Friday, May 30, 2014

Föstudagslög: Söngvar um sjúkdóma

Þema föstudagstónlistar Smjörfjallsins í dag er: sjúkdómar. Til eru gríðarmörg lög um sjúkdóma, enda fátt sem hefur jafn mikil áhrif á líf listamanna, rétt eins og annars fólks, og andlegt og líkamlegt heilsufarsástand þeirra. Mörg sjúkdómalög eru átakanleg, önnur fyndin eða kaldhæðin. Og sum auðvitað leiðinleg, en við birtum þau ekki hér.

Ímynd dægurtónlistarmanna hefur löngum verið tengd villtu líferni og vímuefnaneyslu, og margir hafa sungið um glímu sína við þá bræður Bakkus og eiturlyfjadjöfulinn. Í fyrsta lagi dagsins syngja flytjendurnir þó ekki um sinn eigin vanda heldur um fíkn eirðarlausrar húsmóður, sem finnst að

cooking fresh food for a husband's just a drag 
so she buys an instant cake and she burns her frozen steak 
and goes running for the shelter of a mother's little helper

Hjálparhella húsmóðurinnar er að sjálfsögðu valíum. Það má deila um það hvort Mick Jagger og Keith Richards sýni mikla samúð með aðalsöguhetjunni í texta sínum við þetta lag Rolling Stones - húsmæðradópið skorar almennt ekki mörg rokkstig í menningu vorri - en hugurinn hvarflar til hrollvekjandi ímyndar hinnar einangruðu, bandarísku úthverfahúsmóður eftirstríðsáranna og mann langar ósjálfrátt að taka af henni valíumglasið og rétta henni frosið lambalæri.


Meira frá sama tónlistarsögutímabili: Fyrsta plata írska sálarsöngvarans Van Morrison er helst þekkt fyrir sólskinsofurhittarann Brown Eyed Girl, en þar kennir jafnframt allt annarra grasa. Eitt harmrænasta lag sem hefur verið samið birtist þar, lagið TB Sheets. Þetta er langur sýrublús þar sem Van setur sig í spor manns sem kemur á spítalann að heimsækja berklasjúka kærustu sína - af skyldurækni, en í raun getur hann ekki beðið eftir því að komast út úr ömurðinni og berklalyktinni sem stafar af lakinu.


En úr berklablús í öðruvísi blús: Hinn eitursvali lagahöfundur, gítarleikari og söngvari Memphis Minnie gaf árið 1953 út þetta kankvísa og hressa lag um kynsjúkdóm:

Call the doctor 
Call him quick 
I done got something 
'Bout to make me sick 
I've been kissing in the dark...


Sumir sjúkdómar eru vinsælli umfjöllunarefni lagatexta en aðrir. Kynsjúkdómar, alnæmi, ýmsir geðsjúkdómar og jafnvel berklar hafa verið mörgum listamönnum innblástur gegnum tíðina. Færri hafa vogað sér inn á sama svið og flippskúnkurinn Screamin´ Jay Hawkins í lagi sínu Constipation Blues. Með hans eigin orðum:

Most people record songs about love, heartbreak, loneliness, being broke. Nobody's actually gone out and recorded a song about real pain!

Þannig að hann samdi Constipation Blues.

Á lýðnetinu er að finna sérlega skemmtilegt myndband af flutningi Screamin´ Jay á harðlífisblúsnum, þar sem hann fær til liðs við sig engan annan en Serge Gainsbourg.

No comments:

Post a Comment