Friday, October 4, 2013

Barnsfæðing árið 1490

Haustið 2010 fór ég í skiptinám til smábæjarins Alcalá de Henares á Spáni. Dvölin þar var á margan hátt lærdómsrík, ekki síst fyrir þá innsýn sem hún veitti mér í ljótan og niðurdrepandi arkitektúr frá áttunda áratugnum, og þau skelfilegu áhrif sem hann getur haft á sálarlífið. Einnig kom það mér nokkuð á óvart að í samanburði við spænska hugvísindanema, þá eru íslenskir sagnfræðinemar bæði áhugasamir og iðnir. „Hafiði einhverjar spurningar?“ var kennarinn í námskeiðinu Spánn á tímum Francos vanur að spyrja, og þeir nemendur sem höfðu nennt að mæta gláptu upp í hornin á kennslustofunni á glæsilegri, 16. aldar háskólabyggingunni, og höfðu engan áhuga á sögunni sem foreldrar þeirra og afar og ömmur höfðu upplifað á eigin skinni. 

Það var því ekki eingöngu vegna áhuga á kvennasögu sem námskeiðið Konur á miðöldum var í uppáhaldi hjá mér, skráðir nemendur voru ekki nema fimm, og þar af voru þrír þeirra skiptinemar. Þarna upplifði ég líka ástand sem fáir kvenkyns miðaldafræðingar fá tækifæri til að reyna, að 90% viðfangsefnisins séu af sama kyni. Einnig er það óvenjulegt og ánægjulegt fyrir Íslending að námskeið um miðaldir sé prýtt svona miklu af myndefni. Ofan á allt annað bættist það að kennarinn talaði eins og excel-skjal, í skipulegum flokkum og undirflokkum, sem er mjög þægilegt þegar maður þarf að glósa á erlendu tungumáli.

Eitt af því fáa sem mér fannst spænsk sagnfræðikennsla (sem hafði að því er virtist skapað alla þessa penna-nagandi uppvakninga) hafa fram yfir þá íslensku var notkun frumheimilda í kennslu. Flestum námskeiðum fylgdu litlir bæklingar með uppskriftum úr frumheimildum, og nemendur voru svo látnir greina innihaldið í einskonar skýrslu. Ég tók alla frumheimildabæklingana með mér heim, en uppáhalds frumheimildin mín af þeim öllum er lýsing á barnsfæðingu hefðarkonu í Zaragoza undir lok síðmiðalda. Þetta skjal gefur innsýn inn í svo marga ólíka hluti, og á svo súrrealískan hátt, að það á sér engan sinn líka. Því set ég það inn í heild sinni í amatörlegri þýðingu minni. Frumtextinn birtist í bókinni Taller de historia. El oficio que amamos frá árinu 2006. 

Die X Janurii anno M° CCCCLXXXX. Cesarauguste. In Dei nomine. Amen. Sé það öllum ljóst að á eittþúsund-fjögurhundruð-og nítugasta ári frá fæðingu herra vors Jesú Krists, á degi sem taldist tíundi dagur janúarmánaðar, á milli tíundu og elleftu stundar fyrir hádegi, inni í herbergi hvers gluggar vísa að götunni og taka við ljósi, í háum vistarverum, staðsettum innan húsakynna hins mikilfenglega herra Martins Gil de Palomar y de Gurrea, herra yfir Argavieso, staðsettum í sókn heilags Jóhanns del Puent í borginni Zaragoza, en fyrrnefnd húsakynni snúa að húsakynnum Sancho d´Aylala, bóksala, ásamt húsakynnum Martin de Pertusa, og eru opinberlega kölluð la Guchilleria; þar var hin göfuga Ysabel de la Cavalleria, dóttir hins merka og virta herra Alfonso de la Cavalleria og eiginkona hins merka Pedro de Francia, sem er nú látinn, frá Burueta, gangandi um fyrrnefnt herbergi, að gluggunum opnum og kveikt á nokkrum blessuðum kertum, í fylgd tveggja kvenna sem héldu undir handarkrika hennar, kveinkandi sér undan þungun sinni, hún undirbjó sig og vildi fæða.                           

Við vorum viðstaddir í eigin persónu ég, Domingo Cuerla, skrifari, og vitnin sem eru skrifuð og nefnd hér fyrir neðan, kallaðir til af mikilli ákveðni fyrrnefndrar Ysabelu svo við værum viðstaddir fæðingu hennar og persónulega og með eigin augum sæjum þá veru sem fyrrnefnd Ysabel, dóttir (...) fæddi af sér; og hún sagði að hún þarfnaðist mín, skrifara, og hún krafðist þess að um framgang fæðingu hennar, sem og um veruna sem hún fæddi af sér, yrði gert og sýnt opinbert skjal.

