Saturday, January 18, 2014

Þingkonurnar - dómur með útúrdúrum

Þótt kannski megi ætla annað annað þá er leikhús listform sem hefur tekið algerum stakkaskiptum í gegnum tíðina. Þessi staðreynd blasir hressilega við þeim sem bregða sér á Þingkonurnar eftir forn-gríska gamanleikjaskáldið Aristófanes, sem sýnt er í Þjóðleikhúsinu þessa dagana.

Í Aþenu til forna voru leikritin sett upp á umfangsmikilli fimm daga hátíð til heiðurs guðinum Díónýsosi, guði víns, svalls, vímu, hamsleysis og ærsla. Í samræmi við það var hátíðin gríðarlegt drykkjupartí þar sem Aþeningar þömbuðu vín, átu yfir sig af annars sjaldétnu kjöti og ofar öllu, þyrptust í leikhúsið til þess að njóta gríðarlegs leikhúsmaraþons.

Harmleikjahöfundar (þrír talsins hverju sinni) skrifuðu sinn harmleikjaþríleikinn hver, og létu svo eitt ærslaleikrit fylgja með undir lokin til að létta stemminguna. Uppsetning þessa hefur tekið allan daginn frá morgni til kvölds, og áhorfendurnir voru jafnan skelþunnir og berskjaldaðir fyrir hryllingnum sem harmleikirnir sérhæfa sig í. Gamanleikjahöfundar höfðu svo sinn eigin dag, fimm höfundar tóku þátt, hver með eitt verk. Þetta var ekki bara leiklistarhátíð heldur jafnframt keppni; að leik loknum ákváðu dómarar hver hefði skrifað besta verkið eða verkin og þótti það mikill heiður að sigra. Leiksýning í Aþenu til forna var því ekki alveg það sama og að sitja meðal gamla fólksins í virðingarverðu Þjóðleikhúsinu og klappa fyrir forsetanum ef hann sýnir sig.

Það er sem sagt röng stemming í Þjóðleikhúsinu fyrir Aristófanes. Sá merki höfundur er hvað þekktastur fyrir alveg hreint magnaðan dónaskap sem er nokkuð handan við allt það grín sem hjá okkur á að kallast gróft. Nauðganir, drengjaástir, skítát, endaþarmar, you name it - til að finna dónalegri ritverk verður maður að leita í De Sade.

En leikrit hans snúast ekki bara um kúkabrandara. Aristófanes var jafnframt einskonar Spaugstofa þar sem stjórnmálamenn og nafntogaðir einstaklingar voru grillaðir á sviði fyrir framan alþjóð. Munurinn er reyndar sá að á meðan Halldór Ásgrímsson var útmálaður sem eilítið leiðinlegur í Spaugstofunni, sýnir Aristófanes leiðtoga borgarinnar hiklaust sem kúkætur og menn sem elska að láta ríða sér í rass, en í forn-grísku samhengi var það alveg hrikalegur áfellisdómur yfir manni. Það er áhugavert að þrátt fyrir þetta algjöra hispursleysi þá höfðu grísku kómedíurnar að því er virðist engu meiri áhrif á stjórnmál borgarinnar en Spaugstofan hafði á landsmálin hér. Pólitískt grín virðist jafnan styrkja ráðandi öfl í sessi ef eitthvað er.


En að Þingkonunum. Leikrit þetta er út af fyrir sig furðulegt val fyrir íslenskt leikhús. Það er alls ekki heilt - það vantar nokkra kafla úr handritum verksins sem hafa varðveist til okkar tíma og sést það ágætlega á því að leikritið endar algjörlega út í bláinn að því er virðist. Það er með seinni verkum Aristófanesar þar sem eitthvað er farið að draga úr dónaskapnum og absúrdheitunum sem annars einkenna hann; þróun forna gamanleiksins í nútímafarsann var þá hafin. Engu að síður er frumtextinn sæmilega grófur á pörtum.

Annað má segja um þýðinguna, hinsvegar. Þingkonurnar voru þýddar af Kristjáni Árnasyni árið 1975, og virðist sá tími frekar skína í gegn í texta hans en árið 393/2 f. Kr., þegar leikritið var samið. Kristján fer frjálslega með frumtextann og skýtur inn laumulegum vísunum í íslensk stjórnmál þegar þess gefst færi. Þetta er sjálfsagt, því vísanir í aþensk stjórnmál ganga augljóslega ekki upp í neinskonar nútímaleikgerðum; þótt Aþeningar hafi hlegið að því að Antisþenes lykti illa á sunnudögum þá skortir okkur allan ramma til að skilja hvers vegna það var svona fyndið. Annar áberandi munur á þýðingunni og frumtextanum er að kynlífsbrandararnir hafa verið mildaðir.

