Friday, March 7, 2014

Annað föstudagslag: Bésame mucho

Annað föstudagslag Smjörfjallsins er hið víðfræga Bésame mucho, eitt vinsælasta suðurameríska dægurlag allra tíma. Það var samið árið 1940 af hinni mexíkönsku Consuelo Velázquez og hefur síðan verið flutt af gríðarlegum fjölda tónlistarmanna víðs vegar um heiminn.

Frægustu flytjendurnir hljóta að vera Los Beatles, þótt sú útgáfa heyrist ekki á hverjum degi:


Nokkru áður en Bítlarnir tóku lagið var gerð af því mín uppáhaldshljóðritun, af hinni stórkostlegu kúbönsku söngkonu Fredesvindu Garcia: La Freddy. Hún hljóðritaði sína einu plötu, Ella cantaba boleros, árið 1960. Ári síðar lést hún, aðeins 26 ára gömul - nokkuð sem maður hefði aldrei giskað á út frá rödd hennar. Guillermo Cabrera Infante gerði La Freddy síðar að persónu í skáldsögunni Tres Tristes Tigres.

Ég minnist þess alltaf þegar ég heyrði fyrst í annarri kúbanskri söngkonu, Celiu Cruz, og trúði því ekki að það væri kona sem söng. Celia Cruz er hins vegar eins og kórdrengur í samanburði við La Freddy:


Bésame mucho er dálítið væmið lag, það er kannski ekki hægt að hlusta neitt rosalega lengi á það í einu, og við skulum þess vegna láta eina útgáfu í viðbót duga. Það eru brasilísku kanónurnar Caetano Veloso og João Gilberto sem hér leiða saman hesta sína á tónleikum:

No comments:

Post a Comment