Friday, May 2, 2014

Vihreät niityt: Kunnugleg orð í framandi máli

Í nóvember síðastliðnum heimsótti ég Finnland í fyrsta skipti. Það var mér uppspretta sérstakrar ánægju að koma til Norðurlands þar sem tungumálið var mér algjörlega framandi og ég gat notið þess á þeim forsendum, án nokkurrar pressu um að reyna að tala það sjálf.

Sum orð voru þó kunnuglegri en önnur. Einn daginn gengum við framhjá fasteignasölu, minnir mig, frekar en ferðaskrifstofu, og ég hrópaði upp yfir mig þegar ég sá kunnuglegt orð á skilti í glugganum:  
Vihreät! Hvað þýðir það?
Finnskt ljóðskáld: Það þýðir að eitthvað sé grænt.

Hér er ástæðan fyrir því að þetta að öðru leyti ógegnsæja orð var mér kunnuglegt, fyrsta föstudagslagið í maí:


Síðan pabbi kom heim frá Finnlandi þegar ég var unglingur með tvöfaldan best of-disk með konungi finnska tangósins, Olavi Virta, hef ég verið aðdáandi þessa tregafulla söngvara, og þetta lag, Vihreät niityt, hefur verið í uppáhaldi hjá mér. Olavi Virta var fæddur árið 1915 og lést árið 1972. Samkvæmt Wikipediu hafði frægð hans þá hnignað nokkuð, hann var forfallinn alkóhólisti eins og margir söngvarar fyrr og síðar, og finnskir fjölmiðlar gerðu grín að honum og kölluðu hann kjötbolluna syngjandi. Það fannst mér nú ekki fallegt.

Í Finnlandsferðinni í nóvember komst ég svo semsagt að því að titill Vihreät niityt er bein þýðing á upprunalegum titli lagsins, en Green Fields er frægasta lag bandarísku söngsveitarinnar The Brothers Four og kom út árið 1960:


Sænski básúnuleikarinn og söngvarinn Nils Landgren er dálítið mistækur, og á það til að verða fullvæminn, en ég hef haft soft spot fyrir honum eftir að ég hlustaði á hann mér til óbóta í skiptináminu í Berlín hér um árið. Green Fields hefur verið alveg passlega hugljúft til að hann hefði það á plötunni sinni Eternal Beauty.

No comments:

Post a Comment