Ég var ekki farin að lesa dagblöðin að neinu ráði á síðari hluta 9. áratugarins, og reyndar voru foreldrar mínir sennilega ekki áskrifendur að
Tímanum hvort eð er, en ég uppgötvaði nýlega að á þessum árum og eitthvað fram yfir 1990 var fylgirit helgarblaðs
Tímans að miklu leyti helgað sögulegum fróðleik. Þar voru ítarlegar greinar um söguleg málefni, atburði og persónur, gjarnan í dramatískum stíl með æsilegum millifyrirsögnum. Oft fylgdu greinunum myndskreytingar, og þá stundum eins konar skopmyndir eftir teiknara
Tímans.
Með frekar stuttu millibili fann ég í þessu fylgiriti
Tímans umfjöllun um tvær breiðfirskar konur fyrri alda, sem fá sínar skopmyndir og millifyrirsagnir óþvegnar. Þær voru reyndar ekki bara báðar breiðfirskar heldur voru þær báðar af hinni miklu höfðingjaætt sem kennd er við Skarð á Skarðsströnd; þær Ólöf ríka Loftsdóttir og Guðrún Eggertsdóttir eldri.
 |
Hin syndgandi kona |
15. aldar konan Ólöf ríka er líklega öllu frægari persóna. Hún er einna kunnust fyrir þá yfirlýsingu sína að ekki skuli „gráta Björn bónda, heldur safna liði“, eftir að maður hennar, Björn Þorleifsson, hafði verið drepinn af Englendingum. Ólöf var umsvifamikil athafnakona og landeigandi og af henni ganga ýmsar sögur, en það voru meint skriftamál hennar sem
Tíminn fjallaði um í apríl 1988.
Skriftamálin sem eignuð voru Ólöfu ríku virðast við fyrstu sýn vera skriftir konu fyrir presti sínum. Þær snúast mjög um ýmsar kynferðislegar syndir sem konan játar á sig, þótt þær komi manni nú ekki mjög pervertískt fyrir sjónir í dag: sjálfsfróun, samfarir á hlið og kynlíf meðan á blæðingum stendur, en þetta þótti kirkjunnar mönnum allt afskaplega ónáttúrulegt.