Saturday, January 11, 2014

Hinn ólýsanlegi löstur Grikkja

"Omit: A reference to the unspeakable vice of the Greeks", áminnir grískukennarinn í bókinni Maurice eftir E.M. Forster. Hann er að hlýða nemendum sínum yfir Samdrykkjuna eftir Platon, sem fjallar um ágæti drengjaásta - án þess að það megi minnast á drengjaástir í tímanum. Þær eru, eins og hann segir, „unspeakable“.

Þessi furðulegheit hafa mér lengi verið hugleikin: Hvernig sérstaklega hinn breski menningarheimur gat verið með forn-gríska menningu algjörlega á heilanum, en jafnframt þurfti að fela af einstakri natni augljós einkenni hennar. Hvernig fóru þeir að þessu? Fannst þeim þetta ekkert skrýtið?

Bretar höfðu nefnilega þá furðulegu hugmynd að Grikkland og Róm hefðu verið forverar breska heimsveldisins; Grikkir og Rómverjar hefðu raunar verið Bretar í tóga. Enn þann dag í dag eimir raunar eftir af þessu - ef Grikkir eða Rómverjar til forna birtast í enskumælandi bíómyndum eða þáttum eru þeir jafnan látnir tala ensku með breskum hreim, þótt kvikmyndin/þátturinn sé alls ekki þaðan.

Þetta sjónarmið beið hinsvegar heilmikið skipbrot þegar fornu rómversku bæirnir Pompeii og Herculaneum voru grafnir upp af fornleifafræðingum á fyrri hluta 19. aldar, og það kom í ljós að bæirnir líktust London bara ekki neitt. Rómverjar höfðu allt aðrar hugmyndir en breska heimsveldið um kynlíf og kynferði og hvað væri próper og hvað ekki. Til dæmis má taka þessa meistaralegu styttu úr Herculaneum af guðinum Pan að ríða geit:


Þessi stytta er ekkert einsdæmi. Styttur af risatyppaguðinum Príapusi voru stofustáss, glæsileg veggmálverk sýndu orgíur, og það sem var kannski verst var að það var ekkert dörtí eða illa gert við þessi kynferðislegu listaverk. Þau voru sem sagt alls ekki klám í merkingunni eitthvað skammarlegt og illa gert sem væri hannað til að æsa hinar lægstu hvatir, sem Bretarnir hefðu miklu frekar getað sætt sig við. Það hræðilega var að þessi verk voru fullkomlega normal fyrir Rómverjum.

Úr varð að ráðamenn gerðu allt sitt til þess að gera þetta allt að klámi. Þeir fluttu allt kynferðislegt efni út úr rústum Herculaneum og Pompeii og inn í dimmt, lokað rými í Fornminjasafninu í Napolí. Þar var það lokað inni og eingöngu sýnt ríkum mönnum af efri stéttum, sem mútuðu sér inn er þeir voru á Evrópureisunni sinni (The Grand Tour eins og það hét), og skoðuðu munina í gegn um gægjugat.

Good heavens! What is he doing to that goat?
Forboðið, lokað inni í skemmu og í séð í gegn um gægjugat var þetta orðið að ómerkilegu klámi sem sagði ekkert almennt um menningu hinna göfugu Rómverja til forna. Aðeins efri stéttum var treyst til að virða fyrir sér þessi verk- af því að þeir stjórnuðust af hreinum fræðilegum áhuga, að sjálfsögðu.

Hin umfangsmikla breska útgáfustarfsemi á klassískum grískum og rómverskum ritverkum fylgdi sömuleiðis þessari forskrift. Frægar eru fyrstu tvær línurnar í kvæði 16 eftir Catullus, sem voru einungis gefnar út í þýðingu seint á 20. öld - áður fyrr höfðu þýðendur einfaldlega hoppað yfir línurnar. Þær hljóma svo:

pedicabo ego vos et irrumabo,
Aureli pathice et cinaede Furi ...

og þýðast máske sem:

ég mun ríða ykkur í rass og nauðga ykkur í hálsinn
Aurelíus sem vill vera undir og Furius ríðileikfang.
  
(Það er reyndar næstum því ómögulegt að þýða orð eins og pathicus og cinaedus með einhverju einu orði - um þetta fjalla heilu bækurnar sem byggja á umfangsmiklum kenningum um sýn rómverska menningarheimsins á kynlíf og kynferði. Kannski meira um það síðar!)

