann og komist yfir í hinn andlega heim, sem skapaður var af guði. Annars var hætta á því að endurfæðast inn í þennan heim Satans. Þetta er í algjörri andstæðu við trúarheim kaþólskra og árekstrar voru óhjákvæmilegir. Kaþarar borðuðu ekki sakramentið, því það var ekki hold Krists heldur gert af djöflinum, og þeir dýrkuðu ekki krossa eða líkneski því þau voru úr djöfullegum efnivið. Kynlíf óhreinkaði og dýrakjöt var óhreinna en annað fæði, því það var jú búið til með kynlífi. Kaþarar þóttu líka leiðinlegir nágrannar því þeir voru þekktir fyrir að tilkynna ófrískum konum að þær gengju með sköpunarverk djöfulsins.

Þó ég hafi alltaf ósjálfráða samúð með fólki sem var ofsótt, handtekið, svipt aleigunni og brennt á báli, þá hljómar þessi lífsspeki vægast sagt illa í mínum nútímaeyrum. Staðreyndin er þó sú að það var gjörsamlega ómögulegt að fara eftir þessum reglum, og vandamálið var leyst með sérstakri hreinsunarathöfn, sem flestir tóku á dánarbeðinu, þegar það skipti ekki lengur svo miklu máli þó þeir hættu að borða. Í Montaillou virðist kaþarismi jafnvel hafa ýtt undir kynlíf utan hjónabands. Þar sem allt kynlíf var óhreint hvort eð er, þá skipti ekki of miklu máli með hverjum maður gerði það. Um þetta og fleira eru til stórkostlega umfangsmiklar heimildir, þar sem næstum allt þorpið var yfirheyrt, og yfirheyrslunum var stýrt af manni sem hefur verið óvenju hnýsinn, smámunasamur og vandvirkur. Umfjöllunin í bók Ladurie er mjög mannfræðileg, fyrri hluti fjallar um grundvallarstoðir samfélagsins eins og skipulag ættar og heimilis og muninn á bændum og fjárhirðum, en sá seinni um hluti eins og kynlíf, hjónaband, bernsku, trúarlíf, dauða og galdra. Þó bókin sé skipulögð með þessum formgerðarlega hætti þá er meginuppistaðan í henni frásögur af einstaklingum, og augljóst að höfundurinn finnur fyrir meiri tengingu við suma heldur en aðra.

Rústir í óhugnalegri birtu. Netið fullyrðir að þessi mynd sé frá Montaillou. 
Þar ber helst að nefna alþýðlega fjárhirðinn Pierre Maury, kynóða prestinn Pierre Clergue og lágaðalskonuna Béatrice de Planisolles. Það er svolítið ruglandi að íbúar Montaillou báru allir mjög svipuð nöfn, og hið glæsilega nafn Béatrice er því strax áberandi. Þegar ég sá það fyrst fannst mér að ég hefði séð það einhversstaðar áður, en það tók mig dágóðan tíma að fatta hvar. Áður hef ég fjallað um notkun frumheimilda í sagnfræðikennslu á Spáni, og það vill svo til að ég hafði einmitt lesið bút úr yfirheyrslunum á Béatrice. Ég gerði í kjölfarið verkefni um heimildina, þar sem ég reyndi að giska á hvers konar einstaklingur lægi að baki vitnisburðinum. Þess vegna fannst mér sérstaklega skemmtilegt að fá tækifæri til að vita meira um þessa konu. Hún lenti í yfirheyrslu rannsóknarréttarins vegna tengsla sinna við villutrúarmenn, en faðir hennar, vinir og einn elskhugi voru áberandi kaþarar. Það var heldur ekki talið henni til tekna að sem ung stúlka hafði hún einu sinni sagt léttúðugan brandara um sakramentið. Ladurie fullyrðir hins vegar að hún hafi verið kaþólsk, og í þeim hluta yfirheyrslunnar sem ég las var hún eingöngu spurð út í ýmis hráefni til heimilisgaldra sem hún hafði í fórum sínum. Þar á meðal var reykelsi, naflastrengir dóttursona hennar og lak með fyrstu tíðablóðblettum yngstu dótturinnar. Tíðablóðinu ætlaði hún að lauma í drykk brúðguma hennar, svo hann yrði henni ekki ótrúr. Béatrice var dæmd í ævilangt fangelsi en var ári síðar sleppt gegn því að hún gengi með gulan kross á klæðum sínum, öðrum til varnaðar.

Lífshlaup Béatrice fram að yfirheyrslunni var upp og ofan, hún var af lágaðli og giftist sæmilega, en varð ung ekkja og var þá um tíma í sambúð með óskilgetnum þorpsbúa sem hafði áður nauðgað henni. Síðan flutti hún í annað þorp og giftist aftur manni úr eigin stétt, en eftir andlát hans átti hún í ástríðufullu sambandi við prestinn sem kenndi dætrum hennar. Þá var hún sæmilega efnuð fjögurra barna móðir, með tíðahvörfin að baki og þóttist mega ráða sér sjálf. Bræður hennar reyndust hins vegar ekki á sama máli og ollu henni talsverðum ama. Ladurie er sjálfur greinilega alls ekki hrifinn af þessum síðasta elskhuga, og finnst hann óttaleg blók, enda átti hann þátt í því að koma Béatrice fyrir rannsóknarréttinn. Enn hef ég ekki minnst á einn elskhuga Béatrice sem hún hélt við meðan hún bjó enn í Montaillou, en það var einmitt hinn voðalegi kaþaraprestur, Pierre Clergue. Hann kom úr valdamestu fjölskyldu Montaillou, og voru karlmennirnir í samræmi við það frekjulega fjölþreifnir (þeir fá sérstakan kafla í bókinni, sem nefnist Kynhvöt Clergue-anna), en í þeim málum bar Pierre höfuð og herðar yfir frændur sína og bræður.

