Í byrjun mánaðar opnaði á Kjarvalsstöðum sýning á ljósmyndum rússneska listamannsins Alexanders Rodchenko, sem vert er að mæla með, en sýningin stendur fram yfir áramót. Ég fór í gær og er að hugsa um að fara aftur sunnudaginn 17. nóvember, þegar Benedikt Hjartarson mun fjalla um verk Rodchenko í samhengi við framúrstefnu í listum á fyrri hluta 20. aldar.
Alexander Rodchenko var semsé ljósmyndari en líka málari, höggmyndasmiður og grafískur hönnuður; ætli flestir kannist ekki við myndina hér að ofan, af listakonunni Lilyu Brik, sem einnig var ástkona Vladímírs Majakovskí. Á sýningunni eru einmitt einnig portrettljósmyndir Rodchenko af Majakovskí, sem og kápur sem hann hannaði fyrir ljóðabækur hans.
Rétt áður en ég fór á sýninguna í gær var ég að blaða í Miðvikudögum í Moskvu eftir Árna Bergmann. Það er fín bók, dálítið skemmtileg að lesa núna því hún kom út árið 1979, á þessum síð-Sovéttíma sem mér finnst maður oft heyra og lesa minna um en róttækasta tímabilið á 3. áratugnum og síðan árin undir Stalín. Í kaflanum sem ég var að fletta í gær er lýsing á sovésku sósíalrealismaþráhyggjunni sem ég fór með inn á sýninguna, en Rodchenko féll um síðir í ónáð hjá sovéskum yfirvöldum eins og svo margir listamenn:
„Það var merkilegt hve miklu púðri var eytt á abstraktlist. Abstraktlist var fjandsamleg því markmiði húmanismans að kanna veruleikann, hún var enn eitt bragð auðvaldsins til að leiða alþýðuna á brott frá skilningi á þjóðfélaginu. Amríkanar stríddu Rússum lævíslega á þessu máli. Þeir prentuðu í tímariti sínu, Ameríka, litmyndir af abstraktlist við hliðina á ljósmyndum sem teknar voru í gegnum smásjár af undraveröld vefja og mólekúla. Sjáið þið bara hve lítill útlitsmunur er á list og vísindalegri heimild! Hver sýnir veruleika efnisins mestan trúnað?“ (145-146)
No comments:
Post a Comment