Thursday, June 5, 2014

Heimsókn í gyðingakirkjugarðinn í Varsjá

Það er langt síðan kirkjugarðsfærsla hefur birst á Smjörfjallinu og löngu kominn tími á aðra. Nýlega ferðaðist ég til Varsjár í Póllandi og þar lagði ég mig sérstaklega eftir því að komast í kirkjugarð. Að morgni síðasta dagsins lögðum við af stað tvær í sporvagni að heimsækja gyðingakirkjugarðinn við Okopowa-götu. Við höfðum ekki mikinn tíma og sáum því ekki nema lítið horn af þessum stóra kirkjugarði, en áttum þar þó ánægjulega en jafnframt tregafulla morgunstund í vorveðrinu.


Gyðingakirkjugarðurinn við Okopowa-götu er 33 hektarar að stærð og var tekinn í notkun um aldamótin 1800. Í seinni heimsstyrjöldinni lenti hann í víglínunni miðri og var lengi mjög skaddaður. Fjöldamörg fórnarlömb nasista eru grafin í garðinum, þar á meðal fólk sem lést í hinni blóðugu uppreisn í gettóinu í Varsjá árið 1943. Þar eru einnig minnismerki um þau fórnarlömb sem aldrei fengu sérstaka gröf.

Minnismerki um Janusz Korczak, barnalækni, rithöfund og
forstöðumann munaðarleysingjahælis fyrir gyðingabörn í Varsjá.
Hann neitaði að yfirgefa  börnin á ögurstundu og fylgdi þeim í
útrýmingarbúðirnar í Treblinka árið 1942.

„Í minningu þeirrar milljónar gyðingabarna sem voru myrt
af þýskum nasistabarbörum 1939-1945“
Nokkrum dögum fyrr höfðum við heimsótt safn um gettóuppreisnina í Varsjá. Safnið er stórt og vandað (og stappfullt af skólabörnum, eins og söfn eru gjarnan) og það er í raun ótrúlegt hvað aðstandendum þess tekst að fylla mann af miklum baráttuanda meðan á upplifuninni stendur, þegar tekið er tillit til þess hversu dapurlegan endi uppreisnin hlaut. Þjóðverjar gjörsigruðu uppreisnarfólkið af mikilli grimmd, að sjálfsögðu með algjörum hernaðarlegum yfirburðum, og Sovétmenn fylgdust aðgerðarlausir með - enda var verið að drepa einmitt fólkið sem hefði getað staðið gegn þeirra eigin valdi þegar þeir tóku Pólland í lok stríðsins. Þessi „yfirvofandi“ valdataka Sovétmanna hefur líka áhrif á stemmninguna á sýningunni, þar sem hún gerir það erfiðara að setja uppreisnina þó í samhengi einhvers konar lausnar eftir stríðið. Þrátt fyrir allan erilinn og upplýsingamagnið á safninu fékk maður ríka tilfinningu fyrir þeirri yfirgengilegu skelfingu og þjáningum sem fólki voru búnar af höndum þeirra sem valdið höfðu.

En innan um minnismerkin í kirkjugarðinum við Okopowa-götu ríkir friður í dag og þar getum við túristarnir rölt um eftir að hafa reitt fram nokkur zloty til viðhalds garðinum. Yfir kirkjugarðsveggina sér í blokkirnar og háhýsin sem setja svo mikinn svip á Varsjá.

No comments:

Post a Comment