Í raun er það skiljanlegt að þetta hafi ekki verið þýtt. Fyrir utan það að þetta er algjörlega filthy hefur það verið hægara sagt en gert og ekki á hvers manns færi að þýða þetta; orðabækurnar sem til voru á 19. öld og eru enn almennt notaðar hjálpa manni nefnilega mest lítið. Orðið pathicus, sem merkir þann sem er undir í endaþarmsmökum, fær eftirfarandi þýðingu í Lewis & Short-orðabókinni: „who submits to unnatural lust, pathic; of men“.

Það er aðeins tiltölulega nýlega sem merking kynferðislegra orða á fornu málunum hefur verið skoðuð nákvæmlega og skýrð, en orðabækurnar eru gamlar og birta alls ekki þær rannsóknir. Stundum vissu höfundarnir ágætlega hvað orðið þýddi, en þýddu þá yfir á annað fræðimannatungumál, því hin sanna merking var „unspeakable“. Latnesk dónaorð voru þýdd yfir á grísku, grísk yfir á latínu.

Gríska orðið olisbos, þ.e. dildó, er í Liddel-Scott-Jones orðabókinni þýtt yfir á latínu sem penis coriaceus, eða typpi úr leðri“. Gríska sögnin apopsoleo, „að draga forhúðina til baka“, er sömuleiðis skýrð yfir á latínu: praeputium retrahere, sem er alveg rétt merking en lítt hjálpleg fyrir ólatínulærða. Lýsingarháttur hennar, „sá sem gengur um með forhúðina dregna til baka“, er þýddur sem „a lewd fellow“. Í alræmdri tvítyngdri útgáfu af groddakvæðum Martíalisar var vandræðalegum orðum í snúið yfir á ítölsku í þýðingunni, af öllum málum.

Það furðulega er hversu sjálfsagt þetta var talið - að lesa texta um drengjaástir án þess að vita neitt um drengjaástir; að lærðar, hávísindalegar orðabækur breytist í gátur þegar kemur að ákveðnum orðum. Feimni Bretanna er í mínum augum jafn furðuleg og blygðunarleysið hjá Rómverjunum í Pompeii og Herculaneum - maður finnur fyrir ákveðnu menningarsjokki. En jafnframt er maður minntur á að einhverskonar menningarleg blinda er alltaf til staðar. Við erum án vafa engu skárri en Bretarnir að einhverju leyti, en getum sjálf ómögulega áttað okkur á því að hvaða leyti það er.

5 comments:

  1. Eitt nefnirðu ekki en ættir samt að taka með í reikninginn. Þegar bækur annaðhvort slepptu "dónaskapnum" eða umorðuðu hann á annað fornmál til að gera hann óljósari (ég hef þetta í þátíð af því að þetta er ekki lengur gert með sama hætti), þá var það líklega síður út af tepruskap en þeirri staðreynd að útgefendur bjuggu við löggjöf sem bannaði klám og þeir gátu allt eins búist við að þurfa að greiða sektir eða sitja inni ef kærðir.

    Við hér á Íslandi búum líka við svona löggjöf enn þann dag í dag: klám er bannað með lögum. Við höfum bara engar væntingar um að þeim sé framfylgt nema klámið brjóti önnur lög í leiðinni. Útgefandi á kvæðum Catullusar á íslensku yrði ekki kærður í dag, ekki frekar en listakonan sem vefar sköp (ég man ekki hvað hún heitir). En þetta horfði öðruvísi við fólki í Bretlandi og Bandaríkjunum og kannski víðar fram yfir fyrri heimsstyrjöld að minnsta kosti. Við búum líka við löggjöf sem bannar guðlast og henni hefur verið framfylgt: það er ekki svo langt síðan spaugstofumenn fengu kæru fyrir skets um að blindir hafi fengið Sýn (þ.e. sjónvarpsstöðina).

