Wednesday, January 22, 2014

Æviminningar karla af Skarðsströnd I: Enn nú um ýmislegt í veröld séra Friðriks

Líf mitt og yndi? Jú, bloggbálkar með mjög sérhæfðu þema.

Með þessu bloggi hefst loks þriggja færslu serían Æviminningar karla af Skarðsströnd („ýmsir hafa komið að máli við mig og kvartað yfir ærandi þögn Smjörfjallsins um æviminningar karla af Skarðsströnd“) sem ég hef leynt og ljóst verið að undirbúa síðan í september, með umfangsmiklum æviminningalestri og nákvæmum glósum.

Séra Friðrik Eggerz. Mynd tekin úr
Sunnanfara 1. ágúst 1914.
Saman spanna umrædd endurminningaverk ríflega tvær aldir. Skarðsstrendingurinn sem fyrstur er á dagskrá, séra Friðrik Eggerz (1802-1894), skrifaði ekki bara sína eigin ævisögu heldur hóf hann söguna meðal forfeðra sinna á 18. öld og stór hluti hennar er ævisaga hins „skynsama, góðgjarna, kjarkmikla og breyska föður“ Friðriks, séra Eggerts Jónssonar (1775-1846), en þeir feðgar voru báðir prestar á Ballará á Skarðsströnd. Séra Friðrik skrifaði endurminningarnar um 1870 þegar hann hafði látið af prestskap. Þetta var ekkert smádundur hjá gamla manninum, því útgefin samanstendur bókin af tveimur bindum sem hvort um sig eru á fimmta hundruð blaðsíður, og er þó ýmsu sleppt.

Það var séra Jón Guðnason sem tók æviminningar séra Friðriks saman og gaf út árið 1950 undir titlinum Úr fylgsnum fyrri aldar. Í formála lýsir Jón ævisögunni sem apólógíu eða varnarriti séra Friðriks, sem taldi að víða væri á sig og föður sinn hallað og vildi tryggja að þeirra sjónarmið kæmu fram. Séra Friðrik og séra Eggert stóðu nefnilega oft í deilum við samferðamenn sína, um allt frá erfðamálum og landamerkjum til húsbygginga, og skipti þá ekki máli hvort um var að ræða fiskhjalla eða kirkjur. (Einn kafli fyrra bindis heitir Taldir nokkrir mótstöðumenn séra Eggerts, og er ekki stuttur.)

Sinni hlið á þessum málum öllum lýsir Friðrik í miklum smáatriðum, en af því leiðir að bókin er nokkuð ójöfn og vissara að renna lauslega gegnum suma kaflana ef maður vill halda út við lesturinn. Kaflaheitin gefa ágætis mynd af brotakenndri samsetningu bókarinnar; þeir heita nöfnum á borð við Um ýmislegt, Enn nú um ýmislegt og Meira um ýmislegt. Einnig Um ýmislegt, er hefur gleymzt að framan og Um ýmislegt, er séra Eggert var viðriðinn, og örnefni. Ekki lætur séra Friðrik nægja að segja frá vökulífi sínu því hann veit að svefnlífið er varla síður mikilvægt, og tíundar samviskusamlega ýmsa drauma og fyrirboða; hann dreymir til dæmis fyrir breytingum á verslunarháttum Íslendinga.

Séra Friðrik leggur áherslu á að hann segi satt og heiðarlega frá, og þótt pólitískir hagsmunir kunni vissulega að lita ýmsar frásagnir hans hefur textinn almennt yfirbragð einlægni og (stundum grimmdarlegrar) hreinskilni. Friðrik gagnrýnir sagnaritara sem honum finnst ekki halda hinn oft á tíðum óþægilega sannleika í heiðri: „til hvers er að rita sögur manna og draga fjöður yfir allt, sem hefur verið ljótt í fari þeirra“? (4) Hann hnýtir til dæmis í Boga Benediktsson á Staðarfelli, sem frægur er fyrir Sýslumannaævir sínar, en Friðrik telur að Bogi þegi „um það ófrægilega í lífssögum manna, en stundum verða þær fullar hjá honum af oflofi, svo menn verða litlu nær að geta þekkt, hvílíkir þeir hafa verið, er hann um ritar.“ (36)

Það verður seint sagt um séra Friðrik að hann þegi um það ófrægilega í lífssögum manna. Hann fellir ýmsa dóma um menn og málefni – til dæmis hikar hann ekki við að skera úr um það þegar hann segir frá dauðsföllum hvort nokkur missir hafi verið að viðkomandi manni, og þar sem margir farast tekur hann fram að hverjum var mestur og minnstur missir. Jórunni Brynjólfsdóttur, barnsmóður Jóns Þorlákssonar á Bægisá, lýsir hann svo að hún hafi verið „einföld, léttlynd og meinleysis-gufukvendi“. (40) Fátt vissi Friðrik verra en að fara frjálslega með kaffi, og lýsti hjónum í sveitinni svo að hann væri „drykkfelldur, hún eyðslu- og kaffihít og tóbaksgípur“. (193)