Og síðan, að ofantöldu sögðu, voru einnig viðstaddar í eigin persónu í hinu fyrrnefnda herbergi og fyrir framan fyrrnefnda Ysabellu, Catalina de Cutanda, öðru nafni í daglegu tali nefnd de Salinas, ekkja, fyrrum eiginkona Gabríels de Salinas, sem nú er látinn, og Aina de Medina, eiginkona Goncalvo Tizon, múrsmiðs, ljósmæður eða í daglegu tali kallaðar guðmæður fæðinga, að sama skapi tilkallaðar til að sjá um fæðingu fyrrnefndrar Ysabel. Á hverjum hinum sömu Ysabelu de la Cavalleria og ljósmæðrum, ég, fyrrnefndur Domingo Cuerla, skrifari, að skipan Ysabel og að viðstöddum vitnunum sem nefndir eru fyrir neðan, þreifaði með höndunum á líkömum þeirra og milli fótleggjanna, og að upplyftum pilsum þeirra upp að treyjum sá og gekk úr skugga um hvort með nokkurri kænsku eða svikum ljósmæðurnar hefðu haft með sér nokkra veru og hvort fyrrnefnd Ysabella undir sínum pilsum hefði nokkra veru. Og ég, fyrrnefndur skrifari og vitni, sver að engan annan hlut, fyrir utan föt þeirra, klæði og persónulega muni, fyrrnefnd Ysabel og ljósmæðurnar höfðu sýnilega.

Ljósmæðurnar, að fullri beiðni fyrrnefndrar Ysabel de la Cavalleria, krjúpandi báðar á jörðunni með hendurnar á formi og ímynd herrra vors Jesú Krists og hinna fjögurra heilögu guðspjallamanna, sóru af alvöru, kyssandi og tilbiðjandi fyrrnefnda ímynd og guðspjöll, að starfa vel og falslaust, án kænsku eða nokkurra blekkinga í fæðingu fyrrnefndrar Ysabel.

Að þessu loknu, uppgötvaðist rúm sem var í fyrrnefndu herbergi og við, ég, fyrrnefndur skrifari og vitnin, sáum að ekki einu sinni undir þessu, var nokkur hlutur, fyrir utan nauðsynleg föt og það sem hentaði til skrauts.

Að þessu loknu, á meðan hin sama Ysabella de la Cavalleria kveinkaði sér stöðugt og undirbjó sig til að fæða, vorum ég, fyrrnefndur skrifari og vitni nefnd fyrir neðan, viðstödd og aðstoðuðum og horfðum á hina sömu Ysabellu de la Cavalleria, guðmæður og aðrar persónur sem þar voru, með þeim vilja og meðvitaðri hugsun að þær gerðu ekki né gætu gert nokkur svik né komið neð nokkra veru og skipt einni út fyrir aðra, og hin sama Ysabel de la Cavallería, sem kveinkaði sér undan sársauka fæðingarinnar, lá á bakinu í örmum og á fótleggjum fyrrnefnds Martins de Palomar y de Guerra, herra yfir Argavieso, (el cual stava forco y en cenyo)[1], sitjandi á stól haldandi á hinni sömu Ysabellu ásamt nokkrum helgigripum sem hún hafði yfir kviðnum og mörgum logandi kertum sem brunnu þar, og þar voru guðmæðurnar, Ayna á hnjánum fyrir framan fyrrnefnda Ysabel de la Cavalleria og hin fyrrnefnda Catalina Salinas á milli fótleggja Ysabellu de la Cavalleria, sitjandi á kolli (scadero), hin sama Catalina hafði klæði strengt milli hnjánna til að sjá um fæðinguna og taka við verunni sem myndi fæðast, og setti hreina málmskál, sem við sáum með eigin augum, milli fótleggja fyrrnefndrar Ysabel de la Cavalleria, þar sem ég, skrifari, og vitni, heyrðum og sáum falla blóð og vatn frá hinni sömu Ysabel de la Cavalleria, sem ásamt sársaukahljóðum fæðingarinnar þegar hún vatt upp á líkamann, komu frá henni.

