--
Síðastliðið sumar fékk ég tækifæri til að leggja svolítið af mörkum í áhugaverðu verkefni. Viðfangsefnið var daglegt líf og umhverfi fólks á Austurlandi á fyrstu árum 19. aldar. Tiltölulega einfalt reyndist að safna saman umbeðnum upplýsingum um staðsetningu og dýrleika nokkurra sveitabýla. En þetta var aðeins önnur hliðin á mínu afmarkaða verkefni, hin hliðin snéri að daglegu lífi og hvernig var að búa á Austfjörðum fyrir rúmum 200 árum. Best væri að geta gengið í frásagnir raunverulegs fólks og fengið þannig frá fyrstu hendi vitnisburði um barnalán og búsorgir.
Svo vel vildi til að ég taldi mig hafa heyrt talað um einmitt slíka bók, eða ég vonaði í það minnsta að hún stæðist væntingarnar. Einn kennara minna ræddi nokkuð um þessa bók í námskeiðum sínum, enda er þar að finna skemmtilegt innlegg í söguna af valdatíð Jörgens Jörgensens á Íslandi. Þetta var bókin Endurminningar frú Gyðu Thorlacius frá dvöl hennar á Íslandi 1801-1815.
Bókin stóð alveg undir væntingum mínum og í henni var einmitt að finna svipmynd af lífi fólks á Austfjörðum fyrir 200 árum og frá sjónarhorni manneskju sem kemur alls ókunnug á nýjar og framandi slóðir. Til eru þó nokkrar ferðasögur erlendra manna, einkum Englendinga, frá sama tímabili. Þær eru merkilegar og áhugaverðar vegna þess að þar birtist sýn gestsaugans á land og þjóð, en sögumennirnir eru vel menntaðir heldri menn sunnan úr Evrópu. Frásögn frú Gyðu Thorlacius er sérstök að því leyti að í henni fylgir lesandinn ungri konu, rúmlega tvítugri, sem alið hafði allan sinn aldur í nágrenni Kaupmannahafnar, á leið hennar til Íslands til að setjast þar að með eiginmanni sínum. Hann var íslenskur í föðurætt en hafði dvalist mest alla sína ævi í Danmörku. Þau voru nýgift er haldið var til Íslands og hvorugt gat vitað hvað beið þeirra í Reyðarfirði þar sem hann átti að taka við sýslumannsembættinu.
Þau reyndu fyrstu árin að halda í sína dönsku lifnaðahætti. Sýslumaðurinn keypti jörðina Helgustaði og þar var reist einingahús úr timbri sem faðir Gyðu keypti handa þeim. Þau gerðu tilraunir með garðrækt en að hennar sögn höfðu heimamenn lítinn skilning eða trú á slíku. Þau eignuðust nokkur börn sem ekki lifðu öll. Þau ferðuðust mikið meira en ég hefði búist við. Eiginmaðurinn var embættismaður og þurfti vegna starfs síns að ferðast, en þau sigldu utan til Danmerkur strax árið 1803, um haustið, og komu aftur í júlíbyrjun árið eftir. Eitt barn misstu þau í ferðinni og annað árið eftir.
Frá því skömmu eftir komuna til landsins og fram að Danmerkurferðinni einkennist frásögn Gyðu af sífelldum kvíða, hræðslu og að eigin dómi vankunnáttu hennar sjálfrar til flestra verka. Eftir heimkomuna tekur við þunglyndi sem virðist hafa þjakað hana og jafnvel ágerst næstu árin. Næsta utanferð þeirra hjónanna hófst í október 1812 en þau komust ekki heim aftur fyrr en í nóvember 1813. Í þeirri ferð misstu þau enn barn og lentu í miklum hrakningum þegar skipið festist í ís á sundunum við Kaupmannahöfn. Þá sátu þau um tíma föst í Svíþjóð en vegna verðbólgunnar þá nýttust danskir peningar þeim illa.
