Monday, September 2, 2013

Fólkið sem kvikfjártalið gleypti

Fyrir tveimur mánuðum skrifaði ég hér um manntalið 1703, ljóðræna vídd þess að gera tilraun til að skrá alla einstaklinga í samfélagi – og angist mína við tilhugsunina um fólkið sem gæti hafa gleymst. Ég nefndi Viðey sem dæmi, en í varðveittu handriti manntalsins er enginn skráður þar til heimilis. Það er örugglega rangt, enda var Viðey löngum höfðingjasetur. Helgi Skúli Kjartansson hefur fjallað sérstaklega um þessa týndu íbúa Viðeyjar og hvar þeir gætu hafa lent í afmælisriti manntalsins, Manntalið 1703 þrjú hundruð ára.

Þegar ég talaði um fólkið sem gleymdist var ég líka að hugsa um annað dæmi sem mig rámaði í en gat ekki flett upp, verandi í útlandinu, og fann ekki á netinu – en rakst svo á þegar ég var að fletta þjóðdeildareintakinu af manntalinu 1703 á Þjóðarbókhlöðunni í síðustu viku. Aftan við Trékyllishrepp á Ströndum hefur verið skeytt aukablaðsíðu, undirritaðri af Bjarna Vilhjálmssyni þjóðskjalaverði, með nöfnum níu einstaklinga, auk tveggja ónefndra barna, sem voru til húsa hjá Sveini Jónssyni bónda í Ófeigsfirði þegar manntal var tekið þar síðasta laugardag fyrir páska árið 1703.

„Miðinn úr Trékyllisvík“ fannst á Þjóðskjalasafninu árið 1963 eða 1964, en hann leyndist með kvikfjártalinu sem tekið var á sama tíma. Einstaklingarnir á honum eru því ekki í manntalinu sem prentað var á árunum 1924-1947, en hefur verið skeytt inn í fáein virðulegri eintök af manntalinu. Manneskjurnar á listanum eru ómagar og húsgangsfólk, sem var hvergi heimilisfast en átti að skrá þar sem það dvaldist síðasta laugardag fyrir páska 1703.
Þetta er fólkið sem lenti með kvikfénu í Ófeigsfirði:

„Bjarni Jónsson í Ófeigsfirði, hefur verið hjá Sveini Jónssyni þennan vetur til heimilis.
Oddný Jónsdóttir, hér sveitarkona.
Ketill Böðvarsson, hér til sveitar kominn, 42 ára,
Jón Þorsteinsson, miðaldra maður, á hér sveit nokkra, þeir báðir veikir og lítt vinnufærir að þeirra sögn.
Setselja Ásgrímsdóttir, nýkomin hér í sveit með tveimur ómögum, pilti og stúlku, á hér öngva sveitartiltölu, hefur kennt þessi sín bæði börn Hemingi Guðmundssyni, þrykktum og mörkuðum fyrir þjófnað.
Þorsteinn Ögmundsson, umhleypingur, 39 ára, á sveit í Neshrepp.
Otti Ottason.
Hallur Hál(f)dana(r)son.
Stefán Ásgrímsson.“

Af þessu ágæta fólki er lýsingin á Sesselju Ásgrímsdóttur auðvitað mest spennandi. Hún hefði reyndar ekki gleymst í manntalinu þótt miðinn úr Trékyllisvík hefði aldrei fundist, því hún er tvískráð; hún kemur einnig fyrir með börnum sínum, ómögunum ónefndu, í Sandvíkurhreppi í Árnessýslu, það er að segja í Flóanum, nokkuð langt í burtu frá Ströndum!

Og Hemingur barnsfaðir hennar? Hann var ekki einungis þrykktur og markaður fyrir þjófnað árið 1703 heldur kemur hann aftur fyrir í Alþingisbókum árið 1710:

„Item var í lögréttu upp lesið sex útnefndarmanna rannsak um málefni Hemings Guðmundssonar, sem játar sig í hórdóm fallið hafa, einu sinni með Sesselju Arngrímsdóttur í Árnessýslu, síðan, að sinni konu dauðri, hafi hann tvö börn átt í Stranda- og Ísafjarðarsýslum [...] Frekara próf fæst ekki á máli nefnds Hemings, en hann fær þann vitnisburð af mörgum góðum mönnum innan vébanda, að síðan 1703, þá hann fékk aflausn, hafi hann lifað á meinleysi til orða og verka, allt hingað til, en segist nú 72 ára og sýnist vanfær að bera stóra refsing, en er mjög févana. Dæma því lögmenn og lögrétta, að Hemingur fyrir sitt meðkennt og óbætt hórdómsbrot láti það allt fé, sem hann hefur inn til 6 marka, eftir stóradómi. En fyrir sína langvarandi sacramentisforsómun missi húðina eftir tempran yfirvaldsins í Gullbringusýslu, svo sem kristilegt má vera og bærilegt svo gömlum manni...“ (577)

Hemingur Guðmundsson finnst hins vegar ekki í manntalinu 1703. Hvar ætli hann hafi verið?


Heimildir:
Alþingisbækur Íslands IX. 1697-1710. Reykjavík 1957-1964
Björk Ingimundardóttir og Eiríkur G. Guðmundsson, „Manntalið 1703 – skuggsjá samfélags“ og Helgi Skúli Kjartansson, Var Viðey í eyði 1703? Um þögn manntala og annarra góðra heimilda“. Manntalið 1703 þrjú hundruð ára. Greinar í tilefni afmælis. Ritstjórar Ólöf Garðarsdóttir og Eiríkur G. Guðmundsson. Reykjavík 2005

1 comment:

  1. „En fyrir sína langvarandi sacramentisforsómun missi húðina eftir tempran yfirvaldsins í Gullbringusýslu“ … úff.

    ReplyDelete