Wednesday, June 26, 2013

Afsteypur æskublómans í Aþenu

Eitt það skemmtilegasta sem maður rekur sig á í sögunni eru mismunandi álit samfélaga á hvað telst venjulegt og hvað ekki. Það geta verið himinn og haf (ég hugsaði "humar og haf" af einhverri ástæðu) á milli manns eigin samfélags og annars, sem sýnir manni skemmtilega fram á hversu lítilvægar mannasetningarnar geta nú verið.

Eins og frægt er þá var deitsenan í Aþenuborg 5. aldar heitust milli frjálsborinna, eldri karlmanna og frjálsborinna, yngri manna eða drengja. Konur voru giftar við 13 ára aldurinn og þareftir geymdar innandyra; aþenski karlmaðurinn þurfti því að opinbera ástsjúka sálu sína í samskiptum við íðilfagra drengi. Drengirnir eru reyndar ekki eins og þeir voru, samkvæmt Vitringnum í Skýjunum eftir Aristófanes. Eitt sinn giltu reglur um hvernig maður átti að sitja í glímusandinum:

Í denn urðu drengirnir að sitja með krosslögð læri í leikfimi,
svo þeir myndu ekki flassa neinu óviðeigandi að þeim sem utan stóðu.
Þegar drengur stóð svo aftur upp þá sópaði hann sandinum yfir, og hafði vit á því
að skilja ekki eftir afsteypu af æskublóma sínum handa vonbiðlunum.

Og drengir smurðu sig aldrei með olíu fyrir neðan nafla í þá daga,
svo að döggin og dúnninn fengu að blómstra á kynfærunum!
(Aristófanes, Skýin 972-6)

Drengirnir töldust fallegastir frá kynþroskaaldri þar til þeim fór að vaxa grön. Þó er gott að hafa í huga að á þessum vannærðari tímum kom kynþroskinn síðar en við eigum að venjast; líklega hafa "drengirnir" verið á aldrinum 17-20. Engu að síður er þetta ári truflandi. Eldri mennirnir eltust við þá af miklu kappi og það þótti sport að sýna hversu sjúklega ástfanginn maður var; menn fóru í slag ef þeir voru skotnir í sama dreng, sömdu og sungu ástarljóð hástöfum og eltu drengina um hvert sem þeir fóru. Vinsælir drengir höfðu heil fylgdarlið með sér. Til dæmis hann Kharmídes sem sjálfur Sókrates var skotinn í á einum tíma. Sókrates segir frá því þegar Kharmídes kom inn í gymmið með dúndrandi hausverk:

Krítías sagði [honum] að ég væri maðurinn sem kynni ráð [við hausverk], og þá leit hann í augu mín - augnaráð sem enginn gæti staðist! - og kom til mín til að spyrja ráða, og allir í glímuskólanum þyrptust í kring um mig, og þá, guð minn almáttugur! þá sá ég inn undir kirtilinn hans, og ég fuðraði allur upp og það varð ekkert eftir... samt sem áður, þegar hann spurði hvort ég kynni ráð gegn hausverk, þá tókst mér að svara að svo væri.
(Platon, Kharmídes 155c-e)

Það sem Sókrates hefur séð undir kirtlinum hjá Kharmídesi hefur væntanlega verið fegurðarstaðall Grikkja á ungum líkömum, sem sjá má á leirkeramálverkum: Stinnur six-pack, hárlaus bringa og lítið typpi - stór typpi töldust grótesk og fundust (í myndlist allavega) aðallega á skrýmslum af ýmsu tagi.

Kynlífið í þessari furðulegu deitsenu er þó kannski það allra furðulegasta við hana. Drengirnir sem allir voru að eltast við voru framtíðarborgarar; þeir áttu að taka þátt í stjórnmálum, eignast konur og berjast í stríðum við góðan orðstír. Innifalið í hugmynd Grikkja um flekklausan orðstír var að líkaminn væri friðhelgur; ef líkaminn var penetreraður þá var það ótrúleg skömm fyrir viðkomandi. Að penetrera aðra taldist hinsvegar karlmannlegt, og þannig var konum t.d. haldið niðri í þessu einu svæsnasta feðraveldissamfélagi sögunnar.

En hvernig var þá hægt að sofa hjá í aþensku drengjadeitsenunni, án þess að eyðileggja líf yngri aðilans í hvert sinn? Jú, fundið var upp á reddingu: Millilæramökum, sem feimnir fornfræðingar kalla á ensku "intercrural copulation". Drengurinn og eldri maðurinn sneru að hvor öðrum, eldri maðurinn beygði sig í hnjánum, setti typpið á sér milli læra drengsins, og reið honum þannig. Þetta má sjá á meðfylgjandi mynd (afsakið slæm gæði). Á þennan hátt var enginn penetreraður og allir voru ánægðir.