Horft frá Helgustaðanámu inn Reyðarfjörð. Mynd tekin héðan. |
Í timburhúsinu varð kalt og allt fraus þar þegar eldiviðar skortur gerði vart við sig vegna stríðsins og siglingaleysis. Þá flutti fjölskyldan sig í torfbæinn sem hafði verið bústaður hjúanna síðan að þau hjónin tóku þar við búsforráðum. Gyða fór á grasafjall með hjúum og nágrönnum og hún virðist hafa tileinkað sér allt það helsta í íslenskum heimilisverkum og matargerð. Hún segir hlýlega frá torfbænum og baðstofunni með kýrnar undir gólfinu en bæði hún sjálf og börnin hættu að hósta og urðu hraustari í nýju híbýlunum. Henni þótti Íslendingar ráðagóðir og duglegir að bjarga sér þegar siglingar stöðvuðust, en hungrið og harðindinn voru skammt undan. Þau hýstu gamlan mann sem einhvers staðar hafði flosnað upp. Hann dó fáeinum dögum síðar og annar flækingur dó við túngarðinn.
Dauðinn var þannig aldrei fjarlægur, enda mátti sjálfsagt ekki miklu muna þegar Gyða og samferðarmenn hennar villtust á heiðunum milli Eskifjarðar og Seyðisfjarðar. Verr fór þó í síðasta ferðalagi þeirra hérlendis, á leiðinni frá Austfjörðum um Norðurland áleiðis til Suðurlands. Ferðin tók drjúgan hluta sumarsins og yngsta barnið, Agata, lærbrotnaði þegar hestur fældist. Hún varð eftir hjá hjónum í Eyjafirði og komst ekki til foreldra sinna fyrr en eftir að þau voru flutt til Danmerkur. Það var þó ekki í fyrsta sinn sem Agata var aðskilin frá foreldrum sínum. Hún var aðeins ársgömul þegar hjónin sigldu utan haustið 1812. Þá var henni komið í fóstur hjá vinafólki í Reyðarfirði.
Þrátt fyrir barnsmissi og ýmsa erfiðleika er tónninn í frásögninni jákvæður. Gyðu þykir orðið vænt um Ísland, og Austfirði sérstaklega, undir lok dvalarinnar. Hún hefur orð á því hversu gott hafi verið að sjá austfirsku fjöllin þegar hún snéri heim árið 1813.
Gyða Thorlacius. Mynd fengin úr pistli um hannyrðir Gyðu. |
Í upphafi frásagnarinnar ráða hamingja og bjartsýni ferðinni. Kvíðinn og vanmáttarkennd Gyðu eru þó farin að gera vart við sig. Á þessu tímabili fara þau í Hallormsstaðaferð og hitta hina Danina og nánustu vini sína á Austurlandi. Skugga ber síðan á hamingjuna í Danmerkurferðinni og þegar heim er komið leggst þunglyndið á Gyðu af fullum þunga.
Annar vendipunktur í sögunni er þegar þau flytja í torfbæinn og Gyða tekur að temja sér innlenda verkkunnáttu. Við þetta tekur hún fyrstu skrefin til aðlögunar. Vissulega eru Napóleónsstyrjaldirnar í bakgrunninum og valda siglingaleysinu, en stríðið er hvoru tveggja í senn sífellt nálægt en samt ávallt í baksviðinu. Næsti vendipunktur er síðari utanferðin og hrakningarnar sem því fylgdu, en þá er Gyða orðin æðrulaus Íslendingur sem trúir á drauma og bjargar sér með það sem er handbært hverju sinni.
Lokaþátturinn er svo eftir heimkomuna til Íslands. Það er þó síður en svo neinn eftirmáli eða lognmolla. Gyða stendur ein með börnin á Reyðarfirði, en eiginmaðurinn er á gagnstæðum enda landsins. Nú kemur í ljós hversu mikið hún hefur þroskast síðan hún kom fyrst til landsins. Hún þarf að koma sér upp nýju heimili og útvega allt til þess án aðstoðar eiginmannsins. Þarna reynir á gott samband hennar við heimafólkið. Hún kemst áfallalaust í gegnum þetta síðasta ár á Reyðarfirði og stendur í lokin eftir sem sigurvegari. Hún hefur ekki sigrað landið eða þá innfæddu, heldur sjálfa sig.
