Friday, April 25, 2014

Áttunda föstudagslag: Stórkostleg sál í arfavondum kvikmyndum

Þennan föstudag ætlar Smjörfjallið að rifja upp stórfurðulegt fenómenón frá áttunda áratugnum í Bandaríkjunum. Þá gáfu helstu meistarar sálartónlistarinnar út einhver sín bestu verk, verk sem hafa orðið að klassík í bandarískri tónlistarsögu, en þau litu dagsins ljós sem sándtrökk fyrir kvikmyndir sem stóðust tónlistinni jafnan engan veginn snúning. Þetta voru kvikmyndir sem síðar voru kenndar við blaxploitation-stefnuna.

Orðið blaxploitation er, augljóslega, samansett úr orðunum black og exploitation, og vísar jafnframt til annars kvikmyndageira sem kallaðist sexploitation. Þetta voru illa gerðar og hræódýrar myndir með vondum söguþræði og slæmum leikurum sem náðu engu að síður að trekkja fólk að með gjörsamlega tilgangslausri nekt og kynlífsatriðum; þær voru ekki klámmyndir próper og voru því ekki fastar við klámbíóin, heldur gátu farið í almennar sýningar og náð til fólks sem máske þorði ekki í rykfrakkann og í rauða hverfið. Sexploitation hefur dottið úr tísku sem genre eftir vídeóbyltinguna, en maður sér reyndar endurnýtingu hugtaksins þessa dagana í tengslum við hina nýju sjónvarpsbyltingu í BNA - Game of Thrones-þættirnir hafa t.d. verið sakaðir um að gæla á stundum við sexploitation. Dæmi hver fyrir sig!

Blaxploitation-myndirnar lögðu hinsvegar meiri áherslu á að exploitera tilfinningar svartra Bandaríkjamanna (þótt nóg væri af tilgangslausri nekt og kynlífsatriðum). Þar var hinni hefðbundnu Hollywood-formúlu snúið á hvolf, þar sem svört eða erlend illmenni voru drepin af hvítri söguhetju; í blaxploitation var svarti maðurinn hetja og hvíti rasistinn var skúrkur. Yfirleitt var fínum blæbrigðum sleppt, réttlætiskennd áhorfandans var svalað á hreinan og beinan hátt án þess að hafa neinar áhyggjur af siðferðislegum smáatriðum, sérstaklega þeim sem hvíta meirihlutanum var hvað mest annt um. Quentin Tarantino hefur mikið vísað í blaxploitation-hefðina; í denn með Jackie Brown (1997) og svo nýlega með Inglorious Basterds (2009) og Django Unchained (2012).

Blaxploitation-æðið hófst eiginlega á þeirri mynd sem jafnan hefur þótt sú besta sinnar tegundar, þ.e. hin fræga Shaft (1971).

Shaft var framleidd í Hollywood, sem gerir hana einstaka í geiranum - öllu meira var til tjaldað en annars. Myndin sló líka í gegn, en ekki bara á eigin forsendum, heldur út af sándtrakkinu þar sem sálargoðið Isaac Hayes fór á kostum. Þema myndarinnar, Theme from Shaft, þekkja flestir, en hér er það í rosalegri læv-útgáfu, með Isaac í afrískri skykkju og klæddur í ekkert nema gullkeðjur undir - með alla blaxploitation-estetíkina í botni:




Og textinn! Hvílíkur texti!

ISAAC: Who's the black private dick that's a sex machine to all the chicks?
BAKRADDIR: Shaft!
ISAAC: Right on!
...
ISAAC: They say this cat Shaft is a bad mother...
BAKRADDIR: Shut yo mouth!
ISAAC: I'm talkin' 'bout Shaft!
BAKRADDIR: We can dig it!

Og ekki er lagið verra; trommurnar, kaflarnir, blásararnir og wah-wah-gítarinn - Isaac var á hátindi ferilsins. Og sándtrakkið seldist í bílförmum. Eftir þetta var ekki aftur snúið, keppinautar Isaacs í sálarbransa áttunda áratugarins urðu að fylgja eftir. Gallinn var sá að bíómyndirnar sem þeir fengu í hendurnar til að gera tónlist fyrir voru alls ekki jafn góðar.

Curtis Mayfield er einn merkasti tónlistarmaður síðari tíma í Bandaríkjunum að mati þessa Smjörfjallspenna, og hann lét sitt ekki eftir liggja í trendinu. Árið eftir Shaft tók hann upp sándtrakk fyrir kvikmyndina Super Fly:


 Myndin snýst hvað helst um að upphefja svarta dópsala í gettóum New York-borgar og þykir almennt fremur vond. Curtis tók hins vegar upp á því að láta alla textana á plötunni vera harðan áróður gegn eiturlyfjasölu- og neyslu. Svartir eiturlyfjasalar eru einfaldlega pushin' dope for the Man - þeir eru að gera verk hvíta mannsins og taka virkan þátt í kúgun svartra í Bandaríkjunum. Curtis hamrar á þessum skilaboðum á plötunni sem verður að teljast ein sú besta sem gerð hefur verið innan sálargeirans. Öll lögin eru mögnuð, en það frægasta er líklega Pusherman:


Pusherman fjallar um eiturlyfjasalana (og þarmeð aðalsöguhetju myndarinnar), en Curtis fjallar líka um neytendann í Freddie's Dead, hér í læv-útgáfu:



Everybody's misused him
Ripped him up and abused him
Another junkie plan
Pushin' dope for the Man
A terrible blow
But that's how it goes
And Freddie's on the corner now
If you wanna be a junkie, why
Remember Freddie's dead


Það er náttúrulega stórkostleg hugmynd að nota sándtrakkið á vondri kvikmynd til þess að krítísera þá sömu kvikmynd og samfélagið sem bjó hana til í leiðinni. Myndin endaði á að slá áhugavert met-  hún er víst þekkt sem eina kvikmyndin sem þénaði minna en eigið sándtrakk!


Ef Isaac og Curtis höfðu þegar gert það varð Marvin Gaye að láta til sín taka. Marvin gerði frábært sándtrakk fyrir enn verri mynd en Superfly - myndina Trouble Man (1972).

Þetta er hinn upprunalegi Mr. T!
Trouble Man ratar oft inn á lista yfir verstu myndir allra tíma, en annað gildir um sándtrakkið. Það fylgir beint á eftir meistaraverki Marvin Gaye, What's Going On (1971) og þótti verðugur arftaki. Frægast er þemalagið, Trouble Man, sem er meira smúþ en smúþí:


Þar með eru frægustu blaxploitation-sándtrökkin talin upp, en til eru nokkur merkileg sem ekki náðu alveg jafn miklum vinsældum, til dæmis tónlist James Brown við Black Caesar (1973), sem þótti þó nokkuð betri en Trouble Man, að minnsta kosti. Þar er frægast lagið Down & Out in New York City:


En blaxploitation-æðið fjaraði fljótt út og dó drottni sínum undir lok áttunda áratugarins. Kvikmyndirnar virka flestar kostulega gamaldags og hallærislegar í dag (fyrir utan Shaft), en tónlistin hefur alltaf haldið áhrifum sínum - á þessum hátindi áttunda áratugs sálartónlistar byggðist diskóið, og hipphopparar hafa leitað grimmt í þessar plötur eftir sömplum. Það væri óskandi að jafn mikill metnaður væri lagður í kvikmyndasándtrökk í dag - ég er varla einn um að finnast nútímakvikmyndatónlist verulega leiðinleg og get varla ímyndað mér að kaupa hana á plötu. Það er nú annað en áður var!

No comments:

Post a Comment