Thursday, September 12, 2013

Aristóteles og þrælarnir í ár og síð

Það stefnir í að verða almennt þema í mínum Smjörfjallsskrifum að fjalla um hin furðulega lífsseigu áhrif eldgamra Grikkja á gang sögunnar, langt utan þess mikilvægis sem þeim ætti að vera gefið. Eitt dæmi sprettur upp úr einni af merkilegri en jafnframt minna þekktum kennisetningum Aristótelesar, þ.e. kenningu hans um eðlilegt þrælahald.

Þessi kennisetning birtist í Stjórnspeki (Politika) Aristótelesar, sem fjallar um hvernig borgríkinu fer best að vera byggt upp, allt frá sínum smæstu einingum í sínar stærstu. Um þetta málefni voru afar deildar skoðanir á 4. öld f. Kr., þegar ritið er skrifað, til dæmis um réttmæti þeirrar stofnunar sem hélt öllu borgríkinu uppi - þrælahaldsins.

Efasemdirnar um þrælahald eru gjarnar raktar til hinna svokölluðu sófista. Þeir voru farandkennarar sem lögðu mikla áherslu á ræðulist og það að snúa viðteknum sannindum á haus með rökum. Ein frægasta sófistakennisetningin er sú að flest það sem telst eðlilegt og sjálfsagt sé raunar ekkert nema merkingarlausar mannasetningar sem fólk eigi að losa sig undan. Til dæmis um þetta tóku þeir þrældóminn; þræll í hlutverki húsbónda myndi haga sér eins og húsbóndinn áður, og öfugt; það væri hending ein sem réði því hver væri sá efsti í samfélaginu og hver sá lægsti.

Sögulegir atburðir ýttu sömuleiðis undir þessar vangaveltur. Máttur Spörtu hafði hvað helst byggt á hryllilegri kúgun þeirra á þarlendri þrælastétt, sem þeir kölluðu Helóta. Helótarnir komu að miklu leyti frá Messenu, borgríki nálægt Spörtu sem Spartverjar höfðu sigrað fyrir löngu; að því gerðu þrælkuðu þeir íbúana og ræktuðu þá síðan upp sem endurnýjanlegan þrælastofn (Hitler, eins og frægt var, sótti mikinn innblástur til Spörtu.) En árið 371 f. Kr. töpuðu Spartverjar orrustunni við Levktra fyrir Þebverjum og hervald þeirra var brotið harkalega á bak aftur. Helótarnir nýttu sér þetta, flúðu og stofnsettu nýja, frjálsa Messenu. Í stjórnarskrá borgarinnar stóð: Guð veitti öllum mönnum að vera frjálsir, eðlið hefur engan gert að þræl.

En Aristóteles og Platon, turnarnir tveir í grískri heimspeki, voru algjörlega og fullkomlega á móti sófistunum og öllu því sem af þeim leiddi. Þeir hæddust að þeim og úthúðuðu þeim og þeirra vegna var orðið "sófisti" skammaryrði í einar fjórtán aldir, þar til einhver endurskoðun fór loks fram á 19. öld. Hvað varðar skoðanir á þrælahaldi og tilvist einhvers óbreytanlegs eðlis sérhvers manns, þá erum við flest sófistar í dag - sem betur fer.

En Aristóteles vildi ekki heyra á þetta minnst. Hann vildi að borgríkið væri byggt þannig upp að hinir sterkari og vitrari stjórnuðu þeim veikari og heimskari, þeim sjálfum til góða, og það gekk koll af kolli niður til þrælanna. Til að réttlæta þetta býr hann til fremur veikburða röksemdafærslu um hvað þrælar eru og hvaða hlutverki þeir gegna. Hún er einhvernveginn svo:

Þrælar eru eign húsbóndans. Þeir auðvelda honum lífið. Það sem auðveldar húsbóndanum lífið kallast tæki. Þau skiptast þá í tvennt: Ósálga tæki (eins og gaffall, eða rúm) og svo sálga tæki, eða tæki með sál: þ.e.a.s. þræla. En tæki eru gagnslaus ein og sér - það þarf einhver að nota þau til að þau uppfylli tilgang sinn. Þannig er þræll án húsbónda tilgangslaus og vanheill. Þrælum er það því til góða að vera notaðir sem þrælar.

