Friday, July 5, 2013

Upplýsingaskilti, göngustígar, tómur kirkjugarður

Fyrr í vetur las ég og bloggaði um Söguna af klaustrinu á Skriðu eftir Steinunni Kristjánsdóttur fornleifafræðing, mér til töluverðrar ánægju. Þegar ég átti leið um Austfirði í sumarbyrjun vildi ég endilega fara á Skriðuklaustur, en uppgreftrinum þar er nú lokið og búið að ganga frá uppgraftarsvæðinu fyrir áhugasama gesti, setja upp upplýsingaskilti og leggja göngustíga. Það var mjög gaman að heimsækja Skriðuklaustur eftir að hafa lesið bókina, upplifa umhverfi klaustursins beint og horfa út Fljótsdalinn í sporum munkanna.





Meðal þess sem fannst við uppgröftinn var líkneski
af Heilagri Barböru, sem nú er varðveitt á Þjóðminjasafninu
Það sem ég var spenntust fyrir á Skriðuklaustri var auðvitað kirkjugarðurinn, bæði af því að ég er með kirkjugarðablæti en líka af því að uppgröftur hans skipti sköpum fyrir niðurstöður rannsóknarinnar í heild og sýndi fram á að líknar- og lækningastarfsemi hefði leikið mun stærra hlutverk í starfsemi klaustursins en áður var talið.

Kirkjugarðurinn á Skriðuklaustri
Það var þó dálítið einkennileg og ljóðræn tilfinning að virða garðinn fyrir sér svona vandlega tyrfðan og frágenginn – og tæmdan af beinagrindum. Þeim hefur verið safnað saman í stærsta beinasafn á Íslandi og skilað inn á Þjóðminjasafnið. Mig minnir endilega að Steinunn hafi skrifað í Sögunni af klaustrinu á Skriðu að hún hafi gælt við þá tilhugsun að skila þeim aftur á sinn stað, en rannsóknarhagsmunir komið í veg fyrir það.

No comments:

Post a Comment