    Catullus 16 er að vísu ekki klám að mínum dómi af því að tilgangurinn er ekki sá að örva, heldur að hneyksla -- hneyksla þessa gagnrýnendur skáldsins sem nefndir eru í annarri línu og kannski einhverja lesendur í leiðinni. (Það má sjá af þessu hversu gott skáld Catullus var að hann nær enn tilgangi sínum með ljóðinu!) En þessi greinarmunur er ekki alltaf gerður: að klám eigi að örva og aðrar kynlífslýsingar sem gegna öðrum tilgangi, t.d. þær sem eiga að hneyksla í einhverju listaverki eða fræða í einhverri skólabók, teljist ekki klám af þeim sökum. Þessi greinarmunur er ekki einu sinni gerður á Facebook þar sem myndum af konum að gefa börnum brjóst er miskunnarlaust eytt út þótt þær séu vitaskuld ekki klám.

    En það er auðvitað hægt að misbjóða velsæmiskennd manna með öðru en bara klámi. Þannig metur Facebook þetta og þannig töldu útgefendur fyrrum að öruggara væri fyrir þá miðað við löggjöfina sem þeir bjuggu við að segja ekki allt eins skýrt og við viljum nú gera.

    Punkturinn er sem sagt þessi: útgefendur voru ekki alltaf teprur, þeir bjuggu bara við sams konar löggjöf og við en gátu, ólíkt okkur, búist við að henni yrði framfylgt.

    ReplyDelete
    Replies
    1. Alveg rétt. Engu að síður segir þetta eitthvað um menningarlegan tepruskap: Raunsæ mynd af fornöldinni var ólögleg, myndi falla undir lög um klám (sem að sjálfsögðu var gefið út af miklum móð þrátt fyrir öll lög.) Hefði vísindaleg þýðing af Catullusi 16 verið gefin út í Bretlandi á 19. öld hefði hún væntanlega fallið undir skilgreininingu laganna á klámi; þá hefði Catullus (og rómversk fornöld yfirleitt) aldeilis hrapað niður þjóðfélagsstigann. Mér finnst eitthvað áhugavert við þetta; líka spurningin um hvað klám er - það væri væntanlega engin leið til að túlka texta Catullusar 16 á annan hátt en svo að þau féllu undir klámlög, en jafnframt er Catullus 16 augljóslega ekki klám!

      Það fylgir nefnilega með í skilgreiningu okkar á klámi (allavega menningarlega) að það sé illa gert, ekki eða varla löglegt, aðeins gert í gróðatilgangi og hannað í sjálfsfróunartilgangi. Ekkert af þessu á við Catullus 16 né við almenna rómverska kynferðislega list, en það sem er slæmt eru bara *orðin sjálf* og *myndin sjálf* - lagaramminn getur ekki höndlað að viðlíka orð og viðlíka myndir séu neitt annað en sjálfsfróunarefni. Kristín Svava, fellow Smjörfjallspenni, er einmitt að fara að skrifa MA-ritgerð um viðlíka efni og mun örugglega geta skýrt þetta allt að því loknu!

      Delete
    2. Já, það má segja að klámbannslöggjöf nútímans sé til marks um einhvers konar menningarlegan tepruskap.

      Ég er reyndar ekki sannfærður um að það sé neins konar skilgreiningaratriði á klámi að það sé illa gert; þótt sú hugmynd loði kannski við það eru samt ekki allar hugmyndir sem loða við eitthvert hugtak skilgreiningaratriði á því. Ég held ekki heldur að það sé skilgreiningaratriði að það sé ekki eða varla löglegt. Vestan hafs hafa menn mjög skýra hugmynd um að málfrelsið verndi klámið án nokkurs vafa.

      Ég held að mantran nú til dags sé miklu frekar sú að klám sé skv. skilgreiningu ofbeldi. Og að það sé í eðli sínu niðurlægjandi, bæði fyrir þátttakendur og neytendur. Þá er vandinn sá að einhvern veginn þarf að skilgreina ljósbláa erótík -- sem sannarlega er til og getur ekki talist ofbeldi -- frá kláminu, sem getur vissulega verið gróft og niðurlægjandi ofbeldi, og það gengur oft illa af því að það eru bara ekki alltaf mjög skýr mörk. Stundum er eins og klámiðnaðurinn í heild sinni sé talinn vera ofbeldi jafnvel þótt einstakar afurðir hans (kvikmyndir, tímarit o.s.frv.) séu það ekki. Ef það ætti að banna allt ljósblátt klám (og ég sé ekkert að því að kalla það klám, því það er vissulega sett fram til kynferðislegrar örvunar), þá fer þetta að hljóma eins og menn vilji búa í 21. aldar feminísku samfélagi (sem er gott) en með viktoríanskt velsæmi (sem er verra). Ég hef nefnilega engan áhuga á að hverfa aftur til viktoríansks velsæmis. Samt er augljóst að hvert samfélag hefur einhverjar óskráðar og hálfskráðar reglur um velsæmi og að þær reglur þjóni einhverjum tilgangi. Það er líka hægt að virða þær reglur án tepruskaps en svona velsæmisreglur geta samt líka alið á tepruskapnum.

