Grallaraspóinn atarna. |
En Erasmus vildi bæta við starf Híerónýmusar, sem hann dáði. Hann safnaði saman elstu handritunum að frumtexta Nýja testamentisins sem hann gat fundið og gaf út nýja, tvítyngda útgáfu - gríska frumtextann öðrum megin og sína eigin latnesku þýðingu hinum megin. Þótt ekki gætu margir í Evrópu þess tíma lesið gríska textann, þá voru sprengjur í hinum latneska.
Í fyrsta lagi fjarlægði hann eitt lítið vers sem hefur kallast comma Johanneum, "setningarbrotið í Jóhannesarbréfinu". Hún birtist í 1. Jóhannesarbréfi 5:7-8 og hljómar svo:
7Þrír eru þeir sem vitna [í himninum: Faðirinn, orðið og heilagur andi, og þessir þrír eru eitt.] (þetta er úr 2007-þýðingunni.)
Hornklofinn táknar það sem Erasmus sá: Ekkert af elstu handritunum sem hann hafði undir höndum innihélt þessa setningu innan hornklofans, sem er ein af þeim helstu sem skýrir og styður við hina stórfurðulegu hugmynd um hinn þríeina guð. Erasmus ályktaði að hún væri seinni tíma viðbót. Svo hann ákvað að sleppa henni.
Þetta gerði allt vitlaust. Guðfræðilegu deilurnar í kring um hina heilögu þrenningu hafa jafnan ógnað kirkjunni, hinar ýmsu "villutrúr" höfðu risið í gegnum tíðina út af því að menn höfnuðu þessari hugmynd. Og nú fjarlægði Erasmus einn helsta grundvöll hennar úr hinu heilaga orði eins og ekkert væri. Afleiðingarnar af þessu ritstjórnarstarfi hans voru ófyrirsjáanlegar og segja má að þær hafi legið að baki risi mótmælendatrúarinnar og hinu hryllilega borgarastríði á milli kaþólikka og mótmælenda sem skók Evrópu í kjölfarið - páfastóllinn hafði ekki endanlegt túlkunarvald yfir hinu heilaga orði lengur.
Í biblíuútgáfum nútímans er þetta þó allavega vel merkt sem vafasamur texti, þótt flestar útgáfur taki hann samt með (Erasmus hafði vissulega ekki öll þau gögn sem textafræðingar hafa í dag og spurningin er víst ennþá nokkuð loðin hvort þetta sé síðari tíma viðbót eður ei.) En Erasmus benti sömuleiðis á aðra þýðingarvillu sem er enn meira sjokkerandi og er einnig, þótt ótrúlegt megi virðast, allstaðar við lýði. Það er hið fræga fyrsta vers í Jóhannesarguðspjalli:
1Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð.
Þetta er mikilfengleg setning sem allir muna og virðist bera með sér einhverja djúpstæða merkingu. En hver er sú merking? Hvað í ósköpunum þýðir það að eitthvað orð (hvaða orð?) hafi verið í upphafi, og jafnframt verið hjá guði, og jafnframt að þetta óþekkta orð sé guð (er orðið/guð þá hjá sjálfu sér?) Þegar maður veltir setningunni fyrir sér uppgötvar maður fljótt að hún er raunar merkingarleysa. Maður hefur vanist því að hugsa ekki um hvað þetta þýðir, svo snar partur af menningunni er það. En þessi setning hefur raunar merkingu, eins og Erasmus sá - ofangreind vitleysa er tilkomin út af þýðingarvillu.
Orðið sem hér er þýtt sem "orð" er logos - sem margir kannast við. Auk þess að vera nafn á illræmdri lögfræðistofu er það eitt margslungnasta orðið í grískri tungu - orðabókarfærslan um logos í LSJ, standard-orðabókinni um forn-grísku, telur 4950 orð. Ástæðan er afskaplega margvísleg merking þess og massív umfjöllun sjálfra Grikkja um orðið, til dæmis í heimspeki. En það þýðir þó ekki að ómögulegt sé að þýða orðið logos. Þegar grískumælandi maður las eða heyrði orðið logos þá skildi hann fullkomlega hvað það þýddi, þótt orðið eitt og sér hefði ótal marga möguleika: Hann las einfaldlega í samhengið í kring um orðið og fann þar réttu merkinguna. Þetta er einmitt það sem biblíuþýðendurnir höfðu ekki gert og hafa enn ekki gert.
Logos getur vissulega þýtt "orð". En það getur líka þýtt "reikningur", "rök", "rökfærsla", "ræða", "saga", "samtal", "skipulag" og margt, margt fleira. Í ofangreindu samhengi þýðir það augljóslega ekki "orð". Meðal kirkjufeðranna, áður en ein samþykkt vúlgötu-útgáfa varð til, þekktust nokkrar mismunandi latneskar þýðingar á logos í þessu versi. En í vúlgötunni var endað á að þýða þessa frægu setningu sem in principio erat verbum - sem enn er nákvæmlega það sem stendur í íslensku biblíunni frá 2007.
