Það var óverjandi skot í stöng... Mynd: RÚV |
Bloggfærsla Elínar er stutt og hljóðar svo:
„Að Ómar Ragnarsson minn kæri samstarfsmaður til margra ára og föðurlandsvinur yrði handtekinn á Íslandi fyrir að standa fast á skoðun sinni sem umhverfissinni hefði ég aldrei ímyndað mér. Þetta fer ekki vel í mig. Ekki endilega sammála mínum góða vini Ómari en við verðum að leysa málin hér á landi í friði og með rökræðu. Þetta minnir á atburði á Söguöld.“
Fyrirsögnin er: Handtaka Ómars – minnir á söguöld.
Það væri sjálfsagt hægt að orðræðugreina bloggfærslu Elínar í drasl en látum nægja að skoða þessa síðastnefndu samlíkingu hennar, sem sýnir ágætlega hvernig ekki einu sinni handtaka manns með landföðurlega áru Ómars Ragnarssonar megnar að hrista upp í hugmyndum sumra um það rétta og ranga í samfélaginu; hversu stórfenglegir sögulegir loftfimleikar geta orðið.
Söguöld var fyrri hluti þjóðveldisaldar, sem stóð þar til Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd með Gamla sáttmála um 1260. Ég geri ráð fyrir því að með samlíkingu sinni eigi Elín Hirst við að á söguöld hafi hver höndin verið upp á móti annarri og menn ekki viljað leysa málin „í friði og með rökræðu“ – með lögum skal land byggja – en það hefur gjarnan verið álitið einkenni á íslenska þjóðveldinu að þar hafi ekki verið neitt framkvæmdavald, og það hafi átt þátt í að verða því að falli (um það mætti svo skrifa langan pistil sem er utan míns sérsviðs).
Það sem er þversagnakennt við samlíkingu Elínar er að það voru einmitt fulltrúar framkvæmdavalds íslenska ríkisins sem handtóku vin hennar Ómar Ragnarsson. En hvenær höfum við látið þversagnir trufla okkur?
No comments:
Post a Comment