      En talandi um klámvæðingu, þá gleymirðu líka að tala um klámvæðinguna grísku. Nekt var nefnilega ekki fyrirvaralaust, alltaf og alls staðar samþykkt í fornöld. Mundu nú það sem ég sagði ykkur í námskeiðinu Heimur Forngrikkja haustið 2010 um Venus pudica. Praxiteles er sagður hafa verið fenginn af íbúum Kos til að gera styttu af Venus. Hann gerði styttu af henni nakinni og hneykslaði þar með íbúa Kos. En íbúar Knídos kunnu vel að meta og buðu í hana og fengu. Hún er síðan nefnd Afródíta frá Knídos. En þetta kom af stað tísku (eftirmyndirnar eru gjarnan nefnd Venus pudica) þar sem nakin Afródíta/Venus reynir að hylja nekt sína. Þetta er eins konar klámvæðing þar sem nektin (á ástargyðjunni sjálfri) er normalíseruð. Hetæran Frýne á að hafa verið fyrirmyndin og virðist frekar hafa átt að vekja aðdáun en hneykslun.

      Þetta með nektina og fornöldina er kannski svolítið flókið. Sumt af þessu á að hneyksla og viðist hafa tekist ágætlega. Annað er eins konar klámvæðing, sem særði blygðunarkennd sumra. Sumir Grikkir (Platon?) hefðu vissulega haldið því fram að þetta höfðaði til okkar lægstu og auvirðilegustu hvata. Og svo er margt annað í þessu (standpínustyttur með vængi og önnur reðurtákn og (?)frjósemistákn) sem kemur okkur svo spánskt fyrir sjónir að það er mjög erfitt að sjá fyrir sér heildarmynd af þessu öllu saman.

      Delete
    3. Jújú, þetta með klám = ofbeldi er náttúrulega dálítið abstrakt. Klámbransinn er gífurlega ofbeldisfullur og hryllilegur; hann gerir heiminn verri. Það á að vera hægt að berjast gegn áhrifum hans og umsvifum án þess að berjast gegn kynferðislegri tjáningu eða klámi (nema fólk álíti það oxymoron) sem er ofbeldislaust. Þetta er svona eins og að berjast gegn feðraveldinu; það felur ekki í sér að drepa alla karlmenn. Það eru millivegir þarna á milli sem verða farnir, en allir tala náttúrulega bara um öfgarnar eins og að það sé valþröng þeirra á milli, sem er náttúrulega ekki rétt.

      Það er líka áhugavert við klámvæðinguna í forna heiminum að dæmin sem þú nefnir snúast um kvennekt - en ég man ekki eftir neinum um karlnekt! Koroi-stytturnar voru (ef ég man rétt) naktar frá fornri tíð og títtræddar typpastyttur og frjósemistákn voru sjálfsögð svo langt sem heimildir ná. Og þessu er alveg öfugt farið hjá okkur - mér skilst að t.d. í Bretlandi sé hin endanlega skilgreining á ógeðslegu klámi sem er algjörlega bannað að sýna í bresku sjónvarpi typpi í reisn. Nakinn kvenlíkami er hinsvegar allt annað og léttvægara mál. Svona breytist heimurinn!

      Delete
  2. Annað dæmi um að misræmi sé milli alvöru fyrirmyndar fólks og ímyndaðrar fyrirmyndar (fengið frá Svavari Hrafni, minnir mig): Gríski hreinleikinn og einfaldleikinn (blátt haf, hvítar súlur og styttur) samræmist fegurðarskyni okkar sem að einhverju leyti er fengið frá Grikkjum. En þeir sáu oftar en ekki máluðu útgáfurnar af sömu súlum og styttum, sem okkur finnst oftar en ekki dáldið tacky. En tacky miðað við grísk-innspírerað fegurðarskyn...

    ReplyDelete