Erasmus sá vitleysuna í þessu og stakk upp á tvemur leiðréttingum. Í meginmálinu prentaði hann in principio erat sermo, sem þýðir eitthvað eins og "í upphafi var samræðan" - þessa þýðingu vildu sumir hinna fornu kirkjufeðra frekar nota - og í neðanmálsgrein stakk hann einnig upp á in principio erat ratio - sem gæfi eitthvað eins og "í upphafi var skipulag, og skipulagið var hjá guði, og skipulagið var guð."
Þetta síðastnefnda er að mínu léttvæga mati besta þýðingin. Þessi skilningur á logos sem faktor í upphafi heimsins, skipulagi sem bæði er til fyrir guð, er hjá guði og er guð, er kunnuglegt í samhengi við gríska heimspeki á þeim tíma þegar Jóhannesarguðspjallið var skrifað. En aftur, þessi orð voru svo fræg að það að breyta þeim taldist allra hrikalegustu helgispjöll sem Erasmus gat framið. Kirkjan tók harkalega til akademískra vopna gegn þessu, stofnaði til þings árið 1546 í Trent þar sem þeir lýstu því bindandi yfir að latneska vúlgatan væri Orð Guðs; hún væri hærra sett en grísku og hebresku frumtextarnir. Engum kaþólikka leyfðist þareftir að brúka hinar syndsamlegu rannsóknir Erasmusar.
Stuðningsmenn Erasmusar, sem voru margir, voru æfir - í Englandi tók einn sig til og kúkaði á bókasafnsbók sem gagnrýndi Erasmus, og voru mörg lærð kvæði á útdauðum tungumálum samin kúkaranum til heiðurs. En þeir töpuðu vissulega baráttunni um þýðinguna á hinu heilaga orði - þegar biblíur fóru að birtast á talmáli mótmælendalandanna fylgdu þær jafnan vúlgötunni. Hið óútskýrða orð í upphafi Jóhannesarguðspjalls blívar enn þarna hjá guði, og hin heilaga þrenning lifir enn, jafn óskiljanleg og venjulega.
Mér sjálfum þykir það ósköp leitt að árið 2007 hafi biblíuþýðendur verið íhaldssamari en Erasmus var á 16. öld. Ég hvet alla byltingarsinnaða guðfræðinga (ef einhverjir eru) til að taka sér frumpönkarann Erasmus til fyrirmyndar og hræra almennilega upp í hinu heilaga orði. Oft var þörf en nú, þegar kýrnar eru ekki jafn heilagar og þær voru áður, er einfaldlega möst.
Heimild: Goldhill, Simon. Love, Sex & Tragedy: How the Ancient World Shapes Our Lives. University of Chicago Press, 2004.
Sagan um kúkarann er óborganleg.
ReplyDeleteEn er ekki upphaf Jóhannesarguðspjalls samt jafn furðulegt, jafnvel þótt önnur þýðing sé valin. Þú spyrð hvort orðið hafi verið *hjá* sjálfu sér ef orðið var í upphafi bæði hjá guði og var líka guð. Ef við skiptum um þýðingu og notum "skipulag" eins og þér líst vel á og fáum út "í upphafi var skipulag, og skipulagið var hjá guði, og skipulagið var guð." má enn spyrja hvort skipulagið hafi þá *verið hjá* sjálfu sér og hvað það eiginlega merki. Mér virðist merkingarleysuvandinn sem ógnar vitrænni túlkun málsgreinarinnar ekki velta aðallega á hvaða þýðing er valin heldur stafi hann fyrst og fremst af furðulegheitum frumtextans. Sá er svona: Ἐν ἀρχῇ ἦν ὁ λόγος, καὶ ὁ λόγος ἦν πρὸς τὸν Θεόν, καὶ Θεός ἦν ὁ λόγος. Og við getum alltaf spurt "var λόγος þá πρὸς sjálfu sér? Hvað merkir það?"
Persónulega finnst mér mest vit fást í textann með því að þýða logos hér sem "vit". En þegar öllu er á botninn hvolft er samt eitthvað hjá/πρὸς sjálfu sér.