Eiginmaðurinn er merkilega fjarlægur í frásögninni eins og þýðandinn bendir réttilega á. Gyða bar greinilega mikla virðingu fyrir honum og þótti vænt um hann, en hann var mikið á ferðinni vegna starfsins og svo virðist hann ekki mikið hafa lagt til málanna við rekstur búsins og lausn vandamála sem urðu á vegi þeirra í daglegu lífi. Sem dæmi má nefna að hann var úrræðalaus þegar Agata lærbrotnaði og Gyða varð sjálf að leysa málið. Þýðandinn hefur tínt saman umsagnir um Þórð sýslumann úr nokkrum áttum, en þar fær hann ekki sérlega góð eftirmæli sem embættismaður. Helst virðist standa upp úr á ferlinum að hann stofnaði til deilna við menn á Austurlandi og að hann var talinn ágjarn og skorta fyrirhyggju. Í frásögn Gyðu eru deilurnar persónugervðar í einum manni sem hún óttaðist mjög þar eð hann var andstæðingur eiginmanns hennar. Hún hallmælir honum þó aldrei og svo virðist sem sonur þessa fjandmanns hafi reynt að bera klæði á vopnin. Öll andúð á þessum manni hverfur svo skyndilega þegar henni berst til eyrna að hann hafi fundið til með þeim hjónum þegar Agata litla lærbrotnaði og varð eftir fyrir norðan.
Eftir að ég las bókina í heild sinni (hún er mjög stutt) síðastliðið sumar hafa öðru hvoru kviknað hugrenningartengsl þegar verið er að glugga í annað efni. Frásögnin af ferðinni til Seyðisfjarðar kallar fram í hugann mína eigin reynslu af Fjarðarheiðinni sem mér er vel kunn þótt ekki hafi ég lent þar í hrakningum. Ferðir á sparlega útbúnum bílum á menntaskólaárunum voru þó stundum glæfralegar.
Á Gagnheiði. Mynd eftir greinarhöfund |
„Hér skal þess getið, að á leið minni til Mjóafjarðar fór ég Gagnheiði... en þaðan liggja leiðir á aðra fjallvegi. Þegar ég var á háheiðinni, þar sem jökullinn er verstur yfirferðar, mætti ég nokkrum Seyðfirðingum með hesta; komu þeir úr kaupstað frá Reyðarfirði og höfðu verið fimm daga á leiðinni. Þeir höfðu meðferðis mjöl og ýmsa aðra þungavöru. Tunnur og kútar, sem vörurnar voru fluttar í, höfðu brotnað og varningurinn því spillzt, svo að mjölhrúgurnar lágu þar í snjónum. Mennirnir voru orðnir skólausir og nærri matarlausir, en hestarnir uppgefnir af hinum löngu og erfiðu fjallvegum, og voru sumir þeirra að gefast upp til fulls. Þar við bættist og, að þeim gekk illa að rata rétta leið til byggða sakir þoku, því engann höfðu þeir áttavitann.“
(Olavius: 124).
Bjarna-Dísa í landakortinu. |
Þannig má finna tengingar milli endurminninga Gyðu og margs konar annara frásagna eða atburða í upphafi 19. aldar á Austurlandi og svo vitaskuld í ferðalögum þeirra hjóna til útlanda, sérstaklega í síðari ferðinni.
Endurminningarnar eru þó ekki vandkvæðalaus heimild. Gyða og eiginmaður hennar fluttust aftur til Danmerkur árið 1815 en endurminningar hennar voru ekki gefnar út fyrr en 1845 og svo virðist hún ekki hafa farið að skrá þær markvisst niður fyrr en mörgum árum eftir að hún flutti til Danmerkur. Þær voru svo gefnar út í einhvers konar endursögn tengdasonar hennar. Engin leið er að átta sig á hversu miklu hann hefur breytt frá handriti tengdamóður sinnar þar eð það brann ekki löngu síðar. Þýðandinn virðist þó telja að hvað varðar lífshætti og heimilisvinnu séu endurminningarnar nokkuð réttar, hins vegar má ætla að mjúklegar sé tekið á mönnum og málefnum heldur en efni standa til. Enda má fullyrða að lýsingar á mönnum og atburðum hafa gjarnan á sér annan og lauslegri blæ heldur en frásagnir af ferðalögum eða athöfnum Gyðu sjálfrar. Þá er frásögnin mun markvissari og um leið svolítið skemmtilegri.
No comments:
Post a Comment