Og þannig, eftir mikinn og þungan sársauka sem fékk á hina sömu Ysabel de la Cavalleria, sáum við í eigin persónu ég, skrifari, og vitnin sem nefnd eru fyrir neðan, og nokkrar aðrar persónur sem þar voru viðstaddar og vildu sjá, fæða hina sömu Ysabel de la Cavallería, og koma út, þegar það fór út og kom frá líkama hennar vera öll blaut, með augun lokuð. Þá veru tók í hendur sér og í fyrrnefnt klæðið sem hún hafði milli þeirra hin fyrrnefnda Catalina de Cutanda, einnig Salinas, guðmóðir. Og þær höfðu veruna milli handanna, og samkvæmt því sem sagt var og við sjáandi með eigin augum, ég, skrifari og vitni, sáum hanga streng frá fylgju sem innan líkama fyrrnefndrar Ysabel var tengdur við nafla hinnar fæddu veru. Og að hin fyrrnefnda guðmóðir Salinas, sem sá um þessa sömu fæðingu, hófst handa við að taka við og taka út, eins og hún svo tók við og tók út, fylgjuna þar sem fyrrnefnd vera hafði nærst á líkama fyrrnefndrar Ysabel de la Cavallería, þessa fylgju sáum við, ég, fyrrnefndur skrifari, og vitni, detta ofan í fyrrnefnda skál ásamt því mikla blóði sem þar var.

Og þannig, að öllu ofangreindu skeðu, hin fyrrnefnda Catalina de Cutanda, einnig Salinas, guðmóðir, sýndi hina fyrrnefndu veru nýfædda sem hún hafði vafða inn í klæðið sem hún hafði tekið á móti því með, opinberlega og með eigin augum sáum við, ég, fyrrnefdur skrifari, og vitnin sem nefnd eru fyrir neðan og aðrir sem þar voru og vildu sjá, að fyrrnefnd nýfædd vera var karlkyns, þar sem hún hafði alla karlkyns limi sem karlmenn hafa, og sérstaklega lim sinn og félaga, einnig í almennu tali nefnd typpi og eistu.

Og þannig, séð og viðurkennd fyrrnefnd nýfædd vera, eins og sagt er, verandi karlmaður, hin fyrrnefnda Catalina, guðmóðir, í viðurvist minni, skrifara, og vitna sem nefnd eru fyrir neðan, klippti á þráð þessa sama barns og nýfæddrar veru og vafði hann inn í klæðið sem hún hafði.

Og að öllu ofangreindu loknu, hin fyrrnefnda Ysabel verandi sofandi og næstum fjarri sér vegna krafts fæðingarinnar sem hún hafði þolað, hinn fyrrnefndi herra Martin de Gurrea, herra af Argavieso, sagði í eigin nafni, og sem umsjónarmaður sem hann var fyrir hina fyrrnefndu Ysabel de la Cavalleria sængurkonu, til að vernda réttindi hinnar sömu Ysabel de la Cavalleria, og í rétti þess í hvers umboði hann var eða yrði umsjónarmaður, bað hann mig, fyrrnefndan opinberan skrifara, að gera og sýna um fyrrnefnda atburði eitt og fleiri opinber bréf, eða eins mörg og nauðsynlegt yrði.

Þetta gerðist í borginni Zaragoza á fyrrnefndum degi, mánuði, ári, húsi og stað sem sagt er. Allir viðstaddir voru vitni að þessum atburðum: meistari Pedro de Juana, skósmiður, og Ferrando Dominguez, skrifari, íbúar í Zaragoza.“.
 
Einkar ósannfærandi myndskreyting af fæðingu, í töluverðu ósamræmi við frumheimildina.

[1] Óskýrt orðlag, þýðandi gafst upp. 

Hið kaldhæðnislega við heimildina er að þrátt fyrir það hvað hún er kvenlæg, þá snýst hún á endanum um typpi og eistu. Ysabel de la Cavalleria var ekkja ríks manns, en hún gat ekki erft hann. Sonur hins látna manns var hins vegar löglegur erfingi, og sem fjárhaldsmaður hans gat Ysabel haldið þeim eignum sem hún hafði fengið tilkall til við hjónabandið. Hefði hún eignast dóttur hefðu eignirnar erfst til tengdafjölskyldu hennar, og því hafa hún og umboðsmaður hennar viljað gulltryggja sig gegn ásökunum um að hafa skipt út stúlkubarni fyrir son einhverra ókunnugra. Ásakanir af þessu tagi voru ekki óþekktar því aðrar álíka heimildir hafa varðveist. Vitnisburður kvenna var tekinn gildur fyrir dómstólum í málum sem vörðuðu eingöngu konur, eins og fæðingar, en það hefur í flestum tilfellum þótt öruggara að gulltryggja sig með karlkyns vitni. Þessi heimild sker sig hins vegar úr því hún er sú eina þar sem vitnin horfðu beinlínis á barnið koma út um leggöngin og fylgjuna detta ofan í blóði fyllta skál, yfirleitt fóru karlmennirnir út eftir að hafa leitað að gauksunga undir húsgögnunum og í klæðum ljósmæðranna. Í þessu tilviki hafa verið óvenju miklir peningar í spilinu, eða óvenju viðskotaillur tengdafaðir.

No comments:

Post a Comment