Ástæðan er að þrælar eru eðlislægt verri en frjálsir menn. Þeir hafa enga rökhugsun (hinn fræga logos) og eru því ófærir um að stjórna sjálfum sér. Þeir eru óæðri frjálsum manni á sama hátt og barn er óæðra fullorðnum og kona óæðri karlmanni. Því er það betra að temja þá - líka fyrir þá sjálfa, rétt eins og (skv. Aristótelesi) dýrum fer betur að vera tamin en að lifa villt. Þrælar hafi sterkbyggða líkama sem henta vel til líkamlegrar vinnu, á meðan frjálsir menn eru byggðir fyrir pólitískt líferni (politikos bios). Gefið er nokkuð sterklega í skyn að þær mannverur sem eru eðlislægir þrælar séu almennt ekki Grikkir; þetta eru Þrakverjar (heimskir en sterkbyggðir) eða Asíumenn (sniðugir og handlagnir en máttlausir). Af einskærri tilviljun var þrælahald í Grikklandi á tímum Aristótelesar aðallega byggt á Þrakverjum og Asíumönnum.

Þessi röksemdafærsla er að mörgu leyti fyndin. Að sjálfur frumvísindamaðurinn Aristóteles átti sig ekki á því að þrælar hafa líkama sem henta til erfiðisvinnu vegna þess að líkaminn æfist þannig upp við erfiðisvinnu, er ekkert minna en kostulegt. En rök hans áttu eftir að lifa lengi. Með sigrum nemanda hans, Alexanders mikla, í Asíu og Afríku, átti þrælamarkaðurinn eftir að blómstra eins og aldrei fyrr. Kenningar sófistanna hurfu á meðan kennivald Aristótelesar óx og óx þar til orð hans voru aðeins einu skrefi neðar orðum guðs á miðöldum.

Þetta er nógu furðulegt út af fyrir sig. En deilan gamla milli Aristótelesar og sófistanna átti eftir að endurtaka sig að einhverju leiti - árið 1550 í spænsku borginni Valladolid. Þar settust munkarnir Bartolomé de las Casas og Juan Ginés de Sepúlveda á rökstóla til þess að deila um þá mikilvægu spurningu hvort það væri rétt að þrælka frumbyggja hinnar nýfundnu Ameríku í spænsku nýlendunum - allavega án þess að reyna að kristna þá fyrst. Og þar var Aristóteles og kenningin hans dregin fram.

Las Casas í einu horninu
Sepúlveda í hinu



















Sepúlveda áleit nefnilega að indjánarnir væru röklausir og siðspilltir; þeir stunduðu mannát, mannfórnir og sódómíu og tignuðu falska guði. Allt þetta bæri að koma í veg fyrir, og auðveldasta leiðin til þess væri að þrælka þá fyrst og kristna svo. Því þeir væru, eins og Þrakverjar og Asíumenn Aristótelesar, hannaðir til þrældóms; þeir gætu ekki stjórnað sér sjálfir. Það bæri að temja þá. Þeir væru eðlislægir þrælar.

Las Casas hafði hinsvegar dvalið langdvölum meðal indjánanna í Ameríku og tekið þátt í umfangsmiklum tilraunum spænskra munka til þess að læra tungumál og siði þeirra, til þess að kristna þá (enginn hélt því fram að það væri rangt að kristna þá, að sjálfsögðu.) Hann áleit ekki að rök Aristótelesar væru ófullnægjandi, heldur að indjánarnir uppfylltu ekki skilyrði Aristótelesar fyrir eðlislægri þrælslund; þeir væru skynsamir og það væri hægt að kristna þá án þvingana. Ef það væri hægt, ef það leyndist kristinn, rökhugsandi einstaklingur í hverjum indjána, þá var rangt að þrælka hann. Eins og Las Casas sagði, þá eru „allar þjóðir heimsins menn. Líkindin við stjórnarskrá Messenu til forna eru athyglisverð.

En rétt eins og til forna þá hafði þessi rökræða lítil áhrif. Þegar hafði verið gefin út tilskipun frá páfa (sem heitir víst því frábæra nafni „páfabulla“) sem bannaði þrælkun indjána. Konungur Spánar gaf út samhljóða skipanir. En það hægði lítt á þrælamarkaðnum í spænskum nýlendum Ameríku. Röksemdafærsla Aristótelesar var á sínum tíma ætluð til þess að styrkja í sessi þrælaiðnað 4. aldar f. Kr. - hann var rökstuðningur fyrir status quo. Hið sama má segja um málflutning Sepúlveda. Þótt enginn væri lýstur sigurvegari á málfundinum í Valladolid þá sigraði Sepúlveda óbeint; ekkert þurfti að breytast til að hans sýn yrði að veruleika.

Nú seint og um síðir hafa sófistarnir og Las Casas hlotið uppreisn æru. Margt sem sófistarnir sögðu myndi sóma sér vel sem motivational facebook-mynd sem fólk dreyfir með hjörtum og brosköllum. En kennivöldin voru hins vegar Aristóteles og Sepúlveda, hvort sem okkur líkar betur eða verr; þeir lýsa gangi sögunnar miklu betur en nokkru sinni blessaðar hetjurnar sem við yfirleitt kjósum að einblína á. Burt með þær og inn með Aristótelesar-mím:

No comments:

Post a Comment