Erfitt er að ímynda sér að þessi stelling sé á leið aftur í tísku í bráð, en maður skyldi þó aldrei fullyrða. Á wikipedia-síðunni um millilæramök er því haldið fram að þau séu "sometimes known as the "Princeton First-Year", the "Oxford Style", the "Oxford rub" [og] the "Ivy League rub", og er þarmeð kennt við margar helstu menntastofnanir Vesturlanda. Fáar kynlífsstellingar státa því af öðru eins menningarlegu auðmagni.


Myndin er fengin af "jesus-is-saviour.com" og kallast þar "Socrates was a Pederast Homosexual". Svo mörg voru þau orð.

Heimildir:
  • Davidson, James. The Greeks & Greek Love: A Radical Reappraisal of Homosexuality in Ancient Greece. London: Weidenfeld & Nicolson, 2007.
  • Dover, K.J. Greek Homsexuality. Cambridge, Mass.: Harvard University Press, 1989.
  • Skinner, Marilyn B. Sexuality in Greek and Roman Culture. Malden; Oxford; Carlton: Blackwell Publishing, 2005. 


4 comments:

  1. Takk fyrir yfirlitið.

    Ég er samt dáldið efins um þetta intercrural dæmi. Henderson (Maculate Muse) segir að "diamerizein" sé notað yfir "both homosexual and heterosexual rape" og tekur dæmi úr Fuglunum.

    Liddell og Scott eru gagnlegir að vanda og þýða orðið sem "femora diducere, inire", sem er frekar óskýrt.

    Er eitthvað annað en myndlistin sem lýsir þessu í smáatriðum?

    Af hverju er talið að:
    1) "diamerizein" sé ekki penetrasjón?
    2) myndirnar séu af því sem sögnin lýsir?

    ReplyDelete
  2. Ég held að þetta sé kenning Dovers um blessað diomerizein-dæmið og ég hef allavega ekki sjálfur lesið mótrök gegn þeirri kenningu(væntanlega því ég hef lesið of lítið frekar en að þau séu ekki til); Davidson er á móti Dover en hann fókuserar meira á endaþarmsmökin sem honum finnst Dover og eftirmenn hans gera alltof mikið úr. (Aftur, kannski las ég bókina hans ekki nógu vel og hann tæklar þetta líka einhversstaðar í henni.)

    Diomeizein er náttúrulega ekki penetrasjón því það er ekki farið inn í líkamann eða inn í líkamsop, þetta er allt fyrir utan hann. Það er meira að segja í okkar kúltúr skilgreiningin á penetrasjón, eða hvað? Svo þykir mér allavega að ofangreind mynd sé skýr: Við vitum um milli-læra-hlutinn (diomerizein), við sjáum þessa mynd, hljótum við ekki að tengja þetta tvennt?

    ReplyDelete
    Replies
    1. En það er rétt, orðið er greinilega notað um kynlíf (ef það er rétta orðið) með konu í Fuglunum, í það minnsta.

      Delete
    2. Ég er enn ekki sannfærður (en mun tékka á Davidson).

      Mér finnst enn ekkert augljóst að "diamerizein" sé non-penetrasjón. Það er allavega frekar augljóst hvað "milli fóta" og "neðan nafla/beltis" merkir í dag. Og Henderson notar "rape" án frekari útskýringa. Hann virðist meina að þetta merki að skilja lærin (mer-) sundur (dia-) og nauðga svo á hefðbundinn hátt.

      Og ef merking orðsins fýkur, hvað verður þá um túlkunina á myndunum? Mér finnst þær allavega ekkert afgerandi, þótt það sé voða súbjektíft (betra væri að eiga fornt gif af þessu).

      Þriðju rökin eru væntanlega "alvöru nauðgun hefði ekki liðist í Aþenu" en mér finnst betra að nota gögnin fyrst og endurgera hugmyndaheiminn útfrá þeim, ekki öfugt. Sambærilegt: Eigum við að túlka erótíkina út úr bréfum Fronto og Markúsar Árelíusar fyrst að samband milli þeirra hefði ekki verið mögulegur kynhegðunar-varíant á þeirra tíma.

      Allavega væri betra að hafa meira í höndunum.

      Ætli Ken Dover hafi annars aldrei verið kallaður Ben í stríðni?

      Delete