Saturday, July 6, 2013

Hark! A vagrant!


Eitt af því sem mér finnst skemmtilegast að skoða á netinu eru síður með teiknimyndasögum. Sögurnar eru yfirleitt býsna stuttar og það tekur svo lítinn tíma að skoða þær að maður hefur alltaf afsökun fyrir að smella á random takkann og skoða eina í viðbót. Með þessum hætti næ ég að fresta nauðsynlegum hlutum heilu og hálfu dagana með ágætum árangri. Ein af þessum síðum er Hark! A vagrant, sem höfðar sérstaklega til mín af þeirri ástæðu að hún fjallar að mestu um sagnfræði. Höfundur síðunnar, Kate Beaton, er kanadísk og kláraði gráðu í sagnfræði og mannfræði frá Mount Allison University. Það er að vísu ekki mikið um mannfræðilegar skopmyndir á síðunni, en hún teiknar hins vegar býsna mikið af efni sem tengist sígildum bókmenntum eins og Vesalingunum eða The Great Gatsby.

Ég myndi ekki kalla teiknimyndirnar fræðandi, því yfirleitt verður maður að þekkja hinn sögulega bakgrunn til að fatta brandarann. Ef þú hefur t.d. ekki lesið Önnu í Grænuhlíð þá er ólíklegt að þér þyki þessi teiknimyndasaga um Hinrik 8. skemmtileg. Sagnfræðimenntun okkar tveggja skarast í raun og veru merkilega lítið, til að mynda botna ég ekkert í bröndurum hennar um sögu kanadískra stjórnmála, og mér þykja þeir fáu miðaldabrandarar sem á síðunni eru ekki skrifaðir af miklu innsæi. En jafnvel þótt ég þekki ekki bakgrunn einhverrar sögunnar eða finnist brandarinn ekkert fyndinn, þá hef ég alltaf einhverja lúmska ánægju af því að skoða síðuna. Kate Beaton virðist bara vera svo vingjarnleg og viðkunnaleg manneskja, auk þess sem það er alltaf einhver góðlegur kjánaskapur í teikningunum hennar og textanum. Hver gæti svo sem staðist frasann: dude watchin' with the Brontës?

Ég hvet því eindregið þá sem ekki þekkja til síðunnar til að kíkja á hana, hún hefur verið uppi frá árinu 2006, svo það er hægt að ýta býsna lengi á random takkann.

2 comments:

  1. Þessi hérna sko. Þetta var ég bara í gær, og eiginlega svona á þriggja mánaða frest. Enda skrifa ég líka teiknimyndasögur. Við erum í rauninni óhugnarlega líkar.

    http://www.harkavagrant.com/index.php?id=72

    ReplyDelete
  2. Þetta er eins og talað út úr hjarta hvers hugsandi sagnfræðinema.

    ReplyDelete