Annars er annar þýðingarvandi í Biblíunni (að því er ég best veit öllum íslenskum útgáfum hennar). Hann er sá að næsta málsgrein er "Hann var hjá guði". Sem sagt: "Í upphafi var orðið og orðið var hjá Guði og orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði." Hver er nú þessi "Hann" sem vísað er til þarna í fyrsta orði annarrar málsgreinar? Gríska orðið er *houtos* (οὗτος), ábendingarfornafn í karlkyni eintölu nefnifalli. Til hvers vísar ábendingarfornafnið? Vísar það til einhvers karlkyns einstaklings sem enn er ónefndur í textanum og verður enn ónefndur í næstu línum? (Í raun kemur aldrei neitt samhengi sem varpar neinu ljósi á hvaða persóna þetta gæti verið; varla Jóhannes skírari úr 6. versi.) Eina trúverðuga túlkunin er sú að ábendingarfornafnið sé í karlkyni af því að það vísar til einhvers sem nefnt var í karlkyni í fyrstu málsgrein, þ.e. logos (λόγος). En íslenska þýðingin er búin að þýða logos með hvorugkynsorði. Af hverju er houtos þá ekki þýtt "Það"? Sem sagt: "Það [þ.e.a.s. orðið] var í upphafi hjá guði"? Getur verið að eitthvað annað ráði túlkun og þýðingu textans en merking hans og málskilningur þýðandans? Er fyrirfram gefið að Jesús eigi að leynast þarna einhvers staðar í upphafi guðspjallsins? Furðuleg þýðing!
Ps. blívar => blífur ;)
Já, einmitt, það er alltaf afar skrýtið að logosinn sé pros sjálfu sér. En maður getur afgreitt það sem einhverskonar mystíska hálfheimspekilega hugsun að skipulag/skynsemi sé til áður en guð verður til, sé til handan við guð, en sé jafnframt guð. Mér finnst það vissulega ekki meika sens (enda bölvaður trúleysingi) en ég get alveg skilið að það sé talið merkingarbært - á meðan blessað "orðið" hefur einfaldlega ekkert við sig.
ReplyDeleteOg já, ég hjó líka eftir þessu í næstu málsgrein. Ástæðan virðist vera einhver síðari tíma guðfræðileg túlkun að þetta blessaða "orð" sé semsagt Jesús. Þessu er svo troðið á fáránlegan hátt upp á gríska textann. Almennt séð virðast manni biblíuþýðingar vera einar þær óvísindalegustu sem maður finnur; fornir textar þýddir útfrá einhverri arcane túlkunarhefð sem varð til mörgum öldum eftir textann sjálfan. Svo þegar kemur að biblíukrítík er af nógu að taka. Kannski maður taki fleiri pistla um það síðar.
Nú er ég ekki grísku- eða guðfræðimenntaður en mér varð akkúrat hugsað til þessara upphafsorða eftir að hafa lesið einhverja ritdeilu um kyngervi og túlkun og samhengi o.s.frv.
ReplyDeleteÞá þótti mér skondið að leggja einhverskonar póstmódernískan skilning í "í upphafi var orðið", allt er túlkun, í upphafi afbyggði guð heiminn.
Haha, þú meinar! Það er ansi skemmtileg pæling. Þá mætti jafnvel gera þetta enn póstmódernískara, "í upphafi var textinn"...
DeleteEn má ekki eins segja að af samhenginu ráði menn að þarna þýði „orð“ meira en einn aukatekinn málstúfur?
ReplyDeleteEf það þýðir meira en einn aukatekinn málstúfur eins og þú orðar það þá þýðir það ekki "orð" heldur eitthvað annað.
DeleteÉg er með lausnina: Við skiljum "orðið" ekki sem nafnorð heldur sem lýsingarhátt.
ReplyDelete(þá er líka betra að halda gamla hvorugkyninu á "guð")
Guð er orðið = Goðmagn er til.
Orðalagið hljómar kannski sérkennilega, en hafið í huga að þetta gerðist á þeim tíma þegar tilurðin sjálf var að verða til og mönnum kom ekki saman um orðalag til að lýsa því (enda voru þeir ekki til, frekar en annað).
Snilldarlausn hjá Eika, enda ekki við öðru að búast :)
DeleteTvennt
ReplyDeleteEr ekki regla betra orð en skipulag, það minnir fullmikið á deiliskipulag? Þ.e. í upphafi var regla en ekki óreiða, þ.e. heimurinn laut ákveðnum lögmálum. Upptök reglunnar voru hjá Guði og Guð er holdgerving reglunnar, en ekki óreiðunnar.
Hið síðara er sett fram í hálfkæringi:
Í upphafi var eitthvert orð sem ég veit ekki almennilega hvað er því að ég er ekkert sérstaklega góðir í grísku og gríska orðið Logos er sannarlega erfitt í þýðingu. Þetta "orð" var víst hjá Guði og Guð var víst þetta "orð". Mikið gasalega væri nú gott að vita hvaða orð þetta er, ég hefði betur fylgst betur með í grískutímunum í den!
Jú, það er alveg rétt með regluna. "Skynsemi" er líka möguleiki. Maður skilur svosem alveg vandræðin við að þýða logos, en það furðulega er að guðfræðingar lesa heilu doðrantana um merkingu þess í náminu - en síðan halda þeir þeirri vitneskju bara fyrir sig sjálfa og deila henni ekki með öðrum. Bara guðfræðingarnir eiga að fá að vita hvað það þýðir að í upphafi sé orð o.s.fr., en almúginn á bara að trúa því möglunarlaust og halda kjafti. Mér finnst eitthvað fræðilega óheiðarlegt við preststarfið.
Delete