Á Ballará á Skarðsströnd. Fengið að láni héðan.
Aðrar mannlýsingar eru ítarlegri (og nokkur hross fá reyndar einnig um sig klausu). Um séra Benedikt Árnason segir Friðrik að hann hafi verið „meðalmaður á vöxt með ávalar herðar, siginaxla, hálsmjór, og var að sjá sem höfuðið stæði fram úr bringunni. Svo var hann boginn á hálsliði og riðaði mikið. Smáeygður var hann og tileygður, hvolfdi augunum og horfði ofan með nefinu, völumæltur og skolaðist málið mjög í munninum og drap drjúgum í skörðin, því misst hafði hann tennurnar. Sviplítill var hann og allur ógeðslegur, féglöggur og óheill talinn, mjúkmáll og kallaði jafnan „bræður“. Hann hafði mikið nef, og því var hann af háðskum mönnum kallaður „lundanefur með teningsaugun“, þar eð tilgerðar-óstilling var á þeim og þau ultu mikið í höfðinu.“ (167) Mann hálflangar til að sjá teiknara Tímans takast á við þessa áskorun.

En maður nennir kannski ekki að plægja gegnum hátt í þúsund blaðsíður af 19. aldar háði og landamerkjadeilum; séra Friðrik er þrátt fyrir allt merkilegri penni en svo og kemur manni oft á óvart með lúmskum húmor og ljóðrænum þönkum, meðal annars í mannlýsingum sínum. Ömmu sinni Gunnhildi Hákonardóttur lýsir hann til dæmis með frásögn af samskiptum hennar við prest sinn, séra Ólaf á Ballará, en hún „umbar vel hans breyskleika, þá hann var við öl, en er af honum leið, átaldi hún hann einslega, og tók hann því jafnan vel. Það var einhverju sinni, er hann kom að Skarði, svo ölvaður, að hann datt þar í bæjardyrunum máttlaus og mállaus. Gunnhildur sat í baðstofu, og var henni frá því sagt. Gekk hún þá til dyra og tók annarri hendi undir herðar honum, en annarri undir knésbæturnar og bar hann þannig inn í húsrúm undir baðstofuloftinu. Séra Ólafur var ístrumaður mikill og talinn 22 fjórðungar að þyngd og má af því marka, hver afburðakvenmaður Gunnhildur var að kröftum.“ (74-75)

Margar af sögum séra Friðriks varpa jafnframt ljósi á ljúfari samskipti og hversdagslegan innileika milli ættingja og vina. Hann segir frá því hvernig Eggert faðir hans naut „yndis og aðhjúkrunar“ í faðmi föður síns þegar hann var barn, allt þar til sá síðarnefndi „veiktist og deyði“. (87) Hann lýsir jafnframt alúðinni sem feðgarnir Friðrik og Eggert sýndu hvor öðrum þegar gott var milli þeirra, einnig þegar þeir voru orðnir fullorðnir menn; þá gekk móðir Friðriks stundum úr rúmi fyrir son sinn, en Eggert faðir hans vakti hann á morgnana með því að strjúka honum um kinnina.

Reiðhestar séra Friðriks fengu sínar persónulýsingar í
æviminningum hans, en ekki vildi hann éta hross.
Myndin er eftir Ragnar Axelsson og tekin héðan.
Það er með svona einlægni sem séra Friðrik gerir mann meyran milli þess sem hann eys skömmum yfir heilu landshlutana: „Friðrik var aldrei mikið gefið um Borgfirðinga yfir höfuð og áleit þar skinhelgt, eigingjarnt, hjóllynt og óheilinda fólk.“ (147) Eins og sést á þessu talar Friðrik jafnan um sjálfan sig í þriðju persónu, sem gerir frásögnina oft skemmtilega hjákátlega. Að sama skapi setja ýmis persónueinkenni Friðriks mark á frásögn hans, svo sem fyrrnefnd kaffiníska hans, að ógleymdri gríðarlegri íhaldssemi sem hefur í för með sér mikla tortryggni gagnvart þeim sem hann telur að séu „nýmóðins apar“. Þar á meðal var Magnús Stephensen, sem séra Friðrik taldi haldinn „breytingasýki og nýjungagirnd“ á háu stigi og vilja fá „nálega öllu gömlu breytt til nýrra hátta“ (200) – sem lýsti sér meðal annars í því sem séra Friðriki þótti glórulaus stuðningur Magnúsar við hrossakjötsát.

Það er enginn hörgull á skemmtilegum sögum hjá séra Friðriki; ég hef til dæmis ekki minnst á það þegar Skúli sýslumaður festist fullur í peysunni sinni, eða það þegar Friðriki tókst ungum að venja sig af myrkfælni með því að grípa í tána á líki, eða það þegar ferðamaðurinn drakk spíritusinn sem garnirnar úr dauðum manni voru geymdar í. Þeim sem vilja kynna sér Friðrik Eggerz má benda á greinar Einars G. Péturssonar og Tómasar R. Einarssonar í Breiðfirðingi, sem hægt er að finna á Gegni, sem og Sýslu- og sóknalýsingar Dalasýslu sem Einar sá um að gefa út hjá Sögufélagi árið 2003. Ekkert stenst þó samanburð við endurminningar séra Friðriks sjálfs; þar reisti hann sér sannarlega merkan minnisvarða.

No comments:

Post a Comment