Kúskó (hoho) var höfuðborg Inkanna á 16. öld, en þegar þeir voru í miðjum klíðum við að leggja undir sig nágranna sína á allar hliðar réðust Spánverjar inn í ríki þeirra. Þeir eyðilögðu flest sem þeir sáu, en sem betur fer reistu þeir strandborgina Lima og gerðu að höfuðborg, svo enn eru einhverjar rústir í Cusco. Qusqu (enn ein stafsetningin) er borg sem er hlaðin tveimur dómkirkjum. Raunin er sú að eingöngu önnur kirkjan er dómkirkja, hin er minnismerki um brjálæðislega sýniþörf jesúíta seint á 16. öld. Jesúítarnir hófu framkvæmdir örfáum árum eftir að biskupinn tók að byggja dómkirkjuna, og létu sig engu skipta þó hann klagaði þá í páfann. Þeir sáu ekki einu sinni sóma sinn í því að hafa sína kirkju hinum megin við aðaltorgið, heldur stendur hún skáhallt á móti dómkirkjunni. Auk þess virðast kirkjurnar ganga undir svona 3-4 mismunandi nöfnum hvor, og ekki margir 19 ára ferðamenn sem geta lagt allt þetta á minnið til frambúðar. Ég man því ekkert í hvorri kirkjunni myndlistin sem ég ætla að segja frá er, en þið getið athugað það ef þið eigið leið hjá, eða hafið meiri google-þolinmæði en ég.
Jesúítabrjálæðið. Mynd tekin af hinni töluvert smekklausu vefsíðu sacred destinations.
Biskupinn og jesúítarnir gátu sumsé ekki komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut, en þeir voru þrátt fyrir allt samtaka í því að byggingar sínar ættu að afhelga og eyðileggja. Þeir völdu þeim stað ofan á eldri helgistöðum og konungshöllum, og vönduðu sig við að velja byggingarefni sem hafði táknræna merkingu fyrir íbúana sem þeir höfðu sigrað. Þetta voru steinar úr risavaxna virkinu Sacsaywaman, sem enn hafði ekki verið lokið við að reisa þegar tekið var að eyðileggja það, og jafnvel sandurinn á aðaltorginu, ef eitthvað er að marka wikipediu. Svo létu kirkjunnar menn íbúana reisa þessar kirkjur, og kenndu þeim að skreyta þær að innan með evrópskri list. 400 árum síðar sitjum við uppi með þessar fallegu, sögufrægu og merkilegu byggingar, sem voru engu að síður byggðar til þess að kúga.
Kirkjurnar er því hægt að túlka á besta veg, eða þann versta. Vefsíðan sacred destinations lýsir ýmsum málverkum í jesúítakirkjunni, og heldur því fram að eitt málverkið þar inni „especially exemplifies Peru's mestizo character, depicting the granddaughter of Manco Inca marrying the man who captured the last Incan leader, Tupac Amaru.“ Tjah, Tupac Amaru leiddi síðustu hernaðaraðgerðina gegn spænska innrásarliðinu, en var sigraður og hálshöggvinn. Málverk sem sýnir sigurvegara hans giftast afkomanda gömlu konungsættarinnar hefur kannski ekki þann tilgang að upphefja einhvern múltí-kúltí rómans, í það minnsta ekki á þeim tíma sem það var málað.
Hér sést Tupac bugaður, og Spánverjarnir glotta við tönn.
Þegar ég fór í skoðunarferð um þessar kirkjur á sínum tíma þá var mér bent á ýmsa aðra hluti til merkis um menningarlega blöndun, sem hægt er að horfa á með aðeins léttari huga. Þó innfæddu málararnir væru látnir tileinka sér evrópskan stíl og evrópskt myndefni þá settu þeir engu að síður sitt mark á myndirnar. Mjög víða í Biblíumyndum koma fyrir kameldýr, en það lítur ekki út fyrir að evrópsku kennararnir hafi getað lýst þessu fyrirbæri nógu vel, enda höfðu þeir væntanlega aldrei séð það sjálfir. Öll kameldýrin í kirkjunni líta því út eins og sérlega stórvaxin lamadýr. Allra frægust er samt myndin af síðustu kvöldmáltíðinni. Þar má sjá Jesú og lærisveinana sitja í hring í kringum mikið veisluborð, og á því miðju hvílir steiktur naggrís.
Hvenær mun Dan Brown semja spennusögu um andíska táknfræði?
Málarinn hefur viljað gefa Jesú eitthvað reglulega gott á þessari ögurstundu, og naggrís (cuy) var og er mikið delicatessen í Andesfjöllunum. Þeir sem mega ekki án réttsins vera rækta naggrísi jafnvel ferska í garðinum hjá sér, en það er nú ekki algengt í þéttbýli. Mér var ráðlagt að ferðast til þorpsins Tipón (minnir mig) því þar væri matreiddur besti naggrísinn, öfugt við „örbylgjunaggrísinn“ sem serveraður væri í Cusco. Hann reyndist mun bragðbetri og safaríkari en naggrísinn sem ég borðaði innan bæjarmarkanna, svo ég get ekki annað en mælt með þessum bæ líka. Veitingastaðirnir þar eru staðsettir á nokkuð venjulegum heimilum þar sem er að finna stærðarinnar leirhús utandyra þar sem naggrísirnir dvelja frá fæðingu og fram að slátrun. Ég hafði eitthvað gert mér í hugarlund að ég fengi að benda og segja: „ég ætla að fá þennan svartskjöldótta“, eins og á fínu humarhúsi, en það reyndist því miður ekki rétt. Það tekur örugglega of langan tíma að verka hann frá grunni, hugsa ég.
En, hafi einhver tækifæri og löngun til að feta í fótspor hins andíska jesú, þá skundi hann til Tipón. Eða sólbrenni illa og hermi þannig eftir trélíkneski hans í þessum sömu kirkjum, sem upprunalega var hvítur en sverti andlit sitt af samúð með fólki sínu.
Señor de los Temblores
No comments:
Post a Comment