Kápan á útgáfunni sem ég las. Mitt gisk er að myndin sé gerð af kaþólikka og eigi að sýna kaþara í syndsamlegri orgíu, undir vökulu auga kattar. Það var algengur misskilingur á miðöldum að kaþarar tæku nafn sitt af miðaldalatínuorðinu cattus, og dýrkuðu djöfulleg öfl í gegnum ketti.

Ladurie hefur veikan blett fyrir Pierre Clergue, og telur hann hafa verið eftirsóttan og vinsælan elskhuga á sínum yngri árum. Það hafi ekki verið fyrr en síðar meir sem hann fór að beita efnahagslegum og samfélagslegum yfirburðum sínum meðvitað, auk þess sem hann þvingaði kaþarskar konur til samræðis með hótunum um rannsóknarréttinn. Líklegt er að allt frá aldamótunum 1300 hafi hann lekið upplýsingum um kaþara í þorpinu til rannsóknarréttarins þegar það hentaði honum, þrátt fyrir að hann væri andlegur leiðtogi þeirra. Árið 1308 átti hann svo þátt í því þegar allir íbúar Montaillou yfir 13 ára aldri voru handteknir. Hann hafði hugsað sér að koma sjálfum sér og vinum sínum undan, en leikurinn snerist í höndunum á honum. Hann var sjálfur handtekinn og dó að lokum í fangelsi. Líklega var Pierre Clergue ekki alslæmur, og margar konur báru honum vel söguna, en ég get einfaldlega ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að hann var algjört kríp. Það sem endanlega staðfesti þetta álit mitt er þessi vitnistburður Béatrice, um yfirlýsingar hans meðan hún sat og aflúsaði hann: „Við upphaf heimsins höfðu bræður holdleg kynni af systrum sínum, en þegar margir bræður áttu eina eða tvær fallegar systur, þá vildu allir bræðurnir hana eða þær. Af þessu urðu mörg morð. Þess vegna varð að banna kynlíf milli bróður og systur.“ Þessi löngun hans til að giftast systrum sínum var að miklu leyti til komin af nísku og fégirni, því ef hann og bræður hans hefðu getað giftst öllum systrum sínum, þá hefðu þeir sloppið við að greiða með þeim heimanmund. (bls. 36 og 52)

Níska, uppljóstranir og vafasamar kynferðislegar hvatir vega því ansi þungt í áliti mínu á Pierre Clergue. En ég lýk þessum pistli með lýsingu Béatrice á getnaðarvörninni sem hann útvegaði þegar hún vildi ekki verða ófrísk: „Þegar Pierre vildi hafa við mig holdlegt samræði (við skulum muna að vitnisburður hennar var þýddur og skrifaður niður á latínu af prestum), þá var hann vanur að hafa ... jurt vafða inn í klæðisbút, um það bil sentímetra á lengd og breidd, eða á stærð við fyrstu kjúku litlafingurs míns. Og hann hafði langan þráð sem hann var vanur að láta um hálsinn á mér þegar við elskuðumst; og þessi hlutur eða jurt á endanum hékk þá milli bjrósta mér, svo langt sem að byrjun magans. Þegar presturinn vildi standa á fætur og fara úr rúminu, þá tók ég hlutinn af hálsinum og skilaði honum til hans. Það gat skeð að hann vildi hafa við mig holdlegt samræði tvisvar eða oftar sömu nóttina; ef svo var þá var presturinn vanur að spyrja mig, áður en hann sameinaði líkama sinn mínum: „Hvar er jurtin?“ (bls. 173).

Hann neitaði að leyfa henni að eiga jurtina, svo hún myndi ekki sænga óttalaus hjá örðum mönnum, og hann útskýrði aldrei hvaðan hann fékk hana eða hvað hún héti. Að áliti Béatrice þá var þetta líklega sama jurtin og kemur í veg fyrir að mjólk hlaupi, og virkaði þar af leiðandi á sama hátt á sæði; kom í veg fyrir að það þykknaði upp og yrði að fóstri. Fyrir okkur sem höfum átt kost á að læra líffræði þá hljómar þetta stórkostlega fáránlega. En hvernig sem á því stóð þá eignaðist Béatrice ekki barn með Pierre, þótt hún ætti tvær dætur úr fyrra hjónabandi og eignaðist aðrar tvær í því næsta. Þannig að maður spyr sig: Hvar er jurtin?

Heimild: Emmanuel Le Roy Ladurie: Montaillou. Cathars and Catholics in a French Village 1294-1324. Þýðandi Barbara Bray. London, 1978.  

2 comments:

  1. Ack, google translate Icelandic-English fails me this time. I get the gist and the craziness, so I think I would like to read this book!

    ReplyDelete
  2. You really should , if you have the time! It's even a bit geographical, since the author was very interested in how the community in the village was affected by its natural surroundings. But of course, the most intriguing part of the book is all the 14th century sex.

    ReplyDelete