En þessi aðlögun Kristjáns gæti hafa haft nokkuð skondnar afleiðingar: Benedikt Erlingsson leikstjóri uppsetningarinnar hefur að mig minnir talað á þá leið í viðtölum að svo ótalmargt sé sameiginlegt milli heims Aristófanesar og okkar samtíma; það sé ein ástæðan fyrir því að verkið eigi skilið að vera sett upp. Mig grunar illilega að sum þessi líkindi séu frá Kristjáni Árnasyni komin en ekki Aristófanesi.

Önnur líkindi milli nútímans og Aþenu til forna eru engu að síður augljóslega til staðar. Deilur um lýðræði, stjórnun ríkisins og meðferð almannafjár eru sannarlega kunnuglegar, sem og kommúnisminn sem Praxagóra innleiðir yfir Aþenu. Til þess að leggja áherslu á þessa þætti er nútímavísunum skotið inn; Praxagóra fer á einum tímapunkti að ganga gæsagang, gefur Hitlerskveðjur og les upp úr Ríkinu eftir Platon. Þetta væri kannski beitt ef sömuleiðis væri eitthvað frumlegt gert við restina af þýðingunni. Hún er hinsvegar lesin svo gott sem orðrétt upp með þessum pirrandi íslensku leikröddum þar sem allir virðast vera að tala tvemur áttundum yfir sínum eðlilega talanda, og alltaf fær maður það á tilfinninguna að maður sé að horfa á gamalt, vont áramótaskaup eða Spaugstofuþátt.

Skemmst er frá að segja að það er varla ein einasta sena í uppsetningunni fyndin. Einhver tækifæri til fyndni hefðu máske gefist hefði verkið verið þýtt upp á nýtt. Ef blessuð dónaorðin hefðu fengið að vera með hefði maður allavega skellt upp úr endrum og eins, bara því þau hefðu komið á óvart. Til dæmis syngur kórinn af mikilli kerskni um konur Aþenu að þær „liggj' undir körlum alveg eins og forðum“ og hlógu þá einhverjir af stakri meðvirkni - bein þýðing er hinsvegar einfaldlega „...elska að ríða, alveg eins og forðum“. Enginn eðalhúmor, en allavega hefði maður flissað smávegis. Loks er lagt upp úr algjörlega ódónalegum línum eins og þær eigi að vera voðalega saucy - miklir dónasvipir færast yfir leikarana þegar talað er um að „nart' í sælgæti“. Í frumtextanum stendur hinsvegar bara það; kaupa nammi.

En raunar er Benedikt Erlingssyni vorkunn. Ef ætlunin er að setja upp Aristófanes þá er ekki um auðugan garð að gresja; bara Lýsistrata, Þingkonurnar og svo óútgefin leikgerð á Skýjunum eftir Karl Guðmundsson leikara eru til á íslensku. Þó sækir að manni sú spurning hvort ekki hefði verið betra að setja einfaldlega Lýsiströtu upp aftur. Það er þrátt fyrir allt miklu betra og heillegra verk eftir Aristófanes, sem þar að auki á sér stórmerkilega sögu hér á landi í tengslum við Kvennafrídaginn 1975. Þar gekk stytta af Afródítu úr leikgerð leikfélags MR á Lýsiströtu með göngunni, Davíð Oddsyni, þáverandi Inspector scholae, víst til mikils ama.

Stundum er skrifað að styttan sé af Lýsiströtu; það er náttúrulega misskilningur því það var leikkona sem lék hana og engin þörf á styttu.
Eitthvað gott er þó hægt að segja um uppsetninguna: Kórpartarnir voru raunverulega sungnir og dansaðir eins og upprunalega var til ætlast; alltof oft er kórinn látinn standa kyrr í nútímauppsetningum og kyrja línurnar sínar svo maður skilur ekki bofs. Hinn kómíski fallus átti skemmtilega innkomu, það var gaman að upplifa að sú venja fornu gamanleikjanna að karlmenn gengju jafnan um með standpínugervi er enn dálítið sjokkerandi. Tónlistin er ágæt og verkið er blessunarlega stutt; annars hefði aulahrollurinn væntanlega gengið af viðkvæmari áhorfendum dauðum.

No comments:

Post a Comment